30 júní, 2009

Þú ert númer 8 í röðinni - 6 sinnum

Ég er mikill tölvumaður, eða svo er sagt. Ástæða þess, að mér er ætlað að leysa ýmis töluvandræði samstarfsfólks og nemenda, hlýtur að vera sú trú manna, að þetta fyrirbæri leiki í höndunum á mér. Meira að segja er ekki laust við að fD trúi þessu upp að ákveðnu marki einnig.

Það er best að ég lýsi því yfir, áður en lengra er haldið, að þessi er hreint ekki raunin. Allt sem heitir vélbúnaður eða hugbúnaður, sem ekki er yfirmáta notendavænt, er mér að öllu jöfnu sem lokuð bók. Þar hafið þið það.

Ég hef áður minnst á þá hugmynd sem varð til þess að sett var upp vinnustofa í fyrrum skrifstofu hér á bæ. Þetta hafðið eðlilega í för með sér, að skrifstofubúnaðurinn, þ.m.t. tölvubúnaður, þurfti nýjan samastað, og varð fyrri vinnustofa fyrir valinu. Með þessu móti varð tölvudótið aðgengilegra og meiri líkur á að það yrði notað.

Allir gengu þessir flutningar vel, og naut ég mín við að setja upp hið ágætasta tölvubúnaðarborð upp á 2 metra, og þangað fór tölvubúnaðurinn, hann ræstur upp og allt gekk sem best.

Þá kom að þráðlausri nettengingu fyrir búnaðinn. Það var þá sem vandinn fór að hlaðast upp.

Sambandið fannst, en tengingin varð ekki. Ekki ætla ég mér að fara út í smáatriði (á jafnvel von á óþolinmóðustu lesendurnir séþégar búnir að gefast upp), heldur mun ég halda mig við aðalatriðin.
Ég skipti við stórt netþjónustufyrirtæki sem býður símaþjónustu í síma 8007000.
Á heimilinu var staddur í heimsókn starfsmaður samkeppnisaðila fyrirtækisins sem ég skipti við (uG).
Ég fól þessum starfsmanni að hringja í númerið og leita leiða til að leysa vandann, sem hann gerði - ítrekað.
Niðurstaða varð um það að líklega væri þörf á að uppfæra (uppdeita) beininn (routerinn) - (hve mörg ykkar skyldu nú vita hvað það þýðir?).
Eftir mörg símtöl við ofangreint þjónustuver og mikla bið eftir að fá að komast að, þar sem ekkert gekk að uppfæra blessaðan beininn, komst einn starfsmaðurunn að því, að hann væri þegar uppfærður.

Þá var internetsambandið horfið af honum!!!!!!!!!!

Ein hringing enn frá heimastarfsmanninum leiddi í ljós, að það þyrfti að skrá (logga) sig inn í beininn til að endurstilla (reconfigure) hann. Til þess þurfti ég að vita notandanafnið (user neimið) sem mér hafði verið úthlutað fyrir 4 árum, ásamt lykilorði (passwördi). Ég mundi notandanafnið, en aldeilis ekki lykilorðið, þó á sumum sviðum sé ég afskaplega minnugur maður.
Þær upplýsingar fengust hjá starfsmanni í 8007000, að það væru tvær leiðir til að finna út hvert lykilorðið er: a. koma í verslun fyrirtækisins í höfuðborginni með fullgild skilríki eða b. fá lykilorðið sent í bréfpósti (sneil meil) heim til mín.
Ég hringdi sjálfur til að reyna að særa lykilorðið út úr starfsmanninum, en án árangurs. Ég spurði hann meira að segja hvort ég gæti ekki fengið það uppgefið á Selfossi, hjá þeim aðila sem seldi mér og setti upp beininn. Árangurslaust - þeir eru bara endursöluaðilar og hafa ekki þessar upplýsingar. #"&%$(/=)"#!

Þar með lauk síðasta símtalinu við 8007000.

Nú voru góð ráð dýr. Kvisthyltingar eru þess eðlis, að þegar þeir vilja eitthvað þá sjá þeir ekki fyrir sér að bíða eftir því lengur en þörf er á, sérstaklega ef það tengist tölvumálum (þetta gildir ekki síur um fD en aðra).
Ég ákvað að hringja í TRS á Selfossi, af rælni.
Þar svaraði fyrrum eðal Laugarásbúi, sem átti heima í Varmagerði.
Af rælni bar ég upp erindið. Hún kvaðst myndu hringja aftur í mig innan skamms, sem hún gerði, og upplýsti mig þar með um lykilorðið.

Það var gert sem gera þurfti og allt small í lag.

ALLT SPURNING UM TRAUST.
Skelfing væri það gott samfélag, sem byggðist á því að við getum treyst því að það sé ekki verið að misnota okkur eða svindla á okkur. Þarna leysti traust vandamál á 3 mínútum, sem hafði kostað 5 tíma baráttu.

Starfsmaður samkeppnisfyrirtækisins notaði ekki sinn fegursta orðaforða til að lýsa þjónustunni í 8007000.

1 ummæli:

  1. Mikið óskaplega er þessi færsla hljómþýð í mínum eyrum! Þetta er símanúmer dj!%&$%ulsins! 'þú ert númer eitt í röðinni' Ætti þetta ekki að vera þú ert næstur bara?

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...