"Það er nú allt í lagi að hafa þetta á hreinu", hugsaði ég með mér, auk þess sem ég tjáði fD hvað ég var að hugsa, um leið og ég stillti kílómetramælinn á 0, á sama tíma og ferðin til höfuðborgarinnar hófst.
"Þú verður að halda takkanum inni" sagði fD þegar 0-ið birtist ekki strax, en auðvitað vissi ég hvað ég var að gera, og það koma að því að það birtist og ferðin gat hafist.
Þarna hafði ég s.s. ákveðið að mæla vegalengdina frá Laugarási til Reykjavíkur eftir tveim mismunandi leiðum. Til "borgar dauðans", eins og sumir kjósa að kalla höfuðborg lýðveldisins, ókum við sem elið lá niður Skeið, og síðan yfir Hellisheiði. Þegar ekið var yfir brúna þar sem Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur mætast var mælisstaðan tekin: 93.2 km.
Vegna þess að ég var í mælingastuði lék mér forvitni á að vita hve mikið yrði ekið innan borgarinnar og setti því mælinn aftur á 0.
Við ókum fram og til baka um borgina: það vantaði liti, það þurfti á nálgast afmælisbarnið, það þurfti að komast á veitingastað (ein besta piparsteik sem ég hef fengið), það þurfti að nálgas miða í kvikmyndahús, það þurfti að nálgast málningarramma, það þurfti að útrétta hitt og þetta fleira, það þurfti að skjótast í heimsókn á æskuheimili, það þurfti að skella sér í kvikmyndahús ( Brim, er sérlega góð mynd - dálítið sérstök, en vel gerð að mínu mati), það þurfti að skila fólki til síns heima. Þegar upp var staðið höfðu verið eknir 40.8 km, þvers og kruss um höfuðborgarsvæðið.
Enn var kílómetramælirinn stilltur á 0 og enn fékk ég leiðbeiningar fD, auðvitað þrátt fyrir að ég vissi hvað ég var að gera. Þarna var lagt af stað frá svæði sem samsvaraði því að við værum á brúna á mótum Vesturlands- og Suðurlandsvegar. Síðan var stefnan tekin á Mosfellsheiði, ekið um Þingvöll og eftir nýjum Lyngdalsheiðarvegi í yfirmáta óskaplegri rigningu og hvassviðri. Þegar við renndum í hlað í Kvistholti sýndi mælirinn 94.2 km.
Þetta þýðir einfaldlega að það er uppi ákveðinn vandi í framtíðinni. Í kílómetrum talið er hér um að ræða nánast nákvæmlega jafnlangar leiðir, en þær eru hinsvegar ólíkar.
Kostir þess að aka um Skeið og Hellisheiði snúa fyrst og fremst að því að maður getur komið við í höfuðstað Suðurlands, ef því er að skipta og einnig, að hér er um að ræða beinan veg þar sem fátt er til tafa (hámrkshraði alla leið). Þegar tvöföldun um Hellisheiði er lokið verður þessi leið enn álitlegri kostur.
Helsti ókostur þessarar leiðar er sú lífshætta sem maður setur sig í við að aka um Ölfusið og heiðina, bæði vegna hálf vitskertra ökumanna sem þar virðast oft eiga leið um og vegna umferðarþungans, sérstaklega þá þegar höfuðborgarbúar eru að skella sér í sunnudagsbíltúra sína (eiginlega sami ókostur og sá sem fyrr var nefndur).
Helsti kostur þess að fara um Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði er sá, að þar er (enn sem komið er) tiltölulega lítil umferð og lífshætta því minni. Auk þess verður það að teljast kostur, aðallega fyrir farþega, að umhverfið er ólíkt skemmtilegra.
Stærsti ókostur þessarar leiðar er hinsvegar sá að það tekur lengri tíma að fara þessa leið vegna flöskuhálsins í gegnum þjóðgarðinn, en þar er 50 km hámarkshraða á um það bil 10 km kafla. Til þess að þessi leið verði varanlegur og raunverulegur valkostur fyrir Laugarásbúa er ekki um annað að ræða en leggja nýjan veg um þjóðgarðinn, beinan og breiðan 90-km veg. Það er næsta krafa.
Umhverfisfólkið (sá hluti þess sem vill helst að Ísland verði lokað öðrum en fólki sem gengur Laugaveginn eða Fimmvörðuháls, reglulega) má auðvitað ekki heyra minnst á svona brjálæðislega mengandi hugmyndir, en ég tel að því styttri tíma sem það tekur ökutæki að fara um þjóðgarðinn, því betra. Því oftar sem ökumenn þurfa að stíga á bremsur, hægja á sér og auka hraðann, því minni verður mengunin af umferðinni.
Samantekt:
Valkostur 1: 91.2 km: Laugarás - Grímsnes - Ölfus - Hellisheiði - Reykjavík
Valkostur 2: 93.2 km: Laugarás-Skeið -Ölfus - Hellisheiði - Reykjavík
Valkostur 3: 94.2 km: Laugarás - Lyngdalsheiði - Mosfellsheiði - Reykjavík
Valkostir taka mið af því, að umferð sé nokkuð eðlileg.
-------------------
mér finnst vanta tímann sem það tók að keyra hverja leið fyrir sig, það skiptir líka máli.
SvaraEyðaÞað hefði ekki orðið marktækt þar sem veður aðra leiðina var tiltölulega bjart, en niðamyrkur, hvassviðri og úrhellisrigning hina.
SvaraEyðaÉg verð nú að sýna vísindalega námkvæmni :)
vísindaleg nákvæmni hefði þá liklegast falist í því að mæla tímann samt sem áður og gera grein fyrir utanaðkomandi áhrifum :)
SvaraEyðaTil að freista þess að ná fram einhverjum vitrænum samanburði að þessu leyti hefði þurft að taka með í reikninginn, ostaskera, bensín, hestakerrur, hattakalla, myndavélar, vegagerð, o.fl., ofl. Það hefði orðið of flólkið til að nokkurt mark væri takandi á. Auk þess þurfti ég að aka bifreiðinni.
SvaraEyðaJá, þetta er skemmtilegt.