11 febrúar, 2009

Erfitt? - Loka það úti!


Ég starfa við það sem ég starfa við. 
Þetta starf felur í sér talsverð samskipti við fólk á aldrinum 16 ára til tvítugs. Ágætis fólk, kurteist og vel meinandi.
Á vinnustaðnum kemur það fyrir, vegna þess að það telst vera ein þeirra hefða sem þar lifa innandyra, að það er ákveðið að fara í kaffitíma, sem er tími þar sem hópurinn sest saman og spjallar yfir kaffibolla (reyndar er ég þá sá eini sem drekk kaffi). Þetta spjall á að vera um heima og geima. 
Ég er nú búinn að komast að þeirri niðurstöðu, að ég sé orðinn of gamall fyrir þau málefni sem efst eru á baugi hjá unga fólkinu - eða þá eitthvað annað er ekki eins og það á að vera, að mínu mati.

Ég hef áður sett fram þær skoðanir, að sú kynslóð sem ég er að fást við í vinnunni, ætti að kallast krúttkynslóðin. Ég er að hugsa um að draga þetta til baka, að hluta til, þar sem mér finnst þetta hugtak: 'krútt', ekki ná að lýsa þessu fyrirbæri nægilega nákvæmlega.
Ég hef þess í stað ákveðið að útbúa nýtt hugtak, í ljósi kaffitíma sem ég átti þátt í fyrir skömmu. (Ef svo skyldi nú vera, að einhver, sem telur sig hafa verið viðstaddan í þessum tíma og sem jafnframt les þetta, hefur eitthvað við það að athuga þá neita ég því alfarið hér og nú, að þessi kaffitími hafi nokkurntíma átt sér stað). 

Hvort sem þessi stund átti sér stað eða ekki, þá varð hún til þess, að ég fór að velta fyrir mér hvað væri í gangi hjá þessu fólki, sem nú er á aldrinum 18-20. Fljótlega eftir að umræddur tími hófst, hófust umræður um "heima og geima'. Umræðuefnið, sem mér tókst ekki að leiða í aðrar áttir, var heimur sem ekki er til. Það var fjallað ítarlega um þann heim sem birtist á hvíta tjaldinu eða sjónvarps- og/eða tölvuskjánum; alls ekki þann hluta sem snýr að því sem þessi þjóð er að upplifa þessa mánuðina. 'Fantasían' var allsráðandi og það varð ekki misskilið, að þetta var sá heimur sem virtist vera mikilvægastur var í hugum þessa unga fólks. 
Þessi tími átti sér stað (eða ekki) daginn eftir að seðlabankastjóri skrifaði forsætisráðherra bréf, þar sem hann hafnaði tilmælum um að láta af störfum.
Þegar á leið og umræðan um Star Wars-kallana og búningana, og frammistöðu leikaranna í einhverri kvikmynd, eða hvernig einhver hafði fílað einhvern tiltekinn þátt, ákvað ég að reyna að láta til skarar skríða og spurði yfir hópinn: "Og hvað segiði svo um þjóðmálin?"

Það varð þögn stutta stund, en síðan upphófst mjög einkennileg umræða (að mínu mati), sem var öll í skeytastíl, þar sem viðstaddir nánast hrópuðu sérlega niðrandi ummæli um mótmælendur sem höfðu tekið þátt í ofbeldisfullum mótmælum fyrir næstum þrem vikum. Lengra náði þetta ekki.
- Djöfulsins fífl, - og allt það.- 'Hálfvitar'.

Niðurstaða mín eftir þetta er eftirfarandi:
Ástandið á Íslandi er erfitt; erfiðara en svo að þessi kynslóð treysti sér til að fjalla um hana með yfirveguðum hætti. Þetta fólk var 8-10 ára þegar bankarnir voru einkavæddir og dansinn hófst, þegar bólan tók að vaxa. Eins og allir vita gekk þessari þjóð flest í haginn á þeim tíma. Enginn var atvinnulaus, nánast allir höfðu allt til alls. Eitt mesta góðæristímabil Íslandssögunnar gekk yfir. 

Svo sprakk bólan, eins og öllum er ljóst, þessu fólki líka.
Fólki, sem veit ekki hvað það er að þurfa að spá í hvort maður á nóg til að framfleyta sér og sínum, hlýtur að finnast þessi hugsun óumræðilega erfið og flýr því inn í heim fantasíunnar í stað þess að takast á við eitthvað svona erfitt.

Hér er fólk sem blés út með bankabólunni og er nú að uppgötva, að sá heimur er farinn og enginn veit hvað tekur við. Ég tel að það geti verið mikilvægt að veita þessu unga fólki einhverskonar áfallahjálp; að hjálpa því að sætta sig við raunveruleikann eins og hann blasir við og að kenna því nægjusemi og að takast á við nýjan heim - nýjan veruleika.

Ég kalla þessa kynslóð hér með, BÓLUKYNSLÓÐINA. 


Ég hef ákveðið, að freista þess ekki
að búa til misgóðan kveðskap
í tengslum við svo óumræðilega
umhugsunarvert málefni.

1 ummæli:

  1. ...að klippa smjörlíkismiða og missa af einu sendingunni af skómni ..varalitir fást ekki; hvergi.

    ***

    Halda og trúa að heimurinn geti ekki breyst svona. Ekki í forritinu; ekki á You Tube. Stara, ekki um styrksnefndargáttir né á bankareikninginn minn; afborganir, bensín, sími, bíll og matur, læknir...; stara inn í algleymisskjáinn - um stund.
    Þrá að trúa - geta jafnvel/gera. "Hálfvitar, Aumingjar þarna úti" - Sumir: "bara heimskur, ómenntaður skríll og/eða vit-lausir ráðamenn". - Já. -

    Sagan og tilvera okkar öll halda áfram hringsóli sínu; öld eftir öld; þúsund af árþúsundi fram.

    Hvenær þóknast okkur mönnunum að læra? Að staldra við? Að hlusta? Mannkyninu að elska? Allt sem lifir?
    ****
    Og þá kemur að Íslandsklukkunni:
    "...þetta er nú einu sinni mín fátæka þjóð"*1

    "... þessa höll á Kristján Gullinló kóngsfrændi...., höfuðsmaður Íslands og skattaki, einn sérdeilis frómur og góður herra"*2.

    Skiptum um leikendur, stað í tíma og rúmi. Það er það.

    *****
    Vindþjetta um ungt og óreynt fólk úr undraheimum gervitilverunnar - og skjólleysi hennar er fram í sækir...
    Og um leðurhlustir æpoddtilverunnar ná aungvar raddir... ekki heldur hrópendanna.
    Hirðkveðillinn
    (vindþjettusmiður í dag)
    með eyðimerkursand á milli tánna.

    *Íslandsklukkan, bls 131 útg.1969
    *Íslandsklukkan, bls 138 útg. 1969

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...