hringrok, -s, - h 1. það að eitthvað rýkur eða fýkur í hringi. 2. stormur eða stórviðri sem fer í hringi. 3. sjór, ýfður af roki sem fer í hringi og fýkur því smám saman í hringi af þeim sökum. 4. vindsveipir sem myndast sólbaðsmegin húsa eða í kjölfar farartækja á ferð. 5. dansleikur, þar sem dansandi fólkið sveiflast hratt í hringi undir dynjandi tónlist.
"Það er bölvað hringrok þarna úti", varð fD að orði þegar hún kom inn eftir sólbaðstilraun í gær. Með þessari athugasemd varð til þetta líka fína orð, sem síðan reynist vel nothæft um ýmislegt annað. Það var t.d. þannig í gærkvöld (og reyndar fram á nótt) vorum við viðstödd hörku hringrok með Bleki og byttum í Úthlíð. Núna áðan nálgaðist ég uG, sem skellti sér í austurveg. Þá varð mér að orði: "Það var ekki einu sinni hægt að greina hringrok á þeim hraða sem bílalestin til höfuðborgarinnar silaðist".
Loks liggur það fyrir að Kvisthyltingar hafa lagt drög að því að mynda hringrok á leið til Keflavíkur í síðari hluta næsta mánaðar, hvaðan myndað verður hringstólparok í átt til Norðurlanda í beinu framhaldi.
Eins og sjá má af framansögðu, er um að ræða nýyrði sem er sérlega þjált og sveigjanlegt og til margskonar tjáningar nytsamlegt.
Sumarið líður, sól er í heiði
senn eru júnílok.
Allt er í blóma, yfir þó breiði,
einstaka hring(a)rok.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli