16 desember, 2022

Ofurspenna og englahár

Heimagert, anno 2022
Spennan var nánast óbærileg. Pabbi og mamma skiptust á við að hverfa inn um dyrnar á stofunni, sem voru annars rammlæstar. Við vissum svo sem að þau væru að undirbúa, skreyta og koma fyrir.  Það var aðfangadagur, eins í allmörg ár, bæði í gamla bænum og þeim nýja. Alltaf var stofan læst á aðfangadegi. Við urðum æ spenntari eftir því sem á leið daginn, en það lá sko ljóst fyrir, að inn í stofuna færum við ekki.

Dagurinn leið og klukkan sjö var komið að því að setjast að dýrðar jólamatnum, sem var allavega í mínu minni, svínakótilettur steiktar í raspi, sem hafa aldrei bragðast jafn vel síðan. Með þeim það sem hæfði, líklega sulta, grænar baunir, brúnaðar kartöflur og rauðkál (minnir mig). Spenningurinn dvínaði aðeins meðan maturinn var snæddur en rauk svo upp jafnskótt og máltíðinni lauk. Þá tók uppvaskið og frágangurinn við, en ég minnist þess ekki að hafa tekið verulegan þátt í því óspennandi verkefni. Grunar að þar hafi systur mínar fengið að njóta sín. 

Það var svo ekki fyrr en allt var frágengið, að það kom að opnun stofunnar. Lykillinn var tekinn fram og stungið í skrána, þar sem við biðum í ofvæni, eftir því bakvið dyrnar beið. Dyrnar lukust upp og við blasti ótúlegur töfraheimur, þar sem jólatréð var miðpunkturinn. Tréð var ekki stórt, kannski svona metri á hæð, gervitré, sem var hluti af þessum hefðum. Önnur jólatré voru fremur ómerkileg í samanburðinum. Á trénu var jólasería, sem var hreint ómótstæðileg. Á henni voru ljóskúlur í ýmsum litum og upp úr hverri þeirra var vökvafyllt glerpípa, sem sauð í - eða allavega risu loftbólur stöðugt upp í þessar pípur. Það var einnig búið að hengja allskyns skraut  á þetta fína tré, en það sem gerði útslagið var englahárið. Tréð var hreinlega þakið englahári, þá lá yfir því eins og teppi, sem varð til þess,að ljósið frá seríunni glitraði. Það liðu mörg ár áður en ég tók tré, sem voru öðruvísi en þetta, í sátt. Jólatré án englahárs voru bara ekkert hátíðleg.  
Nú er liðinn einhver slatti af árum síðan og eitthvað hefur smekkurinn breyst, bæði vegna aukins aldurs og kannski eitthvað meiri víðsýni, eða tískustraumum í skreytingum. Ætli megi ekki segja að smekkurinn sé bara farinn að nálgast tímann áður en hægt var að verða sér úti um jólatré á Íslandi, svona yfirleitt, þegar fólki smíðaði sjálft jólatrén sín, eitthvað í líkingu við það sem þeir héldu að þau hlytu að vera.

Kannski er bara best að fara alla leið með þetta, úr því englahárið og seríurnar með glerpípunum eru ekki lengur valkostur. 

Englahár

Englahár



18 nóvember, 2022

Lítið eitt um sálmabækur


Ég er í kór sem syngur talsvert af sálmum. Því miður aðallega einraddað, sem hentar þeirri raddtegund sem ég tilheyri, ekkert sérlega vel. Jú, einstaka sinnum fæ ég og félagar mínir að takast á við fjórradda söng, sem eiginlega er ástæða þess að ég er yfirleitt í kór og sem heldur mér þar, auk félagsskaparins auðvitað - og stjórnandans.

Jæja, nú hefur verið tekin í notkun ný sálmabók.
Hún kemur í stað tveggja, sem eru orðnar ansi lúnar, sumar. Þessi nýja bók er nokkuð frábrugin þeim tveim sem nú hljóta örlög sem engin bók vill fá (ef bækur væru í aðstöðu til að hafa skoðun, svona yfirleitt). Þeirra bíður það hlutskipti að verða engu merkilegri en pappírinn sem þær eru prentaðar á. 
Verða þær bara settar í pappírsgáminn?
Munu kirkjugestir taka þær með sér heim til minningar um sálmabók sinnar kirkju og setja hana upp í bókahillu? Verða þær nýttar til að búa til eitthvað gagnlegt, jafnvel listaverk, í stórum stíl? Hver veit. Þær eru ekki lengur nýtilegar við messur í íslensku þjóðkirkjunni, svo mikið virðist ljóst. 

Nýja sálmabókin
Hún lítur í fljótu bragði út eins og sú stóra gamla, en víkur þó frá að ýmsu leyti, sem ég fer ekki í hér, utan það sem ég nefni á eftir. (þetta er ekki bókargagnrýni, því til slíks hef ég enga vigt).

Svona er nýju bókinn lýst á vef Bókatíðinda:


Þjóðkirkjan gefur nú út nýja sálmabók með 795 sálmum í fallegu og handhægu broti á alls 1200 blaðsíðum. Í bókinni eru kjarnasálmar kirkjunnar ásamt nýjum sálmum sem margir hafa orðið til á síðustu árum. Nótur eru við alla sálma og hljómar við öll lög. Vönduð efnisflokkun er í bókinni sem nýtist við val á sálmum við messur og aðrar athafnir.

Sálmabókin er söngbók kirkjunnar. Hlutverk hennar er að efla þátttöku safnaðarins í helgihaldinu ásamt kórum kirknanna. Sumir sálmar fá fleiri en eitt lag og öll lögin eru hljómsett sem auðveldar notkun sálmanna. Nokkrir einfaldir smásálmar, þar á meðal Taize-söngvar, eru í fjórum röddum, sem gefa söfnuðinum kost á að syngja raddað með kórnum.

Sálmabókin er einnig lesbók sem fylgir okkur í lífi og starfi. Því eru öll erindi sálmanna prentuð neðan við nótnamyndina. Í sálmabókinni er einnig bænabók, messusöngur kirkjunnar og vandaðar skrár um alla höfunda efnis.


Þá vitum við það og það er vissulega kostur, að nú eru allir sálmarnir í einni bók, sem auðveldar sannarlega verkefni kórfólks og örugglega líka þeirra kirkjugesta, sem hafa hug á að ástunda safnaðarsöng.  Ekki er ég búinn að rannska bókina með tilliti til þess hvað sálma er þar að finna. 

Hvaða sálmar eru horfnir? Eru það þeir sem lýsa samfélagi kirkjulegu eða mannlegu, sem hefur tekið breytingum? 
Hvaða nýju sálmar eru komnir inn? Hvað réð vali þeirra? Eru þeir líklegir til að auka kirkjusókn? 

Nei, ég á sennilega margt ólært um þessa nýju bók, ef mér tekst að takast á við að syngja úr henni eitthvað áfram, en tvennu hef ég tekið eftir varðandi þessa nýju bók, sem gæti haft þau áhrif að fækka eldri kórfélögum. Fyrir þessu eru aðallega tvær ástæður:



1. Letrið sem fylgir nótunum, er afar smátt, svo smátt, að ég á í mesta basli með að lesa það, meira að segja með sæmilegri lýsingu, tiltölulega ungur maðurinn. Svarið við því vandamáli er augljóslega það, að ég þurfi bara að fá mér ný gleraugu, sem mér finnst nú frekar mikið í lagt, til að geta sungið sálma í sálmabók. 
2. Pappírinn í bókinni er mjög þunnur, svo þunnur að ég varð vitni að því að ágætur kórfélagi hætti allt í einu að syngja í miðju lagi, þar sem hann fletti um tvær blaðsíður í stað einnar og lenti þar með á næsta sálmi, í stað næsta erindis í sálminum sem verið var að syngja.

Ekki neita ég því, að mér finnst nokkur hætta á því að einhverjir félagar í kirkjukórum, sem eru farnir að finna fyrir hækkandi aldri og því sem honum fylgir, muni segja gott vera komið. Sérstaklega er þetta áhyggjuefni þar sem um er að ræða karlana, því ungir karlar, sem eru tilbúnir að syngja í kirkjukór virðast ekki tíndir upp af götunni. Ég veit ekki hvaða þolinmæði þeir eldri kunna að hafa fyrir því að þurfa að læra nýja sálma, þar sem þeir greina varla textann sem á að syngja. 
Í bókinni eru margir sálmar sem vant fólk kann nú þegar og vegna þess að textar sálmanna eru prentaðir fyrir neðan nóturnar í stærra og betur læsilegu letri, má reikna með að það gangi allt saman.

Ekki ætla ég að pæla í því hvernig söngelskir kirkjugestir munu bregðast við þessari nýju bók, en vonandi fá þeir að njóta góðrar lýsingar við sönginn og umfram allt að gleyma ekki gleraugunum heima.

Svo gæti ég alveg haldið áfram, en held að ég láti hér við sitja.


07 nóvember, 2022

Herra Jón og synir hans höggnir

Mögulegur aftökustaður í skjóli frá kirkjunni.
Á þessum degi, árið 1550, fyrir 472 árum, voru Jón Arason, Hólabiskup og synir hans tveir, þeir Ari og Björn, hálshöggnir í Skálholti. Ég læt aðdragandann að þessum atburði liggja milli hluta hér.

Þar sem ég fæddist og bjó lengst af í nágrenni við Skálholtsstað hefur ekki farið hjá því að sagan um þessa aftöku hafi snert við mér. Sem barn hélt ég að minnisvarðinn um feðgana, sem þarna er að finna,  væri beinlínis höggstokkurinn sjálfur og velti fyrir mér hvernig framkvæmdin hafi mögulega verið á þessum steinstöpli. Svo lærði ég að þarna væri bara um minnisvarða að ræða og ekki lægi nákvæmlega fyrir hvar höggstokkurinn var. Þetta dró mjög úr vægi minnisvarðans í huga mér. Var þá kannski ekki víst, að þeir hafa yfirleitt verið teknir af lífi þarna í grennd við minnisvarðann? Kannski bara allt annarsstaðar?



Svo fór ég í göngu á Skálholtsstað fyrir ekki svo löngu síðan, þar sem Bjarni Harðarson var leiðsögumaður. Hjá honum kom maður ekki að tómum kofanum frekar en fyrri daginn. Hann gat nánast bent á staðinn þar sem feðgarnir voru líflátnir. Norðan undir lambhúsum (allavega útihúsum), sem eitt sinn stóðu rétt hjá þar sem minnisvarðanum var valinn staður (sjá mynd). Sá staður mun, að sögn Bjarna, hafa verið valinn, því ekki þótti við hæfi að til þessa illa athæfist sæist frá kirkjunni.  Þetta er eins góð skýring og hver önnur, en stangast á við það sem Gunnar Gunnarsson segir hér fyrir neðan, en af því má skilja, að höggstokkurinn hafi verið fluttur til milli hæða, eftir fyrri aftökurnar tvær. Ef honum var komið fyrir á hæðum, bendir það ekki til þess að menn hafi verið feimnir við að athæfið sæist frá kirkjunni.  Um þetta veit ég auðvitað hreint ekkert og læt öðrum um að velta því fyrir sér. Saga Gunnars er auðvitað ekki endilega sagnfræðilega kórrétt frekar en Brennu-Njálssaga, ef út í það væri farið. Það sama má auðvitað segja um pælingar Bjarna. 

Hvað sem þessu öllu líður, þá læt ég hér fylgja tvær frásagnir af dauða Jóns Arasonar, biskups og sona hans, Ara og Björns. Sú fyrri er bútar úr síðustu blaðsíðum bókar Gunnars Gunnarssonar, en þá síðari er að finna á https://ferlir.is .

Gunnar Gunnarsson: JÓN ARASON


Dapur og drungalegur rann yfir Ísland 7. dagur nóvembermánaðar árið 1550. – dagur óafmáanlegrar svívirðu, dagur ævarandi sóma.

Af þeim feðgum er að segja, að síra Björn hafði legið í hitakófi mestan hluta nætur, Ari sofið og ekki vitað af sér, biskup vakað og beðið, en dottað stundum í hendur sér. Hrökk hann þá jafnan upp með kuldahrolli, stóð á fætur og gekku gólf stundarkorn. Lagðist síðan aftur á bæn.

Það aðeins mótaði fyrir gluggarúðunum, þegar kirkjuhurðinni var hrundið upp og flokkur varðmanna gekk innar eftir gólfinu. Herra Jón áttaði sig ekki á því alveg samstundis, að einnig synir hans væru þar komnir. Þegar hann loks koma auga á þá, brosti hann, rétti bundnar hendur sinar að leiðtoga varðliðsins og sagði: „Leystu mig kunningi!“
Varðmaðurinn skar á böndin. Síðan tók herra Jón hnífinn úr höndum hans og spretti böndum sona sinna. Létu varðmennirnir það við gangast.

„Ari Jónsson!“, var kallað framan úr hálfrökkrinu.
Ari rétti úr sér, hikaði andartak, hneigði sig djúpt fyrir föður sínum. sem sat undir síra Birni, gekk hvatlega fram kirkjugólfið og út, og leit ekki um öxl. – dauf dagskíma gægðist fram milli hrannaðra skýja.

Höggstokknum hafði verið komið fyrir á hæð einni utan túns.

Síðan kraup Ari á kné, lagði höfuðið á stokkinn, teygði fram hálsinn, svo að vel sá til sina og liða – enda fór höfuð hans af í fyrsta höggi og valt niður í krapablána.

„Björn Jónsson!“, var kallað frammi við dyrnar.
Síra Björn heyrði kallið og rankaði við sér, reis á fætur, strauk svitann af enni sér, - en reikaði á fótum og var nærri dottinn. Faðir hans greip utan um hann og studdi hann fram kirkjugólfið. Prestur bað föður sinn ekki óttast um sig. Var hann hugrakkur þá stundina. En svo var honum mikið niðri fyrir, að hann gleymdi að kveðja föður sinn.

Það setti að honum sáran grát: „Börnin mín!“, kveinaði hann: - „Æ, börnin mín ung og smá!“ ...

Á túninu utarlega féll prestur í ómegin. Rankaði hann þó aftur við sér, þegar að höggstokknum kom, - vitkaðist það mikið, að hann skildi hvað um var að vera. Kraup hann niður, viljugur, lagði höfuðið á stokkinn, en gat ekki legið alveg kyrr vegna köldufloganna.

Fyrsta höggið geigaði og varð að svöðusári. Prestur tók til hnakkans, reyndi að brjótast á fætur, en var keyrður niður. Blóðið fossaði um hann allan og skvettist langar leiðir, en honum var haldið föstum – eftir því sem til vannst – af hjálparsveinum böðulsins.
Enn minntist hinn veiki og hálfhöggni maður á ómagahópinn sinn heima og bað sér vægðar. En nú reið á hann högg af höggi, og skildi fjórða höggið loksins höfuð frá bol. –

„Jón Arason!“....

Biskup sagði til sín, en baðst undan handahlekkjum.

Fékk hann að ganga laus og liðugur til aftökustaðarins.

Höggstokkurinn hafði verið fluttur á þriðju hæðina. Streymdi þangað slíkur mannfjöldi, að Dönum og dindlum þeirra þótti nóg um.

Tvö skref frá höggstokknum gekk Daði bóndi fram og ávarpaði hann virðulega. Kvaðst hann hafa fengið því framgengt við fógeeta, að lífi biskups skyldi þyrmt, ef hann ynni að því eið, að hefna aldrei eða láta hefna neins þess er hér hafði gerzt. .

Herra Jón leit á bónda fullur iðrunar: „Sýnist þér ekki, að synir mínir hafi fylgt mér það langt, Daði sæll, að hæfilegast sé, að ég fylgi þeim síðasta spölinn?“ spurði hann.

[Biskup] gekk að höggstokknum. En svo var hann stirður orðinn, að þeir urðu að ljá honum hönd, á meðan hann var að komast á knén. Og svo var hann knýttur í herðum, að þó hann reyndi á ýmsa vegu að teygja hálsinn til höggs, tókst það ekki sem bezt.
Loksins sýndist þó böðlinum sakamaðurinn liggja sæmilega við höggi. Lét hann þá öxina ríða. Varð af því sár öðrum megin á hálsinu. Manngreyið var ekki almennilega búinn að ná sér  eftir óhappið með síra Björn. Má vera, að það hafi ráðið nokkru um, hve skeifhöggur  hann nú reyndist.

Hjó hann nú sem óðast. Mátti þó enn, eftir fjórða höggið greina rödd bandingjans, er bað fyrir sér hóflega:
„In manus tuas domine .....“
Sjö höggva þurfti við, áður gráhært höfuðið losnaði frá bolnum og hraut niður í krapið.

(Rit Gunnars Gunnarssonar VII: Jón Arason - Útgáfufélagið Landnáma Reykjavík 1948,-bls 418-427)


Ferlir.is

Menn voru þegar settir til að gera aftökustað austan við túnið í Skálholti, og var þangað fluttur gamall vindustokkur frá kirkjunni og höggvið í hann hökuskarð, svo að nota mætti sem höggstokk. Böðull hafði þegar verið fenginn frá Bessastöðum til þess að vinna á þeim feðgum.
Þegar morgnaði, voru fangarnir búnir til aftökunnar. Ari var fyrst leiddur á höggstokkinn, og fylgdi honum prestur sá, sem vakað hafði hjá honum um nóttina. Vildi Ari ekki, að bundið væri fyrir augu sér. Hann gaf böðlinum gjöf til þess, að hann ynni verk sitt hreinlega eins og alsiða er erlendis. Síðan hjó böðullinn hann og fórst allvel. Þessu næst var höggstokkurinn færður og sér Björn leiddur til höggs. Böðlinum fataðist fyrsta höggið. Hljóp Daði í Snóksdal þá til og skipaði böðlinum að fullkomna verk sitt. Murkaði böðull loks af honum höfuðið í fjórða höggi.
Síðastur var Jón biskup höggvinn, og fylgdi séra Hængur Höskuldsson á Stóru-Völlum á Landi honum til aftökunnar. Hafði biskup kross í hendi. Við höggstokkinn kraup hann sjálfur á kné og signdi sig. Þegar biskup var lagstur á höggstokkinn, reiddi böðullinn öxi sína til höggs. En höggið geigaði hjá honum sem fyrr, og við þriðja högg mælti biskup: “In manus tuas, domine, commendo spiritum meum” – herra, í þínar hendur fel ég anda minn. Það heyrðu menn hann mæla síðast orða, en í sjöunda höggi tók loks af höfuðið.
(https://ferlir.is/aftaka-jons-biskups-arasonar-og-atburdir-a-sudurnesjum-2/)



06 nóvember, 2022

Um hann herra Litla Bergþór

Hvernig dettur fólki í hug, að það sé raunhæft að gefa út efnismikið tímarit, tvisvar á ári, sem fjallar bara, eða nánast alfarið um Biskupstungur?  
Ja, þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Það þýðir samt ekki að svörin séu ekki til.
Nú eru ríflega fjórir áratugir síðan Litli Bergþór - blað ungmennafélags Biskupstungna, hóf göngu sína. Ég ætla mér ekki að segja þá sögu hér, en nefni þetta bara til að að benda á að það er nokkuð merkilegt að frá 1980 hefur þetta blað komið út tvisvar til þrisvar á ári og enn ber ekki á skorti á umfjöllunarefni.

Þó svo ég sé eflaust að hætta mér út á braut, sem ég er ekki búinn að skoða alveg niður í kjölinn, með því að reyna að svara spurningunni um þetta langa líf blaðsins, ætla ég að gera smá tilraun.

Þetta er það sem ég tel að eigi stóran þátt í langlífi karlsins og jafnframt það sem mér finnst að huga þurfi að:

1. Blaðið er alfarið unnið í sjálfboðavinnu (fyrir utan prentun og póstkostnað). Ef fólkið sem vinnur að útgáfunni fengi lágmarkslaun fyrir vinnu sína, væri það fyrir löngu búið að leggja upp laupana. Einhvern veginn hefur útgáfan borið gæfu til þess að hafa aðgang að fólki sem hefur nægan áhuga til að nota heilmikilnn tíma til að vinna blaðið. 
Í þessu felst einnig ákveðin hætta, sem virðist ekki fara minnkandi: dvínandi ungmennafélagsandi í samfélaginu, með spurningunni: Hversvegna ætti ég að vera að eyða dýrmætum tíma mínum og leggja jafnvel í nokkurn kostnað, við eitthvað sem ég fæ ekki greitt fyrir?  Verða það mögulega örlög blaðsins að deyja út með starfsfólki sem smátt og smátt eldist út úr því?  Hingað til hefur tekist að fá inn nýtt fólk til að viðhalda ákveðnum ferskleika og ná þannig til nýrra kynslóða. Það er nefnilega svo, að samfélagið hefur breyst mikið á þessum fjórum áratugum og því hefur þurft að svara.

2. Tryggir áskrifendur. Það hefur verið gæfa þessa blaðs að fólk hefur nánast talið sér skylt að vera áskrifendur að því og hefur áttað sig á mikilvægi þess sem tækis til að safna saman upplýsingum og frásögnum um það sem var og spegla samfélagið eins og það er nú. 
Það er  náttúrulögmál, sem veldur því, að tryggir áskrifendur týna smátt og smátt tölunni og það segir sig sjálft, að þá þarf að ná í nýja í staðinn. Það er engin trygging fyrir því að þeir nýju verið jafn traustur áskrifendahópur. Það er ein þeirra breytinga sem takast þarf á við í útgáfunni. Annar mikilvægur þáttur sem huga þarf að, er að samsetning samfélagsins sem blaðið þarf að höfða til er orðin talsvert breytt frá 1980. 

Mér finnst, að til þess að Litli Bergþór nái að lifa til ársins 2030, þurfi að leggja áherslu á tvennt, fyrst og fremst:
1. Að  ritstjórn blaðsins bætist nýtt og ferskt fólk, sem getur tekið við keflinu í fyllingu tímans. Ég þykist viss um að slíkt fólk er að finna í Biskupstungum nútímans. 
2. Að blaðið endurspegli það samfélag sem því er ætlað að höfða til, en lokist ekki um of inni í einhverjum afmörkuðum kima. Á undanförnum árum hafa verið stigin skref sem hefur verið ætlað að ná til breiðari hóps, ekki síst yngri kynslóða og það hefur tekist hreint bærilega. Áskorunin er að viðhalda áhuganum. 

----------------
Ég er nú að skrifa þetta í tilefni af því að til mín var leitað um að koma til liðs við ritstjórnina aftur, að einhverju leyti. Ég þáði þetta boð og er bara nokkuð stoltur af að vera treyst til þess arna. En - sko, ég er að nálgast sjötugt, sem telst nú varla besti aldur á nýju ritstjórnarfólki. Þar fyrir utan er ég fluttur burt af svæðinu og finnst þar af leiðandi vandasamt að fara að blanda mér of mikið í málefni þess. Ég hef nóg af skoðunum á því, en mögulega eiga þær betur heima annarsstaðar. 
Þetta breytir því ekki, að mér finnst að Litli Bergþór eigi mikið erindi til Tungnamanna á öllum aldri, ef rétt er haldið á spilunum. 
Megi hann lengi þrífast, karlinn.

31 október, 2022

Ljósahátíð í Laugarási

Í dag klukkan 17 verða ljósin á Hvítárbrú hjá Iðu tendruð enn á ný. Ég fór að velta fyrir mér ártölum í því sambandi og þá kom Facebook að góðum notum. 

"Upphafið að þessu verkefni var árið 1998 á verkstæðinu á Iðu. Það hafa ætíð svo margir fleiri einstaklingar báðum megin árinnar komið að þessu verkefni.."  

sagði  Elinborg Sigurðardóttir á Iðu í viðbrögðum við umræðum sem sköpuðust eftir að Jakob Narfi Hjaltason setti þetta þarna inn, þann 12 desember 2016, en þau voru svona:

Þarna hafði smám saman fjarað undan þessu verkefni og ég treysti mér ekki til að lýsa því hvernig það gerðist, en það skiptir kannski ekki máli úr því sem komið er. Allavega veit annað fólk meira um það en ég.

Þessi færsla Jakobs hreyfði við fólki og það þarf ekki að orðlengja um það, að það var drifið í að kaupa perur og koma ljósunum á brúna, en það var gert þann 17. desember. Til þess að standa straum af kostnaði við peruskiptin var leitað til félaga, fyrirtækja og stofnana, auk þess sem opnaður var reikningur þar sem fólk gat lagt til fé til styrktar þessu málefni.

Síðan hefur tekist að halda verkefninu við, þó óhjákvæmilegur kostnaður falli til, vegna þess að það þarf að skipta út ónýtum perum og koma ljósakeðjunni upp og síðan taka hana niður. 

Ég held að það sé á engan hallað, þegar ég nefni Jakob Narfa Hjaltason til sögunnar, sem þann sem hefur borið hitann og þungann af þessu afar skemmtilega verkefni. Fleiri hafa sannarlega komið við sögu, í mismiklum mæli, en ég treysti mér ekki til að fara að tína allt það fólk til. 

Nú er greinilega búið að auka í, með því Hagsmunafélag Laugaráss og Menningarmálanefnd sveitarfélagsins ásamt fólkinu í Slakka, koma nú að málinu, til að gera meira úr tendrun brúarljósanna. Það er blásið til Ljósahátíðar í Lauugarási.
 Þetta finnst mér fagnaðarefni. 


04 október, 2022

Helga Ágústsdóttir, hirðkveðill - minning

Það vantaði prófíl mynd á facebook
og ég reddaði því
Þegar samferðafólkið um þessa lífsgöngu fer að tína tölunni smátt og smátt og oft óvænt, finnur maður fyrir veruleika endanleikans. Við verðum að sætta okkur við að hann sé fyrir hendi og kannski er það líka eins gott. Ekki veit ég um margt fólk sem væri tilbúið að lifa að eilífu, svo sem. 

Sumt samferðafólksins er manni samferða ungann úr ævinni, en annað kemur við, kannski í nokkur ár, og hverfur síðan einhvernveginn, jafnvel óvart. Maður veit samt að þetta fólk er þarna einhversstaðar, þó stundum komi það fyrir að maður veit ekki hvort það er lífs eða liðið. 

Helga kom eins og vindsveipur, eða jafnvel ferskur blær, inn í Skálholtskórinn og settist að í altinum. Við vissum lítið um þessa konu annað en að hún hafði ráðið sig til kennslustarfa í Reykholti. Með tíð og tíma varð með okkur ágætur vinskapur og ekki skemmdi það fyrir, að skopskyn hennar og sýn á uppeldis- og kennslumál var ekki ólík mínum.  


Ekki get ég sagt, að Helga hafi algerlega smollið inn í samfélag okkar sveitafólksins. Það var yfir henni einhver heimsmennska, jafnvel ákveðin, óútskýranleg tign, stundum með keim af ofurlitlu "dassi" af yfirlæti, en bara á yfirborðinu. Hún var sannur húmanisti og þar held ég að kjarninn hafi verið.
Ætli sé ekki best að ég sleppi því að greina hana eitthvað frekar, hún var flóknari en svo.

Helga barðist lengi við ótrúlega erfiðan sjálfsofnæmissjúkdóm, lúpus, sem ég geri ráð fyrir að hafi, á endanum, borið hana ofurliði. Hún naut sín best þegar skuggsýnt var, eða innandyra. Í kórferðum, í  sólarlandasólskini þurfti hún að hylja líkamann frá hvirfli til ilja vegna þessa sjúkdóms, sólarljósið var einn hennar versti óvinur. Hún tók þessari þungu byrði af aðdáunarverðu æðruleysi. 

Í kórferðum á erlendri grund, eins og þeim sem Skálholtskórinn fór nokkrum sinnum, þegar Hilmar Örn var sjórnandi kórsins og Hófí, þáverandi kona hans, fararstjóri, naut Helga sín vel, nema kannski þegar sólin skein í heiði. sem var nú reyndar oftar en ekki. 

Ég hef átt það til að skrifa blogg hér um árabil um aðskiljanlegustu efni. Þar birtist Helga oft með athugasemdir í bundnu máli og gaf sjálfri sér þar höfundarnafnið "Hirðkveðill". Mér fannst þetta alltaf einkar skemmtilegt, enda á ferðinni talandi kveðskaparsnillingur. Mér finnst betur hæfa að gefa bara hirðkveðlinum Helgu (sem ég kallaði yfirleitt fH) orðið, en að ég haldi áfram að lemja hér inn orð frá sjálfum mér. Ég veit ekkert hvort hún myndi kunna mér þakkir fyrir það, en ætli hún fari nokkuð að mótmæla? (húmor í anda fH)




Einu sinni sem oftar, var ég að fjalla um uppeldismál í bloggskrifum og þá kom þetta:

Ég á rétt á öllu nýju
öllu dóti sem ég vil
gleði með og glotti hlýju
er giska næs að vera til.
Ég fæ bíl og bráðum jeppa
best að lát' ei pakkið sleppa
við að halda mér til vegs
- þau vinna bara - sex til sex.

Með Skálholtskórnum á Ítalíu -
Þarna í Rómaborg með margréti Oddsdóttur
að borðfélaga

Hirðkveðill skyggnist um í hugarheimi ofalins ungmennis

Ljúfur piltur, lítil táta
liggja nú og auðsæld gráta,
allt er horfið engin jól
ekkert fæst nú bankaskjól,
fyrir vindum vondum, köldum
- veltast þau í skuldaöldum.
***

Einhvern veginn urðum við
öll að læra á þennan sið:
"gefðu ekki um getu fram"
ger þeim borga - já og skamm
ef þau heimta meir' og meir'
minnstu þess að fleir' og fleir'
hörðum nýtist heimi í
heldren fjármagns bríarí!

Með Skálholtskórnum í heimsókn hjá páfa.

Heiðarleiki og hlýja tær
helst hér mætti vera nær
vinafesti og verndarhönd
velgjörningar, tryggðabönd
ástúðleikans orðin hlý
eignist hérna sess á ný
gleði frjó án græsku og fals
gróa fái á braut hvers manns!

Hirðkveðill predikar um mannleg gildi :-)


Hér hafði dauðdagi Osama bin Laden verið til umræðu í bloggi: 

Svo þarf ég að vita hvar þær reglur er að finna að íslamstrúarfólki skuli varpað í sæ? Það hlýtur nú að vera býsna erfitt, víða hvað þeir búa.

EN:
Aflífaður, elskan var'ann,
ósköp veit ég lítt um það
felldur, deyddur, féll í þarann
fleygt var loks í sjávarbað.

Deyddur kannski og du'ltið meira
drepinn, banað, sálgað, eytt?
Veginn líka - upp að eyra?
Enginn segja vill mér neitt.

Hirðkveðill finnur enga lausn á hvaða orð eiga við um dauða O.B.L.

Hér reyndi ég að sjá fyrir mér að Laugarásjörðin yrði mögulega seld Kínverjum: 


Hótel sé við himin bera
hugsa: "hvar skal það nú vera?"
Létt var rætt um Laugarás,
líst að þar sé haft á bás.
*****************************

Kvistholtshlaðið kínverskt nú,
hvar er sá er reisti bú
sér og börnum sínum þar?
Sjá!-hann fékk nýtt líf, - en hvar?

Gætir húss með geðþekkt fas,
gerir hreint og slær þar gras,
fetar um og fægir húna
finnst þó lífið tómlegt núna.

"Hvar er allt sem áður var?
Ei mér gagnast peningar,
fyrst mitt Kvistholt kært en lúið
komið er und mold - og búið" :(


Hirðkveðill hugleiðir mögulega líðan fólks eftir landsölu.

Heimsókn músar í Kvistholt var eitt  sinn umræðuefni:


Ekki gáð'ann elskan þessi
að þeim, litlu músunum.
Allt eins þó að ein sig hvessi
er allt vill dautt hjá húsunum.
Engan frið og enga sátt
er að fá úr þeirri átt.

Hirðkveðill Kvistholts kveður um Kvistholtsmorðin- væntanlegu.

Einn pistillinn fjallaði um haustið

Annað prósaljóð að hausti.

Og haustið flaug á móti mér
eins og velhaldinn fugl eftir sumar
sem er þegar horfið á braut.

Hann var svolítið kuldalegur
og ætlar að fara.

Veit ekki hver hún er, í kórbúðum
á Nesjavöllum
Haustið kemur, hreta fer
heyrið trén nú skjálfa
Úlpu vef ég upp að mér
er með húfubjálfa.


Gjört af ljúfu hjarta og hógværu
hirðkveðill Kvistholts ;)

--------------------------------------------

Ætli ég láti þetta ekki duga sem dæmi um viðbrögð fH (Helgu) við  skrifum mínum, en fyrir hennar framlag þar, sem vel getur verið að ég taki saman í ljóðabók þegar tímar líða, er ég afar þakklátur og finnst upphefð að. 

Við Kvisthyltingar erum þakklát fyrir að Helga  skuli hafa, með ýmsum hætti, snert líf okkar undanfarna tvo áratugi eða svo. 

Helga lést á fæðingardegi föður míns, þann 29. september, síðastliðinn.

Myndirnar sem ég læt fylgja, voru teknar við ýmis tækifæri þar sem Skálholtskórinn undi sér við leik og störf.

20 september, 2022

Ein(n) heima

Fólkið á myndinni er sannarlega sprækt,
en óþekkt að öðru leyti.
Ég fæ það stöðugt á tilfinninguna, að fólks, sem hefur yfirgefið vinnumarkaðinn vegna aldurs, bíði það að vera heima hjá sér eins lengi og heilsan leyfir, en flytjast síðan á hjúkrunarheimili, lifi það svo lengi. 
Auðvitað er eldra fólkið ekki einsleitt frekar en annað fólk og býr við afskaplega ólíkar aðstæður. 
Það er einn hópur, sem mér finnst ekki fjallað mikið um, nánast eins og hann sé ekki til, en það er fólkið sem býr eitt í húsinu sínu (jafnvel vel stóru), eða íbúðinni, eftir makamissi, eða af öðrum ástæðum.  Þetta er oft(ast) fullfrískt fólk, sem getur sjálft séð fyrir eigin þörfum hvort sem þær snúa að skrokknum eða því sem fram fer í höfðinu.  Þetta fólk býr í sveit, bæ eða borg. Sumt þessa fólks nýtur bara einverunnar og er sjálfu sér nægt, á fullu að sinna áhugamálum sinum. Í þessum hópi er líka fólk, sem hefur fátt við að vera, nema kannski reyna að elda ofan í sig, þrífa húsið og horfa á sjónvarpið. 

HEILBRIGÐ SÁL Í HRAUSTUM LÍKAMA/MENS SANA IN CORPORE SANO  
Mér er til efs, að sú stefna stjórnvalda, að fólk sé heima hjá sér og fái þar, það sem kallar er "heimaþjónusta", sé endilega svo stórkostleg.
Heimaþjónusta og heimahjúkrun fyrir þá sem dvelja heima
Öldruðum skal gert kleift að lifa eðlilegu heimilislífi eins lengi og kostur er með því að bjóða þeim ýmis konar stuðning og þjónustu. Annars vegar er um að ræða félagslega heimaþjónustu og hins vegar heimahjúkrun.
Félagsleg heimaþjónusta
Markmiðið með félagslegri heimaþjónustu er að aðstoða þá sem geta ekki hjálparlaust annast dagleg heimilisstörf. Þjónustan getur verið tímabundin eða til lengri tíma eftir aðstæðum.
Óski einstaklingur eftir heimaþjónustu á hann að snúa sér til velferðar-/félagsþjónustu síns sveitarfélags. Umsóknareyðublöð eru á vefjum margra sveitarfélaga.

Misjafnt er eftir sveitarfélögum hvers konar heimaþjónusta er veitt en hún getur verið:
  • almenn heimilishjálp,
  • félagsráðgjöf,
  • heimsending matar,
  • heimsókn og samvera svo sem gönguferðir, lestur dagblaða og fleira,
  • yfirseta í veikindum,
  • garðvinna og snjómokstur,
  • persónuleg umhirða sem ekki er í verkahring heimahjúkrunar og
  • akstur.
Gjald fyrir heimaþjónustu fer eftir gjaldskrá hvers sveitarfélags.
Þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en ellilífeyrisgreiðslur almannatrygginga fá heimaþjónustu sér að kostnaðarlausu.

Allt er þetta gott og blessað, en, er mögulega munur á því sem fram kemur í lögum, reglugerðum eða leiðbeiningum og því hvernig orðunum er fylgt eftir?  Þarna stendur að þjónustan sé misjöfn eftir sveitarfélögum, sem þýðir að þau geta stjórnað því sjálf hvað þjónusta er veitt og hvenær. Þar er líklegast unnið eftir einhverjum verklagsreglum. Hvert sveitarfélag áætlar tiltekna upphæð til málaflokksins og því þarf að koma til mat á því hvort, eða við hvaða aðstæður, einstaklingur á rétt á þjónustu. SÞað er væntanlega sveitarfélagið sem ákveður hver mörkin eru og þau geta verið misjöfn. 

Svo ég víki nú aftur að þeim hópi fólks sem býr eitt, en getur alveg séð um sig og fyrir sér sjálft. Þetta er kannski fólk sem er rétt skriðið á áttræðisaldurinn. 

Hvaða þjónustu veita sveitarfélögin þessu fólki? Mig grunar að hún sé nú ekki stórfengleg og allavega ekki af því tagi sem uppfyllir andlegar þarfir að neinu umtalsverðu leyti.  Þetta fólk getur þrifið íbúðina, sjálft sig, þvegið af sér og skellt í þurrkarann, farið í búð, eldað ofan í sig og kveikt á sjónvarpinu án þess að ruglast á tökkum.  Að þessu leyti þarf svona fólk ekki aðstoð frá samfélaginu og kannski bara enga aðstoð, sem ég að held nú allajafna  raunin.

Það blasir við, að mikilvægur þáttur virðist verða útundan.

Mannskepnan er félagsvera og nærist á samskiptum við annað fólk.  Mér virðist blasa við, að með ofuáherslu á að fólk dvelji heima hjá sér eins lengi og kostur er, sé verið að auka hættuna á félagslegri einangrun. 
Sannarlega er það bara einfaldast að vera bara heima, í sínu. Svo líða dagarnir, vikurnar og mánuðirnir og áður en við er litið er skorturinn á félagslegum samskiptum farinn að hafa áhrif á líkamlega líðan og einstaklingur á á hættu að þurfa að fara á hjúkrunarheimili fyrr en ella hefði verið, með meiri kostnaði fyrir samfélagið.
Ég gleymi því seint, þegar ég fékk skammir frá félagsþjónustu fyrir að sækja um á dvalarheimili fyrir níræðan föður minn, þar sem hann taldist ekki vera nógu veikburða og hjálparlaus. Þarna voru forsendurnar fyrir dvalarplássi bara settar nógu hátt til að hægt væri að útiloka annað fólk en það, sem var orðið algerlega bjargarlaust.  Gamli maðurinn gat bjargast sjálfur heima, gat fengið sendan heim mat, gat fengið þrif á stærðar einbýlishúsinu, gat fengið aðstoð við böðun, en lítið af þeirri andlegu örvun, sem væri líkleg til að stuðla að því að hann ætti kost á að njóta lífsins sem lengst. 

Jæja, þá er ég kominn að tilganginum með þessum vaðli:

Það vantar inn í alla þessa umræðu, finnst mér, áherslu á að eldra fólk eigi kost á að njóta þess að eiga í félagslegum samskiptum eins lengi og kostur er. Ég er alveg sannfærður um, að með möguleikanum á því, myndi þörfin fyrir stöðugt fleiri og flottari hjúkrunarheimili minnka, en vissulega verða þau að vera fyrir hendi. 

Ég veit, að víða er að finna nokkur pláss, þar sem fólk hefur tækifæri til þess arna, en þeim þarf að fjölga og með því ynnist ýmislegt.
Það þarf að byggja, eða stofna nokkurskonar sambýli með litlum íbúðum, þar sem væri eldhúskrókur og snyrting fyrir einstaklinga og einnig litlar íbúðir fyrir hjón eða pör. Þessar íbúðir væru seldar eða leigðar. Fyrir utan íbúðirnar, í sama klasa, væri síðan að finna matsal/mötuneyti og ýmisskonar félagsaðstöðu: setustofur, kaffistofu, íþróttasal og annað það sem ætla má að hvetji til félagslegra samskipta og líkamlegrar hreysti. Heilbrigð sál í hraustum líkama og allt það.
Fólkið sem þarna ætti eða leigði íbúð væri fært um að sjá um sig sjálft. Það gæti valið að eyða tímanum í eigin íbúð, en síðan tekið þátt í því sem í boði væri fyrir utan. Þarna myndi fólk lifa sínu sjálfstæða lífi, væri kannski með bíl og færi allra sinna ferða, í bíó eða tónleika, eða hvaðeina. 

Svona sambýli myndi hugsanlega ekki henta stórum hluta fólks, en mig grunar að margir sem nú búa einir, myndu taka svona valkosti opnum örmum (ætli það hafi verið kannað, hve stórum hópi þessa myndi henta?). Með því myndu losna íbúðarhús, sem nýttust betur barnafjölskyldum en einstaklingum.

Ég vonaði um tíma, að nýja, glæsilega, hringlaga byggingin, sem hefur hlotið nafnið Móberg, yrði af þeim toga sem ég er hér búinn að lýsa, en þar verður um að ræða hjúkrunarheimili.  

-----------------------------

"Jæja, er hann nú orðinn gamall, karlinn?", kann einhver að spyrja, hátt eða í hljóði (ég get séð nokkra fyrir mér), við þennan lestur.  Svar mitt við slíkri spurningu er einfalt. 

"Það styttist í að ég nái sjötugu, rétt er það, og framundan eru vonandi fleiri ár, sem ég myndi vilja njóta sem best.
Hinsvegar er ég sjálfur ekki kveikjan að þessum pælingum, heldur fólk sem ég hef aðeins kynnst frá því við fluttum hingað á Selfoss. Þar á meðal er fólk, eins og ég lýsti hér fyrir ofan, fólk sem langar að hafa eitthvað fyrir stafni, annað en sitja fyrir framan sjónvarpið, eða prjóna sokka á barnabarnabörnin.  Jafnvel hef ég heyrt um fólk, sem keypti sér bangsa til að hafa einhvern til að tala við á matmálstímum, til að búa til ástæðu til að matbúa, yfirleitt."

Það, sem sagt, vantar meiri áherslu á þrepið milli heimilisins og hjúkrunarheimilisins. Þannig er það.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...