Ég hef nú af einhverjum ástæðum ímyndað mér það, að við þessar aðstæður, þegar kr***** er að breyta þessu þjóðfélagi í grundvallaratriðum, þá muni hverfa úr daglegri umræðu frásagnir af brjálaðri, eða botnlausri, eða bullandi samkeppinni sem við höfum notið þess að búa við á þessu landi.
Undanfarin ár spruttu upp fyrirtæki á öllum sviðum þjóðlífsins okkur neytendum til hagsbóta. Við nutum þess að geta alltaf fundið eitthvað sem var miklu ódýrara en eitthvað annað. Frásagnir af stórskostlegum verðlækkunum til að takast á við keppinautana voru daglegt brauð. Ég man t.d. svo vel eftir þeirri vellíðunakennd sem hríslaðist um mann þegar ekið var inn á Selfoss úr höfuðborgarátt og maður kom fyrst að bensínstöð Atlantsolíu sem bauð bensínið á 174.10, keyrði síðan framhjá Bensínorkunni með sitt samkeppnistilboð upp á kr. 174.20, bara til að fara svo framhjá Olís 100 metrum lengra með magnað tilboð sem hljómaði upp á hvorki meira nér minna en kr. 174.30. Eftir að hafa síðan ekið í gegnum Selfoss til að athuga með nýjasta dúndur tilboð N1 í samkeppninni komst maður svo að því, að það hljóðaði upp á kr. 174.40. Að sjálfsögðu snéri maður alltaf við, keyrði tvo kílómetra til baka á bíl sem eyðir 10 á hundraðið, og keypti bensínið á lægsta verðinu og sparaði þannig heila 30 aura á lítrann. Ef maður var svo heppinn að vera með tóman tank sem tók 60 lítra, sparaði maður heilar 18 krónur!
Þetta var gósentíð hjá okkur neytendum. Bullandi samkeppni á öllum sviðum.(Það voru bara einstaka sérvitringar, eins og gamli unglingurinn, sem hélt sig alltaf við sama bensínafgreiðslustaðinn, sama á hverju gekk. Hann hefur kannski tapað heilum 500 kalli á því á síðustu 10 árum, en hann vildi vera trúr því sem hann kallaði 'vini sína' og sem einu sinni hét Esso og tengdist þá lengi vel tilteknum stjórnmálaflokki).
Ég tók hérna dæmi af því hve vel olíufélögin hafa staðið sig í að standa vörð um hag okkar neytendanna. Sannarlega getum við verið þakklát. Takk, góðu olíufélög.
Það má svo einnig þakka það að fá að upplifa allar fallegu bensínstöðvarnar, sem blasa við sem andlit allra bæja á landinu,
Það voru vissulega fleiri en olíufélögin sem stóðu sig dúndrandi vel í að tryggja það að við lifðum í vellystingum praktuglega í þessu landi þar sem frjáls samkeppni blómstraði á öllum sviðum. Góðir menn spruttu fram með ómótstæðileg tilboð á öllum sviðum. Hver kannast t.d. ekki við hvað öll símafyrirtækin hafa staðið sig vel í samkeppninni um viðskiptavinina. Með einföldum gjaldskránum var okkur gert kleift að velja ávallt ódýrasta kostinn. Með því að hringja alltaf í tiltekin símanúmer, eða kaupa tiltekna þjónustu frekar en aðra, gátum við örugglega sparað 100-200 kr á mánuði.
Hin heiðarlega og sannfærandi, bullandi samkeppni í þeim geira sem sér okkur fyrir daglegum nauðsynjum, er afar þakkarverð. Þar á bæ hefur ekkert verið til sparað til að við þyrftum að eyða sem minnstu í nauðþurftir. Maður á varla orð til að lýsa því hve fallega það er gert af þessu góða fólki að bjóða okkur upp á allskyns valkosti. Þeir reka alltaf tvær tegundir af matvörubúðakeðjum. Önnur selur á lágmarksverði við lágmarksaðstæður. Hin selur hann á hámarksverði við hámarksaðstæður. Snilld. Með þessu móti getum við sem eigum litla peninga farið í ódýru keðjuna, meðan við sem eigum fullt af peningum, getum farið í hina og þannig látið vita af því hve vel okkur gengur í lífinu. Allt í bullandi samkeppni.
Hver man ekki eftir því hvað bankarnir voru nú góðir við okkur, bæði með því að halda þjónustugjöldum í lágmarki, innlánsvöxtum í hámarki og útlánsvöxtum í yfirhámarki. Þetta voru góðir tímar. Bullandi samkeppni þar sem okkur voru nánast gefin lán. Við gátum allt með þessum lánum. Ég gat keypt mér flotta íbúð og Landkrúser, og farið í nokkrar sólarlandaferðir. Ég gat gert eins og þeir sem keyptu í matinn í dýru búðunum. Ég öðlaðist virðingu samferðamannanna fyrir velgengni mína. Þetta var allt bönkunum að þakka. Það var líka einstök gæfa okkar að fá að njóta þess, eins og hann Jón og hún Gunna í næsta húsi, að ávaxta peningana okkar með traustum hætti, á hávaxtareikningum, svo ekki sé nú minnst á peningamarkaðsbréfin og sjóðsbréfin. Hér var um að ræða bullandi samkeppni milli bankanna okkar góðu þar sem við gátum valið okkur það besta hjá hverjum og flutt viðskiptin milli þeirra eftir því hvaða dúndur tilboð þeir voru með í gangi á hverjum tíma.
Ég var farinn að örvænta að nú væri endalega lokið öllu sem heitir frjáls og bullandi samkeppni. Eg var orðinn smeykur um að allir væru hættir að keppa okkur neytendum til hagsbóta þangað til ég heyrði af því að bullandi samkeppnin um auglýsingar er enn til staðar. Þessi botnlausa samkeppni virðist vera að valda því, að við missum Singing Bee, Survivor, American models, Doktor Phil og Innlit/útlit. Ég er gjörsamlega miður mín. Það hreinlega verður að banna auglýsingar í ríkissjónvarpinu svo við getum fengið að borga meira þangað. Það má ekki gerast að við missum Singing Bee. Við viljum fá að njóta alls þess besta úr amerískri lágmenningu áfram. Það gengur ekki að taka það frá okkur, neytendum!
Lifi frjáls samkeppni sem sér okkur fyrir hverju sem er, hvenær sem er. Okkur er mikilvægt að hafa 4 sjónvarpsstöðvar, sem er fullkomlega eðlilegur fjöldi fyrir 300.000 manns. Það veitir lífi okkar fylllingu og tilgang.
Samkeppni leiðir til sigra
sumra, það tel ég sé rétt.
Það sagt er um Sigurjóns digra,
sjálfsákvörðunarórétt.