19 janúar, 2009

Fáránleikinn

Það er að verða svo komið fyrir mér, að ég vil helst sjá að erlendir sérfræðingar af ýmsu tagi taki hér við stjórn allra helstu stofnana. Þetta er ekki lítil yfirlýsing af þessum vettvangi.

Ég, eins og sjálfsagt margir aðrir, lít svo á, að allt hið íslenska stjórnkerfi sé trausti rúið. Ein birtingarmynd þess skall á mér í gærkvöldi þegar mér barst sú fregn að til stæði að setja einn hinna nýju ríkisbanka í þrot. Fyrir þessu voru áreiðanlegar heimildir úr innsta hring og nöfn nefnd sem heimildir fyrir þessu. Mér fannst vont að geta ekki sagt með fullri vissu, að þetta væri bara bull og vitleysa, en komst að því að ég efaðist. Ég get ekki treyst því að svona muni ekki gerast. Bankinn er ekki kominn í þrot enn, en það hefur ekki aukið traust mitt á þessu apparati öllu saman.

Framsóknarmenn þykjast sjálfsagt góðir eftir gærdaginn þegar enn eitt þekkta andlitið úr sjónvarpi lenti í því, eftir ólýsanlega vandræðalega uppákomu, að verða kosinn formaður þessa "fornfræga" stjórnmálaflokks. Ég man ekki eftir sjónvarpsandliti, sem hingað til hefur gert stóra hluti á þessum vettvangi. Hvað ætli bíði sjónvarpsmannsins þegar gömlu kafbátarnir skríða undan steinum sínum innan skamms og gera tilkall til áframhaldandi áhrifa. Ég leyfi mér að efast um að hann hafi bein í nefinu til að standast það áhlaup. Stjórnmálaflokkur hleypur ekki frá sögu sinni svona einfaldlega. Valdaklíkan innan hans mun hreint ekki  hverfa á braut si svona. Það mun ekki einu sinni duga að bæta Nýi fyrir framan flokksheitið, ó, sussu nei.

Það er nánast sama hvar borið er niður í leit að einhverju eða einhverjum til að trúa á á þessu landi elds og ýsu.
Menn hafa auðvitað Guð almáttugan, en umboðsmenn hans stuðla nú ekki beinlínis að trúverðugleika hans, sumir hverjir. 
Þeir aru allmargir enn sem trúa af öllum mætti á eitthvað mis skondið. "Hann er eini maðurinn á landinu sem veit hvað hann er að tala um." sagði einn sanntrúaður við mig, með glampa í augum. Hver haldiði að "hann" sé?   Hann veit sannarlega hvað hann er að tala um - en hefur ekki grun um hvað hann er að gera - þykist bara vita það og kemst upp með það vegna þess að það virðist enginn annar hafa nokkuð betra fram að færa - eða möguleika eða tækifæri til þess, sem er öllu líklegri skýring.
Skelfing er það rétt, sem Vilmundur sagði í margendurtekinni (Rás1 og Rás2) ræðu fyrir nokkrum áratugum: Það er ekkert lýðræði á Íslandi, heldur flokksræði. Þar er einskis svifist, hvorki í því að láta okkur finnast að við höfum einhver áhrif, né í því að tryggja völd sín og sinna.

Svei

Svei, sagð'ann og settist fyrir framan sjónvarpið,
í von um að fréttir berist af því, að reykurinn sé eitthvað að minnka
og landsýn blasi við.
Þegar vonin ein er eftir (ásamt lítilræði á einhverjum bankareikningi)
er ekki um annað að ræða en setjast við einkabankann
eftir fréttirnar og flytja pening í annan banka
sem flugufregnir hafa ekki enn spáð falli, ....
.... ekki enn.
Eins gott að eiga reikninga í mörgum bönkum.

(þetta er prósaljóð með léttu tvisti, ef það skyldi misskiljast)

18 janúar, 2009

VL og ES

Hér í Laugarási var ekki nægilega mikið af köldu vatni þegar fólki fór að fjölga, svo ekki sé nú talað um þegar ákveðið hafði verið að byggja hér sláturhús. Það varð því úr, að stofna vatnsveitufélag, sem skyldi uppfylla þessa þörf. Þetta minnir mig að hafi verið um 1960. Það var síðan lögð vatnslögn úr Vörðufelli í miðlunartank við Hvítárbrú og þaðan stofnlögn um þorpið, hvaðan væntanlegir notendur gátu síðan náð sér í vatn til heimilisins og þeirrar starfsemi sem stunduð var.
Þessi vatnsveita var síðan nokkurskonar tákn fyrir sjálfstæði Laugaráss. Þetta þorp reis á landi sem öll sveitarfélögin sem voru aðilar að Laugaráslæknishéraði, áttu, en sem laut forræði Biskupstungnahrepps. Biskupstungnahreppi var ekkert sérlega annt um þetta svæði, nema að því leyti að tekjurnar sem hann fékk þaðan, voru vel þegnar.

Árin liðu og Vatnsveitufélag Laugaráss sleit barnsskónum eins og nokkurs konar ungmennafélag, þar sem aðilar að félaginu skiptust á um að sitja í stjórn. Vatnið var gott og það var ekki laust við að Laugarásbúar væru bara nokkuð stoltir af því að geta verið sjálfum sér nægir um vatn.

Smátt og smátt fór að bera á því, að þetta fjöregg fjarlægðist fólkið, aðallega vegna þess, að það flutti stöðugt nýtt fólk í þorpið, sem ekki þekkti þessa sögu, og vegna þess að frumkvöðlarnir eltust og drógu sig út úr daglegu amstri, fluttu burt, eða dóu. Þegar sláturhúsið var aflagt hvarf einnig ein megin stoð þessa félags út úr samfélaginu.

Síðan gerðist það, að sláturhúsið var selt. Nýr eigandi taldi sig eiga helming vatnsins og hugðist nýta sér þann meinta rétt sinn, væntanlega til tekjuöflunar. Stöðugt varð erfiðara til að fá fólk til að sitja í stjórn félagsins, og þar með halda utan um reksturinn. Það var aðallega vegna þess, að ungmennafélagsandinn, sem einkennt hafði félagið, var ekki lengur fyrir hendi. Loks má nefna sem ástæðu, að það var farið að bera á vatnsskorti á álagstímum á sumrin.

Það varð úr, eftir ýmsar hótanir um lögsókn, að "félagar" samþykktu að afhenda sveitarfélaginu veituna gegn því að þeim væri áfram tryggt nægilegt kalt vatn.

Þetta sjálfstæðistákn Laugarásbúa er nú runnið inn í Bláskógaveitu. Sveitarfélaginu ber að sjá íbúum og atvinnustarfsemi fyrir nægu köldu vatni. Ég fæ ekki séð annað en þessi aðgerð hafi orðið til góðs fremur en hitt. Það er búið að leggja mikla vatnslögn til okkar og engin ástæða til að hafa áhyggjur af vatnsskorti lengur.

Mér hefur oft orðið hugsað til Vatnsveitufélags Laugaráss í tengslum við umræðuna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. 
Þessi þjóð er ekki stór (reyndar örsmá). Svo lengi sem ég man eftir höfum við sveiflast upp og niður í efnahagslegum skilningi. Því stærri sem sveiflan upp á við hefur verið, því meira hefur fallið verið niður aftur. Það er gaman þegar við erum á toppnum, en ekki svo gaman að það geri lægðirnar þolanlegri. 

Einhver stærstu rökin gegn aðild að ES hafa verið auðlindirnar og þá sérstaklega sjávarútvegurinn. Við erum hinsvegar búin að afsala okkur réttinum til þeirra með því að afhenda hann rækilega til þeirra sem kallaðir hafa verið kvótakóngar, sem urðu ríkir af fiskinum okkar og fjárfestu síðan fyrir hagnaðinn, í bönkunum sem síðan hrundu eins og spilaborg.

Ég get haldið lengi áfram með pælingar í þessa veru, en þegar upp er staðið og við lítum á möguleika okkar sem einstaklinga, þá hygg ég að þeir verði síður en svo erfiðari eftir en áður. 

Við Laugarásbúar gætum, ef við vildum, haldið áfram að halda á lofti þeim gildum sem okkur eru kær, án þess að það skapaði vanda í samskiptum við sveitarfélagið. Ég neita því hinsvegar ekki, að við viljum gjarnan sjá umtalsvert meiri áhuga sveitarfélagsins á okkur.

Hvert skal haldið? Hverju breytt?
Hvernig dansað saman?
Engu það skiptir, yfirleitt,
alltaf verður gaman.



16 janúar, 2009

Fröken Júlía flýgur heim

Til föðurlandsins flaug ég fyrsta sinni
með farkosti frá Iceland Express. 
Ekki tel ég verði mér í minni
minning nein, sem vísa mun til þess.

(e-ið í Ice er borið fram)

Þreyttir spurningaþættir

Það virðist vera svo að spurningaþátta, og sjálfsagt annarra þátta líka, sem byrja vel og eru þannig góð skemmtun, bíði þau örlög að þreytast fljótt. Þetta gerist samhliða því að metnaður vex, hvort sem um er að ræða framhaldsskóla eða sveitarfélög. 

Ég þurfti að koma þessu frá mér eftir að hafa horft á fremur óskemmtilegan (leiðinlegan) þátt af Útsvari. Það er engu líkara en keppendur sumra liða séu búnir að koma sér upp kerfum til að takast á við spurningar (hlaupa strax á bjöllu og nota táknmál við leikna fyrirbærið). Húmorinn er að hverfa úr þessum þætti, en það var einmitt aðall hans. Ekki skemmtilegt.........
Það sama á við um Gettu betur, sem er að verða heldur betur þreytt fyrirbæri, þar sem ákveðnir skólar tefla fram allt að því atvinnumönnum til að halda upp heiðri sínum.

Ég held að það geti verið góð hugmynd að endurtaka svona lagað ekki, heldur gera eitthvað nýtt á hverju ári.

Spurt er og svarað í belg,
um stund, og biðu.


11 janúar, 2009

Rafmagnað lögbrot eða svitastokkinn sigur



Það koma alltaf þeir tímar í lífi hvers manns að hann þarf að taka verulega á - jafnvel svo að hann þurfi að fara á svig við lög sem gilda í öllum siðmenntuðum ríkjum. Þannig var málum háttað að til þess að ssetja enn einn endapunktinn á seðlabankann var nauðsynlegt að reiða fram fé til kaupa á loftljósi sem hæfði. Þegar heim var komið og uppsetning skyldi hefjast blasti þessi setning við á uppsetningarleiðbeiningum:
THIS LAMP HAS TO BE INSTALLED BY A QUALIFIED ELECTRICIAN.
Ég er auðvitað með eindæmum löghlýðinn borgari og varð strax hugsað til nágranna míns, sem telst vera fagmaður á hinu rafræna sviði. Mér varð svo strax í kjölfarið hugsað til þess kostnaðar sem við höfum þegar lagt í vegna bankans - inneign sem hver bankastjóri gæti verið stoltur af í eigin fé - og gleymdi rafvirkjanum snarlega og ákvað að þessu skyldi ég bjarga sjálfur, hvað sem tautaði og raulaði.
Ég hef fengið í mig rafstraum og ákvað því að slá út öryggi af svæðinu - auðvitað af öllu húsinu áður en ég fann hið rétta. Þessu næst fjarlægði ég rússnesku ljósakrónuna sem fyrir var, en þar sem ég treysti því ekki fullkomlega, að rafmagnið væri farið af, fór ég afar varlega inn í aðgerðina. Hver hreyfing var nákvæmlega úthugsuð og reynt að sjá fyrir hugsanlegar afleiðingar af rangri ákvörðun á hverju stigi. Þarna þurfti ekki bara að fjarlægja það sem fyrir var, heldur einnig skrúfa upp í loft loftljósið fína (50% afsláttur í Rafkaupum), meira og minna með annarri hönd, þar sem hin var upptekin við að halda undir þungan meginhluta ljóssins, sem að öðrum kosti hefði hangið í ótraustvekjandi víratengjum. Þarna leið mér eins og sprengjusveitarmanni hjá Landhelgisgæslunni, sem er ekki viss hvort hann sé að aftengja réttan vír. Þessar aðstæður hafa menn oft séð í bandarískum kvikmyndum: klukkan tifar og það er ljóst, að sprengjuvargurinn hefur sett einhverja gildru í gangverkið. Þá perlar svitinn á enni sprengjuaftengjans og spenna magnast þar til í þann mund að sprengjan springur hann klippir á rétta vírinn. (Ef sprengjan spryngi væri maðurinn ekki hetja (heldur dauður)og þessvegna ekki ástæða til að gera mynd um afrekið).
Það var eins farið með mig; sviti spratt út á enninu og fór að renna niður í augun, fötin tóku að límast við allan líkamann. Ég verð reyndar að viðurkenna, að þetta stafaði ekki að stærstum hluta af ótta við að verða fyrir rafstuði (og þar með kannski festast við vírana, bjargarlaus) heldur öllu frekar vegna þess líkamlega erfiðis sem það fól í sér að skrúfa allt á réttan stað - allt upp fyrir mig.
Ég lauk þessu verki, setti perur í og sló loks inn örygginu. Hélt síðan aftur inn í banka og kveikti loftljósið.
ÞAÐ VARÐ LJÓS
Ægifögur lýsingin flæddi um seðlabankann, enginn óþefur af bráðnandi rafmagnsvír og öryggin héldu.

Í stuttu máli - eins og svo oft áður: Ég er snillingur.


Þetta var nú ekki eina raftengda afrekið sem ég framdi á þessum degi. Jólahátíð er afstaðin og því lá fyrir að fjarlægja öllu fínu jólaljósin (hér voru engin hvít, þannig að ekki er um að ræða að við tökum þátt í áskorum kristilegra trúfélaga um að lýsa til vors). Allt tók ég niður og vafði saman og henti ofan í kassa og loks á góðan stað í geymslunni. Vissulega velti ég því fyrir mér, að ef til vill væri það góð hugmynd að vanda fráganginn til að auðvelda uppsetninguna að ári, en af því varð ekki. Mín bíður þá væntanlega að greiða úr endalausum djö.... flækjum í desember n.k.
Den tid, den sorg.

Varla ræð við vonlaust ljóð um rafmagn
verður svo að þessu sinni.
Af því yrði einvörðungu ógagn
og ofurblogg í veröldinni.

10 janúar, 2009

Ein talinn vera hverfur

Ekki hefur mér auðnast það, undanfarna daga, að heiðra þessa síðu með áður margumræddri andagift. Fyrir því geta aðallega verið tvær ástæður: andagiftin hefur látið á sér standa eða þá tími til að setjast við þetta hefur verið af skornum skammti. Ef hið fyrrnefnda er reyndin þá er varla mikils að vænta þessu sinni, en ef hið síðanefnda er ástæðan þá má reikna með að hér flæði fram ofgnótt andans verðmæta sem ekki hafa fengið útrás fyrr en nú, á þessum laugardagsmorgni.

Nú er bara að sjá til.

Mér finnst að það sé við hæfi, svona í upphafi nýs árs að velta því lítillega fyrir mér hvernig eitt ár lítur út myndrænt. Ég veit reyndar ekki hvort ég er mikið öðruvísi en annað fólk að þessu leyti, en ég upplifi hvert ár með myndrænum hætti, þannig, að ég sé árið eins og nokkurskonar línu sem alltaf stefnir í einhverja átt, en aldrei alveg þá sömu. Árið lítur út eins og nokkurskonar graf þar sem línan stefnir alltaf í grófum dráttum í norð-austur átt (upp og til hægri) en þó mismunandi mikið eftir árstímum. Ég mun nú reyna að lýsa einu ári út frá þessu grafi.

Janúar til maí er stefnan um það bil NNA - mjög bratt upp á við.
Júní til ágúst hægir mjög á hækkuninni og hún verður sem næst í ANA átt.
September til um það bil 20. desember er stefnan síðan í um það bil NA átt og frá þeim tíma til áramóta er stefnan beint í austur, þar til nýtt ár hefst og grafið endurtekur sig.

Þessi pæling kann einhverjum að finnast nokkuð undarleg og ekki er laust við að mér finnist það líka, ef ég yfirleitt velti því eitthvað fyrir mér. Mér kom þetta hinsvegar í hug í þeirri umræðu um einhverfu sem átt hefur sér stað undanfarna daga, þar sem fram hefur komið að einn helsti kvikmyndaleikstjóri landsins telur sig einhverfan með ákveðnum hætti vegna þess hve myndrænt hann sér viðfangsefni sín. Bubbi er þá með sama hætti einhverfur þegar hann sér alla tóna fyrir sér sem tiltekna liti. Af þessu leiðir að ég hlýt að falla í svipaðan flokk og þessir herramenn, sem hafa verið kallaðir snillingar, hvor á sínu sviði. 
Ég er því snillingur. 
Þarf ekki að hafa fleiri orð um það. 
Nýbyrjað árið stefnir, óstöðvandi, í norð-austur átt inn í eilífðina.

Alveg er ég einstakur,
og einhverfur.
Í mér kraumar eldmóður,
er andríkur.


03 janúar, 2009

Lokahnykk Seðlabanka nánast lokið


Úr því að ég fór út á þá hálu braut, að lýsa aðdraganda og starfi að uppsetningu, eða byggingu löngu tímabærs baðherbergis í þessu húsi, finnst mér rétt að greina frá því, að nú er þessu verki nánast lokið; eingöngu eftir að láta sérsmíða, eða sérsníða spegil (hér er í engu til sparað, eins og nærri má geta) og að finna (eða láta sérsmíða) hirslu af einhverju tagi sem þarna fellur vel að.

Það þarf varla að hafa um það mörg orð, að hér er um að ræða eitthvert það besta baðherbergi sem orð fara af, og því ekki að ástæðulausu sem það ber nú nafnið 'Seðlabankinn'.

Nú er að velta því fyrir sér hvaða framkvæmdir eru næst á dagskrá, en þar er sjálfsagt af mörgu að taka, enda kominn tími til, þegar allflestir ungarnir flognir að heiman og því ekki hætta á að þeir muni jaska út því sem lagður hefur verið metnaður í. 

Einn dýrasti einstaki hlutur Seðlabankans var fyrirbæri sem kallast 'tengimúffa' á útskrifuðum reikningi byggingavöruverslunar. Það kom nefnilega í ljós, þegar til átti að taka og ég tók á mig rögg, og hugðist ljúka uppsetningu á vaskskáp, að það vantaði eitt plaststykki sem nauðsynlegt var til að unnt væri að tengja niðurfalli úr vaskinum við vatnslás. Ég reyndi auðvitað að særa svona stykki út úr bræðrum mínum, sem auðvitað áttu erfitt með að skilja hvað um var að ræða, enda ekki til þau orð sem lýsa þessu fyrirbæri með fullnægjandi hætti. Það kom síðan í ljós að hvorugur átti umrædda tengimúffu. Á endanum varð það úr, að heimaverandi bræðurnir skelltu sér á Selfoss á gamlársdag til að takast mætti að ljúka verkþættinum áður en nýtt ár gengi í garð. Það gekk ekki alveg þrautalaust fyrir sig, því afgreiðslumaður í yngri kantinum þvertók fyrir  að svona stykki væri til, en lét þó undan og hleypti sér reyndari jaski að málinu. Auðvitað var þetta stykki til í hundraðavís og ýmsum útgáfum, af hverjum þeir bræður komu heim með tvö, af hverjum annað reyndist passa, en ekki hitt - því mátti bara skila.

Það hef ég orðið var við, við þessar framkvæmdir, að afgreiðslumenn telja afar mikilvægt að maður kaupi fleiri en eina tegund, og fleiri en eitt stykki, svo getur maður bara skilað aftur. Vissulega er þetta að mörgu leyti jákvætt, en það læðist að mér sá grunur, að þetta sé stefna fyrirtækisins, þar sem þar vita menn að oft ferst fyrir að skila, sérstaklega ýmsu smádóti.

Hvað um það - Seðlabankinn er kominn í gagnið.

Í Seðlabankann ég sæki kraftinn
og sé engan mun á því
að gefa helvítis hundi á kjaftinn
og að heiðra minn Guð á ný.

(Ég bið lesendur að hneykslast ekki á óviðurkvæmilegu orðfærinu, en það þýðir ekki það sem það virðist þýða. Til þess að skilja hvað hér er um að ræða, þarf að kafa ansans ári djúpt - horfa framhjá orðunum og meðtaka hina þrauthugsuðu merkingu sem að baki liggur)

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...