28 desember, 2008

Stundin milli þessa og hins

Hátíðarhöld sem tengjast árlegu jólahaldi eru nú frá og fólk þá væntanlega að freista þess að gíra sig upp fyrir það sem framundan er - endalok þessa undarlega árs og upphaf þess sem tekur við, sem ekki verður séð í fljótu bragði að muni lenda í sögubókum fyrir allsnægtir til munns og handa. Maður hefur á tilfinningunni að þessi örþjóð (ekki lengur stórasta land í heimi) kvíði því sem framundan er, en í bland við þann kvíða má greina "þetta reddast" hugsunarháttinn gamla, góða. 

Ég er viss um, að ef við tryðum því og treystum, að stjórnvöld viti hvað þau eru að gera, hvert skal stefna og hvað þarf til að koma, þá væri hægt að sjá fyrir sér betri tíð - sem kemur að sjálfsögðu.
Ég er líka viss um að landsmenn væru tilbúnir til að taka á sig byrðarnar sem heimskreppa leggur þeim á herðar, ef ekki kæmi til glæpsamleg framganga nokkurra einstaklinga. Fyrr en þeir hafa verið látnir axla ábyrgð svo undan svíður, verður þessi þjóð ekki sátt við hlutskipti sitt. Einhvern veginn held ég nú að það verði ekki raunin meðan við búum enn við sama stjórnkerfið og sama fólkið í öllum lykilstöðum samfélagsins. Embættismannakerfið er í gíslingu eins stjórnmálaflokks, eftir áratuga stjórnarsetu, þar sem einn hefur tryggt öðrum (hvort sem þar er um að ræða samflokksmenn, ættingja, góða vini eða kunningja) öruggan sess. 
Þar til svo er komið, að ég telji mig geta treyst því, að allt sem í mannlegu valdi sé gert til að láta þá sem fóru svona með heila þjóð, gjalda fyrir verk sín, er ég ekki sáttur.
Það sem ég er samt einna ósáttastur við er, að við skulum sjálf  bera stóran hluta ábyrgðarinnar á hvernig komið er, vegna þess hvernig við höfum krossað á atkvæðaseðla s.l. áratugi. Við verðum að axla þá ábyrgð, um annað er ekki að ræða. Hvað segir það okkur um þessa þjóð? Það er pæling út af fyrir sig.
------------------------------------------
Hvað á maður að kaupa mikið af flugeldum fyrir þessi áramót?
Þessarar spurningar er spurt víða þessa fáu daga milli þessa og hins.
Hérna uppi í sveit er eiginlega nauðsynlegt að taka samfélagslega ábyrgð með því að kaupa í það minnsta eins og einn fjölskyldupakka.
"Þarna kemur ein frá Hveratúni!" 
"Vá, þessi er flott! Hvaðan kom hún?"
"Það er aldeilis sem þau hafa eytt í rakettur á Sólveigarstöðum þetta árið!"
"Jæja, er Benni nú byrjaður!"
"Eigum við ekki að kveikja í stóru tertunni núna?"
Þetta er það sem það snýst um, að búa í litlu þorpi á gamlárskvöld. Nágrannar tengjast gegnum 'fýriverkið', það skapast ákveðin samkennd, sem er svo miklu meira virði en sú brjálæðislega stórskotahríð sem maður lendir í á áramótum á höfuðborgarsvæðinu. Eftir nokkrar mínútur er það ástand hætt að hafa áhrif; þú bara stendur þarna í reykmekki og púðurfnyk og sérð upplýstan himininn, án þess að það hafa nein eftirsóknarverð áhrif. Það gefst enginn tími til að vinna úr  einni upplifun, eða fjalla um hana með orðum, áður en sú næsta truflar. Má ég þá frekar biðja um sveitaáramótin.
Fjöskyldupakkarnir ku vera dýrir þetta árið (hafa reyndar alltaf verið það), en það er samt mikilvægt að taka þátt, annarsvegar til að vera hluti af þorpslífinu og hinsvegar til að styrkja mikilvægt starf björgunarsveita.

Skjótum þeim upp um áramót
útrásarvíkingum (snj)öllum
Og hirðum ekki' um það hætishót
þó hátt láti þá í fjöllum.

2 ummæli:

  1. Máninn hátt á himni skín
    Hrímfölur og grár
    Lukkan er nú liðin
    og langt hefst sultarár.
    Bregðum blysum á loft
    brátt við hér með kurt
    skjótum burt því fólki‘ er fletti‘ oss fé með kurt.

    Merkjum tertur, merkjum skot
    merkjum allt sem fer
    heitum þeirra hunda
    sem hafa - hvur einn sér -:
    Svikið, prettað oss „peð“
    pollrólega‘ og glatt
    Því við skulum skjóta þeim til Skrattans hratt.

    Segir Skratti svartur fýr „Svei ég vil ei fá
    landráðanna liðsmenn
    þá líst mér hvergi á.
    Reynið algóðan Guð
    gæti skeð að hann
    Skjólshús fynndi‘ og skyti yfir skað-lýðinn þann“




    Upp þeir flug‘ og út um flest,
    enginn vildi sjá
    „útrás, banka‘ og auðmenn“
    sér inní húsi hjá.
    Loks fannst úthýsi eitt
    -utan himnasviðs-
    Er kalt og gisið, klósettlaust
    varð kot þessa liðs.

    (Bloggskapur um gleðileg áramót)
    H.Ág.
    hirðkveðill

    Ljósritist og syngist að vild STEF-gjaldalaust!.

    SvaraEyða
  2. Elsku Palli

    Hjartanlega tilhamingju med afmælid í dag.

    Kv.
    Fam. Ekelund

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...