01 janúar, 2009

Hvenær ætlar Kirkjuholt eiginlega að byrja - eða..?


Þetta klassíska gullkorn var eitt af þeim sem féllu í tengslum við flugeldaskothríð í Laugarási í gærkvöld. Fylgst var grannt með því hvaðan skotið var og oftar en ekki rökrætt töluvert. 
'Þarna kom ein sæmileg frá Hveratúni!'
'Nei þessi kom sko frá Sólveigarstöðum'

Það sem einkenndi þetta kvöld var umtalsverður kreppusvipur á flugeldunum, eða þá það, að í Laugarási býr um þessar mundir aðallega fólk á miðjum aldri og eldra, sem lætur orðið eins og það hafi ekki gaman að svona löguðu. Fyrir utan einhverja, að því er virtist, endalausa sprengiköku við brennuna við Brennuhól, heyrðist vart eða sást til sprenginga fyrr en áramótaskaupi lauk, en þá lifnaði líka talsvert yfir mannskapnum. Auðvitað var ekki spurning um það að samsetning flugeldasýningar Kvisthyltinga bar af, enda ekki við öðru að búast, með pottþétt kökutilboð á boðstólnum. Vissulega verður það að viðurkennast að heimilisraketta gamla unglingsins, sem var með tveim sprengikúllum, var alveg sæmileg. Aðrir stóðu ekki undir væntingum.
-------------------------------------
Á þessum nýársdegi blasir hversdagsleikinn við á ný og allt stefnir í að hann verði nokkuð langur, en handan hans bíður eitthvað til að takast á við og njóta - eins og alltaf er, þó svo segja megi að mörgum reynist tíminn sem framundan er fremur strembinn.

Þegar við erum búin að hlusta af athygli á afsökunarkenndan bjartsýnisboðskap forsætisráðherra og forseta er ekki eftir neinu að bíða - hefjumst handa af kappi - það býr mikill kraftur í þessari þjóð! - verst að það eru bara aðrir sem njóta afrakstursins. 

Hvað boðar nýárs blessuð sól?
spyr ég sem álfur út úr hól.

5 ummæli:

  1. Hvað boðar nýárs blessuð sól?
    spyr ég sem álfur út úr hól
    hef anda þó, sem ekki kól
    og upplitsdirfð að vanda.
    Enginn hrekur mig á eyðisanda.

    Lifa mun sem lifa kann
    ljúft skal æ í mínum rann
    enda mikill undramann
    ósköp vel er giftur.
    Aldrei mun ég auðnu þeirri sviptur.

    Innra býr mitt andans hnoss
    útrásar þótt berum kross
    drengir-ó ei drepa oss
    þótt dragi úr öllum sjóðum.
    Ég bý að mín' og börnum vænum, góðum.

    H.Ág.

    Eftirskrift:
    drengir-ó eru að sjálfsögðu ódrengir

    orðið undramður er stolið úr brag um Sigurð Lúter, þingeying; við skemmtilegt lag.

    SvaraEyða
  2. já verð að segja, þið Kvishyltingar áttuð góða spretti þarna inn á milli í flugeldasýningu, en því skal nú samt haldið til haga að skotsýning afa og SSB sló öll með.

    Nýjárskveðjur úr Churchill!

    SvaraEyða
  3. sló öll meT átti þetta að vera ....

    SvaraEyða
  4. Já Páll,
    hógværðin holdi klædd - að vanda!
    Skelfingar ósköp er nú gott til þess að vita að ekki eru allir sem forseti vor, sem eigi kann þá kúnst - og hvern ég hlakka til að sjá hverfa úr embætti. Æ, ég er óttalegur hrokagikkur - en hann er þó sýnu verri, aumingjans kallinn. Alltaf skal ég þó vera henni Dorrittu þakklát fyrir að hafa tekið að sér það verk að búa með honum. Ósköp var hún væn í sér :) :)!
    H.Ág.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...