01 maí, 2009

DK - CPH - IH - FL43 (I)

Þessar vikurnar eru fremur stuttar í vinnulegum skilningi, ekki síst í kringum þann tíma sem við Kvisthyltingar lögðum loft undir rass og skelltum okkur á vit ættboga fD, sem elur manninn, og hefur gert lengi, í tilteknu hverfi höfuðborgar okkar, fyrrverandi. Til Íshæðar lá leiðin til að við gætum verið þátttakendur í umstanginu í kringum staðfestingu skírnar elsta barnabarns hinnar nýdönsku Þorvaldsdóttur og hennar færeyskættaða ektamaka. 














Í Furulundi búa þau á Íshæð og hafa þar fest rætur kyrfilega. Í kringum þau á hæðinni er síðan að finna börnin 2 og barnabörnin 5, eins og rótarskot af ættartrénu. Þá vill svo til, að eitthvert smit virðist hafa átt sér stað út í hinn íslenska ættlegg, því þarna á þessari sömu hæð hafa einnig tekið sér bólfestu afkomendur annarrar Þorvaldsóttur, þeirrar elstu, og gott ef þeir nema ekki á annan tug orðið.
Þarna hefur, sem sagt skotið rótum, allmikill flokkur ættingja fD, eins og áður hefur komið fram. Og þangað var þessari ferð heitið.

Auk fyrrgreinds erindis á þessar slóðir, þá hafði það orðið að ráði að þarna skyldi koma til móts við okkur smákonan frá Berlín ásamt foreldrum sínum, og sú varð og raunin. Hana höfðum við þá ekki hitt síðan hún var tekin í samfélag kristinna í Hóladómkirkju, eða þar um bil.  Það þarf ekki að fjölyrða um það, að ungfrúin hafði elst og þroskast í samræmi við þann tíma sem liðið hafði frá því síðast við hittum hana. Þarna umgekkst hún afann og ömmuna af fyllstu kurteisi og sýndi af sér ótvíræð merki um vaxandi þroska og áhuga á umhverfinu, auk þess sem hún lét verða af því að sofna í nokkrar mínútur, og láta vita af sér í nokkrar til viðbótar.


Þessi dagur var hreint ekki þess eðlis að ástæða sé að kvarta yfir, þvert á móti. Eftir rúman mánuð fáum við, gömlu hjónin, aftur að hitta smákonuna og þá á heimavelli hennar. Þangað til eru dagar taldir.

Það er svo merkilegt, að mörgu leyti, að þó svo staða gjaldeyrismála sé eins og hún er (1DKK=23ISK) og þó svo það væri þvert gegn vilja, þá var, í þessari ferð farið í búðir, sem kann að koma einhverjum á óvart, þó það eigi ekki við um mig. 
Kannski er það svo, að við trúum því, þó við á sama tíma höfnum því, að þessi fyrrum herraþjóð okkar hugsi svo hlýtt til okkar í þrenginum okkar, að þeir lækki verðlag og sjái þannig til þess að við gerum alltaf betri kaup hjá þeim en við eigum kost á, á þessu landi. 
Kannski er það svo, að við trúum því, þó við á sama tíma höfnum því, að við getum nálgast þarna þann varning sem tekur fram þeim sem við getum fengið á Fróni.
Það var allavega svona - þegar opið var, þá var skoðað og pælt og jafnvel keypt.

Framhald er væntanlegt innan skamms, en þá beinist umfjöllunin væntanlega meira að því sem skilur á millli tveggja frændþjóða.

Eitthvað er um myndir hér.

2 ummæli:

  1. Byrjunin er gód...hlakka til ad heyra framhaldid.

    Kv.
    Ása og co.

    P.S. Frábærar myndirnar. Søren er búin ad hrósa held ég bara hverri einustu mynd. Thetta er algjört töfratæki thessi myndavél sem thú átt.

    SvaraEyða
  2. Ég tek því svo að verslunarkommentin hafi verið skot á mig....
    Því vil ég allavega svara sem svo að verðlagið á fötum þarna er ósköp svipað því og er hér heima..ég hugsaði því á minni góðu íslensku; fokkitt, ef ég finn eitthvað sem mig langar í þá kaupi ég það, það fæst hvort sem er ekki á Íslandi, og ef það gerði það þá myndi það hvort sem er kosta það sama og hérna heima!

    Flottar myndir annars :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...