16 nóvember, 2008

Oma suomalainen sisar

Ég er búinn að uppgötva að ég á finnska systur og líka finnskan mág. Þau heita Astri og Gustavi Sallinen. Ég veit ekki hvað gamli unglingurinn kann að segja um þessa uppgötvun, en ekki kannast ég við að hann hafi stigið fæti á finnska grund. Þegar ég frétti af þessu voru þau nýbúin að vera á ferð í Hollandi, þar sem þau munu hafa verið að kynna sér nýjungar í blómaræktun ásamt fleiri samlöndum sínum. Þarna stóð yfir alþjóðleg blómasýning og margt skemmtilegt og fróðlegt að sjá. Mér hefur verið tjáð að meðal gesta hafi einnig, um tíma verið nokkrir Íslendingar, en þeir voru víst ekki lengi á staðnum; fóru snemma heim, eða því er haldið fram í það minnsta. 
Astri og Gustavi komu á staðinn um það leyti sem Íslendingarnir voru að tygja sig heim, og áttuðu sig víst ekki alveg á því hversvegna það var svona mikið af brotnum eggjum um alla ganga á hótelinu, klesstum tómötum og sundurtættum afskornum blómum. Þau kipptu sér vist ekkert upp við þetta, komu sér bara vel fyrir og tóku bráðlega að blanda geði við hina gestina. Sérstaklega náðu þau góðu vinfengi við nokkra Breta og Hollendinga og eiga von á þeim heim til Finnlands, til  Solvestilaani í síðari hluta febrúar á næsta ári. 
Þau skötuhjúin hlakkar víst mikið til heimsóknarinnar.

Þarna undu þau sér hið besta í Hollandi og gerðu góða samninga um laukakaup fyrir næsta ár. 


Einhver kanna að velta fyrir sér merkingu fyrirsagnarinnar hér fyrir ofan og ég er hreint ekkert hissa á því. Ég varð í það minnsta manna hissastur þegar ég las um það í sunnlenskum fjölmiðlum í vikunni að ég ætti þessa finnsku systur (fyrirsögnin merkir sum sé: hin finnska systir mín).



Ef einhver, mér skyldur, skyldi enn vera að velta því fyrir sér, hvort ég sé nú endanlega búinn að sleppa takinu á raunveruleikanum, þá skal þess getið, að þessi texti er ritaður í tilefni af því, að ofangreindir fjölmiðlar greindu frá heimsókn íslenskra blómabænda á ofangreinda blómasýningu. Móttökur munu ekki hafa verið með besta móti og voru Íslendingar þessir krafðir um endurgreiðslu vegna margnefndra ICESLAVE reikninga. Þeir brugðu þá á það ráð að segjast vera Finnar í blómasamningahugleiðingum. Mér hefur þótt gaman að velta því fyrir mér hvernig þeim tókst að setja finnskan hreim á íslenskuskotna enskuna sína.
Ég tel mig semsagt enn vera hérna megin.


Finnar í framandi landi
fundu þar blóm bæði og vin.

5 ummæli:

  1. Það fyndna við þessa blaðafregn er svo að hjónin sem voru á ferð með Gunnari á Ártanga heita víst Sveinn og Áslaug, hann Sæland en hún Sveinbjörnsdóttir.
    Blaðamannstuskan var víst ekki lengi að leggja saman tvo og tvo þegar hann heyrði ættarnafnið enda átti hann svo helvíti góða mynd af tengdapabba.
    Kv. Aðalheiður

    SvaraEyða
  2. Annars kann maður sig ekki frekar en fyrri daginn.
    Ég ætla því hér og nú að þakka þér fyrir hárbeitta pistla upp síðkastið. Það er satt og rétt að við erum allt of mörg þannig að við nennum varla að láta skoðun okkar í ljós, tuðum bara og samsinnum þeim sem nenna.

    Bestu kveðjur,
    Aðalh. Helgad.

    SvaraEyða
  3. Fyrri hluti:
    Sagan er ekki verri fyrir þessar nýju upplýsingar - nema að því leyti að ég á ekki lengur finnska systur, hvað þá mág.
    Seinni hluti:
    Ég er að tuða - ég hefði, í það minnsta, verið afgreiddur sem tuðari á sama tíma fyrir ári. :)

    SvaraEyða
  4. Finnar í framandi landi
    fundu sér blóm, já og vín
    ansans í ágætu standi
    endaði þar systir mín.
    Ei var hún drukkin sú dama
    en dálítið syfjuð og þreytt
    - og mér er andskotans sama -
    alls ekki þekk' hana neitt!

    Þannig var það nú þegar upp var staðið!

    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða
  5. Svakalega er eitthvað heimilislegt að þú skulir aftur vera farinn að skrifa á óskiljanlegu máli.
    Kær kveðja að norðan.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...