08 maí, 2009

Dimmision (nei) - Dimmission (nei) - Dimissio (já)


-hægt að stækka með því að smella (held ég) -


Enn á ný fagnar sá hópur fólks í stofnuninni þar sem ég vinn, því, að kennslu er lokið og ekkert eftir af skólagöngunni á Laugarvatni nema prófatími. Sem betur fer eiga flestir inni fyrir fagninu; eru vel að því komnir. Því miður eru einnig þeir sem eflaust hugsa nú sem svo, að betur hefði nú verið hægt að vinna í málunum. Hvernig þessu lýkur öllu saman, kemur í ljós í lok mánaðarins þegar endanlega liggur fyrir hver uppskeran verður. Vonandi bjargast þetta nú allt saman.
Ástæða þessarar færslu er ekki síst sú að nú hyggst sá yngsti afgreiða þennan kafla lífsins.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af þessum ágæta hópi á góðri stund.



06 maí, 2009

DK - CPH - IH - FL43 (IV)


Ég reikna með að nú hljóti að hilla undir lokin á þessari umfangsmiklu umfjöllun - eftir því sem lengra líður frá því atburðir áttu sér stað fennir meira í förin og ónákvæmni verður meiri. Það er eiginlega bara tvennt eftir sem þörf er á að minnast á og það kemur hér:

5. Veislan - að öðru leyti.
Allt fór þetta fram af miklum rausnarbrag, en það sem ég vil nefna (auk þess sem getið var í lið

4) lýtur að framgangi foreldranna, en þeir fluttu yfirgripsmikla tölu þar sem umfjöllunarefnið var ævisaga unglingsins.
Ekki er hægt að skilja við veisluna nema víkja orði að þríréttaðri máltíðinni. Hún var ekki nógu góð - fyrir mann af minni stærð (les: hún var of góð).
Veisla þessi hófst kl. 13.30 og ég var ekki kominn í náttstað fyrr en að verða 22.00. Geri aðrar veislur betur.

6. 'Blue Monday'
Þessi siður mun vera alkunnur á Íshæð og líklega þá einnig víðar í hinu danska ríki.
Daginn eftir dag eins og þarna var um að ræða, þar sem unglingarnir eru bornir á gullstól og upplifa sjálfa sig sem miðpunkt alls sem er, skapast tómarúm. Allir farnir, ekkert að gera, aftur skammaður, allt eins og var.
Þarna kom á einhverjum tímapunkti fram sú snilldarhugmynd að lengja aðeins í dýrðinni. Þetta felst í því að auk fermingarfatanna eru keypt svokölluð bláa mánudagsföt. Þeim er klæðst daginn eftir stóra daginn, og samfermingarbörnin skella sér í nýju fötunum út á lífið. Þetta er sjálfsagt allt gott og blessað, er frést hefur til Fróns af því að lítillega hafi þurft að taka á málum í lok þess dags, en það er ekki mitt að fjalla um.


Hér með er komið að punkti, eftir okkur orð til viðbótar, sem fela í sér þakkir okkar Kvisthyltinga fyrir sérlega góðar móttökur á heimaslóð þeirra Íshæðinga.

04 maí, 2009

DK - CPH - IH - FL43 (III)

Áfram skal haldið og í engu slakað á. Helsta hættan sem nú blasir við í skrifum þessum er, að sökum andlegrar örmögnunar eftir önnum hlaðinn dag, verði umfjöllunin ekki jafn þrungin andans auð og verið gæti.
Það var þar komið frásögninni, að veislan var að hefjast. Enn tek ég fyrir ákveðna þætti og freista þess að greina með beinni, óbeinni eða engri tilvísun í þær veislur af þessu tagi sem ég þekki til úr íslenskum menningarheimi.

3. Inngangur að veislu
Veislan fór fram í sal í Íshæðarhverfi í nýbyggðu húsi, sem er sennilega nokkurskonar félagsmiðstöð í hverfinu. Óneitanlega vakti það athygli mína, sveitamannsins úr Tungunum, þar sem maður heyrir að sumir læsi aldrei húsum sínum eða bílum, að byggingin sem hér um ræðir var afar rammgerð og um hana ríktu strangar reglur um að passa sig á því að læsa ætíð dyrum sem gengið var um. Fyrir gluggum voru rimlar og stálrennihurðir og frádraganlegir rimlar fyrir öllum dyraopum. Salurinn innan dyra var hinsvegar hinn glæsilegasti og allur búnaður til fyrirmyndar.
Móðurafinn, tók sig til í tilefninu, og lagði 15 metra rauðan dregil utandyra og annað eins innan dyra, sem fermingarbarnið gekk síðan eftir til veislunnar. Þetta tiltæki vakti athygli og ánægju gesta, ekki sist þar sem hamingjuóskir pilti til handa voru saumaðar í dregilinn.

4. Veislan - drykkjarföng
Á okkar elskaða landi heyrast ósjaldan auglýsingar á fermingarveislutímabilinu sem hljóða svo:
Með samstilltu átaki hefur tekist að útrýma á.....  úr fermingarveislum á Íslandi.  Höldum því svo áfram.  Á......varnaráð.
Ég hefi ekki komið í fermingarveislu á Íslandi þar sem ofangreint er haft um hönd. Helsta syndin sem ég minnist að hafi verið ástunduð áður fyrr, og var þá ekki einusinni verið talin til synda, var að vindlingar og vindlar voru til reiðu handa gestum eins og hver vildi. Sérstaklega minnist ég asna nokkurs sem var til í kringum mína eigin fermingu, sem var fylltur af nikótínstönglum. Þegar einhvern langaði í þá var tekið í halann á asnanum og þá birtist hvítleitur stöngullinn útum afturendann á honum. Þetta þótti afar sniðugt.
Veislan okkar á Íshæð var sem sagt með nokkuð öðru sniði að þessu leyti, en við komu gestanna var þeim boðið 'velkomst' og síðan eins og hver vildi svo lengi sem hann þraut ekki örendi. Ég er ekki frá því að hér sé um að ræða sérlega skemmtilegan sið.
Ekki fer hér mörgum sögum af því hvernig þeim sem ekki höfðu kynnst öðrum veislum af þessu tagi, en frónskum, reiddi af við þessar óvenjulegu aðstæður. Fæst orð....  Þegar upp var staðið verður hinsvegar að segja, að þetta var sérlega skemmtileg fermingarveisla.

Ég hafði ætlað mér að ljúka umfjölluninni hér, en einhvernveginn tekst mér að verða svo orðmargur sem raun ber vitni, að ég ákveð hér og nú, að einn kafli verði færður til viðbótar. 
Enn æsist leikurinn.

02 maí, 2009

DK - CPH - IH - FL43 (II)

Áfram skal haldið og þessu sinni beinist athyglin að mestu að því umstangi, sem það felur í sér að breyta barni í fullorðinn einstakling í nágrannalandi okkar. Ég tek hér dæmi af fermingu pilts með langt eftirnafn með heimilisfesti á Íshæð í fyrrum höfuðborg Frónbúans. Eftirnafnið læt ég liggja milli hluta hér, en að fornafni heitir piltur Róbert. 

Hann er elsta barnabarn Þorvaldsdóttur þeirrar er búið hefur með börnum og buru (og ektamaka) á Íshæð lengi. 
Það var ýmislegt við umgjörð og framkvæmd þessa atburðar, sem ferming er, sem kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir, verandi lítt veraldarvanur í fermingarsiðum eins og þeir tíðkast um víða veröld.  Ég mun hér gera grein fyrir því helsta sem ég hef ekki átt að venjast í útfærslu fermingarsiða hér í okkar kreppuþjáða landi. Ég mun, í einstaka tilvikum tilgreina íslenska útfærslu einstakra þátta, en mun að öðru leyti reikna með að lesendur séu vel heima í því sem hér tíðkast í þessum efnum.
Eftir að ég hafði, sökum mistúlkunar á orðum fD (sem gerist stundum) ákveðið að vera ekki viðstaddur hina kirkjulegu athöfn, ákvað ég að auðvitað væri það ætlun mín, ekki síst þar sem ég var kominn yfir höf og lönd til þess arna. Það var haldið til kirkju

1. Fermingarbörnin koma til kirkjunnar.
Ekki vorum við hjónakornin fyrr komin, í blíðskaparveðri, á opið svæði fyrir utan kirkjuna, hvar margmenni var saman komið, en drunur heyrðust í fjarska. Ekki leið á löngu áður en skýring
 koma á þessum þrumuhljóðum - hvert á fætur öðru óku í hlað ógurleg tryllitæki, sem staðnæmdust ekki fyrr en við kirkjudyr. Já, allt í lagi, hugsaði ég, fermingarbörn koma úr allskonar fjölskyldum og ekkert óeðlilegt við það, að þær eigi mismunandi ökutæki.
Dyr tryllitækjanna opnuðust og út úr þeim stigu fermingarbörnin, eitt af öðru og gengu í snarhasti inn í kirkjuna þar sem þau virtust eiga eitthvað vantalað við prestinn. Það var síðan útskýrt fyrir mér að þetta væri hreint ekki óeðlilegt, sem liður í athöfninni. 

Ekki voru þessi fermingar-börn beinlínis í hvítum kirtlum, heldur í öllum útgáfum fatnaðar, allt frá bol og gallabuxum upp í fínustu kjóla eða jakkaföt. Okkar maður var íklæddur svörtum jakkafötum og rauðri skyrtu. Þá hafði greinilega mismikið verði lagt í hárgreiðslu. Einn pilturinn vakti sérstaka athygli mína, en það var engu líkara en næst á dagskrá hjá honum væri að troða upp á rokktónleikum (líklegast metal/ dauðarokk).

2. Kirkjuathöfnin
Það sem gerðist innan veggja kirkjunnar var nú ekki að mörgu leyti ósvipað því sem við eigum að venjast. Ræðan var lönge, en á móti kom að mér þótti það vel að verki staðið að ferma 15 börn, með langri ræðu og einum sex 5-7 erinda sálmum og sex upprisum söfnuðar, á einum klukkutíma. Geri aðrir betur.


Ekki heyrði ég að börnin væru spurð að því hvort þau vildu gera Jesúm Krist að leiðtoga lífs síns, enda má, ef grannt er skoðað gera ráð fyrir, að úr því þau voru búin að leggja svo mikið á sig til að komast til kirkjunnar, þá hljóti það að hafa verið staðfastur ásetningur þeirra og jáyrði því engin nauðsyn.
Að lokinni athöfninni og myndatökum utandyra þeystu börnin (hinir nýfullorðnu einstakingar) burt á mótorknúnum faratækjunum sínum, mér liggur við að segja: reykspólandi. Ferðinni var heitið í bíltúr áður en veislan hæfist.


Veislan bíður næstu færslu, enda kapítuli út af fyrir sig. Ég ráðlegg engum að missa af þeirri umfjöllun.

Til að auka áhrifamátt frásagnarinnar hef ég kosið að bæta frekar í en draga úr lýsingum mínum í trausti þess að ég hljóti fyrirgefningu, ef á einhverju stigi gæti orðið þörf á slíku.

01 maí, 2009

DK - CPH - IH - FL43 (I)

Þessar vikurnar eru fremur stuttar í vinnulegum skilningi, ekki síst í kringum þann tíma sem við Kvisthyltingar lögðum loft undir rass og skelltum okkur á vit ættboga fD, sem elur manninn, og hefur gert lengi, í tilteknu hverfi höfuðborgar okkar, fyrrverandi. Til Íshæðar lá leiðin til að við gætum verið þátttakendur í umstanginu í kringum staðfestingu skírnar elsta barnabarns hinnar nýdönsku Þorvaldsdóttur og hennar færeyskættaða ektamaka. 














Í Furulundi búa þau á Íshæð og hafa þar fest rætur kyrfilega. Í kringum þau á hæðinni er síðan að finna börnin 2 og barnabörnin 5, eins og rótarskot af ættartrénu. Þá vill svo til, að eitthvert smit virðist hafa átt sér stað út í hinn íslenska ættlegg, því þarna á þessari sömu hæð hafa einnig tekið sér bólfestu afkomendur annarrar Þorvaldsóttur, þeirrar elstu, og gott ef þeir nema ekki á annan tug orðið.
Þarna hefur, sem sagt skotið rótum, allmikill flokkur ættingja fD, eins og áður hefur komið fram. Og þangað var þessari ferð heitið.

Auk fyrrgreinds erindis á þessar slóðir, þá hafði það orðið að ráði að þarna skyldi koma til móts við okkur smákonan frá Berlín ásamt foreldrum sínum, og sú varð og raunin. Hana höfðum við þá ekki hitt síðan hún var tekin í samfélag kristinna í Hóladómkirkju, eða þar um bil.  Það þarf ekki að fjölyrða um það, að ungfrúin hafði elst og þroskast í samræmi við þann tíma sem liðið hafði frá því síðast við hittum hana. Þarna umgekkst hún afann og ömmuna af fyllstu kurteisi og sýndi af sér ótvíræð merki um vaxandi þroska og áhuga á umhverfinu, auk þess sem hún lét verða af því að sofna í nokkrar mínútur, og láta vita af sér í nokkrar til viðbótar.


Þessi dagur var hreint ekki þess eðlis að ástæða sé að kvarta yfir, þvert á móti. Eftir rúman mánuð fáum við, gömlu hjónin, aftur að hitta smákonuna og þá á heimavelli hennar. Þangað til eru dagar taldir.

Það er svo merkilegt, að mörgu leyti, að þó svo staða gjaldeyrismála sé eins og hún er (1DKK=23ISK) og þó svo það væri þvert gegn vilja, þá var, í þessari ferð farið í búðir, sem kann að koma einhverjum á óvart, þó það eigi ekki við um mig. 
Kannski er það svo, að við trúum því, þó við á sama tíma höfnum því, að þessi fyrrum herraþjóð okkar hugsi svo hlýtt til okkar í þrenginum okkar, að þeir lækki verðlag og sjái þannig til þess að við gerum alltaf betri kaup hjá þeim en við eigum kost á, á þessu landi. 
Kannski er það svo, að við trúum því, þó við á sama tíma höfnum því, að við getum nálgast þarna þann varning sem tekur fram þeim sem við getum fengið á Fróni.
Það var allavega svona - þegar opið var, þá var skoðað og pælt og jafnvel keypt.

Framhald er væntanlegt innan skamms, en þá beinist umfjöllunin væntanlega meira að því sem skilur á millli tveggja frændþjóða.

Eitthvað er um myndir hér.

28 apríl, 2009

Undanfari frásagnar af......

...Danmerkurferð Kvisthyltinga, vaxandi ungfrú og vægu (eða stórkostlegu, eða engu)  menningarsjokki.

Það er ekki amalegur kokteill sem bíður lesenda undir helgi, þegar tími gefst mögulega til að gera þessu öllu skil. 

Þegar má finna úttekt hér, og hér.

Mín verður án efa toppurinn á kökuna, en.... bíðum og sjáum.

21 apríl, 2009

Spegilmynd með gati


Það kom um það formleg tilkynning í dag að sérsniðinn Seðlabankaspegillinn sé tilbúinn og bíði þess að ég nálgist hann. Það er ekki svo, að hann sé kúptur eins og ég gerði tillögu um í síðustu færslu á þessari eðalsíðu. Ég reikna með, miðað við framkvæmdahraðann hingað til, að hann verði kominn upp fyrir hvítasunnu. Það þarf nefnilega að hugsa sig vel um áður en svona gagn er sett á vegg og að mörgu að hyggja. Vissulega er ég kominn með frumhugmyndir um framkvæmdina, sem miða að því að dýrindið brotni ekki, en betur má ef duga skal.

Að öðru leyti kemst maður ekki hjá því þessa dagana, að spegla sig í þeim hörmulegu spegilmyndum sem dregnar eru upp af 'slæmri stöðu heimilanna og fyrirtækjanna.' Þetta eru orðnar svo ómerkilegar klisjur og útjaskaðar, að ég er farinn að ranghvolfa augunum af leiðindum í hvert skipti sem þær ber á góma. Mig er farið að svíða í augum af öllu ranghvolfinu. Í öllu orðagjálfrinu er alltaf skilið eftir gat, svona alveg eins og verður í nýja, fína speglinum. Ég veit til hvers spegilgatið er, og jafnvel líka umræðugatið. Það gat snýst um það, nákvæmlega: hvernig við stöndum, hvað þurfum við til að komast úr úr þessu og hverjir fá makleg málagjöld? Ég verð ekki sáttur fyrr en ég tel fullvíst að þeir sem bera ábyrgðina þurfa að svari til saka.

Úpps - ég hóf þetta með það að markmiði að vera léttur og kátur í málflutningi, en það reynist víst ansans, ári erfitt þessa dagana. Það virðist enginn vita neitt hvað verður og þá er gripið til þess að tala í klisjum.

Það liggur við að maður vorkenni aumingja íhaldinu ómögulega stöðu, en það gerir maður bara hreint ekki. Það þarf dálítið mikið meira til.

Framundan er fermingarferð, sem var keypt áður en K skall á. Það verður fróðlegt að kynnast fermingarsiðum þarlendra svo ekki sé talað um umtalsverða tilhlökkun að hitta smákonu nokkra og foreldra hennar, sem koma til til móts við Kvisthyltinga.
Framundan sýnist að sjái
hjá Siggu' og Sighvati
sérlega fallega skjái
og spegil með gati.

Þessi hjón geta verið hvaða hjón sem er, svona eins og Jón og Jóna.



Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...