30 desember, 2008

... og mótmæli í Skálholti

Í dálki sem kallast 'Fólk & fjör' í Sunnlenska fréttablaðinu, sem kom út 29. desember, er ofangreind fyrirsögn á smáfrétt. 
Ég tek mér leyfi til að slá þessa frétt hér inn: 
Hermt er, að einungis 10-15 Tungnamenn hafi látið sjá sig í jólamessu Skálholtskirkju. 
Dræma aðsókn má rekja til óánægju með brotthvarf Hilmars Arnar Agnarssonar,  organista.
Nýráðinn organisti, Glúmur Gylfason, þurfti að smala saman sérstökum kór fyrir messuna, en Skálholtskór, sem var undir stjórn Hilmars, neitar að syngja í kirkjunni.

Það er sjálfsagt margt sem þörf væri að skoða í sambandi við þessa litlu 'frétt'. Ég ætla hér að tæpa á þrennu:

a. Hver taldi þessa 10-15 Tungnamenn? Voru þeir kannski bara 5, 
eða 25? Það er kannski ekki aðalmálið, jafnmikið áhyggjuefni 
engu að síður. Jólamessan var til skamms tíma ein fjölmennasta 
messan á hverju ári og ef rétt er talið ætti kirkjan að líta 
þessa stöðu mjög alvarlegum augum.

b. Er það rétt, að Glúmur Gylfason sé nýráðinn organisti 
í Skálholtskirkju?
Ég vissi ekki betur en Glúmur væri sestur í helgan stein 
og hefði hlaupið í skarðið tilað bjarga málum tímabundið. 
Það er kannski bara hreinn misskilningur hjá mér.

c. Ég leyfi mér að spyrja hvernig kór sem ekki er til getur 
neitað að syngja í Skálholti. Það er þannig, að kór er til 
vegna þess að það er fólk sem kemur saman til að syngja 
saman undir einhverju tilteknu nafni.
Ef ekki er fólk, þá er enginn kór. Þannig er einfaldlega 
staðan. 
Því er það afar frjálslega farið með staðreyndir málsins 
þegar fullyrt er, að Skálholtskór neiti að syngja í Skálholti. 
Skálholtskór er ekki til þessa mánuðina og getur því 
engu neitað.
Það væri gaman að fá upplýsingar um, hvaða heimildir 
blaðið hefur fyrir þessari neitun. 
Ég get sem persóna neitað að syngja í Skálholti 
og það hef ég reyndar gert.
Mér vitanlega stendur ekkert sérstakt í veginum 
fyrir því að Skálholtskór verði stofnaður að nýju - 
það þarf bara til þess fólk og stjórnanda.

Ekki meira um það.

4 ummæli:

  1. Kórinn, sem hvergi er til
    kann samt á allmörgu skil:
    hann neitar að syngja
    nær klukkurnar klingja;
    og hvumsa mín' undran ei dyl!

    Hirðkveðillinn Anoníma

    SvaraEyða
  2. sæll sveitungi
    ég held mig sekan í þessu máli en ekki var samt ætlunin að spjall yfir jólasteik heima í brekkugerði rataði á prent en við eitthvað svipað þurfti faðir minn einhverntíma að búa meðan ég var í blaðamennsku. ég ku hafa haft flest sem þarna var sagt á orði og er það þó vitaskuld rangt að glúmur hafi verið ráðinn til nema til að hlaupa í skarðið eins og þú segir. um hitt,- talningin er rétt svo langt sem hún nær en má þó bæta því við að í kórnum voru aðrir 10 tungnamenn og ef ég tel mig tungnamann þá potast þessi tala eitthvað upp með okkur burtfluttum. hvað varðar að skálholtskórinn hafi neitað einhverju,- það orkar örugglega tvímælis að orða hlutina þannig en þó hygg ég að við getum verið sammála um að fólk sem áður skipaði þann kór syngur ekki nú í skálholtskirkju vegna óánægju með skipan mála á staðnum og reyndar held ég að það sé ekki of sagt að tala um mótmæli tungnamanna sem þeir sýndu með laklegri mætingu þennan ´jóladag. og við getum verið sammála um að þetta er ástand sem kirkjan á og hlýtur að taka alvarlega.
    áramótakveðjur í kvistholtið
    bjarni harðarson

    SvaraEyða
  3. Sæll Bjarni Laugarásbúi
    Þakka þér viðbrögðin.
    Ekki var ég að leita eftir sökudólgi, enda er hér um að ræða eitthvað sem hægt er að líta á frá ýmsu sjónarhorni, nema etv þetta með Glúm.
    Ástæða þess að ég geri þarna athugasemdir vegna kórsins, sem ekki er til, eru fyrst og fremst þær, að til eru þeir sem kjósa að líta svo á að hann sé til og nota það honum(sem kór)þar með fremur til hnjóðs, að vilja ekki syngja fyrir fyrir sveitungana. Fyrrverandi félagar í þessum kór, sem ekki er til, vilja gjarnan syngja, en etv bara ekki undir þeim merkjum sem nú eru uppi á hinum merka stað.
    Ég veit raunar ekki hvort þessir fyrrverandi kórfélagar eru mér sammála þessu í einu og öllu, þannig að ég læt þetta vera mínar skoðanir meðan annað liggur ekki fyrir.
    Bestu kveðjur til þín og þinna á áramótum.
    pms

    SvaraEyða
  4. Sammála Páli, söngvini í örendum kór, elsta kirkjustaðar landsins.
    Jamm,
    Anóníma

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...