Það hefur nú ekki verið minn stíll, svona almennt séð, að gera mál úr því þótt eitt og eitt ár tínist í safn þeirra sem ég hef þegar safnað upp. Þessu sinni hélt ég að ég væri einu ári eldri en raunin er - og það merkilega er, að það breytir engu.
Í barnaskap mínum tók ég til við það í morgun, að svara stuttlega nokkrum kveðjum sem mér höfðu borist frá nátthröfnum á fésbókinni. Þetta hefði ég sennilega ekki átt að gera því það skipti engum togum, að í allan dag hafa streymt þarna í gegn afmæliskveðjur frá þeim sem þar eru skráðir sem 'friends'. Ég er auðvitað afskaplega réttsýnn maður í öllu tilliti og hef því ekki kunnað við annað en að svara hverri einustu kveðju, með þeim afleiðingum að fáu öðru hef ég komið í verk - meira að segja seðlabankinn hefur beðið.
Ég er búinn að læra eitt enn í tengslum við fésbókina - sko mig.
---------------------------
Annars er fátt um þennan viðburð að segja annað en, að ég vex enn að þroska og viti, svo ekki sé talað um reynsluna, sem er hreint alveg að sliga mig. Allt sé ég með réttum gleraugum og ég hef enn ekki hitt þann einstakling sem hefur heilbrigðari og réttari sýn á allt og allt.
Ég vil loks þakka kærlega fyrir allar kveðjurnar sem mér hafa borist, og við þá fésbókarvini mína, sem enn eiga eftir að senda mér kveðju, vil ég segja, að ef þeir fá ekki viðbrögð frá mér, þá er það vegna þess að ég er orðinn örmagna.
Loks óska ég öllum þeim sem ég hef átt samskipti við og sem lesa þessi skrif, þakklæti mitt fyrir líðandi ár, með von um að við fáum öll að njóta hóflegrar gleði og nýrra áherslna á árinu sem vofir yfir.
Nú ár er að líða í aldanna skaut
og enginn veit hvað okkar bíður.
Þá vart geislar birtu á vinanna þraut
ég vona það samt - engu' að síður
Nú árið er liðið í aldanna skaut
SvaraEyðaog enginn veit hvað okkar bíður
Vart geislar það birtu á vinanna braut
þótt von' eg biðji að alföður skaut
oss umlyki engu að síður.
Og halda nú fái sem flestir í það
sem finnst þeim best jarðar um slóðir
en eitt mun þó víst - rétt sem öldungur kvað -
að ástin og trúfesta skapar oss stað
hvar ylur er alltaf við hlóðir.
(Bloggskapur um elskulegt líf á nýju ári)
H.Ág.
sem óskar:
Gleði og gæfu til handa Kvisthyltingum hvarvetna á jarðarkringlunni! ... og (að sjálfsögðu líka og sérstaklega), fröken Júlíu, yngsta hyltingnum, sem enn hefur ekki óðalið litið.
Hirðkveðillinn
Ágæti sönvin í aungvum kór
SvaraEyðaekki eru skilaboðin stór:
næ ekki til þín um netpost þínn
negli svo þakkir hérna inn.
Fyrir skjót viðbrögð við eymingjabeiðni minni.
Og allt í afar góðu með það!
Takk og kveðjur að vanda út um allt!
Hirðkveðillinn