Það koma alltaf þeir tímar í lífi hvers manns að hann þarf að taka verulega á - jafnvel svo að hann þurfi að fara á svig við lög sem gilda í öllum siðmenntuðum ríkjum. Þannig var málum háttað að til þess að ssetja enn einn endapunktinn á seðlabankann var nauðsynlegt að reiða fram fé til kaupa á loftljósi sem hæfði. Þegar heim var komið og uppsetning skyldi hefjast blasti þessi setning við á uppsetningarleiðbeiningum:
THIS LAMP HAS TO BE INSTALLED BY A QUALIFIED ELECTRICIAN.
Ég er auðvitað með eindæmum löghlýðinn borgari og varð strax hugsað til nágranna míns, sem telst vera fagmaður á hinu rafræna sviði. Mér varð svo strax í kjölfarið hugsað til þess kostnaðar sem við höfum þegar lagt í vegna bankans - inneign sem hver bankastjóri gæti verið stoltur af í eigin fé - og gleymdi rafvirkjanum snarlega og ákvað að þessu skyldi ég bjarga sjálfur, hvað sem tautaði og raulaði.
Ég hef fengið í mig rafstraum og ákvað því að slá út öryggi af svæðinu - auðvitað af öllu húsinu áður en ég fann hið rétta. Þessu næst fjarlægði ég rússnesku ljósakrónuna sem fyrir var, en þar sem ég treysti því ekki fullkomlega, að rafmagnið væri farið af, fór ég afar varlega inn í aðgerðina. Hver hreyfing var nákvæmlega úthugsuð og reynt að sjá fyrir hugsanlegar afleiðingar af rangri ákvörðun á hverju stigi. Þarna þurfti ekki bara að fjarlægja það sem fyrir var, heldur einnig skrúfa upp í loft loftljósið fína (50% afsláttur í Rafkaupum), meira og minna með annarri hönd, þar sem hin var upptekin við að halda undir þungan meginhluta ljóssins, sem að öðrum kosti hefði hangið í ótraustvekjandi víratengjum. Þarna leið mér eins og sprengjusveitarmanni hjá Landhelgisgæslunni, sem er ekki viss hvort hann sé að aftengja réttan vír. Þessar aðstæður hafa menn oft séð í bandarískum kvikmyndum: klukkan tifar og það er ljóst, að sprengjuvargurinn hefur sett einhverja gildru í gangverkið. Þá perlar svitinn á enni sprengjuaftengjans og spenna magnast þar til í þann mund að sprengjan springur hann klippir á rétta vírinn. (Ef sprengjan spryngi væri maðurinn ekki hetja (heldur dauður)og þessvegna ekki ástæða til að gera mynd um afrekið).
Það var eins farið með mig; sviti spratt út á enninu og fór að renna niður í augun, fötin tóku að límast við allan líkamann. Ég verð reyndar að viðurkenna, að þetta stafaði ekki að stærstum hluta af ótta við að verða fyrir rafstuði (og þar með kannski festast við vírana, bjargarlaus) heldur öllu frekar vegna þess líkamlega erfiðis sem það fól í sér að skrúfa allt á réttan stað - allt upp fyrir mig.
Ég lauk þessu verki, setti perur í og sló loks inn örygginu. Hélt síðan aftur inn í banka og kveikti loftljósið.
ÞAÐ VARÐ LJÓS
Ægifögur lýsingin flæddi um seðlabankann, enginn óþefur af bráðnandi rafmagnsvír og öryggin héldu.
Í stuttu máli - eins og svo oft áður: Ég er snillingur.
Þetta var nú ekki eina raftengda afrekið sem ég framdi á þessum degi. Jólahátíð er afstaðin og því lá fyrir að fjarlægja öllu fínu jólaljósin (hér voru engin hvít, þannig að ekki er um að ræða að við tökum þátt í áskorum kristilegra trúfélaga um að lýsa til vors). Allt tók ég niður og vafði saman og henti ofan í kassa og loks á góðan stað í geymslunni. Vissulega velti ég því fyrir mér, að ef til vill væri það góð hugmynd að vanda fráganginn til að auðvelda uppsetninguna að ári, en af því varð ekki. Mín bíður þá væntanlega að greiða úr endalausum djö.... flækjum í desember n.k.
Den tid, den sorg.
verður svo að þessu sinni.
Af því yrði einvörðungu ógagn
og ofurblogg í veröldinni.
Megi ljósin lýsa þér
SvaraEyðaljúft í bankastörfum
ætíð þegar fram þar fer
að fínum síðum, þörfum
að fínum siðum, sinna líkamsþörfum.
(Bloggskapur um bankalýsingar)
Hirðkveðillinn
Oní kassa' í klessu er
SvaraEyðakastað jólasnúru
verklag þetta veit ég er
verulega algengt hér
-að ári sótt, með andans geði súru.
(Bloggskapur um frágang á jólaljósum - gjört af hyldjúpum skilningi og samkennd.)
Hirðkveðillinn
Það er kannski rétt að koma hérna með einn góðan punkt fyrir verðandi rafvirkja framtíðarinnar (þá á ég ekki við handlagni forsetisráðherra). Það hefur reynst gífurlega vel að festa upp ljós með jarðtengingavírnum (þessum græna rondótta), hann heldur hér uppi öllum ljósum og ekki þurfti að skrúfa eina einustu skrúfu :)
SvaraEyðaEn þetta lítur vel út saman hvernig það er sett upp.