23 október, 2010

"Ég á rétt á......." (2)

framhald...

Hér var komin fram kynslóð sem var afsprengi nýrrar tegundar uppeldis. Hún var þeirrar skoðunar að hún gæti fengið allt og gæti gert hvað sem var. Hún hafði alist upp við efnishyggjublandaða helgarást foreldra sinna og notið þess að fá allt upp í hendurnar. 
Á sama tíma og þessi kynslóð var að vaxa úr grasi var fræjum hrunsins sáð af spilltum stjórnmálaöflum. Frelsi varð lykilhugtakið, ríkið varð hið illa í mannlegu samfélagi. 
Þegar saman fer sjálfhverf kynslóð og nánast ótakmarkað frelsi til athafna, má í rauninni alveg giska á útkomuna.
Þessi kynslóð vildi verða rík (á þessum tíma spurði ég nemendur mína oft hvað þau teldu vera eftirsóknarverðast í lífinu og svarið var ávallt ríkidæmi. Tillögur mínar um annað mættu talsverðri andúð). Þessi kynslóð sá brátt jafnaldra sína auðgast ógurlega. Það voru jafnaldrar þeirra sem stofnuðu fyrirtæki og hlutafélög og keyptu síðan og seldu þannig að hagnaðurinn fór upp í áður óþekktar upphæðir. Hvað skyldi kynslóðin hafa hugsað við þessar aðstæður? Það er einfalt. Fyrst Jón, svona venjulegur maður getur orðið ríkur þá get ég það líka. Ég á rétt á því að eiga jafn mikið af peningum og hann. Auðvitað gerðist það á sama tíma, að bankarnir voru einkavæddir og peningar virtust flæða um allt. Hver og einn gat fengið lán nánast eins og hann bað um. Þau eru örugglega mörg dæmin sem má tína til um fólk sem taldi það rétt sinn að eignast fullbúið einbýlishús og nýjan bíl án þess að hugsa langt fram í tímann hvernig það gæti síðan greitt af lánunum. Kannski er hún dálítið dæmigerð sagan af manninum, sem vann á bifreiðaverkstæði, fyrir venjulegum launum, sem langaði í einbýlishús fyrir sig og litlu fjölskylduna sína. Svo langaði hann líka í bíl. Hann uppfyllti ekki kröfur um tekjur til að geta fengið 100% lán í einkarekna bankanum. Hann bað því vinnuveitanda sinn um að votta það að laun hans væru miklu hærri en þau voru í raun. Hann fékk 100% lán, Hann keypti einbýlishús. Hann keypti flottan, nýjan bíl. Síðan fóru hlutirnir að fara á verri veg. Hann þurfti að fara að greiða af láninu. Það var erfitt. Svo kom hrunið. Þá varð það ómögulegt. Honum fannst það óréttlátt og fór að berja tunnur og skrifa vanstillta mótmælastatusa á fésbókina, til að mótmæla því að það hafði ekki verið byggð um hann skjaldborg. Húsið fór á uppboð og bíllinn var tekinn. 

Við ólum af okkur þessa kynslóð sem þekkti ekkert nema allsnægtir, sem kunni sér ekki hóf, sem trúði því að hún yrði bara ríkari og ríkari og myndi vel ráða við lánin sín. Hér var á ferðinni íslenska útgáfan af ameríska draumnum. Þetta er kynslóðin sem ég hef stundum kallað "ÉG-NÚNA"-kynslóðina. Þetta er kynslóðin sem er nú að vakna upp við það að allt er breytt. Það er harkaleg lexía. Henni fylgja oft persónulegar hörmungar.  Nú vill kynslóðin, börnin okkar, koma málum þannig fyrir, að við, foreldrarnir, tökum á okkur skuldir þeirra. Kannski er það réttmæt krafa. Við kenndum þeim að allt væri hægt og að þau gætu fengið allt. Við kenndum þeim vitlaust. Kannski hefðum við átt að leggja  áherslu á önnur gildi.

--------------------

Ég er hér búinn að draga hér upp ákveðna mynd af samfélagsgerð sem hefur sett þessa þjóð á ystu nöf. Auðvitað er það ekki svo, að þessi mynd eigi við alla sem tilheyra minni kynslóð og kynslóð barna okkar, hinsvegar tel ég að hún skýri margt sem hér hefur gengið á.

2 ummæli:

  1. Ljúfur piltur, lítil táta
    liggja nú og auðsæld gráta,
    allt er horfið engin jól
    ekkert fæst nú bankaskjól,
    fyrir vindum vondum, köldum
    - veltast þau í skuldaöldum.
    ***

    Einhvern veginn urðum við
    öll að læra á þennan sið:
    "gefðu ekki um getu fram"
    ger þeim borga - já og skamm
    ef þau heimta meir' og meir'
    minnstu þess að fleir' og fleir'
    hörðum nýtist heimi í
    heldren fjármagns bríarí!

    Heiðarleiki og hlýja tær
    helst hér mætti vera nær
    vinafesti og verndarhönd
    velgjörningar, tryggðabönd
    ástúðleikans orðin hlý
    eignist hérna sess á ný
    gleði frjó án græsku og fals
    gróa fái á braut hvers manns!

    Hirðkveðill predikar um mannleg gildi :-)

    SvaraEyða
  2. Að vanda er hér um að ræða hinn vandaðasta kveðskap. Bestu þakkir :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...