28 nóvember, 2010

Enn um þessa þjóð.

Ég mun hafa látið frá mér fara yfirlýsingu fyrir nokkru um að það væri borin von að ég færi að taka þátt í nýafstöðnum kosningum. Það var nú bara yfirlýsing. Auðvitað settist ég niður og fór í gegnum frambjóðendahópinn fram og til baka, út frá ýmsum forsendum og fann loks 21 stykki sem ég taldi að myndu sinna verki sínu á stjórnlagaþingi í samræmi við það sem ég vil sjá gerast þar.  Sannarlega skorti talsvert á að ég nennti að standa í þessu, en ég stóð frammi fyrir þeirri grundvallarskoðun minni, að rétturinn til að kjósa sé nánast helgur réttur sem manni ber að nýta sér. Manni finnst hann reyndar oftast vera til lítils, en ef hann væri ekki til staðar væri samfélagið með öðrum hætti. Það er, í mínum huga lítilsvirðing við þau forréttindi sem við njótum og sem eru hreint ekki sjálfgefin.

Þátttaka í þessum kosningum var slök. Ég hef mína skoðun á ástæðum þess. Sú skoðun er örugglega ekki allra. Sé hún rétt, er ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur. Telji menn það sem ég ætla að bera á borð, bera vott um hroka af minni hálfu, þá verður bara svo að vera, enda er það sjálfsagt rétt.

Það er hreint ekki af ástæðulausu sem fjölmiðlar eru kallaðir fjórða valdið. Í gegnum þá mótast skoðanir stórs hluta þjóðarinnar. Þar fáum við myndir að ýmsum hliðum þjóðlífsins og þeir geta auðveldlega, með  því að matreiða fréttir með tilteknum hætti, plantað skoðunum í höfuð fólks. Þetta gera þeir. Þetta vita stjórnmálamenn. Það er bara mannlegt að líta upp þegar maður heyrir hávaða. Maður lítur þangað sem hávaðinn er mestur. Skilboðin í hávaðanum þurfa að vera einföld. Þannig hefur hávaðinn, sem verður til við sprengingu, meiri áhrif en umferðarniður af sama styrkleika. Það þarf að vera sensasjón.

Þetta tel ég vera aðra meginástæðu þess, að þessi stóri hluti þjóðarinnar kaus ekki í gær. Hann heyrði, jú, umferðarniðinn, en fannst erfitt að staðsetja hann. Með öðrum orðum, það kom enginn beinlínis fram og sagði fólkinu hvernig kjósa skyldi. Bara hvort menn ættu að kjósa eða ekki. Það komu sannarlega fram skilaboð frá ákveðnum stjórnmálaöflum um það, að svona kosningar væru tilgangslausar. 

Hin meginástæðan er jafnvel alvarlegri. Þjóðin vill hafa skýrt val þannig að hún geti merkt við með krossi í stað þess að þurfa að fara skrifa aðra stafi á kjörseðilinn. Maður á ekki að þurfa að kunna neitt annað en X til að geta kosið. Hitt er hreinlega og flókið fyrir hinn "ópólitíska" hluta þjóðarinnar (Ég veit alltaf hvernig sá kýs sem segist vera ópólitískur). Í stað þess að viðurkenna bara að þetta sé flókið, og þannig afhjúpa leti sína eða þekkingarskort og skilningsleysi (jafnvel h-----u), hrópa menn:"Þetta er þvílíkt bull og vitleysa! Mér dettur ekki í hug að taka þátt í því!"

Ég held að það séu talvert mikil mistök að ætla sér að fara að fjölga þjóðratkvæðagreiðslum um hin og þessi málefni. Niðurstaða slíkra atkvæðagreiðslna mun ráðast af hávaðanum í fjölmiðlum. Hinum einfölduðu skilaboðum. 

Það stefnir í, að þjóðin greiði atkvæði um inngöngu í ESB á næstu árum. Hvernig væri nú að gera það að skilyrði fyrir þátttöku í slíkri atkvæðagreiðslu, að menn hefðu staðist próf í innihaldi samningsins. Hver ætli þátttaka í þeim kosningum yrði?

22 nóvember, 2010

Eigi er þetta til eftirbreytni

Það var dálítið óvenjulegt veður sem beið manns í morgun á þessum slóðum. Frostið var svona 7-8° í stillunni. Það er alveg hægt, svo seinnipartinn að klæða svona veðurfar í einhver rómatísk orð, þannig að maður sjái fyrir sér ævintýraheim, þar sem það skíðlogar í arni og rjúkandi heitt kakóið bíður manns þegar maður kemur heim eftir að vera búinn að skokka 10 kílómetrana sína, rjóður í kinnum með fullnægjuglampa í augum.

Það er sannarlega hægt að taka þennan pól í hæðina við þessar aðstæður - það er líka hægt að taka annan.

Svefndrukkinn staulast maður fram í eldhús og gjóar augunum á hitamælinn eftir að vera búinn að koma gleraugunum á nefið. Það er 8° frost úti. Fyrsti hluti dagsins ónýtur, þar sem maður veit hvað bíður. Fyrir utan stendur jepplingurinn/slyddujeppinn/jepplíkið hulið hnausþykku hrími. Það sést meira að segja á áferðinni að þarna er um að ræða það sem ég kalla "seigt hrím". Seigt hrím er þannig, að þegar maður reynir að skafa það af er eins og það vilji frekar klístrast á rúðuna en bara fara einfaldlega og áreynslulaust af.  Þeir einir skilja mig um þetta sem reynt hafa.
Þetta varpar ljósi á hugrenningar meðan neytt er lágmarks morgunverðar. Framundan er að koma sér 25 km leið í vinnuna, eftir að hafa skafið af rúðum eins og vera ber.

Það er víst ekkert val um að koma sér af stað. Út í froststilluna liggur leið, engin vandamál með að opna bíldyrnar, þreifað inn eftir skárri sköfunni, sem ekki finnst. Skafa er nefnilega ekki sama og skafa. Það er ekki um annað að ræða en grípa þá lélegu, slitnu, sem margoft hefur mistekist að sinna hlutverki sínu. Sköfunni er beitt á framrúðuna, en það er varla að far sjáist í frosthjúpinn seiga. Auðvitað gengur það ekki að láta við svo búið standa. Það verður að skafa meira og reyna fleiri aðfallshorn. Smám saman fer að glitta í gler, en það sést fyrst og fremst á því, að það myndast smám saman dökkur flötur. Þegar loksins er búið að búa til 10-15 cm op sem hægt er að sjá í gegnum og tíminn líður og klukkan tifar, er tekin sú afdráttarlausa ákvörðun að láta staðar numið. Óorðaðar forsendur ákvörðunarinnar eru þær að framundan sé akstur eftir vegi sem ekinn hefur verið kvölds og morgna síðan 1986. Hvað ætti svo sem að koma á óvart? Þar fyrir utan er nánast engin umferð á þessum tíma dags. Hver ætti svo sem að fara að leggja það á sig að skafa bílinn sinn nema tilneyddur?
Af stað.
Bakkað eftir minni. Ekki möguleiki að neitt óvænt sé þar fyrir, enda reynist það svo vera. Þegar komið er niður á veg er sagt sem svo, að maður hljóti að sjá bílljós gegnum hrímið á hliðarrúðunum, en samt mjakar maður sér fremur varlega inn á veginn til að gefa hugsanlegum, aðvífandi vegfarendum færi á að forða sér. Þá tekur við beinn vegur sem sést í gegnum gatið í framrúðunni, svona sæmilega fyrst, en síðan minna og minna. Það er nefnilega eðli hríms að byrja að myndast aftur meðan óbreytt hitastig er fyrir hendi. Þetta sleppur þó til. Eftir 5 km er hitablásturinn kominn í plús og smám saman léttist sýn í gegnum gatið. Á gatnamótum við Brúará þarf aftur að taka áhættuna á að aka inn á veg án þess að vita 
af fullkomnu öryggi hvað bíður. Eftir það er þetta ekkert mál. 

Auðvitað á maður ekki einu sinni að ýja að því að svona hagi maður sér, ábyrgur maðurinn. Á hinn bóginn er á það að líta, að eðli mannsins er að leita leiða til að velja hina einföldu leið að marki sínu svo lengi sem hann kemst upp með það. Þetta er dálítið eins og nemandinn sem sparar sér vinnu við heimaverkefnið og stelur verkefni samnemanda sín og skilar sem sínu, í trausti þess að kennarinn fatti það ekki. Ef hann kemst upp með það, þá er það bara fínt. Ef ekki? Den tid den sorg.

16 nóvember, 2010

Borin von

Það hljómaði hreint ekki illa þegar fólki var gefinn kostur á að bjóða sig fram til stjórnlagaþings, algerlega á eigin forsendum. Það þurfti bara að safna nokkrum meðmælendum, skrifa einhver falleg orð um sjálfan sig og bíða svo rólegur í þeirri von að nægilega margir heilluðust af andlitinu á manni eða fallegu orðunum, til að maður næði kjöri. Jú, maður mátti eyða tveim milljónum að hámarki í kynningu á sjálfum sér (þar með væntanlega margir ófærir).

Mér barst í gær 'kynningarbæklingurinn' sem allir þekkja væntanlega. Ég flétti honum, æ hraðar eftir því sem blaðsíðunum fjölgaði. Fullt af andlitum og nöfnum og gráðum og störfum og stefnumálum. Stefnumálin var það fyrsta sem ég hætti að nenna að lesa, síðan gráðurnar og störfin og loks nöfnin. Eftir sátu myndirnar. 

'Já, þessi er frægur, þennan hef ég séð áður, þessi var með mér í skóla, þessi var nemandi minn, þessi var með mér í pólitík, þessi.......'

Eftir hálftíma flettingu lét ég gott heita og hugsaði með mér, að ef ég á annað borð ætla mér að sinna þessu kjöri til stjórnlagaþings, þá verði ég að móta mér einhverja stefnu í málinu. Ég var búinn að heyra af því að eitt vefdagblaðið gæfi manni kost á því að komast að því, með því að svara einhverjum slatta af spurningum, hvar væri helst að finna samhljóm milli skoðana manns og frambjóðenda. Ég skellti mér í að svara spurningunum. Þegar því var lokið birtist mér listi af fólki sem komst næst skoðunum mínum, enginn var þó nær en 83%.
Mér varð það á að hugsa hvort frambjóðendurnir hafi, í öllum tilvikum verið alveg vissir um hvernig þeir ættu að svara einstaka spurningum. Voru þeir t.d. alltaf með það á hreinu hvort þeir væru frekar vissir, eða alveg vissir. Hvað áhrif gat það haft á samsvörunina?
Þá varð mér það á að hugsa hversu mikið málafylgjufólk þarna væri um að ræða. Getur maður ekki reiknað með því, að þeir sem fara þarna inn, í hóp sem hefur ekkert skilgreint bakland, þurfi að vera talsvert ákveðnir og fylgnir sér? Verða það ekki bara allir lögfræðingarnir sem leggja línurnar?

Ég er kannski óþarflega svartsýnn á þetta, en eins og staðan er nú, get ég með engu móti sannfært sjálfan mig um, að það sé einhver skynsemi fólgin í því af minni hálfu að taka þarna þátt - það vil ég ekki gera nema vita hvað þessir einstaklingar standa fyrir - ekki hvort þeir eru lögfræðingar eða prestar, heldur hverskonar manneskjur þeir eru. Ég sé ekki fram á að ég hafi tíma, nennu eða tækifæri til að kynna mér það að einhverju marki.

Einhvern veginn grunar mig að ég sé ekki einn um að hugsa eftir þessum brautum. Ég held, í ljósi þess sem ég hef áður sagt um þjóð mína, að þarna setjist inn andlitin sem allir þekkja. Það endar alltaf þannig.

Kannski skipti ég um skoðun þegar nær líður.

13 nóvember, 2010

Jólamaturinn - prósaljóð


Ég er bara að njóta dagsins með félögum mínum.
Lenti í því morgun að verða vitni að því þegar frændi minn var skotinn.
Ég held að ég hafi ekki vit til þess að vera að velta mér mikið upp úr því.
Það voru einhverjir menn að þvælast þarna uppi á Laugarvatnsfjalli, klæddir í felubúninga, væntalega til að við sæjum þá ekki.
Auðvitað reyndum við að komast í burt þegar þeir nálguðust okkur.
Það er nú bara í eðli okkar.
Við erum nefnilega ekki eins og frændfólk okkar, sem maðurinn geymir í búrum og notar eins og hverja aðra þræla.
Við erum frjáls, en mennina langar samt að ná okkur og nota.
Þeir virðast vera svolítið skrýtnir.
Þegar við fundum skotin þjóta framhjá okkur hvað eftir annað í morgun, ákváðum við bara að fara eitthvað annað.
Við vorum þarna eitthvað um 30 saman í hóp og ætli við höfum ekki verið svona 14 sem flugum af stað í austurátt, hin lágu alblóðug á jörðinni - sum ennþá með lífsmarki.

Þegar við vorum búin að  fljúga í svona 10 mínútur sáum við trjálund.
Þarna var einnig hús, ljóst á litinn með brúnu þaki.
Við renndum okkur þar niður því við sáum enga byssumenn neins staðar í nágrenninu.
Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir rétt við húsið kom reyndar bíll akandi.
Ég ákvað að vera ekkert að fljúga strax af stað, svona til að sjá hvað gerðist.
Þegar bíllinn hægði á sér, í staðinn fyrir að reyna að keyra á mig, vissi ég að þetta yrði allt í lagi.
Það fór fólk úr bílnum og inn í húsið.
Skömmu síðar kom maðurinn út aftur, með eitthvað dökkt í höndinni.
Ég sá strax að þetta var ekki byssa.
Þetta var bara myndavél.
Mér sýndist að það stæði EOS550 framan á henni.
Þetta var í lagi.
Ég ákvað að stilla mér fallega upp hjá nýju sorptunnuskýlinu.
Ég heyrði smelli, aftur og aftur.
Þetta voru góðir smellir.
Ég stóð kyrr á meðan ég heyrði smellina.
Það sama gerðu félagar mínir.
Hér vorum við örugg.
Ég veit að við förum aftur héðan innan skamms.
Upp til fjalla.
Þar sem mennirnir með byssurnar bíða okkar.
Ég veit ekki hversvegna við gerum þetta.
Það er svo sem ekki skrýtið.
Við erum nú einu sinni bara rjúpur.

Frá eyju til eyjar


Allt var fólkið hjálpsamt og vingjarnlegt, veðurfarið ljúft, aðstæður allar hinar þægilegustu, meira að segja á mælikvarða ofdekraðra Vesturlandabúa. Það fór hinsvegar ekki fram hjá manni, að það kraumar undir; það er ýmislegt óuppgert: frá því Tyrkir gerðu innrás 1974 virðist ekki hafa gróið um heilt og ekki varð vart við að reynt væri að dylja andúðina, jafnvel hatrið, á hernáminu.  Skólabörnin tóku meira að segja þátt í að tjá þessi viðhorf. Ef maður horfir á landfræðilega staðsetningu virðist ekkert eðlilegra en að Tyrkir fari með yfirráðin, enda örstutt þangað. Þarna er hinsvegar á bak við saga sem ég treysti mér ekki til að fjalla um. Veit það, að vegna legunnar er ekki við öðru að búast en að ýmsar valdamiklar þjóðir hafi haft áhuga á að ráða þarna ríkjum. 
Eftir frelsisbaráttu kom að því, að yfirráðum Breta lauk, og lýst var yfir sjálfstæði. Það er samt enn ekið á vinstri vegarhelmingi. Það var ekki að sjá á landslaginu að mikið væri ræktað. Aðal atvinnuvegurinn er ferðaþjónusta og mest er flutt inn af þeim vörum sem þarf. Þarna búa um 860000 manns. Mikill fjöldi innflytjenda, að stórum hluta frá fyrrverandi Sovétríkjunum fluttist þangað á ákveðnu tímabili. einhver sagði þá vera um 15% þjóðarinnar.
Það eru ekki nema 240 km loftlína til höfuðborgar Líbanon, sem eitt og sér gefur til kynna, að þarna er heitt í fleiri en einum skilningi.
---------------------------------                                                       

---------------------------------
Ástæða ferðar til Kýpur, er ákvörðun sem við Laugvetningar tókum fyrir tveim árum: að sækja ráðstefnu ESHA (Evrópusamtök skólastjórnenda) í Limassol á Kýpur í nóvember 2010. Þarna fórum við fD áramt 26 skólastjórnendum og mökum í 6 daga ferð til þessarar mögnuðu Miðjarðarhafseyju. Það var flogið héðan til Manchester á Englandi og þaðan var 4 tíma flug til Larnaca flugvallar (með millilendingu, sem ekki var í upphaflegri ferðaáætlun) þar sem beið ríflega 50 km akstur til áfangastaðarins. Þá tók við ráðstefna hjá mér í tvo og hálfan dag þar sem áhersla var á að fjalla um húmaníska nálgun að skólastarfi, en fD gat flatmagað á meðan í blíðunni. Kl 2 að nóttu var síðan lagt af stað til Íslands aftur, með millilendingu og bið á Heathrow í London. Það er aðallega þetta flugstand allt saman sem ég hef að athuga við svona ferðalag - endalaus biða og biðraðir - annað eins gott og á verður kosið.

Undir stjörnuhimni, með tærnar upp í loft.

Á undanförnum mánuðum hef ég heyrt talsvert um það að sjósund séu allra meina bót og hef nú litið að það sem einhverskonar karlagrobb (já, ég sagði það). Það síðasta sem ég heyrði af þessum vettvandi var yfirlýsing þess efnið að það væri ólýsanleg dásemd að liggja á bakinu í 2,4° heitum sjó og horfa á stjörnurnar.
Ástæða þess, hver vel upplýstur ég er um sjósundsiðkun, er fyrst og fremst óskiljanlega ástríðuþrungnar frásagnir frænku minnar, einnar, af þessu fyrirbæri. Það kann að vera, að það hafa hvarflað að mér, við og við, að það gæti nú verið viturlegt af afgreiða fyrirbærið ekki alveg si svona. Það gæti líka verið að ég hafi bara prófað þetta sjálfur: að liggja í sjónum í nóvember og láta öldurnar gæla við kinn.
Já, það skyldi þó aldrei vera..........

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...