22 desember, 2008

Lokahönd

Á þessum bæ eru miklir framkvæmdamenn, sem hafa það viðhorf til verklegra framkvæmda, að þær séu best komnar í höndum þeirra, sem til þeirra sem til þeirra eru menntaðir.
Ég hef reynt að vera trúr þessari lífsskoðun þó vissulega hafi þeir tímar komið, að ég hef sjálfur gripið til tiltækra verkfæra og dyttað að hinu og þessu og búið til hitt og þetta. Þegar slíkt hefur verið framundan hef ég eytt löngum tíma áður en framkvæmdir hefjast, í að hugleiða verkið frá upphafi til enda, til að átta mig á verkferlinu, m.t.t. hönnunar, efnisþarfar, traustleika og annars þess sem telja má skynsamlegt þegar framkvæmdir eru annars vegar. Þetta ferli, sem ég tel nauðsynlegt, hefur ekki alltaf notið skilnings og oft fengið aðra túlkun, en ég hef þá bara tekið því.

Þegar kom að baðherberginu mikla (seðlabankanum), sem nú er við það að komast í gagnið, taldi ég að það verk væri þess eðlis, að það væri betur komið í höndum til þess menntaðra einstaklinga. Allt undirbúningsferlið, sem hefur reyndar tekið rúmlega 20 ár, þó með sérstakri einbeitingu og mikilli hugsun og hönnun frá vordögum á þessu ári. Það hefur reynt nokkuð mikið á meðfædda sköpunargáfu og einstakt auga fyrir "díteilum" (I/Ú) og rýmisnotkun (I/Ú). 
Eins og vill verða þegar iðnaðarmenn eru annarsvegar, þá eru þeir eins og kötturinn sem fer sínar eigin leiðir. Þegar hönnunin var tilbúin á haustdögum hafði ég samband við meistara í nágrenninu sem hafði góð orð um að taka verkið að sér. 

Verkið hófst síðan í síðari hluta nóvember og virðist, eins og áður er sagt, vera að ljúka á þessum degi, allavega að því er varðar stórfaglegan hluta þess.

Þó líta megi að það sem brot á meginreglunni um að fagmenn vinni verkin, þá var spartl og málningarvinna framkvæmd af aðilum sem ekki hafa til þess menntun, heldur aðeins fádæma innsæi á slík verk. 

Þá liggur fyrir, að skipta um slökkvara. Sá sem fest hafa verið kaup á, lítur sakleysislega út, en ég get með engu móti séð hvernig tenging ætti helst að fara fram. Það kemur í ljós bráðlega hvort mér auðnast að afgreiða það verk með sóma, eða hvort nauðsynlegt reynist að kalla til fagmann.

Enn liggur ekki fyrir hvernig fer með jólabaðið í seðlabankanum; ég er eldri og reyndari en svo, að ég geri mér óraunhæfar væntingar. Þær hafa oftar en ekki leitt til vonbrigða. Ég hef hinsvegar ákveðnar væntingar í þá átt að allt fari á besta veg.

Um fagmennsku fjallað er hérna
og fagurt og vel hannað bað.


3 ummæli:

  1. jahhá.. verður gaman að líta seðlabankann augum..spurning um að henda inn myndum af honum fyrir þá sem eigi komast svo glatt að berja hann augum?

    SvaraEyða
  2. http://picasaweb.google.com/pallsku/BaGerL#

    SvaraEyða
  3. Um fagmennsku fjallað er hérna
    og fagurt og vel hannað bað
    þá verður ráðin ein þerna
    að þrífa og gljápúss'ann stað.

    Bráðlega býst við að dveljum
    þar bæði hún amma og ég
    því Innlits og Úlits við teljum
    allt þar á fínasta veg.

    Svo verða kransar og sjálegt
    sett upp margt jólaskraut þar
    margs konar myndir og smálegt
    -matur og svolítill bar.

    H.Ág.
    hirðkveðill
    bankastjóra
    (Bloggskapur um seðlabanka)

    Vandaðar óskir um elskuleg jól og farsæld af fjölbreyttu tagi á nýju ári.

    Helga Ágústsdóttir

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...