Já, ekki er það amalegt!
06 apríl, 2009
Allt í volli.....sumu reddað
Þetta er búinn að vera dagur hinna ýmsu átaksmála sem öll miða að því að gera lífið eða tilveruna betri en er(u). Allt þetta kostaði umtalsverða skipulagningu þar sem við sögu kom mannfólk, fugl og farartæki.
Upphaflegt tilefni höfuðborgarferðar var framhald augasteinsútskiptingar gamla unglingsins, en honum var nauðsynlegt að kíkja til augnlæknis þar er sjónin hafði eðlilega breyst. Þessi liður ferðarinnar var löngu skipulagður og til hans voru væntingar þó nokkrar og líklega nokkru meiri en niðurstaðan síðan leiddi í ljós. Það mál á eftir að kosta nokkra umræðu.
Til að nýta ferðina var tekin sú ákvörðun, af gamla unglingnum að mestu, en að nokkru fyrir áeggjan fD, að sinna eðlilegu smurviðhaldi bifreiðar þess fyrrnefnda, sem er af gerðinni Subaru. Pantaður hafði verið tími á viðeigandi smurstofnun fyrir allnokkru síðan. Þegar það var gert lá fyrir, að verðandi stúdent á heimilinu var kominn fram yfir á tanngarðaeftirliti. Það þótt því upplagt að koma málum þannig fyrir að ferðin nýttist honum til tannsaferðar jafnfram því sem hún nýttist til þess að koma ofangreindri bifreið til smurs.
Það gerðist síðan í gær að höfuðborgarangi fjölskyldunnar essemmessaði áhyggjur sínar af heilsufari fóstursonarins, Tuma Egilssonar. Hún hafði þá þegar orðið sér úti um það álit kunnáttumanns, að hann ætti hugsanlega ekki langt eftir. Það varð úr að ferðin skyldi nýtt til þess að flytja viðkomandi til þar til hæfs læknis, sem var ekki síður flókið þar sem uG þurfti að sinna vinnu í dag.
Skemmst er frá því að segja, að allt skipulag dagsins gekk fullkomlega eftir, enda enginn viðvaningur í skipulagsmálum á ferð.
Það eina sem ekki var leitað leiða til að laga, og sem ekki er í viðunandi lagi, var bak þess sem þetta ritar og þrálátt ólag á heilsu fósturmóðurinnar. Þrálátur verkurinn lét engan bilbug á sér finna og gerir ekki enn og það sama má segja um ástand uG.
Niðurstaða dagsins var þessi:
Augnamál gamla unglingsins eru í lítilsháttar biðstöðu. Fyrir liggur að taka ákvörðun um hvort og þá hve mörg gleraugu verða keypt.
Subaru fékk sína yfirhalningu og telst nú í góðu standi.
Fuglinn Tumi fór til læknis þar sem hann fékk ekki þann dóm að öllu væri lokið. Etv getur breytt mataræði og einhverjir mér ókunnugir dropar vegna ónæmiskerfis snúið heilsufarinu á réttar brautir.
HB fékk tannayfirferð og var útskrifaður með láði.
Þessi hérna er áfram með leiðinda bakverkinn.
UG berst enn við pestina.
Tvö mál af sex afgreidd með vel fullnægjandi hætti
Tvö mál af sex eru í nokkurri biðstöðu.
Tvö mál af sex hafa ekki hlotið neina athygli eða meðferð.
Það verð ég að segja' eins og er,
að allmjög var dagurinn snúinn.
En hinsvegar reyndist hann mér
hreint ekki frekar þungbúinn.
05 apríl, 2009
Hvernig velur maður? (4)
Ekki hvarflar að mér að skilja lesendur eftir með þá grillu í höfðinu, að ég ætli mér ekki að leita jákvæðra ástæðna fyrir því að kjósa aðra flokka, hreyfingar eða framboð, en þau sem þegar hafa verið kynnt til sögunnar. Á þessum degi mun ég gera grein fyrir því hversvegna ef til vill er ástæða til að kjósa 2 framboð til viðbótar og þá verða þau orðin átta, sem kynnt hafa verið, en 7 sem eftir standa.
Ég verð að viðurkenna að sú ákvörðun Tungnamannanna tveggja sem voru leiðandi innan L-listans um að hætta við framboðið, var óleikur í minn garð, þar sem ég hafði lagt ómælda vinnu í að tína fram ástæður fyrir því, að ljá listanum atkvæði. Sú vinna er nú fyrir bí, en ég verða samt að vera jákvæður.
BORGARAHREYFINGIN (O)
1. Mér finnst það hreint út sagt fallegri hugsun en orð ná að lýsa, að stjórnmálahreyfing skuli ætla að leggja sig niður þegar hún hefur náð markmiðum sínum.
2. Ég get ekki annað en hlakkað til að geta farið að taka þátt í að semja nýju stjórnarskrána. Þar mun ég sannarlega ekki láta mitt eftir liggja. Ég sé líka fyrir mér, að stórir skarar hinnar upplýstu þjóðar muni leggja sitt ótæpilega af mörkum.
3. Einn megin talsmaður hreyfingarinnar sótti einu sinni um skólameistarastöðu í ML. Bara það að hafa áhuga á svo áhugaverðum stað, segir meira en mörg orð.
4. Efnahagshrunið verður rannsakað ofan í kjölinn með trúverðugum hætti. Dásamleg hugsun og til sóma. Þessi þjóð verður í fjötrum þar til fyrir liggur hvað gerðist, hver olli og hverjir þurfa að sæta ábyrgð og hver ábyrgðin verður,
5. Það er óendanlega góð hugsun, að hreyfingin á enga sögu og byrjar nú göngu sína undir merkum allst þess góða sem við viljum að gerist.
6. Merki hreyfingarinnar er afar skemmtilegt.
LÝÐRÆÐISHREYFINGIN (P)
1. Þessi hreyfing er eitthvað það framsýnasta fyrirbæri sem Ísland hefur eignast.
2. Ég vel hiklaust þá sem munu stuðla að því að það komi hraðbanki í Laugarás.
3. Ég get ekki annað en dáðst að því hve forystumaður hreyfingarinnar kemur alltaf vel fyrir, er jákvæður og málefnalegur í málflutingi sínum. Klassamaður, enda afar reyndur í framboðsmálum og þjóðin hefur reynst hafa trú á honum.
4. Loksins, loksins, er kominn vettvangur fyrir mig til að bjóða mig fram til forystu á vettvangi Alþingis, þar sem ég get síðan tekið við lagafrumvörpunum sem þjóðin sendir mér í gegnum hraðbankana.
5. Ég á bara erfitt með að tjá mig yfirvegað um allt það sem ég tel vera jákvætt við þessa hreyfingu fólksins í landinu.
6. Listabókstafurinn er eiginlega punkturinn yfir i-ið - ekki spurning: xP
--------------------------------------
Ekki veit ég hvort áframhald verður á allri þessari jákvæðni minni. Það er allt eins líklegt að næst ákveði ég að finna þessum framboðum allt til foráttu. Það er svo sem harla auðvelt. Þangað til bið ég fólk að vera jákvætt og láta sig hlakka til að negla þetta lið í kosningunum eftir nokkrar vikur.
01 apríl, 2009
Enn af Skálholtsdómkirkju
Okkur varð ekki um sel í morgun þegar við héldum til vinnu, en leið okkar liggur framhjá Skálholtsstað. Þegar við komum í beygjuna fyrir utan Laugarás blasti Skálholtskirkja við okkur, eins og venjulega, tignarleg í vesturátt. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Ég snarhemlaði og stökk út úr bílnum meðan fD sat kyrr, steinilostin og hóf að fara með bænirnar sínar.
Sú sjón sem við blasti, skar í augun eins á und á helgum líkama.
Óknyttafólk virðist hafa tekið sig til og útatað kirkjuna í graffiti. Sem betur fer var ég með myndavélina með mér og tók mynd af ósköpunum. Hana má sjá hér langt fyrir neðan.
Eftir að hafa tekið góðan tíma í að ná áttum, ók ég af stað aftur með fD, enn í hálfgerðu losti við hlið mér, muldrandi guðsorð af ýmsu tagi. Við ákváðum að keyra heim að Skálholti til að kanna málið frekar, en þá tók hreint ekki betra við. Allur vesturgafl kirkjunnar var líka útataður í kroti, og auðvitað smellti ég einni mynd af óskundanum.
Það var enginn kominn á stjá á Skálholtsstað og ég ákvað að raska ekki ró manna þar, enda hefði það ekki breytt neinu úr því sem komið var.
Þegar við komum svo við á heimleiðinni voru mættir menn og byrjaðir að setja upp vinnupalla við báða gafla kirkjunnar.
Ja, svei.
V A R Ú Ð
Það er á þína ábyrgð ef þú flettir neðar.
-------------------------------------------------------
Breyting 2. aprílÞað er engin ástæða til að fletta neðar, þar sem myndirnar af kirkjunni hafa verið fjarlægðar. Ástæða þess er sú, augljóslega, að nú er ekki dagurinn sem var í gær.
Ég hálf vona að þeir hafi ekki verið margir sem sáu ósköpin.
31 mars, 2009
Mýs í Skálholtsdómkirkju
Nei, það er engin dulin merking í fyrirsögninni.
Á þessum nístandi kalda síðasta marsdegi átti ég því láni að fagna, að vera leiðsögumaður 17 menntaskólanema frá HCAGymnasium í Þýskalandi, um hluta uppsveita Árnessýslu. Þarna voru skoðaðir og/eða sóttir heim, staðir eins og Geysir og Gullfoss (varla undarlegt), Jörfi á Flúðum og Hlemmiskeið í Skeið og Gnúp.
Eftir að hafa ekið tignarlega, undir leiðsögn minni um Laugarás var ekkert eftir nema Skálholt, en þar sagði sr. Egill fólkinu ágætlega frá staðnum og sögunni.
Það sem var hinsvegar ekki eins og mér fannst það ætti að vera, var, að þegar útidyrnar voru opnaðar, trítlaði mús í rólegheitum um anddyrið og kom sér síðan fyrir á bakvið ruslafötu. Fólkið var svo sem ekkert að láta þetta á sig fá og gekk inn í kirkjuna, þar sem það hlustaði fyrst á mig, eðlilega, og síðan á sr. Egil, eins og áður segir.
Meðan prestur talaði fór skyndilega kliður um hópinn, en ekkert meira. Ástæðan reyndist vera önnur mús sem trítlaði í rólegheitum fram og aftur í kórnum, stoppaði við og við og hnusaði af gólfinu og/eða maulaði á einhverjum molum sem þar var að finna. Sr. Egill lét sér í engu bregða við þessa stöðu mála, blessaði músina, og hélt erindi sínu áfram. Svo fór, að þegar músin gerði sig líklega til að fara að spígspora milli fóta áheyrenda, tók Pálmi (Hilmarsson, bílstjóri og samleiðsögumaður í ferðinni) á það ráð að stjaka henni frá og kom hún sér þá uppi undir ofni í kórnum.
Þetta var bara allt ágætt. Þarna eru kirkjumýsnar sjálfsagt enn og verða þar til einhverjir kirkjugestir sætta sig ekki við þá stöðu mála.
27 mars, 2009
Afsakið.....
... sagði þjófurinn sem braust inn í íbúðina í Breiðholtinu, braut allt og bramlaði og stal öllu steini léttara.
... sagði ofbeldismaðurinn sem hafði höfuðkúpubrotið fórnarlamb sitt.
... sagði sauðdrukkinn ökumaðurinn eftir að hann hafði ekið yfir heila fjölskyldu með þeim afleiðingum, að tveir náu sér aldrei.
... sagði kennarinn, þegar kom í ljós, að hann hafði kennt nemendum sínum að Ólafur Ragnar Grímsson væri fyrsti forseti Íslands.
... sagði nauðgarinn sem hafði eyðlagt líf 5 kvenna.
... sagði fíkniefnasalinn sem bar ábyrgð á því að hafa rústað lífi fjölda ungmenna.
A F S A K I Ð
25 mars, 2009
Hvernig velur maður? (3)
Fjórflokkurinn þarf ekki endilega að vera það eina sem valið stendur um í komandi kosningum. Þessum hluta er ætlað að varpa nokkru ljósi á jákvæðar hliðar þess að kjósa aðra flokka, framboð eða lista. Enn sem komið er hafa komið fram 2 framboð/listar til viðbótar, (mér vitanlega (ekki veit ég þó alla hluti)) sem hyggjast bjóða fram í öllum kjördæmum. Það er örugglega hægt að sjá ýmislegt jákvætt við að kjósa þau.
Það var haft á orði í mín eyru, í framhaldi af jákvæðni minni í garð fjórflokksins, að ég muni ætla að kjósa þá alla. Mér er ljúft og skylt að greina, í því sambandi, frá því, að ég mun kjósa einn flokk, framboð eða lista, utankjörfundar. Ég er hinsvegar óvenjulega víðsýnn maður, sem hef þann merkilega hæfileika, að geta sett mig nokkuð vel inn í hugarheim allra - eða í það minnsta flestra. Það er þess vegna sem ég treysti mér til að setja mig í spor hins venjulega Íslendings, eins og hér er raunin.
Hinn venjulegi Íslendingur fylgist með fréttum daglega og les dagblöð og héraðsfréttablöð það sæmilega, að hann skannar fyrirsagnir pólitískra greina. (hverjum dettur í hug, að það sé einhver umtalsverður fjöldi fólks sem les alla þá býsn sem í boði er, og sem viðkomandi skrifari telur jafngilda einhverju stórfenglegu afreki sem fjöldinn bíður eftir að fá að lesa? Ég verð að viðurkenna að ég þekki einn - hann er gamall unglingur sem notar stækkunargler við lesturinn.)
Greinaskrif í blöð hafa afskaplega takmarkað gildi, því miður.
Á þessum góða degi hef ég ákveðið að greina frá jákvæðum ástæðum fyrir því að kjósa einn flokk og einn lista.
FRJÁLSLYNDI FLOKKURINN (F)
1. Ég vil breyta kvótakerfi í sjávarútvegi í grundvallaratriðum.
2. Kallinn í brúnni virkar vel á mig, hann er vestfirkt hörkutól og einhvern veginn ímynd Íslendingsins sem blundar í okkur öllum.
3. Mér finnst að fjórflokkurinn og fjölmiðlar hafi farið illa með flokkinn með því að hunsa hann gjörsamlega. Þessvegna vil ég styðja hann.
4. Það hafa sumir viljað kalla mig 'kverúlant', sem ég er auðvitað ekki, en vissulega veit ég hvað þjóðinni er fyrir bestu í öllum málum.
5. Ég hef ákveðnar efasemdir um að það sé rétt að fólk, hvaðan sem er í heiminum, setjist hér að og hljóti sömu réttindi og vel ættaðir Íslendingar.
6. Eins og alltaf, þá höfðar lítilmagninn til mín og, því miður, hefur flokkurinn lent í nokkrum hremmingum í kosningabaráttunni. Það er mér næg ástæða í sjálfu sér, fyrir því að ljá honum atkvæði mitt.
L-LISTINN (L)
1. Ég vil endurreisn í íslenskum stjórnmálum og efnahag.
2. Ég vil varðveita fullveldi Íslands og hafna þessvegna hugmyndum um að leita eftir viðræðum um hugsanlega aðild Íslands að ES, hvað þá sækja um!
3. Ég er sammála þessum orðum eins samstuðningsmanns míns:"Það blása ferskir og hressandi vindar úr nösum foringjans og liðsmenn virðast merktir velvilja, heiðarleika og heilbrigðri almennri skynsemi: engin glýja í augum; ekkert stórkallaraus um aðra. Aðeins vilji til að taka þátt í að reisa okkur við - með okkur."
4. Foringinn er, hvorki meira né minna, Tungnamaður, sem nægir mér til að styðja hann heilshugar. Annar, prestvígður forystumaður listans, er einnig fyrrverandi Tungnamaður og enn Tungnamaður í hjarta, og því réttur maður á réttum stað.
5. Þó svo foringinn hafi talið útrás vera sterkan leik og boðið sjálfan sig fram í höfuðborginni (5% jú nó) þá tel ég, að andi hans svífi svo kröftuglega enn yfir vötnunum í Suðurkjördæmi, að það sé ekki nema sjálfsagt mál að styðja listann. Hofsóski frambjóðandinn í fyrsta sæti lofar góðu.
6. Ekki dregur það úr spenningi mínum fyrir þessum lista, að mér hefur borist njósn af því, að annar og jafnvel aðrir Tungnamenn muni prýða listann, meira að segja mun hann/annar þeirra vera nær en margur hyggur.
7. (Ég sagðist í upphafi geta átt það til að bæta viðbótarástæðu inn) Það er mér mikið ánægju- og fagnaðarefni, að verðandi þingmenn listans verða ekki bundnir af neinu sérstöku (nema þessu með Evrópusambandið). Það getur orðið skemmtilegt.
Nú hef ég talið fram jákvæðar ástæður þess að kjósa 6 flokka, framboð, eða lista. Vissulega veit ég um fleiri aðila sem eru að velta því fyrir sér að bjóða fram í öllum kjördæmum, en mun bíða með umfjöllun um þá/þau þar til eitthvað bitastæðara liggur fyrir í formi fyrirsagna í dagblöðum og skyldutilkynninga í ljósvakafjölmiðlum.
Það er svo, að ég fór fram á það við lesendur, að þeir bættu við fleiri jákvæðum ástæðum fyrir því að kjósa tiltekna flokka/framboð/lista, en ekkert efni hefur borist utan eitt 'komment', sem kom fyrirfram og sem ég hef sannarlega nýtt mér. Enn gefst lesendum færi á að tjá sig, nema þeir séu bara svona sáttir við úttektina, - eða svo ósáttir, að þeir treysta sér ekki til að koma fram með málefnalegar tillögur.
Þetta verður að koma í ljós.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)
Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)
Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...