Flestir kannast væntanlega við þá tilfinningu að við séum, í sjálfu sér, afskaplega merkileg, ekki bara í augum okkar sjálfra, heldur einnig einhvers hóps sem eyðir lífi sínu meira og minna í kringum okkur. Það er kannski af þessum sökum sem við hneigjumst til að henda ekki ýmsu því sem smám saman verður, að því er virðist, að óyfirstíganlegum haug af drasli. Þetta er drasl þangað til maður tekur sig til og fer að skoða nánar. Þá koma perlurnar með ótvírætt sögulegt gildi fram í dagsljósið ein af annarri. Löngu liðnir tímar spretta upp fyrir augliti manns við það að uppgötva lítið bréfsnifsi, ómerkilega svart/hvíta mynd, eða einhvern smáhlut sem einu sinni hafði hlutverk.
Það er þannig að fD telur að sá staður í þessu húsi, sem hafði hlutverk sem skrifstofa, muni sóma sér vel sem vinnustofa. Það var því eins og við manninn mælt, að ég skellti mér í að henda þaðan út því sem henda má, að mínu mati. Það vill svo til að einmitt í þessu herbergi hefur saga Kvisthyltinga safnast saman í töluverðum mæli. Það má nærri geta, að þarna var margt að finna sem sagan mun ekkert vilja hafa með að gera, en einnig ýmislegt sem telja verður einstakt, í það minnsta að svo miklu leyti sem ég, þetta sandkorn á eilifðarströndinni, tel að muni gefa mynd að því sem liðið er.Þarna var að finna einkunnablöð allt frá barnaskóla, stúdentakort frá HÍ, allskyns verkefni sem ég vann þegar ég stundaði nám við Akademisk Brevskole í innanhússarkitektúr (lauk ekki vegna þess að ég fór að vinna á Laugarvatni), miklar greinargerðir og bréfaskriftir sem ég stóð í vegna baráttu við byggingafulltrúann Martein Björnsson, sem neitaði að samþykkja teikningar af húsinu og svona má lengi telja.
Þarna var einnig að finna erindi sem ég flutti 1987 í tilefni af því að 100 ár voru frá fæðingu þeirra. Það byggist væntanlega á áhuga í umhverfinu hvort ég nenni að lemja þá speki inn í tölvu.
Þá fann ég myndaröð mikla af sjálfum mér, en annað hvert ár fæ ég, starfs míns vegna að njóta þess að setjast fyrir framan ljósmyndara.
Hvað sem því líður, þá eru komnir nokkrir kassar sem bíða flutnings í ruslagám og þrír litlir kassar með óendanlega mögnuðum verðmætum. Allt er þetta hið best mál og það styttist í að fD hefji vinnu í nýrri og glæsilegri vinnustofu.
Alltaf þrengir að fræðasetrum okkar frændi sæll. FD búin að setja þér stólinn fyrir dyrnar en Spúsan lætur sér nægja að steyta hnefann enn sem komið er. Svona glatast verðmætin. Ó við aumir.
SvaraEyða