19 apríl, 2009

Í sviðsljósinu


fD hefur lýst ákveðnum efasemdum um, að nýjasta viðbótin við Seðlabankann sé í samræmi við þarfir.
"Þetta er eins og í leikhúsi!"
Ég er auðvitað ekki sammála þessari lýsingu þar sem ég rakst á þessi fínu ljós á útsölu hjá þessari fínu ljósabúð. Þar fyrir utan, ef maður vill samlíkingu við leikhúsið, þá er það bar fínt.

Eins og gengur og gerist á þessum bæ, er ekkert verið að rasa um ráð fram í framkvæmdum, en þegar valið stendur á milli þess, að fara yfir helling af fremur lítið óleiðinlegum verkefnum nemenda og að tengja lýsinguna sem að ofan er greint frá, þarf enginn að efast um niðurstöðuna: ég skellti mér í rafvikjun í gær og er lifandi í dag, en það segir ekkert annað en það að ég fór mér ekki að voða við verkið. 

Upp eru  komin ljósin, sem ætlað er að varpa birtu á hvern þann, sem vill sjá spegilmynd af fegurð sinni, eða hverju því sem við kann að blasa þegar ljósaflóðið skellur á. Þarna hverfa allar afsakanir fyrir því að geta ekki gert sig eins fínan og flottan og efni standa til. Ekkert verður falið, engir skuggar, allt blasir við, öllu eru gerð skil.
Ég er að velta því fyrir mér hvort ekki sé rétt að endurskoða pöntun á sérsniðnum speglinum sem þarna á síðan að verða punkturinn yfir i-ið. Það gæti verið hugmynd, til að fullnýta lýsinguna, að fá þarna upp kúptan spegil, sem myndi gefa áhugasömum færi á að skoða hvern einstakan fílapensil og fylgjast síðan daglega með þróun hans.

Um leið og ljósið leikur um það sem það er beint að, flæðir frá því hiti leikúskastaranna og húðin opnast og hárið mýkist og allt verður meðfærilegra. Það er engu líkara en maður liggi á sólarströnd í suðrænu landi.
Ef það er eitthvað, sem ef til vill mætti betur fara er, að þegar ljósaflóðið skellur framan í mann þá sér maður nánast ekki það sem við blasir í speglinum, sem getur verið jákvætt ekki síður en neikvætt.

Í ljósbaði læt ég mig dreyma
um ljúfar stundir .
Held þá um heima og geima
með höku undir.

-þetta er dýrt

2 ummæli:

  1. Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

    SvaraEyða
  2. Hirðkveðilinn er ekki viss um að rafvirkinn (með lítið óleiðinlegu verefnin) hafi gert sér ljósan þann kostnað er fylgir kúptum speglum og leikhúsljósum. (H.kv. þekkir áhrif þessa búnaðar frá löngum leikferli norðan heiða)
    Nú nú, en hér er þá örlítill listi af nauðsynjavörum, sem fara brátt að láta á sér kræla á innkaupalistunum. Og hefst nú lesturinn:

    Dag- og næturkrem (10.800 í Lyfju Selfossi f. helgi; hvor krukka (frá Clarins) - og innihlad 50 ml)
    Andlitsvatn
    Hreinsimjólk
    Hálskrem (berist með föstum strokum upp á við í hökuátt)
    Bómullarflögur- flatar
    Baugahyljari (oftast nefndur konsíler á gullaldarmáli)
    Augnkrem (ör-krukkan kostar um 4.000)
    Plokkarar af bestu gerð
    Andlitsvax - ef þarf - hitari og sköfur
    Varafyllir og viðeigandi "gloss"
    Nasa- og eyrnasnyrtir f/herra
    Rakakrem f/herra
    Andlitsvatn f/ herra

    Nú, ugglaust hefur eitthvað gleymst en H.kv. lætur þá vita um leið og upprennur sú stund er hann minnist annarra nauðþurfta.

    Lagboði:
    Um aldamótin ekki neitt ég segi..

    Í Seðlabanka
    sit ég flesta morgna
    og sé til
    meðan kremin er' að þorna
    Svo ýfi ég og skrýfi
    hvað einasta ég sé
    og allt ég nudd' og sinni
    frá hnakka niðr' á kné.
    Vaxa allt-
    iljum frá að ökklum
    útrými - hárum nokkrum "frökkum"
    já! Útrými.

    (Bloggskapur um morgun- og kvöldsnyrtingar í Seðlabankanum)

    Hirðkveðill Kvistholts

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...