25 júní, 2009

Háspennugróður

Eftir vandlega íhugun hef ég ákveðið að fjalla ekki beint um uppeldismál að sinni. ég læt hér nægja að tæpa lítillega á þeim óbeint og notast þá við samlíkingu við gróður (ég heyrði í gær einhverja ágæta ég-er-svo-góð konu tala um hvað það væri ljótt að bera saman uppeldi á börnum og hundum).
Við skelltum okkur í það að fá okkur ASK á þessu vori. Hann er um það bil tveggja ára og mun vera af fyrstu ræktun af fræi sem hefur náð að þroskast á þessu landi. Það var ákveðinn staður fyrir gripinn og hann fékk gótt fóður, en þarf síðan að spjara sig sjálfur. Það er vissulega spennandi að fylgjast með hvað úr honum verður. Það er spurning hvort ég á að setja eitthvað skjól um hann í haust, eða hvort hann verður bara að standa sig. Hann fer afar vel af stað, þegar kominn 15 cm vöxtur.


Þetta er nærmynd af Askinum.

Gróðurinn notum við oftast til að gera umhverfið fallegra og því varð til það sem hér má sjá: PERLUKVISTUR meðfram stétt. Hann á að þola norðangarrann' vel og því nokkrar væntingar til hans gerðar.



SÍRENAN blómstrar innan tíðar, en einstaklega góður vöxtur hennar tengist vanda með frárennsli frá rotþró sem áður hefur verið fjallað um hér. Á misjöfnu þrífast ..... best.


Á þessu vori urðum við okkur einnig úti um GULLREGN og settum það á sólríkan, skjólsælan stað. Þessi ágæta planta virðist vera eitthvað aumingjaleg og ég velti fyrir mér hvort ég eigi að fá vottorð fyrir hana - ekki verður af því. Hún verður að taka á lífinu eins og það birtist henni, en ég er til í að sjá til þess að umhverfið verði henni ekki allt of óþolandi.


STÓRKVISTUR varð einnig fyrir valinu á þessu vori. Honum er ætlað að standa á opnu svæði og mun geta orðið um 3ja metra hár. Eins og aðrar eðalplöntur hefur hann fengið góðan lífrænan áburð og virðist ekki væsa um hann. Það er helst að ég hafi áhyggjur af birkikvistræflunum sem standa sitt hvorum megin við hann. Þeir verða bara að bjarga sér.



Það bendir margt til að þessi fargra planta heiti KOPARREYNIR. Hún er búin að vera samvistum við okkur í nokkur ár, vex hægt og virkar frekar rengluleg. Hún er samt býsna seig og gefur ekkert eftir þótt hún sveiflist í vindinum. Atlæti hennar hefur verið harla lítið - kannsi er það þessvegna sem hún er smám saman að spjara sig til varanlegs glæsileika.



Alla eiga þessar plöntur það sameiginlegt að þurfa að takast á við allskyns áföll sem þær verða fyrir í íslenskri veðráttu. Það er ekki mulið undir þær. Ég held því fram að þær styrkist af mótlætinu og verði því kröftugri og betri garðprýði, sem uppvaxtarárin reyndu meira á þær.



Þumal set ég á loft fyrir agareglum Hjallastefnunnar.

1 ummæli:

  1. Þetta eru fallegar plöntur hjá ykkur Palli. Ég sé að maður verður að brjóta odd af oflæti sínu og fara að kíkja í heimsókn til að dást að garðræktinni ykkar.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...