17 febrúar, 2009

Tímamótaheimsókn


Þessa dagana heiðrar ungfrú Júlía Freydís, afa sinn og ömmu, með nærveru sinni. Henni til fulltingis eru foreldrarnir, eins og nærri má geta.

Ekki þarf ég að fjölyrða um alla þá kosti sem þessi unga snót hefur til að bera, en návist hennar er hreint ekki þess eðlis að ástæða sé til að kvarta í neinu. 
Gamlir taktar láta á sér kræla og stutt virðist síðan síðast. Munurinn augljóslega sá, að nú er þeim sem ábyrgðina ber, færður böggullinn þegar staða mála er orðin þannig, að flokka megi sem þeirra mál fremur en mitt.
Þetta er allt hið ljúfasta mál, enda ungfrúin að mestu leyti sérlega ánægð með afa sinn, eins og reyndar er ekki óeðlilegt.

Þar birtist  oss sakleysis brosið
sem bræða nær hjarta,
sem kannski var ferlega frosið,
- en finnur von bjarta



16 febrúar, 2009

Dýrmætur farmur


Nú er lokið töluvert skemmtilegri helgi, sem fólst í ferð okkar, ömmunnar og afans ásamt yngsta syninum, norður í Skagafjörð. Einhverjir kunna að staldra við hér og velta fyrir sér hversvegna ekki eru fleiri nefndir til sögu. Svarið við því kemur næst.
Í þessari ferð var okkur trúað fyrir því að flytja með okkur hvorki meira né minna en væntanlega skírnarvotta, þær Bergþóru Kristínu og Guðnýju Rut. Það var af þeim sökum sem ég var ákveðinn í því í upphafi ferðar að stuðla að því að ferðin yrði þeim sem þægilegust og óttaminnst, svo þær gætu sinnt hlutverki sínu af alúð og elskusemi.
Ferðalagið norður tókst eins og best varð á kosið og var það mér mikill léttir að sjá að þær stöllur voru í góðu jafnvægi þegar áfangastað var náð.


Skömmu eftir norðurkomuna lá leiðin frá Neðra Ási í Hóladómkirkju þar sem ungfrú Júlía Freydís gekkst undir skírn og skírnarvottarnir sinntu hlutverki sínu af festu. Atöfnin sjálf var sérlega heimilisleg og afslöppuð, enda lagði skírnarþeginn sig fram um að vera bara þó nokkuð meðfærileg.

Þessu næst var gestum boðið til mikillar dýrindis veislu að Neðra Ási, en þar býr hitt afa- og ömmuparið.

Allt gekk þetta eins og best verður á kosið og eyddum við þarna nóttinni við ágætis atlæti.

Að morgni kom að því að tygja sig til heimferðar og var veður hið besta. Enn lá á mér sú ábyrgð að flytja skírnarvottana heilu og höldnu suður á land, því ekki er síður mikilvægt að tryggja framtíðar velferð barnsins með skírnarvottana í áframhaldandi góðu standi.

Fyrri hluti heimferðarinnar var með þeim hætti að ég var hreint ekki viss um að okkur tækist að komast ósködduð burtu ú Skagafirðinum. Svo óforsjáll hafði ég verið s.l. haust, að setja ekki nagladekk undir bifreiðina, sem gerði aksturinn á gljáandi vegakerfinu í Skagafirði að hinni mestu glæfraför. Enga stjórn hafði ég á ökutækinu og oftar en ekki var staðan sú, að ekkert blasti við nema að skíða út af veginum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þá varð yfirleitt einmana steinnybba til þess að bjarga okkur ferðalöngunum og þar með skírnarvottunum. Spurning hvort fleiri en ég hafi tekið að sér að koma þeim heilum til síns heima.

Það var aðdáunarvert hvað sumir farþeganna sýndu af sér mikla stillingu og yfirvegum í þessari glæfraför og stuðluðu þar með einnig að því að allt fór vel að lokum.

Skírn ungfrú Júlíu Freydísar verður eftirminnilegur atburður í lífi fjölskyldnanna sem að standa.

Enn og aftur
er engin vísa
Kemur kraftur
og kreppur rísa. :)


13 febrúar, 2009

Útför kórs

Ýmislegt er rætt á æskuheimilinu og lætur gamli unglingurinn þar ekki sitt eftir liggja fremur en fyrri daginn. Það sem hér kemur til skoðunar er fyrirhuguð Berlínarferð hópsins sem myndaði Skálholtskórinn, sem eins og fólk veit væntanlega, er starfar ekki lengur, af þekktum ástæðum.

Væntanlega mun ég fjalla frekar um þau mál öll síðar, þegar ég tel vera koma hæfilega fjarlægð á málið.

Niðurstaðan af ofangreindum samræðum var:
"Svo útför Skálholtskórsins er þá framundan." 
Yfirlýsingunni fylgdi gamalkunnugt glott.

Vegna tímaskorts 
verður þess ekki freistað nú, 
frekar en síðast, 
að klambra saman einhverju hnoði.

11 febrúar, 2009

Erfitt? - Loka það úti!


Ég starfa við það sem ég starfa við. 
Þetta starf felur í sér talsverð samskipti við fólk á aldrinum 16 ára til tvítugs. Ágætis fólk, kurteist og vel meinandi.
Á vinnustaðnum kemur það fyrir, vegna þess að það telst vera ein þeirra hefða sem þar lifa innandyra, að það er ákveðið að fara í kaffitíma, sem er tími þar sem hópurinn sest saman og spjallar yfir kaffibolla (reyndar er ég þá sá eini sem drekk kaffi). Þetta spjall á að vera um heima og geima. 
Ég er nú búinn að komast að þeirri niðurstöðu, að ég sé orðinn of gamall fyrir þau málefni sem efst eru á baugi hjá unga fólkinu - eða þá eitthvað annað er ekki eins og það á að vera, að mínu mati.

Ég hef áður sett fram þær skoðanir, að sú kynslóð sem ég er að fást við í vinnunni, ætti að kallast krúttkynslóðin. Ég er að hugsa um að draga þetta til baka, að hluta til, þar sem mér finnst þetta hugtak: 'krútt', ekki ná að lýsa þessu fyrirbæri nægilega nákvæmlega.
Ég hef þess í stað ákveðið að útbúa nýtt hugtak, í ljósi kaffitíma sem ég átti þátt í fyrir skömmu. (Ef svo skyldi nú vera, að einhver, sem telur sig hafa verið viðstaddan í þessum tíma og sem jafnframt les þetta, hefur eitthvað við það að athuga þá neita ég því alfarið hér og nú, að þessi kaffitími hafi nokkurntíma átt sér stað). 

Hvort sem þessi stund átti sér stað eða ekki, þá varð hún til þess, að ég fór að velta fyrir mér hvað væri í gangi hjá þessu fólki, sem nú er á aldrinum 18-20. Fljótlega eftir að umræddur tími hófst, hófust umræður um "heima og geima'. Umræðuefnið, sem mér tókst ekki að leiða í aðrar áttir, var heimur sem ekki er til. Það var fjallað ítarlega um þann heim sem birtist á hvíta tjaldinu eða sjónvarps- og/eða tölvuskjánum; alls ekki þann hluta sem snýr að því sem þessi þjóð er að upplifa þessa mánuðina. 'Fantasían' var allsráðandi og það varð ekki misskilið, að þetta var sá heimur sem virtist vera mikilvægastur var í hugum þessa unga fólks. 
Þessi tími átti sér stað (eða ekki) daginn eftir að seðlabankastjóri skrifaði forsætisráðherra bréf, þar sem hann hafnaði tilmælum um að láta af störfum.
Þegar á leið og umræðan um Star Wars-kallana og búningana, og frammistöðu leikaranna í einhverri kvikmynd, eða hvernig einhver hafði fílað einhvern tiltekinn þátt, ákvað ég að reyna að láta til skarar skríða og spurði yfir hópinn: "Og hvað segiði svo um þjóðmálin?"

Það varð þögn stutta stund, en síðan upphófst mjög einkennileg umræða (að mínu mati), sem var öll í skeytastíl, þar sem viðstaddir nánast hrópuðu sérlega niðrandi ummæli um mótmælendur sem höfðu tekið þátt í ofbeldisfullum mótmælum fyrir næstum þrem vikum. Lengra náði þetta ekki.
- Djöfulsins fífl, - og allt það.- 'Hálfvitar'.

Niðurstaða mín eftir þetta er eftirfarandi:
Ástandið á Íslandi er erfitt; erfiðara en svo að þessi kynslóð treysti sér til að fjalla um hana með yfirveguðum hætti. Þetta fólk var 8-10 ára þegar bankarnir voru einkavæddir og dansinn hófst, þegar bólan tók að vaxa. Eins og allir vita gekk þessari þjóð flest í haginn á þeim tíma. Enginn var atvinnulaus, nánast allir höfðu allt til alls. Eitt mesta góðæristímabil Íslandssögunnar gekk yfir. 

Svo sprakk bólan, eins og öllum er ljóst, þessu fólki líka.
Fólki, sem veit ekki hvað það er að þurfa að spá í hvort maður á nóg til að framfleyta sér og sínum, hlýtur að finnast þessi hugsun óumræðilega erfið og flýr því inn í heim fantasíunnar í stað þess að takast á við eitthvað svona erfitt.

Hér er fólk sem blés út með bankabólunni og er nú að uppgötva, að sá heimur er farinn og enginn veit hvað tekur við. Ég tel að það geti verið mikilvægt að veita þessu unga fólki einhverskonar áfallahjálp; að hjálpa því að sætta sig við raunveruleikann eins og hann blasir við og að kenna því nægjusemi og að takast á við nýjan heim - nýjan veruleika.

Ég kalla þessa kynslóð hér með, BÓLUKYNSLÓÐINA. 


Ég hef ákveðið, að freista þess ekki
að búa til misgóðan kveðskap
í tengslum við svo óumræðilega
umhugsunarvert málefni.

07 febrúar, 2009

Skyldi þetta vera ástæðan?




Ekki veit ég.

Vírar og vefir


Það er hægara sagt en gert að ætla sér að sópa burt vef, sem búið er að spinna s.l. 20 ár eða svo. Það kvikindi sem gat dundað sér við spunann óáreitt, er búið að byggja inn í vefinn allskyns skúmaskot sem erfitt verður að komast að. Það er ljóst að það mun taka allmörg ár að hreinsa þennan valdavef burt svo vel sé og því miður held ég að fyrir þann tíma verði búið að sannfæra okkur aftur um að án kvikindisins getum við ekki þrifist á þessu landi.
Það var ekki þetta sem ég ætlaði að segja á þessum laugardegi, en fingurnir taka af mér völdin. Von um breytta tíma styrkist lítið og það virðist ljóst að ekki verði gefist upp baráttulaust þrátt fyrir að buxurnar séu á hælunum. Úr ræðustóli þjóðþingsins og á síðum dagblaða og vefmiðla spretta þeir nú fram hver á fætur öðrum, blámennirnir, og hrópa um einelti, valdníðslu og illmennsku. Ekki er þar fjallað mörgum orðum um söguna af eigin landráðum, söguna af spillingunni sem gróf um sig eins og krabbamein, söguna um frjálshyggjubullið, sem á endanum komu heilli þjóð í þrot.

Nú tek ég fram fyrir hendurnar á fingrunum og læt staðar numið um þetta málefni. Það er hægt að klæða allt í þann orðabúning sem hentar málstað manns hverju sinni, eins og ég var að gera hér. Hver maður sér atburðina sem nú eiga sér stað með sínum augum og einnig atburði fortíðar. Það er síðan okkar, sem kjósum að fylgjast með á kantinum, að vega og meta.


Ég tel að ég sé nokkuð reyndur í því að hengja upp ljós innanhúss og utan (þegar samkomulag hefur náðst um hvernig ljós skal keypt). Hingað til hefur þetta gengið nokkuð áfallalaust fyrir sig, en nú hefur það gerst, að ég stend á gati. Ástæða þess er, að þegar ég tók mig til (það gerist einstaka sinnum) og hugðist tengja mikla lýsingu í Seðlabankanum (í viðbót við þá sem þegar er komin), að í dósinni, sem rafmagnsvírarnir eru búnir að bíða áratugum saman, voru 4 vírar í stað 3ja , eins og venjan er.
Ég beini því hér með til kunnáttufólks, að það leiðbeini um hverja þrjá hinna fjögurra víra ég á að velja. Mér líst best á þennan rauða sem 'lifandi' vírinn, þann brúna sem 'hlutlausa' og síðan auðvitað þann gulgræna sem 'jörð'. Þessi blái er einhvernveginn ekki inni þessa dagana.

Með vírum er vefurinn spunninn
ég verð víst að trúa því.
Nú er upp náðarstund runninn
með naglbítnum enn á ný.

05 febrúar, 2009

Brosað í uppsveitum

Sjaldan held ég að mér hafi þótt verðlaunaveiting betur verðskulduð en sú, að sæma þá læknana og félagana á Heilsugæslustöðinni í Laugarási, Gylfa Haraldsson og Pétur Skarphéðinsson, Uppsveitabrosinu svokallaða.
Þessir herramenn hafa starfað hér síðan einhverntíma að síðustu áratugum síðustu aldar og hefur tekist að ávinna sér óskorað traust þeirra sem hafa þurft á þjónustu þeirra að halda gegnum árin. Þó þeim hafi tekist að vinna saman svo lengi sem raun ber vitni, eru þeir afskaplega ólíkir, á sama tíma og þeir eru með einhverju móti mjög líkir. 
Það er oft svo með sjúklinga að þeir vilja hafa 'sinn' lækni, en mér hefur ekki fundist það vera vandamálið hér. 

Kæruleysisleg glettni Péturs, sem er oft dálítið kaldranaleg, jafnvel svo jaðrar við kaldhæðni eða hreint háð, en samt hlýleg, skapar fljótt afslappað andrúmsloft og auðveldar þannig samkiptin við sjúklinginn. Þegar fólk veit að sjúklingur er að fara til Péturs í fyrsta skipti, er hann oftar en ekki undirbúinn fyrir móttökurnar svo þær misskiljist ekki. Þegar kemur að fagmennskunni, tekur öruggur og yfirvegaður læknirinn við. 

Nálgun Gylfa að sjúklingum er með töluvert öðrum hætti, en engu síður árangursríkum. Rólyndið, alvarlegt fasið og yfirvegunin veitir öryggi frá fyrstu stundu, en undir ólmast hinn tamdi grallari, sem oft fær að njóta sín við önnur tækifæri. 

Það eru margir sem brosa í uppsveitunum þegar þeim verður hugsað til félaganna. Það er brosað vegna þess að fólkið veit hve verðmætt það er, að svona læknar eru á svæðinu.

Það er eins með Gylfa og Pétur, eða Pétur og Gylfa, og aðra menn, að þeir eldast. Það er eiginlega aðal áhyggjuefnið í sambandi við þá.

Uppsveitabrosið eiga þeir skilið.

Þó að heimur af hörmungum skylfi
haggast myndi ei Gylfi.

Hann er sjálfsagður sumar og vetur
sóttvarnalæknirinn Pétur.  


uss, uss - bara til að segja eitthvað.




 

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...