29 mars, 2017

Traust

Þessi dagur er staðfesting á því að vantraust mitt og fjölmargra annarra á stofnunum samfélagsins hefur verið og er réttlætanlegt. Einhvers konar staðfesting á því, að alla daga, allan ársins hring dunda einhverjir apakettir sér við það að svindla og svíkja, ekki aðeins hver annan, sem mér er nokk sama um, heldur þessa blessuðu vanmáttugu og bláeygu þjóð; þjóð sem trúir alltaf á ný.

Nafnorðið traust og sagnorðið að treysta eru mikil tískuorð um þessar mundir. Allt á að vera gagnsætt og uppi á borðinu til að skapa traust á hinu og þessu. Þetta er líklegast bara orðagjálfur til þess eins ætlað að freista þess að fá okkur til að treysta svo hægt verði að svína á okkur enn á ný. Ég tel reyndar að verið sé að því alla daga. Orð eru ódýr.

Það er óendanlega eitthvað dapurlegt að búa við það að geta ekki treyst. Það er eiginlega bara niðurdrepandi til lengdar.  Það er eins og ekki fyrirfinnist sú hugsun að við samtímamennirnir eigum að fá að ganga í gegnum lífið í fullvissu þess að við séum að stefna að einhverju svipuðu til að líf okkar allra geti orðið gott líf. En, nei, það eru alltaf einhverjur, sem búa ekki yfir nauðsynlegri siðferðiskennd til að svo megi verða. Það virðist meira að segja vera til hellingur af slíku fólki, fólki sem lifir fyrir það að raka að sér auði og völdum í krafti fjármagns, sérþekkingar eða ættartengsla.

Ég hef ekki sérstaklega mikla trú á því að ég muni lifa það að búa í þjóðfélagi þar sem traust ríkir. Með vaxandi fáfræði fólks (mér þykir leitt að þurfa að segja það) skapast einmitt kjörlendi fyrir þá sem búa yfir hæfileikanum til að sannfæra almúgann um mannkosti sína.

Þessu þurfti ég bara að koma frá mér á þessum degi, þegar 70 ár eru frá því stærsta eldgos 20. aldar hófst.







26 mars, 2017

"Við vorum ekkert hræddar"

Við skelltum okkur á leiksýningu nemenda Menntaskólans að Laugarvatni í Aratungu í gærkvöld, ég og tvær sonardætur: Júlía Freydís (8) og Emilía Ísold (5).  Þær fengu að sitja á fremsta bekk, en ég kom mér fyrir aftast, með EOS-inn í næsta nágrenni við fólkið sem stýrði ljósum, hljóði og tónlist.
Þá er ég búinn að setja upp aðstæðurnar.

Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að setja mig á einhvern hest, sem leiklistargagnrýnanda og geri það ekki heldur hér, en auðvitað tek ég mér það bessaleyfi, að hafa skoðun samt.
Ég fékk fljótlega á tilfinninguna, að leikstjórnini væri mjög fagmannleg, enda vanur maður, Guðjón Sigvaldason, sem sá um þann mikilvæga þátt. Sviðssetningin var öll hin ágætasta.

Það þekkja nú flestir söguna um Konung ljónanna, hann Simba, foreldra hans, vini og þann hættulega heim sem hann fæddist inn í og því fjalla ég ekkert um söguþráðinn.

Hvernig komu ML-ingarnir þessu svo frá sér?
Sonardæturnar og önnur börn sem þarna voru, en þau hafa verið 20-30, voru greinilega þeirrar skoðunar, að  vel væri gert. Hópurinn sat kyrr í sætum sínum allan tímann og lifði sig inn í verkið. Gerði stundum athugasemdir, hló og klappaði.  "Mér fannst Skari, skemmtilegastur og svo var hann líka góður leikari með góða rödd", sagði önnur sonardóttirin í leikdómi sínum. "Stelpuhýenan er góður leikari, hún er svo falleg", sagði hin.  Þær eru búnar rifja upp atriði úr verkinu, hafa jafnvel brostið í sönginn "Hakuna Matata". við og við.

Aparnir voru einstaklega apalegir og hýenurnar fáránlega hýenulegar, gnýirnir gný(s)legir. Jamm, dýrin sem birtust á sviðinu voru bara sérlega dýrsleg.

Það sem ég tók eftir, standandi aftast í salnum, var hver framsögnin var skýr. Það er ekki sjálfgefið á þessum tímum, þegar maður heyrir ungt fólk oft tala álíka skýrt og Gettu betur keppndur í hraðaspurningum.  Svei mér ef ég heyrði ekki hvert orð sem barst frá sviðinu.
Framsögnin var líka afar eðlileg, lifandi og tjáningarrík við hæfi.

Ég gæti alveg farið að fjalla um frammistöðu einstakra leikenda. Ég sé engan tilgang með að fara að reyna að gera þar upp á milli, Langflestir stóðu sig með afbrigðum vel og skólanum er sómi að því að sýna myndina sem þarna birtist af hæfileikaríkum nemendum hans.





Nú skuluð þið, lesendur góðir, drífa ykkur á sýningu í nágrenni við ykkur, en Konungur ljónanna verður sýndur sem hér segir:
Sun. 26 mars kl. 14:00 í Aratungu, Reykholti
Þri. 28. mars kl. 20:00 í Þingborg
Mið. 29. mars kl. 20:00 í Félagsheimili Seltjarnarness
Fös. 31. mars kl. 20:00 í Hvoli, Hvolsvelli
Lau. 1. apríl kl. 16:00 í Hvoli, Hvolsvelli 
Sun. 2. apríl kl. 19:00 í Leikskálum, Vík

Sonardæturnar vilja fara aftur og hyggjast reyna að fá foreldra sína með.



FLEIRI MYNDIR - ef vill

22 mars, 2017

Ekki fyrir "eldri menn"

Ég er búinn að hafa ýmislegt á hornum mér að undanförnu og held því bara áfram, meðan sá gállinn er á mér. 
Það kemur fyrir að ég þurfi að fá mér skyrtu. Mörgum kann að finnast það fremur einföld aðgerð, en reyndin er sú, að þar er að ýmsu að hyggja, og nýjasta reynsla mín af skyrtukaupum er eiginlega dropinn sem fyllir mælinn eða stráið sem hryggbrýtur kameldýrið.

Oftar en ekki kem ég heim með skyrtu sem eð öðruvísi en ég hafði ætlað að kaupa (sumir þróunarsinnar myndu segja VERSLA í stað KAUPA, en ég nota sögnina að kaupa, svo því sé haldið til haga). Ástæður þessa eru yfirleitt, að mér hefur láðst að ganga úr skugga um hvort skyrtan uppfyllti öll þau viðmið sem hafa þarf í huga við kaupin, og þau eru sannarlega nokkur:


1. ERMAR 
Skyrtan á að vera með síðum ermum, ekki síst vegna þess að stutterma skyrtur hafa takmarkaðra notkunargildi, ekki síst á vetrum. Það má alltaf bretta upp ermarnar. Til þess að vita hvort skyrta er síð- eða stutterma þarf að kunna skil á tilteknu táknmáli, sem aðllega felst í því að greina hvort sjá má ermarenda á samanbrotinni skyrtunni í versluninni. Ég hef staðið sjálfan mig að því að sitja uppi með stuttermaskyrtur gegn vilja mínum.

2. SNIР
Í mörg ár hef ég frekar valið að klæðast svokölluðum REGULAR skyrtum í stað þeirra sem kallast SLIM FIT. Meginástæða þess er aukaatriði og ekki til umræðu.
Til þess að vera viss um hvor tegundin er, þarf að leita upplýsinga um það, en slíkar upplýsingar liggja ekki alltaf á lausu (stendur reyndar oftast á pakkningunni, en þarf víst að lesa), augljóslega með þeim afleiðingum að ég hef eignast slatta af SLIM FIT skyrtum, sem síðan enda í fatasöfnunargámi, sem er kannski vel við hæfi.

3. BRJÓSTVASI 
Brjóstvasinn er raunveruleg ástæða þess að ég tjái mig hér og nú.
Brjóstvasinn hefur verið eitt þeirra grundvallarviðmiða sem ég hef notað við skyrtukaup (þegar ég hef munað eftir að ganga úr skugga um það).   Það á engum að þurfa að blandast hugur um mikilvægi þess að hafa möguleika á að setja frá sér hluti, eða jafnvel geyma á aðgengilegum stað á persónu sinni. Þannig er brjóstvasinn nauðsynlegur þegar maður notar penna (þeim fer fækkandi sem nota penna). Hann er nauðynlegur til að geyma símann. Hvar í ósköpunum á að geyma síma ef ekki í brjóstvasanum?  Ég reikna með að margir hafi reynslu af því að nálgst símann sinn í buxnavasa á hámarkhraða á Hellisheiði. Það er hreint umferðaröryggismál og þurfa ekki að reyna að plokka tækið úr buxnavasa við aðstæður þar sem ekkert má útaf bregða.   Loks fer það ekki á milli mála að í ótölulegum tilvikum til viðbótar kemur þessi vasi að einkar góðum notum og má þar nefna þegar geyma þarf pappír af einhverju tagi, t.d. kvittanir. Þá er vasinn afar hentugur við smiðar og nýtist þá til að geyma nagla eða skrúfur.  Svona mætti lengi telja. Mikilvægi  brjóstvasans er, eða ætti að vera, óumdeilt.

Ég þurfti ég að fá mér skyrtu fyrir nokkru. Samviskusamlega fór ég yfir tékklistann: síðar ermar, og "regular", en komst síðan að þvi að það var ekki til nein skyrta með brjóstvasa!  Aðspurður sagði afgreiðslumaðurinn að fjölmargir "eldri menn" hefðu kvartað yfir þessu.  Hann sagðist ekki vita af hverju vasaleysið stafaði. Ekki veit ég það heldur.
Ég gúglaði: einn skyrtuframleiðandinn sagði ástæðuna vera að ef karlmenn væru með eitthvað í brjóstvasa á skyrtu, ylli það því að það sæist bunga á jakkanum. Vitlausari skýringu hef ég nú bara varla lesið.  Þarna er sem sagt sagt, blákalt, að ef þú klæðist skyrtu, þá hlýtur þú að klæðast jakka utan yfir.

Það er kannski tilviljun, en í einhverjum fréttatíma fyrir stuttu var sagt frá tískusýningu þar sem kynntar voru handtöskur fyrir karlmenn.  Já, líklegt er að ég fari að ganga með slíkt. Fyrr særi ég fD til að sauma brjóstvasa a skyrturnar mínar, eða enn betra: geri það bara sjálfur.
Mér finnst þetta, sem sagt, hin mesta hörmung.

Ég get tekið undir það sem hér er sagt um þetta mál:
The breast pocket is under attack. With the rise of the slim fit shirt even Department stores are getting into the act and banishing the breast pocket.
I recognize that the more formal a garment the fewer the pockets. So evening shirts never have a pocket, for example. I also understand the argument that a shirt looks sleeker when not fitted with a breast pocket.Moreover, there is no need to match patterns if the shirt is made from striped or check fabric. Thus, deleting breast pockets can only help the shirt maker’s profit margins.Nonetheless, for most men pockets are important part of our masculine identity. It’s where we carry our stuff. Women have handbags to carry their stuff; we have multiple pockets.
Þetta myndskeið er auglýsing, en samt fyndið:




21 mars, 2017

Ég veit ekki hvert þetta stefnir

(Ef einhver sem þetta les skyldi falla aftur fyrir sig af undrun yfir því að ég geti þetta, miðað við stöðu mála, bendi ég á neðanmálsgrein)*
Verk Ásmundar Sveinssonar eru flest fremur mikilúðleg. Þau hafa ekki orðið til nema vegna þess að það var nóg pláss. Það er ekki nóg pláss í Kvistholti, en ef svo fer sem horfir blasir við bygging á 130 fermetra vinnustofu einhversstaðar í lóðinni.
Þetta byrjaði allt rólega: litlar akrylmyndir, svona 10x10 cm. Þær stækkuðu síðan aðeins eftir því sem tímar liðu.

Það tók við tími flutninga eins og ég hef þegar gert grein fyrir hér. Þarna munaði minnstu að ég yrði settur í þá stöðu að deila vinnuaðstöðu minni með listamanninum, sem þá þegar hafði uppgötvað leirinn sem ákjósanlegt efni til að tjá sig í.

Þar með hófst annar þáttur sögunnar, þátturinn þar sem furðufuglar og ruglur tóku yfir. Þar hafa orðið ýmsar vendingar og ýmislegt orðið til sem ekki verður nefnt með nafni.

Fyrir nokkru hófst síðan þriðji þáttur sögunnar, þáttur RIFfuglanna (risafurðufuglanna). Þeir byrjuðu á blöðrum og pappírsmassa. Látum það nú vera, Með því þessi þáttur hófst, hófst einnig útrásin úr dyngjunni.
"Það er ekkert pláss þarna inni", voru nákvæmlega þau orð sem voru notuð.
Það þarf vart að taka það fram, að blöðrurnar eru umtalsvert stærri en  furðurfuglarnir og þar með var að verða til ný tegund og miklu stærri.  Blöðrurnar voru klæddar pappírsmassa og mótað í kringum þær eins og þurfa þótti.
Þar sem þessum RIFfuglum er ætlað að vera utanhúss lá fljótlega fyrir að ekki dygði pappírsmassinn.
Steypa skyldi það vera og múrblanda var keypt í næstu kaupstaðarferð, ásamt hænsnaneti og festifrauði. Allt var þetta útpælt.

Gott og vel.

Það sem veldur mér áhyggjum er sú staðreynd, að nú er borðstofuborðið undirlagt þessari vinnslu, og þvottahúsinu hefur verið breytt í steypustöð.  Þetta þýðir það, á mannamáli, að þrjár vistarverur í húsinu eru nú orðnar að vinnustofum fD.
Ef að líkum lætur, mun fuglategundin sem um ræðir, ekkert gera nema stækka. Það er ekki ólíklegt að  ZÚMBA-boltinn myndi stoðgrindina í fjórða þætti þessarar sögu.

Ég mun verjast mögulegri innrás í vinnuaðstöðu mína og er því byrjaður að hugsa fram í tímann.

*Ef einhver datt aftur fyrir sig: ég er að skána þó ég eigi talsvert í land enn. 


18 mars, 2017

Um miðjuna á mannslíkamanum

Ef ég væri kominn með heyrnartæki, hefði ég slökkt á þeim. En þó fD sendi stundum frá sér vísbendingar um að ég þurfi, í það minnsta að fara að láta mæla í mér heyrnina, hefur ekki komið til þess enn, og þó svo votti fyrir stöðugu suði, þá heyri ég bara alveg ágætlega. Það skal enginn mótmæla því.
En væri ég kominn með heyrnartæki, hefði ég slökkt á þeim um tíma í gærkvöld.

Við vorum á samkomu, þar sem meirihluti gestanna var á aldrinum 16 ára til tvítugs, en síðan nokkur fjöldi árabilinu frá því um þrítugt og vel fram á áttræðisaldur. Ég tilheyri þessum síðarnefnda hópi.

Þetta var glæsileg samkoma og mikið í hana lagt, allir í sínu fínasta pússi, forréttur, aðalréttur og eftirréttur og allt það.  Þegar haldnar eru vandaðar samkomur af þessu tagi er venjan að fá veislustjóra til að halda utan um dagskrána og fara með gamanmál, eins og sagt var eitt sinn,

Þarna var sem sagt veislustjóri. Kyn hans skiptir ekki máli í þessu samhengi. Hann hélt utan um dagskrána. Hann stóð sig bara nokkuð vel í þeim þætti starfs síns.

Undir rós eða ofan á
Ekki þykist ég ætla að vera sá sem veit allt um hvernig gamanmál veislustjóra eiga að vera. Veit bara hvernig ég vil hafa þau, þannig að mér sé skemmt. Gamanmálin mega gjarnan fara út á jaðar þess sem boðlegt er, þau mega gjarna varpa í hugann myndum sem fá hláturinn til að ískra í manni, þau mega fela í sér einhvern snúning sem fær mann til að skellihlæja vegna þess hve sniðug þau eru, þau mega jafnvel fela í sér orð sem alla jafna eru ekki sögð. Það sem þau eiga að fela í sér er ákveðin hugsun, eitthvað sem búið er að pæla í og setja síðan saman þannig að gaman geti verið að.

Það var þarna sem veislustjórinn kallaði fram þá tilfinningu hjá mér að það væri betra að vera með heyrnartæki, svo ég gæti bara slökkt á þeim. Í staðinn sat ég þarna, sem dæmdur, starði á dúkinn og fitlaði við borðskrautið. Ég hugsaði sem svo, að gamanmálum veislustjórans væri ekki beint að mér og minnihlutanum sem ég tilheyrði og þar með væri þetta í raun ekki mál sem kom mér mikið við. En ég var þarna og gat ekki annað, úr því sem komið var - heyrnartækjalaus.

Hingað til hef ég ekki talið mig vera neina tepru og hef verið tilbúinn í hitt og þetta án þess að fella um það dóma.

Þegar maður les skáldsögu reynir á ímyndunaraflið. Textinn birtist manni og það verða til myndir í höfðinu af persónunum, umhverfinu, samskiptunum og tímanum.  Maður sér kvikmynd í höfðinu, sem rennur í rólegheitum fyrir hugsskotssjónum manns.  Textinn er þarna handa lesandanum og hver og einn túlkar hann á sinn hátt.
Veislustjórinn skildi ekkert eftir fyrir ímyndunaraflið, en birti áheyrendunum nákvæma sýn á allt það sem gerist á miðju mannslíkamans, hvort sem var aftan á þeim hluta líkamans, framan á eða neðan á. og það var það eina sem hann hafði fram að færa sem gamanmál - svona nokkurn veginn.

Hann hefði getað gert þetta svo miklu betur og mér er til efs að gamanmál af þessu tagi sé það sem helst höfðar til ungs fólks. Jú, sannarlega hlógu þau. En fannst þeim þetta fyndið?

17 mars, 2017

Rétturinn til að vera eins og mann langar að vera.

Þessi pistill bendir ótvírætt til þess að ég verði sífellt þjálfaðri í að segja ekki neitt í mörgum orðum, en segja þó margt.
Stundum stend ég mig að því að hafa hug á að segja, bæði á þessu svæði og í töluðu máli, nákvæmlega það sem mér býr í brjósti (sem er nú ekki alltaf birtingarhæft), en ákveð jafnharðan, að það sé sennilega ekki þess virði.
Hvað myndi ég hafa upp úr því annað en heilaga vandlætingu heimsins?
Yrði ég einhverju bættari?
Myndi tjáning mín breyta einhverju umfram það sem nettröllunum tekst að koma til leiðar?
Svo velti ég auðvitað fyrir mér hvort öðrum komi við hvað mér finnst um hitt og þetta?
Svo ekki sé nú nefnd spurningin um það hvort einhver hefur yfirleitt áhuga á að öðlast innsýn í hugarheim karls á sjötugsaldri (hvíts, meira að segja), sem þekkir ekki sjálfan sig í þeim "staðlmyndum" sem dregnar eru upp af körlum af þessu tagi, eða körlum yfirleitt..

Það fer auðvitað ekki milli mála, að ég hef fullan rétt á að halda fram skoðunum mínum, hvort sem þær eru rökstuddar eða ekki. Ég þarf bara að svara því hvort þessar skoðanir megi bara ekki vera mínar, og í sófanum með fD.
Skoðanir mínar og sýn mín á lífið eru til staðar, en stundum er bara betra að þegja; leyfa þeim sem vilja tjá sig út í hið óendanlega, í hópi jábræðra/jásystra sinna, án þess að nokkur nenni að bregðast við.
Auðvitað er ég ekkert upprifinn yfir því að ég skuli ekki bara láta vaða, en að sama skapi dálítið stoltur af sjálfum mér að halda ekki út á það forarsvað sem íslensk umræðuhefð býður upp á.

Kannski sætti ég mig bara við þá STAÐALMYND sem ég er settur í. Kannski endar með því að ég trúi því að þar eigi ég heima. Ég fæ daglega að vita af því hvaða flokki ég tilheyri, án þess að hafa gert mér grein fyrir að þar ætti ég heima.  Ég fæ daglega að vita af því hvað ég er, hvernig ég er og hvað ég stend fyrir. Ég fæ daglega upplýsingar um það að ég eigi að vera öðruvísi en ég er og haga mér öðruvísi en ég geri.  Myndin sem ég fæ af sjálfum mér, á hverjum einasta degi, er hreint ekki falleg. Því miður. Mér hefur ekki fundist ég vera neitt sérstaklega vondur maður, eða verulega ósanngjarn í framgöngu minni. Finnst meira að segja, að ég hafi lítið eitt til brunns að bera, sem er jákvætt, uppbyggilegt eða hlutlaust.  Það er víst ekki svo, er mér sagt, daglega.  Ég er alltaf að troða á öðrum eða taka pláss frá öðrum.

Einhversstaðar var sagt: "Ég er eins og ég er" og það er mikið til í því. Ég fæddist í þennan heim með tiltekna kosti eða galla, í líffræðilegum skilningi. Það er víst hægt að breyta því nú til dags, sem getur vissulega verið jákvætt þar sem það á við.  Ég velti því hinsvegar fyrir mér hvort mér beri verða við kröfum um að ég breyti mér frá því sem ég varð í móðurkviði. Ég hef ávallt hafnað því, vegna þess, að ég er eins og ég er. Ef ég er mögulega tiltölulega sáttur við sjálfan mig, í stórum dráttum, þannig, þá er það bara svo og verður svo.

Til að hafa þetta nú allt á hreinu þá má gjarnan skipta út orðunum ég/mig/mér/mín hér fyrir ofan og setja í staðinn hann/honum/hans eða hún/hana/henni/hennar.
Setji fólk 3. persónu fornafn í stað 1. persónufornafns, bið ég það að hugsa sem svo, að á bak við þau sé ungt fólk á mótunarárum. Ég fer ekki fram á annað.
----------------
Hvað sem því líður, þá er tilefni þess að ég settist niður á þessum föstudegi til að skrifa mörg orð sem segja kannski ekki neitt, af ástæðum sem í honum má finna ef vel er að gáð, myndin sem er hérna efst, en hana sá ég í einhverjum vefmiðli.  Þarna voru á ferð Guðrún Jónsdóttir(ljósmyndarinn) og dóttir hennar Sóley Tómasdóttir (fyrirsætan). Guðrún kenndi með mér fyrir ártugum síðan. Hún var litrík baráttukona þá og hefur verið síðan. Sóley var þá barn að aldri. Ég man ekki eftir mikilli baráttu hjá henni þá, fyrir einhverjum málstað, en hún hófst og stendur enn.



13 mars, 2017

Froðufellandi, sjálfskipuð málfarslögga með fingurinn á lofti


Í lok Kastljóss þann 9. mars flutti Þórdís Gísladóttir nokkur, pistil um íhaldssemi sumra gagnvart íslensku máli undir fyrirsögninni "Síðasta orðið".
Upplýsingar sem ég fann um bakgrunn Þórdísar eru þessar helstar:
Þórdís Gísladóttir fæddist árið 1965. Hún er með próf í íslensku frá Háskóla Íslands og licentiat-gráðu í norrænum fræðum frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Hún er rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld sem bæði hefur samið fyrir fullorðna og börn. Þá hefur hún einnig samið námsbækur.Þórdís hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Leyndarmál annarra árið 2010.

Pistillinn sem Þórdís flutti er á þessa leið:
Fjölmiðlafólk og við sem tjáum okkur stundum opinberlega fáum oft eitraðar pillur frá froðufellandi málfarslöggum. Það fer í fínustu taugar margra að reka augun í ambögur eða heyra kæruleysislega meðferð móðurmálsins. Hvernig stendur á því að tungumálið er jafn eldfimt og hættulegasta sprengiefni?
Málnotkun vekur sterkar tilfinningar. Facebooknotendur krækja á greinar og benda á ónákvæma orðanotkun og illa orðaðan vaðal, internetið er gullnáma fyrir fólk sem alltaf er með fingurinn á lofti! En hvers vegna eru sjálfskipaðar málfarslöggur svona pirraðar, hvers vegna nennir fólk að standa í því að hnýta í það sem því finnst óvandað málfar, þegar það er nokkuð ljóst að það hefur varla nokkur áhrif? Jú, fólk er skeptískt á breytingar, það vill halda hlutunum og þar með tungumálinu eins og það þekkir það og telur að heimurinn sé á leið til andskotans ef bátnum er ruggað. Og auðvitað þurfum við öll að læra allskonar reglur. Líka málfarsreglur, það er nauðsynlegt að menn setji sér viðmið um hvað sé viðurkennt tungutak. En tungumál breytast, sama hvað hver segir. Enginn á tungumálið og sem betur fer eru ekki til lög um hvernig við eigum að nota það. Mér finnst leiðréttinglaðir beturvitar oft missa af skemmtilegum og skapandi þætti þess að snúa upp á málið, sveigja reglur og semja ný orð. Kannist þið við sögnina að hámhorfa, dagaheitið millari, verðurfarslýsinguna rónablíða og nafnorðið blandinavíska? Þessi orð eru öll nýskráð í slangurorðabókina og þið fáið rokkprik ef þið kannist við þau.

 Það er væntanlega þeim ljóst, sem hafa lesið það sem ég hef látið frá mér fara um íslenskt mál, að ég fell í þennan flokk Þórdísar, þar sem er að finna froðufellandi sjálfskipaðar málfarslöggur
Ég lít á það sem heiður að fá að fylla þann flokk, í stað flokksins sem flokkar allt það sem víkur frá því málkerfi sem íslenskan byggir á, sem "eðlilega þróun tungunnar".  
Ef ekki hefði verið til svokallaðar málfarslöggur gegnum sögu íslenskunnar, fullyrði ég, að hún væri ekki lengur til sem sérstakt tungumál.

Sannarlega er það rétt hjá Þórdísi að tungumál breytist hvað sem hver segir. Þjóðfélagið breytist og og tungutakið tekur auðvitað mið af því. Þannig var orðið bifreið ekki til í eina tíð, eða sími, tölva, eða sjónvarp - það segir sig sjálft.
Sem betur fer, er á öllum tímum til fólk sem býr yfir skapandi hugsun til að þróa tunguna áfram í takt við aðra þróun.  Ef tungumál fengi ekki að þróast, ætti það sér ekki viðreisnar von. Með sama hætti: ef meginreglur málkerfis tungumáls riðlast, t.d. beygingakerfið, á það sér ekki heldur viðreisnar von. Í því efni er ábyrgð þeirra sem halda tungumálinu að þjóðinni, í ræðu og riti, mikil. Í þann flokk falla rithöfundar, fjölmiðlafólk, stjórnmálamenn, listamenn, kennarar og bara allir þeir sem fara með málið í ræðu eða riti.
Mér finnst það afskaplega dapurlegt þegar rithöfundar eða kennarar ganga fram fyrir skjöldu og viðhafa niðurlægjandi orðfæri til að skapa  neikvæða mynd sem þeim sem láta eitthvað frá sér um ambögur í málfari á opinberum vettvangi. Þannig reynir rithöfundurinn að upphefja sjálfan sig, sem ofurfrjálslyndan, þar sem það fellur víst í kramið. 
Ég skil ekki ástæður þessa. Það má ræða þessi mál án þess að kalla fólk nöfnum.

Það er munur á eðlilegri þróun og hreinum ambögum. Þróun verður til vegna þess að umhverfið kallar á hana. ambögurnar verða til vegna leti, metnaðarleysis og (þó það megi varla segja það) vanþekkingar.

Ég geri mér fulla grein fyrir því, að það sem ég segi um þessi mál breytir líklegast engu, en ég get í það minnsta haldið því fram með sjálfum mér, að ég hafi reynt. Tungumálið skiptir meira máli en ég og mínar skoðanir. Þannig er ég búinn að gera mér grein fyrir því, að í stað þess að segja "ég hlakka til" segir maður "mig hlakkar til" og að í stað þess að sem "mig langar í ís" segir maður "mér langar í ís".  Það er orðinn til einhverskonar þjóðarsátt um að svona skuli þetta vera, að því er virðist.


Ég á enn eftir að sættast við fjölmargt og tek hér þrjú dæmi.

Dæmi 1:  
"Þegar ég hitti fólkið, voru þau köld og hrakin".  
Það er svo, að íslenska orðið fólk hefur til þessa talist vera hvorugkynsorð í eintölu. Í ensku er samsvarandi orð "people", sem er hinsvegar fleirtöluorð. Þarna erum við farin að taka upp ensku myndina. Vandinn er hinsvegar sá að ákveðni greinirinn sem við setjum á "fólk" er ennþá "-ið" - "fólkið", en ekki "fólkin". Hvenær ætlum við, rithöfundar og aðrir, að stíga skrefið til fulls, að þessu leyti?

Dæmi 2:
"Ég talaði við hana vegna byggingu hússins"
Þetta er bara lítið dæmi um það að fólk er farið (eru farin?) að forðast eignarfall. Ég held nú að flestum sé það fullljóst að íslenskan gerir ráð fyrir því að  "vegna" tekur  með sér nafnorð eða fornafn í eignarfalli. Þar með ætti maður að segja "vegna byggingar hússins", er það ekki, annars?  Ef svarið er neikvætt, hvernig förum við þá með setningar af þessu tagi?:
"Hún kom hingað aðeins vegna mig". eða "Hann hringdi vegna Guðmundi".

Dæmi 3:
"Ásdís grýtti spjótinu 62 metra".  
Auðvitað hefur þarna orðið rof við uppruna sagnarinnar "að grýta" sem er komið af nafnorðinu grjót. Ég trúi varla öðru en fréttamaðurinn hafi verið að gera að gamni sínu með þessu vali á sögn, en þetta er eitt dæmi af mörgum þar sem samhengið við upprunann rofnar.


Sumt fólk hefur beinlínis það hlutverk að vera skapandi. Þar sem tungan er annarsvegar hvílir ábyrgðin á skapandi notkun á herðum rithöfunda, ekki síst. Það er mikil og mikilvæg ábyrgð.  
Þegar rithöfundur tjáir sig með þeim hætti sem Þórdís gerði í lok Kastljósþáttarins er það, að mínu mati, varasamt. Þó ég telji (voni) að hún hafi fyrst og fremst verið að vísa til skapandi notkunar tungumálsins að því er varðar myndun nýrra og frumlegra orða, þá geri ég ráð fyrir að margur hafi talið þarna vera stiginn fram enn einn bandamann sinn í baráttunni gegn þeim sem tala fyrir vandaðri notkun tungunnar. 
Ég trúi því ekki að rithöfundurinn hafi verið að tylla sér þar.

Ég ætla að halda áfram að vera froðufellandi, sjálfskipuð málfarslögga og málfarsfasisti, eða leiðréttingaglaður beturviti með fingurinn á lofti. 
Aðrir finna sér sína hillu.

(Ég vona að það séu ekki margar ásláttarvillur, Lóa 👮)

04 mars, 2017

Bítlagarg

"Lækkaðu í þessu bítlagargi" sögðu foreldrar mínir ítrekað við systur mínar á táningsaldri þar sem þær nutu nýjusta laganna í vikulegum þætti af "Lögum unga fólksins". Þá var ekki um það að ræða að ungdómurinn gæti skellt heyrnartólum í eyrun á sér og skaðað heyrnina varnalega. Foreldrarnir héldu aftur af þeim í því efni. Tækið sem hlustað var á var transistor ferðatæki af nýjustu gerð, ekki ósvipað því sem meðfylgjandi mynd sýnir. Systurnar voru farnar að túbera á sér hárið og gera sig til fyrir töffarana í sveitinni.  Þetta var svona undir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar og þær muna þetta allt örugglega betur en ég, fjórum og sex árum eldri.
Ég fór auðvitað sjálfur í gegnum skeið af þessu tagi og þar standa Mánaböllin upp úr, með öllum sínum ævintýrum og óstjórnlegum hávaða

Síðan eru liðin mörg ár.

"Það gæti nú verið gaman að fara á þetta", sagði fD upp úr eins manns hljóði fyrir nokkrum vikum. Ekki get ég sagt að ég hafi verið upprifinn, en fagnaði auðvitað með sjálfum mér áhuganum sem þarna skein í gegn.

Led Zeppelin í Laugardalshöll 1970
Ég festi því kaup á miðum þó og ég hafi verið kominn um eða vel yfir tvítugt þegar hljómsveitin Queen með F.M. í fararbroddi byrjaði að gera garðinn verulega frægan. Áhugasvið mitt á tónlist hafði legið annarsstaðar. en fD virðist hafa smellpassað inn í þennan Queentíma, og það var meira að segja hægt að greina á fasi hennar, látbragði og talanda, að hún hlakkaði til. (tókstu eftir að ég segi HÚN hlakkaði til, en ekki HANA hlakkaði til?)

Síðan var haldið á tónleika í Hörpu, þar sem hópur listamanna minntist þess að Freddie (Farrokh Bulsara) hefði orði sjötugur í september á síðasta ári.
Þetta munu hafa verði í kringum tuttugustu tónleikarnir og Eldborgarsalurinn var sneisafullur.

Deep Purple á efri árum.
Ég viðurkenni, að ég vissi ekki við hverju mátti búast, enda fór ég síðast á svona tónleika þegar Deep Purple komu hingað 2004 eða 2007 (man ekki á hvora tónleikana ég fór) og þar áður á tónleika Led Zeppelin í Laugardalshöll 1970,

Fólkið sem kom í Hörpu  á þessa ágætu tónleika, var hreint á öllum aldri, en ansi margir voru samt gráu kollarnir.

Tónleikarnir "Freddie Mercury sjötugur"

Tónleikarnir hófust og ég hafði auga með fD, ef svo skyldi fara að hún yrði okkur til minnkunar með taumlausum gleðilátum. Það leið ekki á löngu áður en ég þurfti að hnippa í hana þar sem hún ætlaði að fara að príla upp í sætið, syngjandi "We are the Champions" eða "Bohemian Rhapsody", klappandi höndum fyrir ofan höfuðið, (svona eins og þegar HÚ-hað er) og gefandi frá sem amerísk kúrekaöskur (jííí-ha)..............................ekki.
Samtónleikagstir okkar utu tónleikanna, margir hverjir, til hins ítrasta, sveifluð handleggjum fram og til baka, klöppuðu, hrópuðu, sungu með og almennt slepptu fram af sér beislinu.... en ekki við fD. Við vorum alveg róleg.  Kona um fertugt við hlið fD missti sig alveg í gleðinni og meira að segja hafði fD orð á að henni fyndist gleðilætin varla við hæfi. Ég hugsa að konan sem sat við hliðina á mér hafi átt erfiðara með þetta, enda á mínum aldri. Kannski hefur henni ekki litist á að sleppa sínu innra sjálfi lausu, með mig við hlið sér. Ég var farinn að vorkenna henni aðeins og á sama tíma að álasa sjálfum mér fyrir að hafa mögulega þessi neikvæðu áhrif á hana.  En kannski tók hún þessu bara með sama jafnaðargeðinu og ég.

Ég hef ekki áður upplifað aðra eins ljósanotkun á neinum viðburði. Hef reyndar séð slíkt í sjónvarpi. Það kom fyrir, aftur og aftur, að ég þurfti að loka augum þegar ógnarsterku ljósi var beint , blikkandi fram í salinn þegar hæst lét.  Þá velti ég fyrir mér hættunni á því að einhver í hópi tónleikagesti myndi fá flogakast, en ég veit ekki hvort það gerðist.

Ég skil óskir foreldra minna betur nú, þegar þau vildu að systurnar lækkuðu í transistortækjunum sínum.  Hávaðinn var, ógurlegur á köflum, og svo vivirtist sem söngvurunum þætti vænst um þær stundir þegar þeir gátu sýnt okkur sem í salnum vorum, hve hátt þeir kæmust og þá á ég bæði við tónhæð og decibel.  Ég hefði kosið að þetta væri aðeins lágstemmdara.

Ég er búinn að segja ýmislegt hér að ofan sem má túlka sem neikvæða upplifun á þessum tónleikum, en ég er nú víðsýnni maður en svo, að upplifunin hafi verið neikvæð. Ég sat allan tímann í sæti mínu og klappaði við lok hvers lags, hóflega og kurteislega, enda var þarna á ferðinni ágætis listafólk sem á allt gott skilið.  Ég var bara ekki tilbúinn í þetta eru-ekki-allir-í-stuði dæmi og þar með ekki meðal skemmtilegustu tónleikagesta.

Þetta var bara gaman.  





03 mars, 2017

Svefnlaus brúðgumi á Borg

Fulltrúi Skálholtskórsins í sýningunni,
Jóhann Pétur Jóhannsson fer með burðarhlutverk.
(einkamynd að sýningu lokinni, þar sem hann var beðinn
að skella sér í karakter eitt augnablik)
Ekki ætla ég að fullyrða neitt um það hvort það getur talist trúverðugt, að brúðhjón eyði brúðkaupsnótt sinni á Hótel Örk í Hveragerði áður en þau halda í fjögurra vikna brúðkaupsferð  á Selfoss og til Vestmannaeyja. Ég neita því ekki að ég velti fyrir mér eitt sekúndubrot, hvað þau myndu mögulega geta tekið sér fyrir hendur á þessum tíma á nefndum stöðum. Auðvitað var flest sem viðkemur efni leikverksins "Svefnlausi brúðguminn" afskaplega ótrúverðugt og átti bara að vera þannig. Það breytti því ekki að ég skemmti mér hreint ágætlega.

Þarna birtist áhorfendum flest sem farsa prýðir, misskilningur, dómharka, léttúð, daður, svínarækt, fiskimjöl í gámavís, persónur í óleysanlegri kreppu sem leysist upp í alsælu, hraðar skiptingar og meira að segja nekt.

Þetta er ekki neinn leikdómur, enda þykist ég ekki kunna slíkt, hitt er annað mál, að þarna var kvöldstund afar vel varið.
Ég þekki það frá gamalli tíð (jæja, byrjar hann nú á þessu) að það eru ekki síst leikarar í svona sýningu sem skemmta sér, enda fór það ekki framhjá manni leikarar Leikfélagsins Borgar skemmtu sér hreint ágætlega, og það eitt smitar leikhúsgestina.

Það er afar mikilvægt, þegar lítil áhugamannaleikfélög setja upp sýningar til að lyfta sveitungum upp í skammdeginu. að þangað leggi fólk leið sína, ekki bara vegna þess að það er afskaplega gaman, heldur ekki síður til að styðja við svona starf, en þarna er fólk búið að leggja mikið á sig  við æfingar um langan tíma.
Svona lagað skiptir heldur betur máli.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...