Það er að verða svo komið fyrir mér, að ég vil helst sjá að erlendir sérfræðingar af ýmsu tagi taki hér við stjórn allra helstu stofnana. Þetta er ekki lítil yfirlýsing af þessum vettvangi.
Ég, eins og sjálfsagt margir aðrir, lít svo á, að allt hið íslenska stjórnkerfi sé trausti rúið. Ein birtingarmynd þess skall á mér í gærkvöldi þegar mér barst sú fregn að til stæði að setja einn hinna nýju ríkisbanka í þrot. Fyrir þessu voru áreiðanlegar heimildir úr innsta hring og nöfn nefnd sem heimildir fyrir þessu. Mér fannst vont að geta ekki sagt með fullri vissu, að þetta væri bara bull og vitleysa, en komst að því að ég efaðist. Ég get ekki treyst því að svona muni ekki gerast. Bankinn er ekki kominn í þrot enn, en það hefur ekki aukið traust mitt á þessu apparati öllu saman.
Framsóknarmenn þykjast sjálfsagt góðir eftir gærdaginn þegar enn eitt þekkta andlitið úr sjónvarpi lenti í því, eftir ólýsanlega vandræðalega uppákomu, að verða kosinn formaður þessa "fornfræga" stjórnmálaflokks. Ég man ekki eftir sjónvarpsandliti, sem hingað til hefur gert stóra hluti á þessum vettvangi. Hvað ætli bíði sjónvarpsmannsins þegar gömlu kafbátarnir skríða undan steinum sínum innan skamms og gera tilkall til áframhaldandi áhrifa. Ég leyfi mér að efast um að hann hafi bein í nefinu til að standast það áhlaup. Stjórnmálaflokkur hleypur ekki frá sögu sinni svona einfaldlega. Valdaklíkan innan hans mun hreint ekki hverfa á braut si svona. Það mun ekki einu sinni duga að bæta Nýi fyrir framan flokksheitið, ó, sussu nei.
Það er nánast sama hvar borið er niður í leit að einhverju eða einhverjum til að trúa á á þessu landi elds og ýsu.
Menn hafa auðvitað Guð almáttugan, en umboðsmenn hans stuðla nú ekki beinlínis að trúverðugleika hans, sumir hverjir.
Þeir aru allmargir enn sem trúa af öllum mætti á eitthvað mis skondið. "Hann er eini maðurinn á landinu sem veit hvað hann er að tala um." sagði einn sanntrúaður við mig, með glampa í augum. Hver haldiði að "hann" sé? Hann veit sannarlega hvað hann er að tala um - en hefur ekki grun um hvað hann er að gera - þykist bara vita það og kemst upp með það vegna þess að það virðist enginn annar hafa nokkuð betra fram að færa - eða möguleika eða tækifæri til þess, sem er öllu líklegri skýring.
Skelfing er það rétt, sem Vilmundur sagði í margendurtekinni (Rás1 og Rás2) ræðu fyrir nokkrum áratugum: Það er ekkert lýðræði á Íslandi, heldur flokksræði. Þar er einskis svifist, hvorki í því að láta okkur finnast að við höfum einhver áhrif, né í því að tryggja völd sín og sinna.
Svei
Svei, sagð'ann og settist fyrir framan sjónvarpið,
í von um að fréttir berist af því, að reykurinn sé eitthvað að minnka
og landsýn blasi við.
Þegar vonin ein er eftir (ásamt lítilræði á einhverjum bankareikningi)
er ekki um annað að ræða en setjast við einkabankann
eftir fréttirnar og flytja pening í annan banka
sem flugufregnir hafa ekki enn spáð falli, ....
.... ekki enn.
Eins gott að eiga reikninga í mörgum bönkum.
(þetta er prósaljóð með léttu tvisti, ef það skyldi misskiljast)