16 apríl, 2022

Stefnufesta?


Það kom til umræðu í lokuðum hópi þar sem ekki einusinni facebook gat hlerað, hvernig stæði á því að Hveratúnssystkinunum hefði haldist á mökum sínum. Þetta er sannkallað rannsóknarefni, ef einhver skyldi nú treysta sér til að leggja í verkefnið. Það fór ekki hjá því, að sett yrði fram tilgáta um ástæður þessa; aðeins ein tilgáta: Ástæðan er stefnufestan sem þessum systkinum er í blóð borin og hefur fylgt fólki í fjölskyldu þeirra svo lengi sem elstu menn muna og á líklega rætur sínar uppi í Jökuldalsheiði fyrir meira en öld síðan og mögulega enn aftar. Skúli bóndi í Hveratúni hafnaði því ávallt, að hann gæti talist þrjóskur, en viðurkenndi fúslega að hann væri stefnufastur, sem er auðvitað allt annað fyrirbæri.

Tilefni þessa er það, að á þessum degi fyrir 45 árum, gengum við frú Dröfn í heilagt hjónaband í Skálholtsdómkirkju og létum um leið ausa frumburðinn vatni. Þessar athafnir framkvæmdi sr. Guðmundur Óli Ólafsson. Elsta barn fumburðarins var síðan fermt fyrir tveim dögum. Svona heldur þetta líf áfram.

Ég held að það megi varla milli sjá, hvort okkar fD er stefnufastara, en um það má deila. Aðalatriðið er, að niðurstaðan verði ásættanleg, í stórum dráttum.  Ekki svo að skilja að þar sé einhver framsóknarmennska á ferð, heldur einhverskonar aðlögun að aðstæðum hverju sinni. 

Þakklátur er ég fyrir þessa áratugi og hvernig til hefur tekist með börn og barnabörn, afrakstur þessara áratuga, en það er einmitt það sem skiptir máli almennt og á öllum tímum, að vel takist til með uppeldi þeirra sem á eftir koma. Við búum við það sem kallað hefur verið barnalán.

Takk fyrir áratugina fD, það eru ekki nema 5 ár í gullbrúðkaupið. 😉

----------------------------------

Hér gefur að líta ofannefnd Hveratúnssýstkin með mökum sínum, fyrir þrem árum, eða svo: 


English summary - as requested:

You may wonder about the reasons why me and my four sibling have all managed to be married to the same spouses all our married lives. The most viable hypothesis is, that it has to do with genes inherited from our father's side of the Hveratún family. He always admitted, readily, that he was "purposeful" but never "stubborn".

The reason for the blogpost is, that 45 years ago, today, me and my wife, Dröfn, got married at Skálholt cathedral and our firstborn Egill Árni was christened. 

We are both purposeful and it is anyones's guess, which of us is more purposeful. 

I am grateful for our time together and our four children have turned out to be solid individuals for us to be proud of.

That's more or less it.



20 mars, 2022

Bítlar eða harmonikka

Ætli það sé ekki rétt að taka það fram, að ég hef svo sem ekkert á móti harmonikkutónlist. Ég átti þess kost að koma á dansleiki með Hljómsveit Óskars Guðmundssonar og Þorsteins Guðmundssonar á sínum tíma og uppgötvaði að það var vel hægt að skemmta sér við þá tónlist sem þeir báru á borð fyrir dansglaða ballgesti. Ég og mín kynslóð áttum hinsvegar í talsvert nánara sambandi tónlist af öðru tagi. Ætli ég geti ekki bara fullyrt, að aldrei, hvorki fyrr né síðar hefur tónlist mótað ungt fólk jafn rækilega. 

Mér varð hugsað til þessa í gærkvöld, þar sem ég og fleiri áttum leið fólksflutningabifreið frá höfuðborg landsins til höfuðborgar Suðurlands. Bílstjórinn vildi vel og fyrir það á hann þakkir skildar. Þar fyrir utan spurði hann hópinn hvort hann óskaði kannski eftir að engin tónlist yrði spiluð á leiðinni austur. Enginn tjáði sig andvígan tónlistinni. Hinsvegar veit ég ekki hve margir þeirra sem þarna voru á ferð, hefðu sjálfir valið tónlistina sem fram var borin.

Sannarlega mátti finna þarna fólk sem var rétt skriðið inn á tíræðisaldurinn, sem þýðir að það fæddist um eða upp úr 1930. Þegar það fólk fór í gegnum mótunarárin var heimstyrjöld í gangi, sem síðan lauk. ÞArna á nefna tónlistarfólk eins og Glenn Miller, Doris Day, Andrews sisters, Mills Brothers og fleiri og, jú, harmonikkutónlist virðist hafa verið nokkuð vinsæl.

Þarna var vissulega talsvert af fólki sem fæddist um 1940, á níræðisaldri. Um miðjan sjötta áratuginn má finna íslenska listamenn eins og Einar Clausen, Jakob Hafstein, Maríu Markan, Sigurveigu Hjaltested, Hank Williams, Platters, Little Richards og miklu fleiri auðvitað, en harmonikkutónlistin fór ekki hátt á vinsældalistum.

Ætli flestir í þessari ferð yfir heiðina hafi ekki verið á áttræðisaldri, sem sagt fæddir svona á bilinu 1945 - 1955. Þetta fólk var þá 15 til 25 ára á sjöunda áratugnum, þegar allt breyttist. Þarna inni er svokölluð 68- kynslóð, hipparnir og allt það. Harmonikkutónlist var ekkert sérstaklega hátt skrifuð hjá þessum hópi, þannig séð. Fáir á þessum aldri setja mikið af harmonikkutónlist á "playlistana" sína.

Þarna, í þessari klukkutímaferð yfir Hellisheiði, fór ég að velta því fyrir mér, hvenær, eða hvort það gerist einhverntíma, að það verði hætt að setja samasem merki milli eldri borgara og harmonikkutónlistar.

Ég er enn á sjötugsaldri og það sama mátti segja um nokkra aðra í ferðinni. Þrátt fyrir að hafa upplifað Steina spil og Óskar Guðmunds á yngri árum, get ég ekki sagt, að harmonikkutónlist falli í flokkinn þar sem uppáhaldstónlist mína er að finna.

Bílstjórinn vildi vel og og ég hefði alveg getað mótmælt tónlistarvalin, en það gerir maður bara ekki. 

Og þessi hópur er ekki lengur einsleitur. Hann er fjölbreyttur. Hann ætlar sér ekki að hlusta á harmonikkutónlist inni á elliheimili þar sem tveir eða fleiri eru saman um herbergi. Hann vill Bítlana í botn í búsetuúrræðum af margvíslegu tagi.  (leiðari Fréttablaðsins ágúst 2021/Sigmundur Ernir Rúnarsson)



 

05 mars, 2022

Hvar er hún?

"Hvar er fjarstýringin?"
Eins og nærri má geta, var það fD sem spurði. Hún varpaði spurningunni fram þar sem útvarpsfréttum hinnar stöðvarinnar var að ljúka og framundan næsti fréttatími, sá þriðji í röð það kvöldið  - og það var ekki einu sinni hafið stríð.  
Í fljótu bragði átti ég ekki svar við spurningunni, en þarna hófst fyrst yfirborðsleit á helstu stöðum, sem um gat verið að ræða. Sú leit bar ekki árangur og fréttatíminn nálgaðist.  Sem betur fer er tæknineyslan á þessum bæ svo mikil, að það eru til viðbrögð við flestum áföllum af tæknilegum toga sem búast má við, meira að segja týndri fjarstýringu. 
Til þess að missa nú örugglega ekki af fréttunum, snéri ég mér að tölvunni, fann beint streymi stöðvarinnar og varpaði því síðan með aðstoð krómkast yfir í sjónvarpstækið. Fréttirnar fóru auðvitað fyrir ofan garð og neðan, þar sem hugurinn var bundinn við möguleg afdrif fjarstýringarinnar og sem betur fer, var dagskrá stöðvarinnar það sem eftir lifði kvölds ekki þannig að mikilvægt teldist að fylgjast með henni (er það reyndar sjaldan, orðið).
Ég þarf ekki að nefna það, að fljótlega, eða jafnvel strax, beindist grunurinn frekar að öðrum íbúanum og farið var vel yfir yfir það hvernig hann á það til að vera utan við sig. 
Meðan á því stóð, stóð yfir ítarlegri leit að fjarstýringunni, sem stóð langt fram eftir kvöldi og síðan næsta dag einnig, án þess að það skilaði árangri. Leitin gekk svo langt, að rusladallar voru tæmdir og full karfa af óhreinum fatnaði. Það var, sem sagt leitað hreint allsstaðar sem mögulega var hugsanlegt eða óhugsandi að þessi blessaða fjarstýring gæti verið. Þetta gekk svo langt, að ég var farinn að trúa því, að þarna hefðu yfirnáttúruleg öfl verið að verki, og er ég þó alla jafna ekki ginnkeyptur fyrir slíkum vangaveltum. 
Þegar útséð var um að leitin skilaði árangri, var tvennt í stöðunni: 
a) athuga hvort hægt væri að fá einhversstaðar svona fjarstýringu. Það var gert og í ljós kom, að svo er ekki.
b) taka þessu rólega í þeirri von, að þegar leitinni yrði hætt, myndi gripurinn bara allt í einu birtast á einhverjum augljósum stað. Síðan liðu 10 dagar, án þess að fjarstýring birtist á stofuborðinu.

Á þessum laugardagsmorgni var niðurstaða um að nánast snúa öllu við í íbúðinni - hreint öllu og mátti búast við að dagurinn færi í það. Sérstaklega var leitinni beint að sófanum sem nýtist til sjónvarpsáhorfs á bænum. Hann dreginn fram á mitt gólf, snúið og hvolft, hver ójafna rannsökuð. Svo var farin önnur umferð, jafnvel enn nákvæmari. 

Það mátti velta því fyrir sér, og það var gert, hversvegna ákveðið var að hefja þessa miklu aðgerð einmitt í morgun. Það má vel vera, að þær vangaveltur hafi styrkst, þegar fjarstýringin birtist allt í einu í einni, nokkuð augljósri, rauf í sófanum. Það má velta því fyrir sér, hvort fjarstýringunni hafi verið komið fyrir þarna, eftir að hún hafði fundist á stað sem hefði mátt tengja við rangan aðila máls.  Það kemur væntanlega aldrei í ljós, enda skiptir það ekki máli í stóra samhenginu.



25 febrúar, 2022

Nema eitt blóm

Aðfaranótt 24. febrúar, árið 2022, hófst innrás rússnesks herliðs inn í Úkraínu

Tilhugsunin um að þessi innrás muni mögulega hafa víðtækari áhrif,  er mörgum næstum ofviða að velta fyrir sér. Seinni heimstyrjöldin myndi sennilega blikna í samanburðinum við það sem gæti beðið okkar. 

Ætli sé ekki best að við hugsum ekki þangað; gerum ráð fyrir að það sé nægilegur skynsemisvottur eftir, meðal þeirra sem ráða málum okkar, til að þeirri þróun verði afstýrt. Kannski er það ekki ætlunin að sú verði niðurstaðan. Mögulega er þetta leikrit sem klúbbar þeirra sem með völdin fara, hafa komið sér saman um að setja upp, beinlínis til að treysta völd sín og auka á óbilandi óttablandna virðingu okkar fyrir leiðtoghahæfni þeirra.

Í rauninni vitum við ekkert nema það sem við sjáum eða heyrum.. Við hneigjumst til að trúa því sem við sjáum eða heyrum. Það er veikleiki okkar. 
Veikleiki, vegna þess, að  það sem okkur er sagt, eða það sem við sjáum er mögulega frekar blekking en sannleikur. Það sem við sjáum eða heyrum er það sem þeir vilja að við sjáum. Hvað vitum við svosem um það sem gerist þegar slökkt hefur verið á hljóðnemunum eða myndavélunum?  Er andlitið á skjánum það sem það virðist vera? Er það sem sagt er satt, eða hrein og klár blekking? 
Er kannski alltaf verið að spila með okkur vegna þess að við erum auðtrúa múgur? 

Já, ég viðurkenni það bara: ég set spurningamerki við allt sem stjórnmálamenn eða aðrir forystumenn í þjóðmálum og alþjóðamálum setja frá sér. Mér finnst oftar en ekki að þeir séu ekki einlægir; það séu til staðar duldar fyrirætlanir.

Ég vona að innrásin í Úkraínu, sé leikrit með upphaf miðju og endi og að endirinn verði viðunandi, þó aldrei sé viðunandi að láta sprengjum rigna yfir saklaust fólk og réttlæta það svo sem fórnarkosnað, til að gæta einhverra skuggalegra hagsmuna.



Síðasta blómið

Undir XII. alheimsfrið
(eins og fólk mun kannast við).
eftir blóðug öfgaspor
endursteyptist menning vor.

Heimsbyggð öll var eydd að grunni.
Uppi stóð ei tré né runni.
Bældir heimsins blómsturgarðar.
Brotnir heimsins minnisvarðar.

Lægra en dýr með loðinn bjór
lagðist mannkind smá og stór
Horfin von, með hlýðni þrotna,
hundar sviku lánadrottna.

Sótti á bágstatt mannkyn margur
meinkvikinda stefnisvargur.
Músík-, bóka- og myndalaus
manneskjan sat með kindahaus,
gleði-, dáða- og girndalaus.

Glötunin virtist þindarlaus…

Pótintátar XII. stríðsins,
tórandi enn á meðal lýðsins,
mundu orðið ekki par
út af hverju stríðið var.

Hvort til annars drós og drengur
dreymnum augum renndu ei lengur,
heldur gláptu öndverð á:
Ástin sjálf var lögst í dá…

Ein síns liðs á víðavangi
vorkvöld eitt var telpa á gangi
og hún fann á sínu sveimi:
Síðasta blóm í heimi.

Heim hún stökk þá sögu að segja
að síðasta blómið væri að deyja.
Ungum pilti út í haga
einum fannst það markverð saga.

Saman forðuðu sveinn og meyja
síðasta blóminu frá að deyja.
Í heimsókn komu, að heilsa því,
hunangsfluga og kólibrí.

Bráðum urðu blómin tvö
og blómin tvö að fjórum,
fimm, sex, sjö… …
og síðast breiðum stórum.

Laufgast tók hvert tré og lundur.
(Telpan fékk sér snyrtingu).
Piltinum fannst hún alheims undur.
Ástin var í birtingu.

Börnin tóku að hoppa og hlæja
hnellin, keik og létt á brá.
Hundar snéru heim til bæja
(hefði verið að ræða um þá).

Ungi maðurinn framtaksfús
fór að byggja úr steinum hús,
og senn fóru allir að hlaða og hýsa,
og heimsins byggðir að endurrísa,

og söngvar lífsins upphófust enn,
og fram komu fiðlarar
og fjölbragða smágusar
og skraddarar og skóarar
og skáld og listamenn,
höggmeistarar, hugvitsmenn
og hermenn!

Og aftur komu ofurstar
og aftur risu upp kapteinar
og majórar og marskálkar
og mannkynslausnarar!

Niðri í dölum, fram til fjalla
fólk sér dreifði um veröld alla.

En fyrr en varði fjallahyggja
fór að sækja á dalabyggja,
og þeir sem áttu heima á hæðum
hugann sveigðu að lægri gæðum.

Lýðinn ærðu í lygaskaki
lausnarar, með guð að baki,
uns eftir skamma hríð
hófst alheimsstríð.

Í stríði því var öllu eytt

ekki neitt
lifði af þann lokadóm,

nema einn piltur

nema ein telpa

nema eitt blóm.

(Ljóð Magnúsar Ásgeirssonar, sem er þýðing á dæmisögu (parable) eftir bandaríska skáldið James Thurber)

The Last Flower

27 janúar, 2022

Þunglömb

Myndin sýnir óþekkta eldri borgara
takast á við lóðin. 
Það ku vera að birta yfir, að þeirra sögn. Útþynnt veiran æðir um samfélagið, en ku vera hætt að vera sú ógn sem hún var. Forystumenn eða forystufólk er farið að berja sér á brjóst, svo sagan fái minnast þess sem fólksins, sem létti þessu oki af okkur, þó hlutur sumra þeirra sé verri enginn, ef grannt er skoðað. 

Það var hinsvegar ekki þetta sem ég ætlaði að lemja inn hér og nú, heldur birtan sem fólst í því að komast í fyrsta sinn síðan um miðjan desember í heilsurækt undir stjórn í íþróttahöllinni miklu. 
Það toguðust á kvíði fyrir því að þurfa að toga sjálfan sig upp úr sófanum og tilhlökkun yfi því að fá að njóta þess að verða örþreyttur aftur, með tilheyrandi harðsperrum.   
Mér finnst það dálítið ósanngjarnt, að vera búinn að þræla og púla í líkamsrækt mánuðum saman, fara svo í mánaðarlanga pásu og komast þá að því að mánuðirnir höfðu skilið lítið eftir sig. Mér finnst að líkamsrækt eigi að skila einhverju varanlegra, en veit svo sem að þannig gerast ekki kaupin á eyrinni.  Maður verður víst að sætta sig við það.

Hvað um það, þarna hópaðist fjöldi fólks á besta aldri saman og tók upphitunargönguna. Síðan tók púlið við; lóðum var lyft, hné voru beygð, sprellikall var tekinn og vöðvar í dvala teygðir og hnykklaðir.
"Við erum nú engin unglömb!" varð einum þjáningarbróðurnum að orði, við hliðina á mér, þar sem lóðin og hnébeygjurnar voru farin að taka heldur mikið í afleiðingar hátíðahaldanna sem liðin eru. 
"Nei, við erum þunglömb!", gall þá við í þjáningarsystur, eins og frá hjartanu. Þetta eina nýyrði bjargaði þessum heilsuræktartíma og ég held áfram að kvíða fyrir og hlakka til frekari átaka næstu mánuði.


-------------------------

19 janúar, 2022

Hrossalækningar

Orðabókarskilgreiningin á hugtakinu hrossalækning er: 1. Það að lækna hesta. 2. Harðneskjuleg eða subbuleg læknisaðferð (læknisaðgerð). 

Ekki vil ég halda því fram, að umfjöllunarefni dagsins snúist beinlínis um hrossalækningar samkvæmt einhverri skilgreiningu og málvenju. Ég stend bara frammi fyrir þeirri áskorun, að ákveða hvort ég ætti að nota hrossaáburð við að lina vöðvabólgu eða bakverk, eða liðverki. Ef þessi áburður er ekki ætlaður mannfólki, heldur hrossum, hvernig í veröldinni ætti þá mannesku að láta sér koma það til hugar að nota hann að sjálfa sig?  Getur verið að þessi sami áburður sé einnig framleiddur fyrir mannfólkið, bara undir öðru nafni? Ef ekki, má þá ekki gera ráð fyrir að hann henti fólki hreint ekki og geti jafnvel verið skaðlegur? Svo er til þess að líta, að hross eru spendýr, rétt eins og maðurinn og í ljósi þess má ætla, með góðum vilja, að báðum þessum spendýrategundum geti hentað sami áburðurinn. 

Ég ákvað að reyna að bera saman hrossaáburðinn, sem kallast Healthy horse og algengan mannaáburð sem virðist eiga að hafa svipaða verkun, Voltaren (ekki Voltaren forte - sem er ekki til á þessum bæ).
Hér má sjá efnainnihald beggja þessaraa áburðartegunda:


Ég skil fleiri orð í lýsingu á hrossaáburðinn. Þar er t.d. vatn, glýserín, alkóhól, mentol, Aloalaufa- eitthvað, eitthvert blómaþykkni, einhver blómaolía, olía úr eucalyptus laufi (tröllatré), kamfóra.

Miklu minna skil ég að því sem myndar mannaáburðinn. Þar er þó að finna parafín, einhverskonar alkóhól og ilmkrem af einhverju tagi.

Augljóslega er ég enginn efnafræðingur og því ekki í neinni aðstöðu til að meta þessa áburði. Samt finnst mér hrossaáburðurinn einhvern veginn hljóma betur, eða vera meira aðlaðandi, ef ekki væri fyrir það, að hann er ætlaður á hross, en ekki menn, af einhverjum ástæðum. Kannski virkar hann ekki á fíngerða vöðva, liði og sinar manna, eða kannski hafa ekki farið fram vísindalegar rannsóknir á verkun hans á mannfólkið. 
Það vill svo til, að ég hef heyrt í það minnsta 3 sögur um notkun manna á þessum áburði. Í einu tilvikinu, þar sem opinber starfsmaður þjáðist að verkjum í mjöðmum, hurfu verkirnir eins og dögg fyrir sólu við notkun á áburðinum. Í öðru tilviki sagði kona í sveit frá því að hún hefði borið áburðinn á liðverki, ríkulega, með þeim afleiðingum að verkirnir versnuðu (hjá henni kom reyndar fram að notkun áburðarins er algeng meðal fólks á bænum), en það mun hafa verið vegna þess að hún hafði borið of ríkulegt magn á verkjastaðinn. Þriðja sagan er eiginlega ekki saga, en kona í blokk á Suðurlandi bar áburðinn að úlnliðsverki, án þess að fá bót. Verkirnir versnuðu heldur, og er of miklu magni kennt um.

Jæja, ég var stirður í bakinu í morgun, eftir meiri líkamsbeitingu en venja er til. Ég stalst til að skella áburðinum á bakið og sá fyrir mér allt þetta efnaglundur sogast í gegnum húðina og (og annað sem er síðan á milli hennar og hryggjarins) ráðast að upptökum verkjarins. Það var eins og við manninn mælt, bakverkurinn hvarf. Reyndar gerist það yfirleitt, jafnvel þó enginn áburður komi við sögu, enda hef ég alla jafna litla trú á áburðum, hverju nafni sem nefnast, til að takast á við innvortis bólgur eða verki.

Já ég er litlu nær og efast reyndar um að ég muni nota þennan áburð, að óbreyttu - í það minnsta þar til vísindarannsóknir benda ótvírætt til gagnseminnar. Svo er fólk að tala um annað lyf, sem ku henta hrossum vel.



 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...