Það kom um það formleg tilkynning í dag að sérsniðinn Seðlabankaspegillinn sé tilbúinn og bíði þess að ég nálgist hann. Það er ekki svo, að hann sé kúptur eins og ég gerði tillögu um í síðustu færslu á þessari eðalsíðu. Ég reikna með, miðað við framkvæmdahraðann hingað til, að hann verði kominn upp fyrir hvítasunnu. Það þarf nefnilega að hugsa sig vel um áður en svona gagn er sett á vegg og að mörgu að hyggja. Vissulega er ég kominn með frumhugmyndir um framkvæmdina, sem miða að því að dýrindið brotni ekki, en betur má ef duga skal.
Að öðru leyti kemst maður ekki hjá því þessa dagana, að spegla sig í þeim hörmulegu spegilmyndum sem dregnar eru upp af 'slæmri stöðu heimilanna og fyrirtækjanna.' Þetta eru orðnar svo ómerkilegar klisjur og útjaskaðar, að ég er farinn að ranghvolfa augunum af leiðindum í hvert skipti sem þær ber á góma. Mig er farið að svíða í augum af öllu ranghvolfinu. Í öllu orðagjálfrinu er alltaf skilið eftir gat, svona alveg eins og verður í nýja, fína speglinum. Ég veit til hvers spegilgatið er, og jafnvel líka umræðugatið. Það gat snýst um það, nákvæmlega: hvernig við stöndum, hvað þurfum við til að komast úr úr þessu og hverjir fá makleg málagjöld? Ég verð ekki sáttur fyrr en ég tel fullvíst að þeir sem bera ábyrgðina þurfa að svari til saka.
Úpps - ég hóf þetta með það að markmiði að vera léttur og kátur í málflutningi, en það reynist víst ansans, ári erfitt þessa dagana. Það virðist enginn vita neitt hvað verður og þá er gripið til þess að tala í klisjum.
Það liggur við að maður vorkenni aumingja íhaldinu ómögulega stöðu, en það gerir maður bara hreint ekki. Það þarf dálítið mikið meira til.
Framundan er fermingarferð, sem var keypt áður en K skall á. Það verður fróðlegt að kynnast fermingarsiðum þarlendra svo ekki sé talað um umtalsverða tilhlökkun að hitta smákonu nokkra og foreldra hennar, sem koma til til móts við Kvisthyltinga.
Framundan sýnist að sjái
hjá Siggu' og Sighvati
sérlega fallega skjái
og spegil með gati.
Þessi hjón geta verið hvaða hjón sem er, svona eins og Jón og Jóna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli