23 júní, 2009

Komst ekki í skólann sinn - æ, æ.

Metnaður er góður. Það er mikilvægt fyrir ungt fólk að stefna að einhverju markmiði, því ef maður veit hvert maður ætlar, þá leggur maður nægilega mikið á sig til að komast þangað. Ef maður, hinsvegar veit ekkert hvað maður vill, er hættan sú að maður sjái ekki tilgang í því að standa sig vel.

Hvað um það.

Fréttin um móðurina sem á dótturina sem komst ekki í draumaskólann sinn, eftir að hafa líklega stefnt þangað frá frumbernsku (væntanlega með vænum skammti af einhverskonar hvatningu frá foreldrunum), kemur mér harla lítið á óvart, ef tekið er mið af öðru því sem þessi þjóð hefur haft í forgrunni undanfarin ár.

Ég held að það verði ekki vel þolanlegt hlutskipti að vera í sporum grunnskólakennaranna í 10. bekk á næstu árum. Þeir munu verða fyrir gífurlegri pressu um að gefa nemendum háar einkunnir, nú þegar búið er að leggja samræmd próf af.
Mér segir svo hugur um, að þess sé ekki langt að bíða, að tekin verði upp inntökupróf í framhaldsskóla landsins - ekkert mark verði takandi á vitnisburði úr grunnskóla.

Það má auðvitað segja, að það sé eftirsóknarvert hlutskipti skóla, að geta vísað frá umsóknum nemenda sem eru með lægri einkunnir en 8.5 upp úr grunnskóla, en það er líka hættulegt.
Að mínu mati væri eðlilegt, þegar framhaldsskólar eru metnir, að mæla virðisaukann sem verður til. Þá er skoðað hvernig nemendur koma inn og síðan hvernig þeir fara út og munurinn segir síðan til um gæði skólans.

Nei, stúlkan sótti ekki um á Laugarvatni. :)


2 ummæli:

  1. Já satt segirðu.
    En svo má líka segja að unglingar eru með ákveðin gildi í huga þegar þeir sækja um framhaldsnám. Það er sjaldnast menntunin - heldur tengslin sem þú nærð að byggja upp!
    Bananalýðveldið Ísland hefur marg sannað það að besta leiðin til að koma sér vel áfram er að þekkja mann og annan og vera í rétta socialinu.
    Einkunnagjöf grunnskóla verður afskaplega fróðlegt að fylgjast með. Sammála þér þar. Hitt er annað að jafn fróðlegt verður að fylgjast með því hvað gerist með nemendur sem ætla að "flýta fyrir sér" og fara upp í framhaldsskóla áður en grunnskóla er lokið.
    Og hvað gerist með auknum niðurskurði sem boðaður hefur verið? Hærri skólagjöld og brottfall nema úr skólum vegna þeirra?

    SvaraEyða
  2. Gefa einkunnir... já kannski gera einhverjir kennarar það.
    Ég lýt svo á að nemendur vinni fyrir ákveðnum einkunnum og engum sé gefið nokkuð í þeim efnum.
    Það sem ég óttast með einkunnir og mat á nemendum í 10. bekk er helst það að mælistikan verði svo óáreiðnleg ef bera á saman nemendur ólíkra kennara, hvað þá skóla. Svo er námsmati misjafnlega háttað milli skóla og þekkist reyndar líka innan sama skóla. Á að meta þekkingu eingöngu, ástundun, áhuga eða jafnvel líka hegðun? Flestir vilja meta verkefnavinnu og jafnvel heimanám og sumsstaðar er jafnvel mæting tekin inn í. Allir eiga að fá nám og kennslu við hæfi og einstaklingsmiðun er í fyrirrúmi og hvað segir þá einkunnin 6? En 8? Þarf ekki alltaf að liggja fyrir umsögn um sýnileg vinnubrögð, styrkleika, veikleika og áhuga?
    Hvað er best og hvað er verst?
    Er ekki bara skást að framhaldsskólarnir sjái um að velja til sín nemendur og miða þá við það sem í hendi er á hverjum stað, hvað skólinn leggur upp með?

    Um samræmdu prófin má ýmislegt segja og ræða. Nú hafa þau færst til haustsins hjá 10. bekk og eiga að gagnast nemandanum í grunnskólanum. Það verður spennandi að sjá hvað Námsmatsstofnun verður fljót að skila af sér. Ef niðurstöðurnar eiga að gagnast grunnskólanemanum og kennurum hans þá þurfa þeir að fara að vinna hraðar en hingað til. Niðurstöður prófa hjá 4. og 7. bekk sem eru tekin um miðjan okt. hafa verið að berast daginn sem farið er í jólafrí.
    Hitt er svo annað að samræmduprófin eins og þau voru hjá 10. bekk pressuðu heilmikið á nemendur og kennara að standa sig og oft nýttist það á jákvæðan hátt en alls ekki alltaf.
    Kv. Aðalheiður verðandi umsjónarkennari 10. bekkjar :-)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...