"Nú gat ég farið að njóta þess að slaka á um stund, en það var nú ekki reyndin......................."
Með þessum orðum lauk ég skrifum fyrir nokkrum dögum og það voru orð að sönnu.
Eins og þeim sem litið hafa hér við áður hefur það að öllu jöfnu einkennt þær framkvæmdir sem eiga sér stað é þessum bæ, að undirbúningur þeirra tekur langan tíma, en þegar þeim er loksins ýtt úr vör er ekki að spyrja að leikslokum. Fyrir nokkru lauk, með yfirgengilegum hraða, endurnýjun frárennslislagnar, sem hafði þá verið í huglægum undirbúningi um árabil.
Það sama má segja um þá framkvæmd, sem tók við í beinu framhaldi.
Ég hafði svo sem gert ráð fyrir að þetta þyrfti að eiga sér stað einhverntíma á þessu sumri - átti reyndar að gerast í fyrra, eða hitteðfyrra - en eitthvað kom yfir mig sem varð til þess að ég tók upp
símann og hringdi í Jón á Svínavatni (ég tengi hann fyrstan manna við fyrirbærið rauðamöl, eða bruna).
Já hann gat bjargað brunanum.
"Viltu fá þetta í kvöld?" (þetta var daginn eftir að frárennslislagnarframkvæmdum var lokið og enn fyrir hendi allmikil þreyta eftir Berlínarferð).
Ég hugsaði hratt. Hvernig í ósköpunum ætti ég að fara að því að ná einhverri slökun með því að fá yfir mig fleiri hlöss af bruna beint ofan í frárennslisátökin.
"Nei, blessaður. Það er ekki eins og mér liggi lífið á. Það er alveg nóg að fá þetta eftir helgi - það væri fínt ef ég gæti fengið þetta seinnipartinn á mánudag eða þriðjudag"
Það var mér léttir, að Jón tók þeirri hugmynd bara vel - sagðist koma seinnipart mánudags eða þriðjudags
.
Mánudagurinn kom. Eftir því sem á hann leið, komst ég æ meir að þeirri niðurstöðu, að ég væri enn ekki fyllilega búinn að ná mér. Óskin um að þriðjudagurinn yrði valinu varð æ sterkari.
Óskin sú rættist ekki.
Jón hringdi.
"Ég verð hjá þér eftir rúman klukkutíma. Er aðkoman ekki þröng hjá þér?"
Hvað var nú? Þurfti ég nú líka að fara að príla upp í stiga til að klippa greinar.
"Ég held ekki, en ég skal skoða það".
"Þó að það sé hægt að keyra þarna fólksbíla þá getur verið að greinarnar rispi svona bíla".
"Já, ég kíki á það".
Þar með lá það fyrir.
Ég brunaði heim, náði mér í tröppur og greinaklippur og eyddi drjúgum tíma í að tryggja að bíll Jóns rispaðist ekki.
Svo birtist hann og skellti einu hlassi á hlaðið.
Ykkur til upplýsingar þá hafði ég ekki gert ráð fyrir að dreifa úr brunanum með hjólbörum, ekki síst var sú hugmynd fjarri lag vegna þess að fD hafði þá þegar afgreitt hjólbörur heimilisins sem ónýtar þar sem dekkið er vindlaust.
Ég hafði verið svo forsjáll að hafa samband við tiltölulega nýbakaðan traktorseiganda (Hveratúnsbóndann) með ámoksturstækjum (traktorinn) og stórri skóflu. Þó svo hann teldi sig ekki afburða snilling við framkvæmd af þessu tagi féllst hann á að skoða málið. Það var síðan hann sem birtist skömmu eftir að hlassið hafði lent og hófst handa við að dreifa úr því. Auðvitað kallaði þetta allt saman á umtalsverða fínvinnu með handverkfærum - nákvæmlega það sem ég hafði verið að reyna að fresta - þannig að fjandvinirnir, skóflan mín og ég hófumst handa við fínstillingu.
Það var eins með Hveratúnsbóndann og Spóastaða-bóndann fyrr, að hann vildi bara klára þetta um kvöldið, þrátt fyrir tilboð mitt um annað - hann yrði upptekinn við annað næstu daga.
Þessu lauk eftir tvö hlöss frá Jóni á Svínavatni til viðbótar og vaxandi færni Hveratúnsbóndans við að fá tilfinningu fyrir stöðu skóflunnar.
Þá var ekkert eftir annað en endanleg fínstilling, sem hefur staðið yfir undanfarna tvo daga og þá með umtalsverðri aðkomu fD, ekki síst þar sem Jón hafði ekki átt í fórum sínum harpaðan bruna, sem gerði alla fínstillingu miklu erfiðari, þar sem grjóthnullunga þurfti að fjarlægja.
Eftir stendur góður bingur af brunasteinum - vonandi til skrauts fremur en hitt.
Skyldi nú vinnast tími til að ná langþráðri slökun?