10 janúar, 2009

Ein talinn vera hverfur

Ekki hefur mér auðnast það, undanfarna daga, að heiðra þessa síðu með áður margumræddri andagift. Fyrir því geta aðallega verið tvær ástæður: andagiftin hefur látið á sér standa eða þá tími til að setjast við þetta hefur verið af skornum skammti. Ef hið fyrrnefnda er reyndin þá er varla mikils að vænta þessu sinni, en ef hið síðanefnda er ástæðan þá má reikna með að hér flæði fram ofgnótt andans verðmæta sem ekki hafa fengið útrás fyrr en nú, á þessum laugardagsmorgni.

Nú er bara að sjá til.

Mér finnst að það sé við hæfi, svona í upphafi nýs árs að velta því lítillega fyrir mér hvernig eitt ár lítur út myndrænt. Ég veit reyndar ekki hvort ég er mikið öðruvísi en annað fólk að þessu leyti, en ég upplifi hvert ár með myndrænum hætti, þannig, að ég sé árið eins og nokkurskonar línu sem alltaf stefnir í einhverja átt, en aldrei alveg þá sömu. Árið lítur út eins og nokkurskonar graf þar sem línan stefnir alltaf í grófum dráttum í norð-austur átt (upp og til hægri) en þó mismunandi mikið eftir árstímum. Ég mun nú reyna að lýsa einu ári út frá þessu grafi.

Janúar til maí er stefnan um það bil NNA - mjög bratt upp á við.
Júní til ágúst hægir mjög á hækkuninni og hún verður sem næst í ANA átt.
September til um það bil 20. desember er stefnan síðan í um það bil NA átt og frá þeim tíma til áramóta er stefnan beint í austur, þar til nýtt ár hefst og grafið endurtekur sig.

Þessi pæling kann einhverjum að finnast nokkuð undarleg og ekki er laust við að mér finnist það líka, ef ég yfirleitt velti því eitthvað fyrir mér. Mér kom þetta hinsvegar í hug í þeirri umræðu um einhverfu sem átt hefur sér stað undanfarna daga, þar sem fram hefur komið að einn helsti kvikmyndaleikstjóri landsins telur sig einhverfan með ákveðnum hætti vegna þess hve myndrænt hann sér viðfangsefni sín. Bubbi er þá með sama hætti einhverfur þegar hann sér alla tóna fyrir sér sem tiltekna liti. Af þessu leiðir að ég hlýt að falla í svipaðan flokk og þessir herramenn, sem hafa verið kallaðir snillingar, hvor á sínu sviði. 
Ég er því snillingur. 
Þarf ekki að hafa fleiri orð um það. 
Nýbyrjað árið stefnir, óstöðvandi, í norð-austur átt inn í eilífðina.

Alveg er ég einstakur,
og einhverfur.
Í mér kraumar eldmóður,
er andríkur.


3 ummæli:

  1. Velkominn aftur á eigin bloggsíðu! Þú ert í góðum félagsskap, eins og þú hefur raunar fyrr nefnt.
    Sunnudagur hvítur, mánudagur í mildum gráum lit, þriðjudagur er gulur, miðvikudagur milliblár, fimmtudagur ljósblágrár, föstudagur brúnn, laugardagur grænn.

    Árið er hringur hér á bæ. Núna erum við rétt að koma af efsta hluta hringsins, höldum áfram í nokkuð beinni línu að febúrar (sem er brúnn) og í lok hans - svolítið niður á við í mars. Þá fer skriðinn að herða og stefna er niður í apríl, þá maí sem er rétt áður en við sveigjum "undir" og við taka júní og júlí á "maga" hringsins. Síðustu tíu dagar júlí eru nú samt farnir að "lyfta sér" aðeins. Þá kemur ágúst - örlítið farið að togast meira upp, þá september, sýnilega farinn að halda áfram hringgerðinni, október er á verulegri uppleið og svo er strik nóvembers á mikilli hraðferð upp og smellur einhvern veginn, já smellur á desember sem lokar svo með sveigju og stæl.
    Jólin eru rétt við efsta hlutann, dagarnir á milli hátíða eins og hlutlaus, slétt lína sem hefur það eitt að markmiði að ljúka hringnum, sem gerist endanlega á gamlársdegi, deginum sem færist hægt uppá við upp úr hádegi að áramótunum og svo smellur hringurinn saman. Nýársdagur er flatur!!!

    Gott a að vera ekki einn í ein-hverfu sinni. Nóg er nú samt á okkur lagt.

    Ættarfylgjan

    SvaraEyða
  2. Alveg er ég einstakur
    og einhverfur
    í mér kraumar eldmóður
    er andríkur

    Undarlegt að eigi er
    orðum hlaðinn
    stend hér enn á brjósti ber
    bæti staðinn!

    Orðum fylgir auðnan víst
    -upphefð mikil
    orðunefndar á ég síst
    aðgangslykil!

    Þar ná aðeins miðlungsmenn
    móti taka
    öskjunum sem ætla senn
    upphefð skapa.

    Hirðkveðillinn

    (Bloggskapur um vanmat á andans ofurmennum)

    SvaraEyða
  3. Nei, engin komment.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...