Hér í Laugarási var ekki nægilega mikið af köldu vatni þegar fólki fór að fjölga, svo ekki sé nú talað um þegar ákveðið hafði verið að byggja hér sláturhús. Það varð því úr, að stofna vatnsveitufélag, sem skyldi uppfylla þessa þörf. Þetta minnir mig að hafi verið um 1960. Það var síðan lögð vatnslögn úr Vörðufelli í miðlunartank við Hvítárbrú og þaðan stofnlögn um þorpið, hvaðan væntanlegir notendur gátu síðan náð sér í vatn til heimilisins og þeirrar starfsemi sem stunduð var.
Þessi vatnsveita var síðan nokkurskonar tákn fyrir sjálfstæði Laugaráss. Þetta þorp reis á landi sem öll sveitarfélögin sem voru aðilar að Laugaráslæknishéraði, áttu, en sem laut forræði Biskupstungnahrepps. Biskupstungnahreppi var ekkert sérlega annt um þetta svæði, nema að því leyti að tekjurnar sem hann fékk þaðan, voru vel þegnar.
Árin liðu og Vatnsveitufélag Laugaráss sleit barnsskónum eins og nokkurs konar ungmennafélag, þar sem aðilar að félaginu skiptust á um að sitja í stjórn. Vatnið var gott og það var ekki laust við að Laugarásbúar væru bara nokkuð stoltir af því að geta verið sjálfum sér nægir um vatn.
Smátt og smátt fór að bera á því, að þetta fjöregg fjarlægðist fólkið, aðallega vegna þess, að það flutti stöðugt nýtt fólk í þorpið, sem ekki þekkti þessa sögu, og vegna þess að frumkvöðlarnir eltust og drógu sig út úr daglegu amstri, fluttu burt, eða dóu. Þegar sláturhúsið var aflagt hvarf einnig ein megin stoð þessa félags út úr samfélaginu.
Síðan gerðist það, að sláturhúsið var selt. Nýr eigandi taldi sig eiga helming vatnsins og hugðist nýta sér þann meinta rétt sinn, væntanlega til tekjuöflunar. Stöðugt varð erfiðara til að fá fólk til að sitja í stjórn félagsins, og þar með halda utan um reksturinn. Það var aðallega vegna þess, að ungmennafélagsandinn, sem einkennt hafði félagið, var ekki lengur fyrir hendi. Loks má nefna sem ástæðu, að það var farið að bera á vatnsskorti á álagstímum á sumrin.
Það varð úr, eftir ýmsar hótanir um lögsókn, að "félagar" samþykktu að afhenda sveitarfélaginu veituna gegn því að þeim væri áfram tryggt nægilegt kalt vatn.
Þetta sjálfstæðistákn Laugarásbúa er nú runnið inn í Bláskógaveitu. Sveitarfélaginu ber að sjá íbúum og atvinnustarfsemi fyrir nægu köldu vatni. Ég fæ ekki séð annað en þessi aðgerð hafi orðið til góðs fremur en hitt. Það er búið að leggja mikla vatnslögn til okkar og engin ástæða til að hafa áhyggjur af vatnsskorti lengur.
Mér hefur oft orðið hugsað til Vatnsveitufélags Laugaráss í tengslum við umræðuna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Þessi þjóð er ekki stór (reyndar örsmá). Svo lengi sem ég man eftir höfum við sveiflast upp og niður í efnahagslegum skilningi. Því stærri sem sveiflan upp á við hefur verið, því meira hefur fallið verið niður aftur. Það er gaman þegar við erum á toppnum, en ekki svo gaman að það geri lægðirnar þolanlegri.
Einhver stærstu rökin gegn aðild að ES hafa verið auðlindirnar og þá sérstaklega sjávarútvegurinn. Við erum hinsvegar búin að afsala okkur réttinum til þeirra með því að afhenda hann rækilega til þeirra sem kallaðir hafa verið kvótakóngar, sem urðu ríkir af fiskinum okkar og fjárfestu síðan fyrir hagnaðinn, í bönkunum sem síðan hrundu eins og spilaborg.
Ég get haldið lengi áfram með pælingar í þessa veru, en þegar upp er staðið og við lítum á möguleika okkar sem einstaklinga, þá hygg ég að þeir verði síður en svo erfiðari eftir en áður.
Við Laugarásbúar gætum, ef við vildum, haldið áfram að halda á lofti þeim gildum sem okkur eru kær, án þess að það skapaði vanda í samskiptum við sveitarfélagið. Ég neita því hinsvegar ekki, að við viljum gjarnan sjá umtalsvert meiri áhuga sveitarfélagsins á okkur.
Hvert skal haldið? Hverju breytt?
Hvernig dansað saman?
Engu það skiptir, yfirleitt,
alltaf verður gaman.
Hvert skal haldið? Hverju breytt?
SvaraEyðaHvernig dansað saman?
Engu það skiptir yfirleitt,
alltaf verður gaman.
(Einkum gaman í því sé
er við dönsum flírugt
við alla hina í e ess bje
með andlit rjótt - og gírugt.)
Vatnsins kalda veitan skín
í verulegum ljóma
Laugaráss úr átt, til mín
öllum þar til sóma.
(Bloggskapur um eessbjé - og svo vatnsveituna :) )
Hirðkveðillinn