Sýnir færslur með efnisorðinu uppeldi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu uppeldi. Sýna allar færslur

22 október, 2010

"Ég á rétt á......." (1)

Ég verð að viðurkenna, að ég upplifi sjálfan mig sem afskaplega vanmáttugan einstakling þessi misserin. Ég held nú reyndar, að ég sé ekki einn um það. Mér finnst afspyrnuvont að geta ekki haft áhrif á það hvernig mál ganga fram í kjölfar samfélagsbrests, en á sama tíma er ég ekki tilbúinn að skunda á stað í krossferð fyrir þessum málstað mínum. Ég held að ég tilheyri afskaplega stórum hluta þessarar þjóðar, sem hefur sig tiltölulega lítið frammi um þessar mundir, þó svo hann ætti tvímælalaust að gera það.

Þannig er, eins og margir gera sér væntanlega grein fyrir, að við, sem nú erum á aldursbilinu 50-70 ára, sem höfum alið af okkur kynslóðirnar sem núna standa frammi fyrir afleiðingum ofneyslu, berum í raun ábyrgð á því að hafa ekki kennt börnum okkar nægjusemi. Við erum foreldrarnir sem erum svo heppin, að hafa fengið að ala upp börnin okkar í þjóðfélagi þar sem skortur þekktist ekki. Báðir foreldrarnir unnu utan heimilis og tókst að afla ríflegra tekna. Fórnin á móti var sú, að börnin okkar voru sett í leikskóla, þar sem þau voru meira og minna alin upp hvert af öðru. Við vorum auðvitað full af samviskubiti yfir að geta ekki notið þess að vera með börnunum okkar: fannst við vera að svíkja þau um tíma með okkur, foreldrunum, sem áttum, eðlilega, að bera alla ábyrgð á uppeldinu. Okkur fannst við þurfa að sefa samviskuna. Við gátum ekki gert það með nægri hlýju og umhyggju, en við öfluðum nægra tekna til að veita þeim ýmisleg efnisleg gæði, oft í formi tæknileikfanga, ferðalaga, fatnaðar og þess yfirleitt sem hægt var að kaupa fyrir peninga. Þetta tók vissulega versta broddinn úr samviskubitinu.

Hvernig urðu þessi börn síðan?
Vegna skorts á samvistum við eldri kynslóðina, misstu þau mikilvæga tengingu við fortíðina og menningararfinn ásamt því sem þeim tókst ekki að vaxa upp úr barnalegri/barnslegri hegðun og viðhorfum. Jú, þau fengu að leika sér þessi ósköp með jafnöldrum sínum og festust síðan að sumu leyti í veröld leiksins. Hlýja, samkennd, virðing, siðgæði, mannskilningur og almennur þroski var líklega ekki efst á baugi á mikilvægustu mótunarárunum. Í staðinn gengu þessi börn inn í veröld neysluhyggjunnar og samviskubitinna foreldra. Það er afskaplega óheppileg blanda. 
Á því veraldlega var enginn skortur. 
Þar sem viðhorfin snérust áður um að bjarga sér sjálfur, vera heill í sínu, vera ekki upp á aðra kominn, og svo framvegis, breyttust viðhorfin í það að fólkinu fannst að það ætti rétt á hlutum og þjónustu frá öðrum. Það var í raun allt hægt í þeim efnum. Ef það þurfti að kaupa það þá var það gert. Ef ekki var peningur til fyrir því, þá var reddað láni. Það var allt hægt þegar efnisleg gæði voru annars vegar.  Fólk varð óskaplega upptekið af því sem það taldi vera rétt sinn.

.....framhald (kannski um helgina)

05 september, 2010

Um kristilegt uppeldi (2)

Hér er um að ræða framhald.

Þarna starfaði ég, sem sagt, sem sumarkirkjuvörður í Skálholti. Líklega í kringum 1968-70 (var þarna 1970 þegar Bjarni Benediktsson lést ásamt konu og barnabarni í brunanum á Þingvöllum. Mér er þetta minnisstætt vegna þess að ég þurfti að draga fánann í hálfa stöng og klúðraði því með því að missa annan endann á bandinu sem fáninn var festur með, með þeim afleiðingum að það þurfti að fella stöngina).
Með nýrri dómkirkju þurfti að finna upp nýjungar í starfi kirkjunnar og eitt af því var svokallaður sjömessudagur, sem var einu sinni á sumri. Ekki veit ég hvort hér var um að ræða tilraun til að bæta sambandið við almættið, eða bara að taldist vera skemmtilegt að hafa svona maraþon messudag. Án þess að ég sé að velta því fyrir mér, þá var þetta svona: 7 messur á einum sunnudegi. Auðvitað komu ýmsir prestar að helgihaldinu og skiptu á sig. Þarna var gengið til altaris í öllum messunum - s.s. fullburða messur og ég var til aðstoðar við ýmislegt smálegt.
Það hefur komið fram, að á þessum tíma var gamli unglingurinn gjaldkeri sóknarnefndar, maður um fimmtugt, þannig að ég get vel sett mig í spor hans. Þarna var sú staða uppi að sóknin þurfti að standa straum af ýmsum kostnaði í Skálholti, þó svo ýmislegt sem þar fór fram hefði lítið með sóknarbörnin að gera. Ekki veit ég hvort þarna kom einhver greiðsla á móti þar sem tekið var tillit til þeira stöðu sem þarna var uppi. Meðal þess sem greiða þurfti var messuvín. Það getur hver maður sagt sér það sjálfur að þarna var orðin mikil breyting á, frá því engir fóru í messu í Skálholti nema sóknarbörn í Skálholtssókn. Kostnaðurinn við messuvínið hafði stóraukist og það svo, að rólyndismanninum, gjaldkeranum blöskraði, og hafði einhverntíma orð á því, þannig að ég heyrði, þar sem hann var að vinna í reikningunum.
Svo var það á sjömessudeginum nokkru eftir að gjaldkerinn hafði misst út úr sér athugasemd um óhóflegan kostnað vegna messuvíns, að ég var að aðstoða virðulegan Reykjavíkurprest (Reykjavíkurprestarnir þóttu virðulegri en aðrir prestar vegna þess að þeir komu fram í útvarpinu í sunnudagsmessum) við að undirbúa eina messuna. Hluti af undirbúningnum var að taka til messuvínið og hella í kaleikinn. Vínið (sem ég hélt löngum að væri einhver háheilagur drykkur, sem kirkjan fengi til afnota eftir einhverjum óskilgreinanlegum leiðum, í fögrum flöskum) var nú bara í venjulegum brennivínsföskum með algerlega óhönnuðum flöskumiðum og voru merktar ÁTVR.
Þar sem við vorum þarna í skrúðhúsinu og presturinn (sem ég kýs að nefna ekki) var að hella í kaleikinn, urðu mér á þau óskaplegu mistök, að hafa orð á því sem gjaldkerinn hafði nefnt og sem ég átti líklega ekki að heyra:
"Það var einn úr sóknarnefndinni að tala um að það færi mikið af messuvíni."
Presturinn snarhætti að hella og leit snöggt upp.
"Hvað sagðirðu?"
"Hann sagði að það færi mikið af messuvíni." svaraði ég, þar sem ég áttaði mig ekki á því, að prestur spurði ekki vegna þess að hann heyrði ekki. Prestur tók nú að roðna og þrútna og innan skamms upphófust óskaplegar skammir, sem beindust að mér, og fólu í sér að þegar um væri að ræða drykk af þessu tagi þá væru menn ekki að velta fyrir sér krónum og aurum. Ég hef líklega fölnað af skelfingu undir reiðilestrinum. Allavega hrökklaðist ég út og þurfti síðan að hlusta á þennan ágæta mann predika um kærleikann og fyrirgefninguna.

Á þessum sumrum í Skálholti hafði ég kynni af mörgum prestum. Flestir ágætir, sumir ansi stórir upp á sig, fáeinir virtust jafnvel telja sig til helgra manna. Sem sagt, menn af öllum toga.

Ég er ekki alveg viss um hvert ég held héðan í frásögninni, eða  hvort það sé rétt af mér að halda yfirleitt nokkuð áfram, svo viðkvæmir sem sumir eru fyrir umræðum af þessu tagi. Þetta kemur bara í ljós. Ég held allavega að ég sé búinn að afgreiða samneyti mitt í æsku við kirkju og trú.


04 september, 2010

Um kristilegt uppeldi (1)

Ég held því statt og stöðugt fram, að ég sé alinn upp í því sem hefur verið kallað 'guðsótti og góðir siðir'. Að svonalöguðu uppeldi stóð, í mínum huga, að stærstum hluta tvær konur og síðan ein til viðbótar.
Sú eldri var húsfreyjan á Baugsstöðum, amma mín, Elín Jóhannsdóttir. Hún varð, í huga mínum, ímynd hinnar fullkomnu góðmennsku og kristilegs siðgæðis. Það getur sjálfsagt verið að hún hafi átt sér aðrar hliðar, en ég sá þær í það minnsta aldrei. Hjá henni fann ég aldrei neitt nema elskusemi og guðsblessanir: 'Elsku, góða fólkið mitt!'
Sú yngri var síðan móðir mín, húsfreyjan í Hveratúni, Guðný Pálsdóttir, sem ég tel að hafi tekið að sér að ala okkur systkinin þannig upp, að Kristur yrði leiðtogi lífs okkar. Fyrir utan það, að innræta okkur góða siði og vera okkur góð fyrirmynd sem sannkristin manneskja, fólst hið kristilega uppeldi í því að sækja messur í Skálholti frá frumbernsku og þar til streðið við að koma okkur þangað, varð of mikið. Ég nánast fullyrði (það verður bara einhver að leiðrétta mig, ef hér skyldi vera um misminni að ræða) að ekki hafi verið sungin messa í kjallaranum í biskupshúsinu í Skálholti frá 1953 -1963 (í kjallaranum í biskupshúsinu) án þess að Hveratúnsfjölskyldan hafi verið þar viðstödd. Eftir að dómkirkjan var vígð tel ég að það sama hafi verið uppi á teningnum, svo lengi sem nokkur möguleiki var að draga okkur til messu. Það sem gerði þetta að enn meira afreksverki hjá móður minni var, að á þessum tíma var ekki til bifreið í Hveratúni þannig að hersingin þurfti að fara fótgangandi kílómetrana tvo út í Skálholt.

Þriðja konan sem kemur við sögu í kristilegu uppeldi mínu var prestsfrúin, frú Anna Magnúsdóttir. Það var hjá henni sem kristinfræðin var lesin í barnaskóla, og ég man ekki betur en einkunnir mínar aá prófum í þessari grein, hafi gefið til kynna að ég væri talsvert vel að mér í öllu sem frelsarinn hafði tekið sér fyrir hendur, eða látið út úr sér. Fyrir utan kennsluna hélt frú Anna (hún var aldrei kölluð annað en frú Anna), utan um helgileikinn sem var settur upp í Skálholti fyrir hver jól. Öflugri stjórnandi helgileikja held ég að hljóti að vera vandfundinn.

Á heildina litið má líklega segja að kristileg uppbygging mín eftir fyrstu 14 ár ævinnar hafi verið talsvert traust. Á þessum tíma gerði ég auðvitað engan greinarmun á trú og kirkju. Prestar voru nokkurskonar hálfguðir og allsendis óskeikulir.

Þannig æxluðust málin, að síðustu árin í grunnskóla, sennilega þegar ég var 13-14 ára var ég dubbaður upp í að vera kirkjuvörður í Skálholti á sumrin, sennilega ein tvö sumur. Ég reikna með, að fyrir utan það að ég var sannkristinn ungur maður, talinn, að það hafi komið til vegna þess að Hveratúnsbóndinn, gamli unglingurinn, faðir minn, var þá gjaldkeri í sóknarnefnd.
Á þessum tíma má segja að ég hafi byrjað á sjá þetta allt saman í öðru ljósi en áður hafði verið. Ég komst að því, t.d. að prestarnir voru bara breyskir menn. Ég komst að því að oft kom það fyrir, að kirkjunnar menn gengu í orði og verki gegn þeirri kenningu sem þeir töluðu fyrir úr stólnum.

Eitt tilvik af þessum toga fer mér ekki úr minni, en frá því verður greint í næsta hluta.

29 ágúst, 2010

Berjatími og barna

Sunnudagsmorgunn og kyrrðin umvefur allt í sveitinni. Örlítill, frískandi úði ber með sér ilminn af haustinu. Það er berjatími. Geitungaskrattarnir eru horfnir úr garðinum. Hvort það er vegna eiturspúandi úðabrúsa fD, eða bara vegna þess að þeirra tími er liðinn á þessu sumri, veit ég ekki. Ennþá sveima að minnsta kost þrjár tegundir af býflugum um loftin og leita uppi síðustu blómin sem eitthvað gefa.
Koparreynir í Kvistholtsgarði

Nú er tími umbreytinga enn á ný.

Sumarleyfi lokið og framundan annir vetrarins og vonin um að þær skili viðunandi árangri.
75% þess sem einu sinni var ungviðið í Kvistholti, gistir vítt um meginland Evrópu þennan veturinn og þau 25% sem eftir eru, hafa sett stefnuna á sömu slóð. Það er ekki laust við að maður velti því fyrir sér hvort það var eitthvað í uppeldinu sem veldur allri þessari útþrá.
Var ungunum kannski, meðvitað eða ómeðvitað, innprentuð einhverskonar alþjóðahyggja?
Var þeim ef til vill kennt, að föðurlandið hefði ekki til að bera það sem til þarf til að verða sómasamlegur Kvisthyltingur?
Var þeim á einhverjum tímapunkti sagt, að til þess að verða eitthvað þurfi maður að vera sigldur, eins og gamli unglingurinn kallar það? (Það mun hafa verið þannig á þeim tíma þegar menn sigldu til Kaupmannahafnar, og lágu þar í drykkjuvímu vetrarstund, að það var tekið ofan fyrir þeim þegar heim kom, því þeir voru sigldir).
Kannski var þessu fyrrverandi ungviði bara kennt að maður getur orðið hvað sem er, ef maður bara leggur sig fram í þeirri grein sem valin er. Hver veit?


Ég held auðvitað áfram að ala upp ungviði með mínum hætti. Vissulega eykst fjarlægð mín í aldri frá þeim sem verða fyrir uppeldisaðferðum mínum, um eitt ár á hverju ári. Á þessum tímum er orðinn ansi langur vegur milli mín og 16 ára unglinga. Mér verður það stöðugt ljósara, að málfar mitt verður þeim stöðugt torskildara og hugmyndir mínar um hvað það er að vera nýtur þjóðfélagsþegn, verða stöðugt fjarlægari hugarheimi þeirra. Þetta er væntanlega eitthvað sem er bara eðlilegt, en samt ákveðið áhyggjuefni. (hér gæti ég skrifað 2500 orða langloku um skoðanir mínar á því hversvegna staðan er þessi, og hversu slæmt er að sú staða skuli vera uppi, en læt það vera. Það væru bara skoðanir).

Ég er kannski smám saman að komast á þá skoðun, að í þessu þjóðfélagi rétthugsunar, sé best að fara inn í sjálfan sig með hugsanir sínar, en spila bara að öðru leyti með.  Það er ég smám saman að læra, að það skiptir ekki máli, hvaða skoðanir eða hugsanir eru tjáðar, þær eru jafnharðan skotnar niður af einhverjum hagsmuna- eða öfgahópum, eða þaggaðar niður af þeim sem til þess hafa vald.
Ef til vill er hér um að ræða tímabil sem þessi þjóð verður að ganga í gegnum áður en batinn hefst á ný. Vonum það.

23 mars, 2010

Skóli í samfélagi. Útsvar

Ég var ekki það sem kallað hefur verið lyklabarn, ólst upp í sveitinni með umtalsvert stórri fjölskyldu, þar á meðal afa. Verkaskipting foreldranna var nokkuð skýr og hefðbundin miðað við það samfélag sem þá var. Smám saman fór maður að taka þátt í ýmsum störfum á heimilinu og í gróðurhúsunum (jú, víst, fÁ og fS!). Ekki þótti mér það alltaf skemmtilegt og hef sjálfsagt sinnt því sem mér var falið, með hangandi hendi. Þegar leið á var hægt að kaupa mig til verka með því að, lofa mér að á eftir fengi ég að snúa Land Rovernum á hlaðinu.

Hvað sem má segja um það allt, þá fékk ég þarna einhvern skilning á samhengi hlutanna: til þess að eitthvað gerist þá þarf einhver að gera það.

Það var mér á stundum mikil raun að þurfa að dvelja í heimavist í Reykholti, en mig minnir að á fyrri hluta skólagöngunnar hafi ég, eins og önnur börn sem ekki voru í göngufæri frá skólanum, dvalið þar uppfrá í viku á móti viku heima.
Eftir grunnskólann tók við Laugarvatn þar sem ég var líklega ein átta ár í heimavist.

Ekki ætla ég að halda því fram að allt þetta heimavistalíf hafi verið uppeldislega jákvætt, en ég tel að það hafi sam kennt mér að standa á eigin fótum og að ég hafi verið nokkuð tilbúinn að standa á eigin fótum þegar framhaldsskólanámi lauk. Ég vissi ýmislegt um ýmislegt. Ég var t.d. búinn að læra að skipta um kló, var búinn að læra grundvallaratriði í bílaviðgerðum, skildi hvað það þýddi ef ég eyddi þeim peningum sem ég aflaði. Þegar við síðan byggðum okkur hús voru lán af skornum skammti og við fluttum inn í hálfkarað húsið með notuðum húsgögnum og eldhúsinnréttingu sem ég klambraði sjálfur saman.

Með því sem ég hef sagt hér að ofan, er ég ekki að þykjast hafa verið betur búinn undir lífið en margir aðrir á sama reki, þvert á móti held ég að flestir aðrir sem nutu samsvarandi skilyrða, hafi sömu sögu að segja.

Hvað er ég svo að fara með þessu öllu?
Svarið hefur með að gera þrennt:
a. Ég tek þátt í því um þessar mundir að skipuleggja skólastarf í framhaldsskóla þar sem áleitnar spurningar koma til umræðu. Þessi er stærst í mínum huga: Hvert á hlutverk framhaldsskóla að vera í því samfélagi sem við búum í núna og til næstu framtíðar?

b. Atvik sem átti sér stað í spurningaþættinum Útsvari á RUV s.l. föstudagskvöld. Það var þegar bjölluspurningar dundu á keppendum. Það var spurt, og ungur og vel gefinn keppandi annars liðsins greip bjölluna á undan, en það vildi svo illa til, að kólfurinn datt úr henni. Pilturinn setti kólflausa bjölluna aftur á borðið og hélt í sæti sitt.
"Ætlarðu ekki að laga bjölluna?" spurði spyrillinn.
"Ég? Nei, ég kann það ekki." svaraði keppandinn og settist í sæti sitt.
Þegar hér var komið reis keppandi úr hinu liðinu, sauðfjárbóndi af Héraði, á fætur, gekk að bjöllunni, setti kólfinn í hana og kom henni fyrir á borðinu, þegjandi og orðalaust.

c. Frétt í dagblaði í morgun, sem fjallar um það að einhverjir háskólanemar hafa tekið sig til og sett upp síðu á fésbókinni þar sem þeir dunda sér við að niðurlægja konu sem ræstir húsnæðið sem þeir stunda nám sitt í.

----------------------------

Ég hef velt því talsvert fyrir mér samfélag okkar stefni í að verða samfélag sérfræðinga, sem skilja fátt út fyrir sitt þrönga sérsvið, hafa ekki skilning á, eða bera virðingu fyrir störfum, eða lífi annarra. Ef svo er, þá vaknar strax spurningin: getur slíkt samfélag verið samfélag?

Hvert er hlutverk skólakerfisins í þessu? Er það yfirleitt hlutverk þess að ala nemendur upp til sama skilnings á samfélaginu og ég var alinn upp til? Er hér kannski bara um að ræða nýja tegund samfélags, sem smám saman nær einhverju jafnvægi?

Það hefur svo sem hvarflað að mér, að hér sé um að ræða skýrt merki þess, að ég sé bara smám saman að detta úr takti við samfélagið, eða samfélagið við mig.

Þetta gæti verið inngangur að endalausri umfjöllun minni um allt það sem ég hef um þessi mál að segja. Ég hlífi traustum lesendum við því.


14 maí, 2009

Bara ein birtingarmyndin - mér blöskrar

Ég hlýt að viðurkenna, að það er til fátækt fólk sem á erfitt með að ná endum saman af ýmsum ástæðum. Það er endalaus barátta að koma málum svo fyrir, að slíku verði útrýmt. Fátækt getur hinsvegar ekki verið afsökun fyrir hverju sem er, eða hvað?

Ég hef áður fjallað um það á þessum vettvangi, að mér finnist ýmislegt athugavert við barnauppeldi og umönnun á þessu landi. Í fréttum áðan fékk ég enn eina staðfestinguna á því sem ég hef sagt þar um. Þar var fjallað um slæmt ástand í tannhirðumálum hjá börnum. Þarna var sökinni alfarið hent yfir á stjórnvöld og það má svo sem alveg. Það var hinsvegar ekki vikið einu orði að því að tannhirða barna eigi ef til vill ekki síður og jafnvel miklu frekar að vera á ábyrgð foreldra. Ég vil halda því fram að tennur í tveggja ára barni  séu ekki í rúst vegna þess hve illa stjórnvöld standa sig. Tannburstakaup hafa aldrei riðið neinum að fullu og ekki heldur lítil lús af tannkremi á þennan bursta daglega og 3ja mínútna vinna foreldris við burstun, svo ekki sé nú minnst á það sem börnin fá að setja upp í sig. Ætlar einhver að halda einhverju öðru fram?

Umfjöllun um barnauppeldi fjallar langoftast hvað opinberir aðilar eru vondir við barnafjölskyldur. Foreldrarnir virðast alltof oft vera stikkfrí; opinbera jafnvel skelfilega vanrækslu sína fyrir alþjóð undir því yfirskini að allt sé ríkinu að kenna - og fjölmiðlarnir ýja ekki einusinni að því að þar geti verið að aðrir véli um. 

Hrmmmpf 


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...