Nú er lokið töluvert skemmtilegri helgi, sem fólst í ferð okkar, ömmunnar og afans ásamt yngsta syninum, norður í Skagafjörð. Einhverjir kunna að staldra við hér og velta fyrir sér hversvegna ekki eru fleiri nefndir til sögu. Svarið við því kemur næst.
Í þessari ferð var okkur trúað fyrir því að flytja með okkur hvorki meira né minna en væntanlega skírnarvotta, þær Bergþóru Kristínu og Guðnýju Rut. Það var af þeim sökum sem ég var ákveðinn í því í upphafi ferðar að stuðla að því að ferðin yrði þeim sem þægilegust og óttaminnst, svo þær gætu sinnt hlutverki sínu af alúð og elskusemi.
Ferðalagið norður tókst eins og best varð á kosið og var það mér mikill léttir að sjá að þær stöllur voru í góðu jafnvægi þegar áfangastað var náð.
Skömmu eftir norðurkomuna lá leiðin frá Neðra Ási í Hóladómkirkju þar sem ungfrú Júlía Freydís gekkst undir skírn og skírnarvottarnir sinntu hlutverki sínu af festu. Atöfnin sjálf var sérlega heimilisleg og afslöppuð, enda lagði skírnarþeginn sig fram um að vera bara þó nokkuð meðfærileg.
Þessu næst var gestum boðið til mikillar dýrindis veislu að Neðra Ási, en þar býr hitt afa- og ömmuparið.
Allt gekk þetta eins og best verður á kosið og eyddum við þarna nóttinni við ágætis atlæti.
Að morgni kom að því að tygja sig til heimferðar og var veður hið besta. Enn lá á mér sú ábyrgð að flytja skírnarvottana heilu og höldnu suður á land, því ekki er síður mikilvægt að tryggja framtíðar velferð barnsins með skírnarvottana í áframhaldandi góðu standi.
Fyrri hluti heimferðarinnar var með þeim hætti að ég var hreint ekki viss um að okkur tækist að komast ósködduð burtu ú Skagafirðinum. Svo óforsjáll hafði ég verið s.l. haust, að setja ekki nagladekk undir bifreiðina, sem gerði aksturinn á gljáandi vegakerfinu í Skagafirði að hinni mestu glæfraför. Enga stjórn hafði ég á ökutækinu og oftar en ekki var staðan sú, að ekkert blasti við nema að skíða út af veginum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þá varð yfirleitt einmana steinnybba til þess að bjarga okkur ferðalöngunum og þar með skírnarvottunum. Spurning hvort fleiri en ég hafi tekið að sér að koma þeim heilum til síns heima.
Það var aðdáunarvert hvað sumir farþeganna sýndu af sér mikla stillingu og yfirvegum í þessari glæfraför og stuðluðu þar með einnig að því að allt fór vel að lokum.
Skírn ungfrú Júlíu Freydísar verður eftirminnilegur atburður í lífi fjölskyldnanna sem að standa.
Enn og aftur
er engin vísa
Kemur kraftur
og kreppur rísa. :)
Júlía Freydís, fínleg snót,
SvaraEyðafékk nú kristni taka' í mót
-öfunum og ömmum sín
ósköp þótti telpan fín!-
Veislu fékk og veitingar
(við það glöddust ættingjar)
megi hún trítla telpan sú
á tryggum brautum æ, sem nú.
(Bloggskapur um skírn)
Hirðkveðillinn
P.S. Farmskjölin koma síðar og yfirlit Vegagerðarinnar... (hi,hi,hi,) ... ítrekaðar hamingjuóskir.
H
já þetta var heldur betur ævintýraferð, sérstaklega heimleiðin....
SvaraEyðaÉg er allavega ennþá að springa eftir allar kræsingarnar frá Neðra Ási :)
Bestu þakkir fyrir ferðalagið Palli, stóðst þig eins og hetja á skautasveilli Skagafjarðar.
SvaraEyðaGóð og eftiminnileg ferð.
Bergþóra Kristín, skírnarvottur.
Skautað' um á Skagafjarðarbrautum
SvaraEyðaskelfdur mjög, því farmurinn var dýr
flott að ver' í jepp' á fínum skautum
fraukum glæstum aka' í lágum gír.
Nibbur steins, er námu skelfing þessa,
nutu mjög að hjálpa þarna til
bið ég Guð þær ætíð allar blessa
einnig frúna - það ég ekki dyl.
Þannig ókum, það var mikil raunin
-þéttingssveittur undir stýri ég-
kom sú ferð við fjölmörg sálarkaunin
"flyt" ég þær nú heilar þennan veg?
Skírnarvotta vil ég núna prísa
virust mér þær sýna hugarstyrk
frúnni vart ég meira mun hér lýsa
"mín" var stundum talsvert svip á myrk.
En við komumst - ósköp var ég glaður,
er í Kvistholt reikaði ég inn:
"ég er mikill merkisferðamaður
má þér bjóða far í næsta sinn?"
(Bloggskapur um voveiflega skautaferð með dýrmætan farm)
Hirðkveðillinn