04 maí, 2009

DK - CPH - IH - FL43 (III)

Áfram skal haldið og í engu slakað á. Helsta hættan sem nú blasir við í skrifum þessum er, að sökum andlegrar örmögnunar eftir önnum hlaðinn dag, verði umfjöllunin ekki jafn þrungin andans auð og verið gæti.
Það var þar komið frásögninni, að veislan var að hefjast. Enn tek ég fyrir ákveðna þætti og freista þess að greina með beinni, óbeinni eða engri tilvísun í þær veislur af þessu tagi sem ég þekki til úr íslenskum menningarheimi.

3. Inngangur að veislu
Veislan fór fram í sal í Íshæðarhverfi í nýbyggðu húsi, sem er sennilega nokkurskonar félagsmiðstöð í hverfinu. Óneitanlega vakti það athygli mína, sveitamannsins úr Tungunum, þar sem maður heyrir að sumir læsi aldrei húsum sínum eða bílum, að byggingin sem hér um ræðir var afar rammgerð og um hana ríktu strangar reglur um að passa sig á því að læsa ætíð dyrum sem gengið var um. Fyrir gluggum voru rimlar og stálrennihurðir og frádraganlegir rimlar fyrir öllum dyraopum. Salurinn innan dyra var hinsvegar hinn glæsilegasti og allur búnaður til fyrirmyndar.
Móðurafinn, tók sig til í tilefninu, og lagði 15 metra rauðan dregil utandyra og annað eins innan dyra, sem fermingarbarnið gekk síðan eftir til veislunnar. Þetta tiltæki vakti athygli og ánægju gesta, ekki sist þar sem hamingjuóskir pilti til handa voru saumaðar í dregilinn.

4. Veislan - drykkjarföng
Á okkar elskaða landi heyrast ósjaldan auglýsingar á fermingarveislutímabilinu sem hljóða svo:
Með samstilltu átaki hefur tekist að útrýma á.....  úr fermingarveislum á Íslandi.  Höldum því svo áfram.  Á......varnaráð.
Ég hefi ekki komið í fermingarveislu á Íslandi þar sem ofangreint er haft um hönd. Helsta syndin sem ég minnist að hafi verið ástunduð áður fyrr, og var þá ekki einusinni verið talin til synda, var að vindlingar og vindlar voru til reiðu handa gestum eins og hver vildi. Sérstaklega minnist ég asna nokkurs sem var til í kringum mína eigin fermingu, sem var fylltur af nikótínstönglum. Þegar einhvern langaði í þá var tekið í halann á asnanum og þá birtist hvítleitur stöngullinn útum afturendann á honum. Þetta þótti afar sniðugt.
Veislan okkar á Íshæð var sem sagt með nokkuð öðru sniði að þessu leyti, en við komu gestanna var þeim boðið 'velkomst' og síðan eins og hver vildi svo lengi sem hann þraut ekki örendi. Ég er ekki frá því að hér sé um að ræða sérlega skemmtilegan sið.
Ekki fer hér mörgum sögum af því hvernig þeim sem ekki höfðu kynnst öðrum veislum af þessu tagi, en frónskum, reiddi af við þessar óvenjulegu aðstæður. Fæst orð....  Þegar upp var staðið verður hinsvegar að segja, að þetta var sérlega skemmtileg fermingarveisla.

Ég hafði ætlað mér að ljúka umfjölluninni hér, en einhvernveginn tekst mér að verða svo orðmargur sem raun ber vitni, að ég ákveð hér og nú, að einn kafli verði færður til viðbótar. 
Enn æsist leikurinn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...