30 nóvember, 2008

Afrakstur í tilefni dagsins

Ég ætla ekki að afsaka það neitt, að mér hefur ekki auðnast að heiðra þessa síðu með andagiftminni um allnokkra hríð. Ég tel mig hafa gert nokkuð vel um síðustu helgi og þar við hefur setið.

Enn stendur yfir aðgerðin 'Bað fyrir jól' og enn er ekki ljóst hvort sú verður raunin. Þetta gengur allt rólega fyrir sig og mér sýnist að viðskiptavinalitlar eða lausar byggingavöruverslanirnar hafi verið og séu duglegar að skella nýjum verðmiðum á það sem þær hafa að bjóða. Ég ætla ekki einu sinni að nefna þær tölur sem við höfum rekist á í mörgum þeirra verslunargímalda sem við höfum átt leið í.
Það er haldið áfram í vonina að aðgerðin fái farsælan endi áður en kirkjuklukkur hringja inn jólahátíð.

Framundan er hin árlega gírskipting þegar prófatími gengur í garð og Berlínarferð liggur í loftinu á aðventu - með það meginmarkmið að líta augum nýjan ættarsprota, sem ekki hefur enn birst þessari veröld.

Þá er þess að geta að þetta er svona daginn eftir dagur og læt ég mönnum eftir að túlka hvað átt er við með því, en mágkonan í efra skellti upp miklum fagnaði þegar kvöldaði í gær, í tilefni af markverðu skrefi á lífsgöngu sinnni. Það kvöldaði og svo nóttaði og það lá við að það dagaði áður en leið lá loks heim að þessu loknu.


Gamli unglingurinn var að rifja það upp áðan þegar hann tók próf til að öðlast ökuréttindi fyrir allnokkrum árafjölda síðan. Þessi atburður mun hafa átt sér stað í höfuðborginni og prófdómarinn einhver lögregluþjónn, sem dags, daglega stóð á gatnamótum og stýrði umferð með bendingum. Í þessu prófi urðu þeim gamla á mistök sem hefðu getað haft slæmar afleiðingar, en það mun hafa sloppið til. Þar sem próftakinn ók bifreiðinni um kartöflukofahverfi Reykvíkinga, skipaði prófdómarinn honum skyndilega að stöðva ökutækið, sem hann og gerði. 
'Máttu stöðva hér?' 
Próftakinn leit í kringum sig og sá ekkert sem af til kynna að þarna mætti ekki stöðva; malargata á milli kaartöflukofanna.
 'Já.'
'Nei, það máttu ekki. Það er harðbannað að stöðva bíl á gatnamótum!'

Þess vænti ég, að mönnum sé það ljóst, þegar hér er komið lestri, að ekki er nú andríkinu fyrir að fara þessu sinni. Svo verður að vera.



4 ummæli:

  1. Í andleysinu er ekki neitt að frétta
    og engum þarf að segja neitt af létta.
    "Daginn eftir" drjúgan, kvað ei Palli
    sem dálitlu , hjá systur, lent' á skralli.

    H.Ág.
    (Bloggskapur um meint andleysi)

    SvaraEyða
  2. Afsakið ónæðið, en mig langar talsvert að vita hver orti þessa hlýju vísu, sem birtist í lok síðasta "pistils".
    H.Ág.

    SvaraEyða
  3. Anónía kær. Ég birti ekkert þarna sem ekki er komið ú mínum eigin hugarheimi, nema geta höfundar.

    SvaraEyða
  4. Takk, þá er ég sem sagt ekki "alveg eins vitlaus og ég lít út fyrir" (tilvitn. Ágúst Sigurðsson; óskráð samtal við c.a.4rra ára dóttur)
    Þá veit ég sem sagt að hann hafði á réttu að standa.

    EN við fórum að sjá Skilaboðaskjóðuna í gær; Hrannar Kristinn 6 ára, Gurðrún Helga 8 ára, tengdadóttirin sem er það ekki lengur, en fyrir henni er ég eilíft tengdó - já og svo ég sjálfur fór líka með.
    Mikið ´verður gaman þegar þið farið að sjá leikrit með litla ættarsprotanum!
    Hlakka til fyrir ykkar hönd.
    Og ég fer ekki ofan af því:
    "Best finnst okkur bara að vera dvergar - bara vera dve-e-er-gar..."!
    Þakka alla veitta upplýsing.

    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...