Þetta er búinn að vera dagur hinna ýmsu átaksmála sem öll miða að því að gera lífið eða tilveruna betri en er(u). Allt þetta kostaði umtalsverða skipulagningu þar sem við sögu kom mannfólk, fugl og farartæki.
Upphaflegt tilefni höfuðborgarferðar var framhald augasteinsútskiptingar gamla unglingsins, en honum var nauðsynlegt að kíkja til augnlæknis þar er sjónin hafði eðlilega breyst. Þessi liður ferðarinnar var löngu skipulagður og til hans voru væntingar þó nokkrar og líklega nokkru meiri en niðurstaðan síðan leiddi í ljós. Það mál á eftir að kosta nokkra umræðu.
Til að nýta ferðina var tekin sú ákvörðun, af gamla unglingnum að mestu, en að nokkru fyrir áeggjan fD, að sinna eðlilegu smurviðhaldi bifreiðar þess fyrrnefnda, sem er af gerðinni Subaru. Pantaður hafði verið tími á viðeigandi smurstofnun fyrir allnokkru síðan. Þegar það var gert lá fyrir, að verðandi stúdent á heimilinu var kominn fram yfir á tanngarðaeftirliti. Það þótt því upplagt að koma málum þannig fyrir að ferðin nýttist honum til tannsaferðar jafnfram því sem hún nýttist til þess að koma ofangreindri bifreið til smurs.
Það gerðist síðan í gær að höfuðborgarangi fjölskyldunnar essemmessaði áhyggjur sínar af heilsufari fóstursonarins, Tuma Egilssonar. Hún hafði þá þegar orðið sér úti um það álit kunnáttumanns, að hann ætti hugsanlega ekki langt eftir. Það varð úr að ferðin skyldi nýtt til þess að flytja viðkomandi til þar til hæfs læknis, sem var ekki síður flókið þar sem uG þurfti að sinna vinnu í dag.
Skemmst er frá því að segja, að allt skipulag dagsins gekk fullkomlega eftir, enda enginn viðvaningur í skipulagsmálum á ferð.
Það eina sem ekki var leitað leiða til að laga, og sem ekki er í viðunandi lagi, var bak þess sem þetta ritar og þrálátt ólag á heilsu fósturmóðurinnar. Þrálátur verkurinn lét engan bilbug á sér finna og gerir ekki enn og það sama má segja um ástand uG.
Niðurstaða dagsins var þessi:
Augnamál gamla unglingsins eru í lítilsháttar biðstöðu. Fyrir liggur að taka ákvörðun um hvort og þá hve mörg gleraugu verða keypt.
Subaru fékk sína yfirhalningu og telst nú í góðu standi.
Fuglinn Tumi fór til læknis þar sem hann fékk ekki þann dóm að öllu væri lokið. Etv getur breytt mataræði og einhverjir mér ókunnugir dropar vegna ónæmiskerfis snúið heilsufarinu á réttar brautir.
HB fékk tannayfirferð og var útskrifaður með láði.
Þessi hérna er áfram með leiðinda bakverkinn.
UG berst enn við pestina.
Tvö mál af sex afgreidd með vel fullnægjandi hætti
Tvö mál af sex eru í nokkurri biðstöðu.
Tvö mál af sex hafa ekki hlotið neina athygli eða meðferð.
Það verð ég að segja' eins og er,
að allmjög var dagurinn snúinn.
En hinsvegar reyndist hann mér
hreint ekki frekar þungbúinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli