25 desember, 2008

Og að morgni skuluð þér sjá...


Þessir fáu dagar ársins eiga sjálfsagt að fela í sér ýmislegt sem ekki er gert ráð fyrir í annan tíma, svo sem eins og óvenjumikla trúariðkun, samveru með þeim sem manni standa næstir og hvíld frá erli hversdagsins.
Það fer minna fyrir því fyrst nefnda hér á bæ en allmörg önnur ár þar á undan af ástæðum sem hér hafa áður komið fram. Það annað er einnig með talsvert öðrum hætti en hingað, en þetta er í fyrsta sinn í nánast 20 ára sögu þeirra sex einstaklinga sem hér hafa ferðast saman gegnum súrt og sætt, að þeir eyða ekki allir jólum á sama stað á sama tíma. Sú staða kallar á nýja nálgun að ýmsu leyti:
-  símtal til Ástralíu um hádegisbil í gær þegar jól gengu í garð á þeim slóðum og fólk sat á hlýrabol með kampavín í hönd og beið þess að setjast að hátíðarkvöldverði.
- annað símtal þegar leið á kvöld hér, þessu sinni við Berlín með aðstoð áðurnefnds PS-P640 (sem, að sögn varpaði ekki nógu litfagurri mynd af heimaverandi Kvisthyltingum yfir hafið). Berlínarfólkið hafði þá lokið hefðbundnu, íslensku aðfangadagsferlinu og ungfrúin nýja svaf í rólegheitum í fangi móður sinnar.

Þetta þriðja, um hvíldina frá erlinum, á enn eftir að reyna á, að fullu, en hefur gengið nokkuð vel enn sem komið er og eindregið er stefnt að því að svo verði áfram.

Það er nú megin erindi mitt á þessum morgni að varpa þarna út til ykkar, sem að jafnaði heimsækið þær djúpu andans pælingar sem hér gefur að líta að öllu jöfnu, bestu óskum okkar Kvisthyltinga um gleði og frið á jólum. Megið ykkur takast að nýta þessa daga vel til að sinna því af alúð, sem ykkur þykir mest um vert. 


Þeir segja að það sé að hækka sól
og þessvegna séu nú haldin jól.
Það eru samt alls ekki allir á því
og ákalla frelsarann jötunni í.


1 ummæli:

  1. Víst er að hátíð með hækkandi sól
    höldum við núna og köllum þá jól
    Engin þarf hafa af því áhyggjuraun
    það alls ekki truflar mig, hreint ekki baun.

    Því sama hvað aðhöfumst örlitlir menn
    einn er hér guðinn, við skiljum það senn
    sama hvert nafnið við notum á hann
    náð hans mun söm við hvern lifandi mann.

    (Bloggskapur um jólahugsanir)

    H.Ág.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...