Úr því að ég fór út á þá hálu braut, að lýsa aðdraganda og starfi að uppsetningu, eða byggingu löngu tímabærs baðherbergis í þessu húsi, finnst mér rétt að greina frá því, að nú er þessu verki nánast lokið; eingöngu eftir að láta sérsmíða, eða sérsníða spegil (hér er í engu til sparað, eins og nærri má geta) og að finna (eða láta sérsmíða) hirslu af einhverju tagi sem þarna fellur vel að.
Það þarf varla að hafa um það mörg orð, að hér er um að ræða eitthvert það besta baðherbergi sem orð fara af, og því ekki að ástæðulausu sem það ber nú nafnið 'Seðlabankinn'.
Nú er að velta því fyrir sér hvaða framkvæmdir eru næst á dagskrá, en þar er sjálfsagt af mörgu að taka, enda kominn tími til, þegar allflestir ungarnir flognir að heiman og því ekki hætta á að þeir muni jaska út því sem lagður hefur verið metnaður í.
Einn dýrasti einstaki hlutur Seðlabankans var fyrirbæri sem kallast 'tengimúffa' á útskrifuðum reikningi byggingavöruverslunar. Það kom nefnilega í ljós, þegar til átti að taka og ég tók á mig rögg, og hugðist ljúka uppsetningu á vaskskáp, að það vantaði eitt plaststykki sem nauðsynlegt var til að unnt væri að tengja niðurfalli úr vaskinum við vatnslás. Ég reyndi auðvitað að særa svona stykki út úr bræðrum mínum, sem auðvitað áttu erfitt með að skilja hvað um var að ræða, enda ekki til þau orð sem lýsa þessu fyrirbæri með fullnægjandi hætti. Það kom síðan í ljós að hvorugur átti umrædda tengimúffu. Á endanum varð það úr, að heimaverandi bræðurnir skelltu sér á Selfoss á gamlársdag til að takast mætti að ljúka verkþættinum áður en nýtt ár gengi í garð. Það gekk ekki alveg þrautalaust fyrir sig, því afgreiðslumaður í yngri kantinum þvertók fyrir að svona stykki væri til, en lét þó undan og hleypti sér reyndari jaski að málinu. Auðvitað var þetta stykki til í hundraðavís og ýmsum útgáfum, af hverjum þeir bræður komu heim með tvö, af hverjum annað reyndist passa, en ekki hitt - því mátti bara skila.
Það hef ég orðið var við, við þessar framkvæmdir, að afgreiðslumenn telja afar mikilvægt að maður kaupi fleiri en eina tegund, og fleiri en eitt stykki, svo getur maður bara skilað aftur. Vissulega er þetta að mörgu leyti jákvætt, en það læðist að mér sá grunur, að þetta sé stefna fyrirtækisins, þar sem þar vita menn að oft ferst fyrir að skila, sérstaklega ýmsu smádóti.
Hvað um það - Seðlabankinn er kominn í gagnið.
Í Seðlabankann ég sæki kraftinn
og sé engan mun á því
að gefa helvítis hundi á kjaftinn
og að heiðra minn Guð á ný.
(Ég bið lesendur að hneykslast ekki á óviðurkvæmilegu orðfærinu, en það þýðir ekki það sem það virðist þýða. Til þess að skilja hvað hér er um að ræða, þarf að kafa ansans ári djúpt - horfa framhjá orðunum og meðtaka hina þrauthugsuðu merkingu sem að baki liggur)
Djúpt hef kafað Davíð sé
SvaraEyðadulinn oní klósetté
veidd' hann upp og vatt hans föt
víða reyndust þar nú göt
eitt var stærst og ei réðst við:
árans fjárhagsgatsræksnið
Drottinn skildi dável óð
driftarmanns á Kvistholtsslóð
(leiddist ekki lesning sú)
lét sér skiljast hér og nú
hugarfarið heldur hvasst
hugsar ei þér vamm né last.
(Bloggskapur um guðlegan skilning og Seðlabankann)
H.Ág.