Tenging við fyrri hluta
Þetta var ekki eins og það átti að vera.
Það var því ekki um annað að ræða en kynna sér hvað var þarna í gangi. hP og fD gengu hikandi í áttina að afgreiðsluborðinu og voru innan skamms umkringd fólki sem virtist ekki vera alveg rótt.
Seinni hluti:
Fólkið hvíslaðist á, en brátt fóru að heyrast orðaskil. '....enginn faranagur í vélinni.' '....komu bara 4 töskur!' '...fylla út eitthvert eyðublað.'
hP færði sig nær afgreiðsluborðinu til að nálgast nákvæmari upplýsingar. Þar sat kona á miðjum aldri, sem bar þess greinileg merki að henni var ekki rótt.
'Þið verðið að fylla út eyðublöð - þetta hefur aldrei komið fyrir áður - eyðublöðin eru búin - ég verð bara að afgreiða hvern og einn - svo verður að fylla út tollskýrslu'
hP fór alveg að borðinu á meðan fD tók, án frekari orðaskipta, að sér að gæta handfarangurs og fríhafnargóss, nokkuð frá megin þyrpingunni.
Það var engin eyðublöð að fá lengur, en á afgreiðsluborðinu lá spjald með myndum af allskyns töskum þar sem sérhvert einkenni hverrar um sig var skilgreint með tölum og skammstöfunum. Það var augnabliksákvörðun hP að yfirgefa undir engum kringumstæðum þann stað sem hann hafði þarna náð við borðið, undir því yfirskini að hann vantaði upplýsingar. Eyðublað eða ekki eyðublað, hér skyldi þess freistað að fá afgreiðslu sem fyrst. Fyrir hP lá að þurfa að aka í næstum 2 klukkutíma áður en hvíld næðist og því var mikið í húfi.
Miðaldra konan eina við tölvuna einu hóf að skrá upplýsingar af útfylltum eyðublöðum (hver útfylling tók um það bil 5 mínútur og lengur ef viðkomandi hafði ekki fyllt rétt út. Þessa skráningu átti þessi ágæta kona eftir að framkvæma upp undir 100 sinnum áður en yfir lyki.
hP var töluvert ýtinn, á eigin mælikvarða, við þessar aðstæður og gætti þess vel að fylla alltaf þær smugur sem mynduðust þegar einhver hafði fengið afgreiðslu.
Konan miðaldra, sem varð stöðugt óstyrkari eftir því sem athugasemdum frá óþolinmóðum flugfarþegum fjölgaði, hélt áfram að skrá í tölvuna einu, af eyðublöðunum sem hún var orðin uppiskroppa með. Eftir hverja skráningu prentaði hún afraksturinn út og afhenti viðkomandi útfyllanda ásamt skýrslueyðublaði sem þurfti útfyllingu hjá tollinum.(Nauðsynlegt að tryggja að fólk væri ekki að brjóta lög með því að freista þess að koma eins og einum koníakspela inn í landið - Guð forði oss frá þeim óskunda!)
Þegar um það bil 10 eyðublaðaútfyllendur höfðu verið afgreiddir með ofangreindum hætti, var hP kominn það nálægt konunni einu við tölvuna eina, að hann ákvað að taka af skarið.
Næstur?
Hérna!!!!
hP rétti fram (og teygði sig fram fyrir hendur með ein þrjú útfyllt eyðublöð) tvo töskumiða, ÁN meðfylgjandi eyðublaðs.
Honum til nokkurrar undrunar tók konan eina við miðunum, umyrðalaust, og hóf að slá númerin inn í tölvuna.
'Hvernig líta töskurnar út?' sagði hún og benti á spjaldið með töskulýsingunum.
'Önnur er eitthvað í líkingu við þessa, en þó ekki eins og svört, og hin er líka í líkingu við hana, en rauð og minni.'
Þetta dugði til að hú slægi einhverjar skammstafanir inn í tölvuna einu.
'Símanúmer?' hP svaraði samviskusamlega.
'Hvaða númer á ég svo að hringja í til að fá upplýsingar á morgun?' Konan eina svaraði samviskusamlega og hP skráði númerið samviskusamlega. Samskiptin voru samviskusamleg í öllu.
Eftir áðurnefndar 5 mínútur lauk konan eina, skránigunni í tölvuna einu og ýtti á 'print'. Innan skamms hóf prentarinn sína vinnu og út kom áprentað blað með tölum og skammstöfunum. Þetta blað afhenti konan hP ásamt eyðublaði handa tollinum.
Áfanga var lokið - en það var ekki laust við að hP væri lítillega órótt vegna sívaxandi áánægju annarra þeirra, sem þarna biðu afgreiðslu, en sem hann hafði, böðlast fram fyrir samkvæmt 'íslenskri' biðraðahefð.
Hann olnbogaði sig út fyrir hópinn í átt að fD, sem þar beið, þolinmæðin uppmáluð, eða þannig. Þar féllu orð, sem ekki verða endurtekin hér, en áttu fyrst og fremst uppruna sinn í talfærum fD.
Nú lá leiðin í átt til tollvarðanna, sem, þegar hér var komið, vissu um hvað málið snérist. Þar var hP gert að skrifa undir skjal þess efnis, að hann hefði fullnýtt tollfrjálsar innflutningsheimildir í fríhöfninni og honum var jafnfram gerð grein fyrir, að töskurnar yrðu skannaðar þegar þær fyndust. Lítilsháttar kvíði gerði vart við sig vegna einhhvers sem ekki verður nefnt hér og sem finna mátti í töskunum, en hP lét að sjálfsögðu á engu bera: ' Allt í fína!'
Í framhaldi af þessu er ekki mörgu frá að greina í ferðalagi hjónakornanna. Heim voru þau komin kl 03.00 í stað 01.00, heldur óhress með það að töskurnar hefðu verið skildar eftir í Berlín. Hvarnig gat slíkt átt sér stað? Átti enginn að sjá um að tryggt væri að farangur væri kominn í flugvélina?
Eftir ríflega 3ja tíma svefn var haldið til vinnu.
Þegar honum þótti ljóst að Keflvíkingar væru komnir á fætur, hringdi hP í númerið sem konan eina hafði gefið upp,
Lífsglöð kvenmannsrödd svaraði.
'Ég heiti hP og kom með flugi frá Berlín í gærkvöldi.'
'Já, þú ert að athuga með töskurnar.'
'Já, rétt er það.'
'Þær eru núna á leiðinni á Selfoss með rútu. Þú getur sótt þær þangað.'
'Ég á ekki leið á Selfoss á næstunni og það er dót í töskunni sem við verðum að fá í dag (auðvitað ekki satt - spurning um að láta ekki fara svoleiðis með sig).'
'Ekkert mál. Ég panta bíl til að fara með þær heim til þín.'
'Hvað kom eiginlega fyrir?'
'Það voru mistök. Töskurnar komu til landsins með flugvélinni.'
hP ákvað að spyrja ekki frekar. Þetta var í hans huga eitt það hálfvitalegasta sem hann hafði heyrt á sinni þó nokkuð löngu ævi. Hvernig mátti það vera, að farangur úr heilli flugvél kæmist ekki til skila eftir að hafa verið tekinn út úr farangursrými einu flugvélarinnar á vellinum??? Spurningin kalaði á of fáranleg svör til að hægt væri að spyrja hennar.
Töskurnar komu heim, með leigubíl frá Selfoss um kvöldmatarleytið. Leigubílstjórinn var augljóslega ánægður með góðan túr í kreppunni.
-----------------
Það getur vel verið að næsti stjórnarfundur flugfélagsins verði athyglisverður.
hPtelur hinsvegar að hér sé um að ræða einhverja alvitlausustu uppákomu sem hann hefur lent í, og er þá langt til jafnað,
ENGIN AFSÖKUN - en töskurnar komu þó.