22 október, 2010

"Ég á rétt á......." (1)

Ég verð að viðurkenna, að ég upplifi sjálfan mig sem afskaplega vanmáttugan einstakling þessi misserin. Ég held nú reyndar, að ég sé ekki einn um það. Mér finnst afspyrnuvont að geta ekki haft áhrif á það hvernig mál ganga fram í kjölfar samfélagsbrests, en á sama tíma er ég ekki tilbúinn að skunda á stað í krossferð fyrir þessum málstað mínum. Ég held að ég tilheyri afskaplega stórum hluta þessarar þjóðar, sem hefur sig tiltölulega lítið frammi um þessar mundir, þó svo hann ætti tvímælalaust að gera það.

Þannig er, eins og margir gera sér væntanlega grein fyrir, að við, sem nú erum á aldursbilinu 50-70 ára, sem höfum alið af okkur kynslóðirnar sem núna standa frammi fyrir afleiðingum ofneyslu, berum í raun ábyrgð á því að hafa ekki kennt börnum okkar nægjusemi. Við erum foreldrarnir sem erum svo heppin, að hafa fengið að ala upp börnin okkar í þjóðfélagi þar sem skortur þekktist ekki. Báðir foreldrarnir unnu utan heimilis og tókst að afla ríflegra tekna. Fórnin á móti var sú, að börnin okkar voru sett í leikskóla, þar sem þau voru meira og minna alin upp hvert af öðru. Við vorum auðvitað full af samviskubiti yfir að geta ekki notið þess að vera með börnunum okkar: fannst við vera að svíkja þau um tíma með okkur, foreldrunum, sem áttum, eðlilega, að bera alla ábyrgð á uppeldinu. Okkur fannst við þurfa að sefa samviskuna. Við gátum ekki gert það með nægri hlýju og umhyggju, en við öfluðum nægra tekna til að veita þeim ýmisleg efnisleg gæði, oft í formi tæknileikfanga, ferðalaga, fatnaðar og þess yfirleitt sem hægt var að kaupa fyrir peninga. Þetta tók vissulega versta broddinn úr samviskubitinu.

Hvernig urðu þessi börn síðan?
Vegna skorts á samvistum við eldri kynslóðina, misstu þau mikilvæga tengingu við fortíðina og menningararfinn ásamt því sem þeim tókst ekki að vaxa upp úr barnalegri/barnslegri hegðun og viðhorfum. Jú, þau fengu að leika sér þessi ósköp með jafnöldrum sínum og festust síðan að sumu leyti í veröld leiksins. Hlýja, samkennd, virðing, siðgæði, mannskilningur og almennur þroski var líklega ekki efst á baugi á mikilvægustu mótunarárunum. Í staðinn gengu þessi börn inn í veröld neysluhyggjunnar og samviskubitinna foreldra. Það er afskaplega óheppileg blanda. 
Á því veraldlega var enginn skortur. 
Þar sem viðhorfin snérust áður um að bjarga sér sjálfur, vera heill í sínu, vera ekki upp á aðra kominn, og svo framvegis, breyttust viðhorfin í það að fólkinu fannst að það ætti rétt á hlutum og þjónustu frá öðrum. Það var í raun allt hægt í þeim efnum. Ef það þurfti að kaupa það þá var það gert. Ef ekki var peningur til fyrir því, þá var reddað láni. Það var allt hægt þegar efnisleg gæði voru annars vegar.  Fólk varð óskaplega upptekið af því sem það taldi vera rétt sinn.

.....framhald (kannski um helgina)

2 ummæli:

  1. Ég á rétt á öllu nýju
    öllu dóti sem ég vil
    gleði með og glotti hlýju
    er giska næs að vera til.
    Ég fæ bíl og bráðum jeppa
    best að lát' ei pakkið sleppa
    við að halda mér til vegs
    - þau vinna bara - sex til sex.

    Hirðkveðill skyggnist um í hugarheimi ofalins ungmennis
    (fyrri hluti - sjáum svo til hvað helgin ber í skauti sér :-) )

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...