Áfram skal haldið og þessu sinni beinist athyglin að mestu að því umstangi, sem það felur í sér að breyta barni í fullorðinn einstakling í nágrannalandi okkar. Ég tek hér dæmi af fermingu pilts með langt eftirnafn með heimilisfesti á Íshæð í fyrrum höfuðborg Frónbúans. Eftirnafnið læt ég liggja milli hluta hér, en að fornafni heitir piltur Róbert.
Hann er elsta barnabarn Þorvaldsdóttur þeirrar er búið hefur með börnum og buru (og ektamaka) á Íshæð lengi.
Það var ýmislegt við umgjörð og framkvæmd þessa atburðar, sem ferming er, sem kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir, verandi lítt veraldarvanur í fermingarsiðum eins og þeir tíðkast um víða veröld. Ég mun hér gera grein fyrir því helsta sem ég hef ekki átt að venjast í útfærslu fermingarsiða hér í okkar kreppuþjáða landi. Ég mun, í einstaka tilvikum tilgreina íslenska útfærslu einstakra þátta, en mun að öðru leyti reikna með að lesendur séu vel heima í því sem hér tíðkast í þessum efnum.
Eftir að ég hafði, sökum mistúlkunar á orðum fD (sem gerist stundum) ákveðið að vera ekki viðstaddur hina kirkjulegu athöfn, ákvað ég að auðvitað væri það ætlun mín, ekki síst þar sem ég var kominn yfir höf og lönd til þess arna. Það var haldið til kirkju
1. Fermingarbörnin koma til kirkjunnar.
Ekki vorum við hjónakornin fyrr komin, í blíðskaparveðri, á opið svæði fyrir utan kirkjuna, hvar margmenni var saman komið, en drunur heyrðust í fjarska. Ekki leið á löngu áður en skýring
koma á þessum þrumuhljóðum - hvert á fætur öðru óku í hlað ógurleg tryllitæki, sem staðnæmdust ekki fyrr en við kirkjudyr. Já, allt í lagi, hugsaði ég, fermingarbörn koma úr allskonar fjölskyldum og ekkert óeðlilegt við það, að þær eigi mismunandi ökutæki.
Dyr tryllitækjanna opnuðust og út úr þeim stigu fermingarbörnin, eitt af öðru og gengu í snarhasti inn í kirkjuna þar sem þau virtust eiga eitthvað vantalað við prestinn. Það var síðan útskýrt fyrir mér að þetta væri hreint ekki óeðlilegt, sem liður í athöfninni.
Ekki voru þessi fermingar-börn beinlínis í hvítum kirtlum, heldur í öllum útgáfum fatnaðar, allt frá bol og gallabuxum upp í fínustu kjóla eða jakkaföt. Okkar maður var íklæddur svörtum jakkafötum og rauðri skyrtu. Þá hafði greinilega mismikið verði lagt í hárgreiðslu. Einn pilturinn vakti sérstaka athygli mína, en það var engu líkara en næst á dagskrá hjá honum væri að troða upp á rokktónleikum (líklegast metal/ dauðarokk).
2. Kirkjuathöfnin
Það sem gerðist innan veggja kirkjunnar var nú ekki að mörgu leyti ósvipað því sem við eigum að venjast. Ræðan var lönge, en á móti kom að mér þótti það vel að verki staðið að ferma 15 börn, með langri ræðu og einum sex 5-7 erinda sálmum og sex upprisum söfnuðar, á einum klukkutíma. Geri aðrir betur.
Ekki heyrði ég að börnin væru spurð að því hvort þau vildu gera Jesúm Krist að leiðtoga lífs síns, enda má, ef grannt er skoðað gera ráð fyrir, að úr því þau voru búin að leggja svo mikið á sig til að komast til kirkjunnar, þá hljóti það að hafa verið staðfastur ásetningur þeirra og jáyrði því engin nauðsyn.
Að lokinni athöfninni og myndatökum utandyra þeystu börnin (hinir nýfullorðnu einstakingar) burt á mótorknúnum faratækjunum sínum, mér liggur við að segja: reykspólandi. Ferðinni var heitið í bíltúr áður en veislan hæfist.
Veislan bíður næstu færslu, enda kapítuli út af fyrir sig. Ég ráðlegg engum að missa af þeirri umfjöllun.
Til að auka áhrifamátt frásagnarinnar hef ég kosið að bæta frekar í en draga úr lýsingum mínum í trausti þess að ég hljóti fyrirgefningu, ef á einhverju stigi gæti orðið þörf á slíku.