23 nóvember, 2008

Hátíð fer að höndum



Þetta er sá tími á hverju ári undanfarin 10 ár eða svo, sem hefur snúist að stórum hluta um það, á þessum bæ, að æfa fyrir aðventutónleika í Skálholtsdómkirkju. Þessir tónleikar fóru stækkandi ár frá ári og voru orðnir fastur punktur í jólaundirbúningi fjölda fólks hér í uppsveitunum. 
Fyrir tveim árum voru haldnir þrennir tónleikar fyrir fullri kirkju, sem þýðir að um 900 manns nutu þess með okkur að eiga þessa stund með úrvals listafólki. 
Tónleikarnir á síðasta ári skáru sig úr að því leyti, fyrir okkur Kvisthyltinga í það minnsta, að tenórinn okkar fékk þar að spreyta sig ásamt Diddú. Ekki töldum við það vera slæmt. Tónleikarnir þeir mörkuðu einnig þau tímamót, að þá var það orðið ljóst, að Hilmari Erni var ekki lengur ætlaður staður á þessu forna biskupssetri. Í hönd fóru svo jól reiðinnar, þrjóskunnar og depurðarinnar í hugum margra þeirra sem störfuðu og starfað höfðu að tónlistarmálum undir stjórn Hilmars. Þá strax var það orðið ljóst í mínum huga að næsta aðventa og jól yrðu með öðrum hætti en áður.

Ég ætla ekki að reyna að setja mig inn í hugarheim þeirra sem véla með málefni Skálholtsstaðar. 
Ég veit ekki ekki allt sem þar hefur verið sagt og gert. 
Ég veit ekki hvað þar hefur verið hugsað eða vonað. 
Ég veit ekki hver sú stefna er sem þaðan á að birtast okkur á næstunni, en ég efa ekki að henni verður ætlað að efla þjónustu við guð og menn. 
Ég veit ekki hvaða augum almættið lítur þau verk sem hafa verið unnin í Skálholti undanfarin ár. Ef ég þættist vita það, bæri það vott um hroka af minni hálfu.
Það sem ég veit er það sem ég sé og heyri. Það sem mér finnst er síðan blanda af því og og þeim skoðunum og hugsunum sem ég burðast með dags daglega.



Skálholtskórinn er ekki til lengur. Hilmar Örn hefur hafið störf á öðrum vettvangi. Í Skálholti er vígslubiskup, rektor Skálholtsskóla og sóknarprestur ásamt öðru starfsfólki staðarins. Framundan er stærsta hátíð kristinna manna og ég veit ekki hvernig þetta ágæta fólk hyggst nálgast almenning með sinn árlega boðskap um fæðingu frelsarans. Ég veit ekki hvort sá boðskaður muni ná til margra þetta árið. 

Þar sem ég ek framhjá Skálholti daglega virðist mér sem Skálholt sé hnípinn staður. Þaðan finnst mér ekki geisla neinum krafti í aðdraganda jóla. Þaðan stafar engri birtu lengur, ekki í áttina til mín, í það minnsta.

Það fréttist af því að það sé verið að leita til sóknarbarna í Skálholtssókn með að mynda sönghóp fyrir jólamessurnar þrjár. Ekki veit ég hvernig gengur að manna þann hóp. Það kunna enn að vera þeir sem líta á það sem samfélagslega og trúarlega skyldu sína að verða við óskum af þessu tagi. 

Ég finn ekki til þessarar skyldu lengur. Í mínum huga eru fyrir hendi skýr mörk þess sem kalla má trú einstaklingsins, annarsvegar og þeirrar stofnunar sem hefur tekið sér það hlutverk að boða Guðs orð á jörðu og þannig viðhalda trú fólksins, hinsvegar. Trúin er til án kirkjunnar, en án trúar er engin kirkja. Sú kirkja sem missir samband við fólkið er engin kirkja. Eftir stendur þá bara fallegt hús........en tómt.

5 ummæli:

  1. "Hvað er kirkjan án fólksins?" spurði Sigurbjörn Einarsson biskup þegar ég hitti hann og spurði ma. um hvort rétt væri að setja upp sumarbústaði í grennd við Skálholt.

    Hann hafði þá bjargföstu skoðun að það ætti að gera allt sem unnt væri til að auðvelda fólki að sækja kirkjuna og skapa lifandi samfélag trúaðra.

    Trú hans og skoðanir létu engan mann ósnortinn og óskandi væri að fleiri tæku sér hann til fyrirmyndar.

    SvaraEyða
  2. Jólaspá hirðkveðils Laumubloggarans:

    Skil ekki, veit ekki,virðist þó enn
    að viskan hún þjaki' ekki kirkjunnar menn.
    Flestum í héraði finnast mun leitt
    að fá ekki kórinn - sem sönginn gat leitt.

    Máske þar komi þá kór langt í frá?
    Kannski þeir stoppi í götin "sem svá"?
    Ósköp er samt fyrir almenning leitt
    að eig' ekki kór sem fær stemmingu veitt.

    ... af því þar sungu þeirra sveitungar og vinir; pöpullinn í Tungunum.

    Anónímus hirðskáld

    SvaraEyða
  3. Er þér alveg sammála Páll, sérstaklega af því ég get spjallað við hann Guð hvar sem er. Engin stofnun hefur nokkur áhrif á það. Hins vegar er ósköp notalegt að geta sameinast öðrum - í fullu frelsi - í að tjá, tilbiðja eða ræða sína trú.
    Hvað Skálholtskirkju varðar, á ég fast að einu von á að hún verði verr sótt þessi jól en þau næstliðnu.

    Og ég tek undir með þér: það er verulegur sjónarsviptir að þessum fasta liði í jólaundirbúningnum - þrotlausar æfingar tímunum saman, langt fram eftir kvöldi; uns við gátum varla meira og baugar fóru að myndast undir augunum, munnvik að síga og grámi færðist yfir andlitin...

    Og svo! Uppskeran - gleðileg söngjól og allt til sóma þessum elsta kirkjustað landsins, söngfólkinu og stjórnanda.

    Æ, mig verkjar svolítið í hjartað; nei svolítið mikið.
    Helga Ág.

    SvaraEyða
  4. Hátíð fer að höndum ein
    hana vér ekki prýðum.
    Lýður fær tendra ljósin hrein
    leiðist nú tíðum
    leiðist á helgum tíðum

    Gott væri enn að geta tjáð:
    gaman er hér að syngja.
    Langar að gjöra: gott allt ráð
    Guði að hringja
    Guðs klukkum nú að klingja.
    H.Ág.


    Viðkvæm núna vegna þessa;
    "kannski líður það hjá
    og kannski ekki" -
    það sagði Bangsímon (í frumútgáfunni)um rigninguna! Og hann var nú löngum mín Bifflía.
    H.Ág.
    Það er ekki verra en hvað annað
    að halda sér í hann...
    þann hlýja bangsamann.

    SvaraEyða
  5. Þetta var öldungis frábær pistill Palli.
    Ég vildi gjarnan fá að vita hver verður framtíð sönglífs og tónlistahalds í henni Skálholtssókn? Hvort ekki standi til að hlúa að og halda áfram þeirri grósku sem í því lífi ríkti?
    Það er erfitt að byggja upp frá grunni og hreint fáránlegt að viðhalda ekki eigum sínum fyrr en þær hafa grotnað í spað. Mannauðurinn er klárlega fyrir hendi en sýnilega í niðurníslu ef ekkert verður að gert. Starfið var metnaðarfullt og þátttakendur vel sæmdir af því. Það er leitt til þess að vita að almannarómur nær ekki til þeirra sem ráða og leggja á ráðin um sönglíf í hinu helga húsi Skálholtskirkju.
    Ég tek undir orð ykkar H.Ág. að ég er döpur yfir því að vera ekki að undirbúa aðventutónleika. Ég er einnig döpur yfir því að vera ennþá reið og sár út af metnaðarleysi þeirra sem um taumana halda. Hvers vegna vilja þeir ekki metnaðarfullt sönglíf og mannlíf á staðnum?
    Við hvað eru þeir hræddir?
    Spyr sá sem ekki veit.
    Bkv. Aðalheiður.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...