30 júní, 2009

Þú ert númer 8 í röðinni - 6 sinnum

Ég er mikill tölvumaður, eða svo er sagt. Ástæða þess, að mér er ætlað að leysa ýmis töluvandræði samstarfsfólks og nemenda, hlýtur að vera sú trú manna, að þetta fyrirbæri leiki í höndunum á mér. Meira að segja er ekki laust við að fD trúi þessu upp að ákveðnu marki einnig.

Það er best að ég lýsi því yfir, áður en lengra er haldið, að þessi er hreint ekki raunin. Allt sem heitir vélbúnaður eða hugbúnaður, sem ekki er yfirmáta notendavænt, er mér að öllu jöfnu sem lokuð bók. Þar hafið þið það.

Ég hef áður minnst á þá hugmynd sem varð til þess að sett var upp vinnustofa í fyrrum skrifstofu hér á bæ. Þetta hafðið eðlilega í för með sér, að skrifstofubúnaðurinn, þ.m.t. tölvubúnaður, þurfti nýjan samastað, og varð fyrri vinnustofa fyrir valinu. Með þessu móti varð tölvudótið aðgengilegra og meiri líkur á að það yrði notað.

Allir gengu þessir flutningar vel, og naut ég mín við að setja upp hið ágætasta tölvubúnaðarborð upp á 2 metra, og þangað fór tölvubúnaðurinn, hann ræstur upp og allt gekk sem best.

Þá kom að þráðlausri nettengingu fyrir búnaðinn. Það var þá sem vandinn fór að hlaðast upp.

Sambandið fannst, en tengingin varð ekki. Ekki ætla ég mér að fara út í smáatriði (á jafnvel von á óþolinmóðustu lesendurnir séþégar búnir að gefast upp), heldur mun ég halda mig við aðalatriðin.
Ég skipti við stórt netþjónustufyrirtæki sem býður símaþjónustu í síma 8007000.
Á heimilinu var staddur í heimsókn starfsmaður samkeppnisaðila fyrirtækisins sem ég skipti við (uG).
Ég fól þessum starfsmanni að hringja í númerið og leita leiða til að leysa vandann, sem hann gerði - ítrekað.
Niðurstaða varð um það að líklega væri þörf á að uppfæra (uppdeita) beininn (routerinn) - (hve mörg ykkar skyldu nú vita hvað það þýðir?).
Eftir mörg símtöl við ofangreint þjónustuver og mikla bið eftir að fá að komast að, þar sem ekkert gekk að uppfæra blessaðan beininn, komst einn starfsmaðurunn að því, að hann væri þegar uppfærður.

Þá var internetsambandið horfið af honum!!!!!!!!!!

Ein hringing enn frá heimastarfsmanninum leiddi í ljós, að það þyrfti að skrá (logga) sig inn í beininn til að endurstilla (reconfigure) hann. Til þess þurfti ég að vita notandanafnið (user neimið) sem mér hafði verið úthlutað fyrir 4 árum, ásamt lykilorði (passwördi). Ég mundi notandanafnið, en aldeilis ekki lykilorðið, þó á sumum sviðum sé ég afskaplega minnugur maður.
Þær upplýsingar fengust hjá starfsmanni í 8007000, að það væru tvær leiðir til að finna út hvert lykilorðið er: a. koma í verslun fyrirtækisins í höfuðborginni með fullgild skilríki eða b. fá lykilorðið sent í bréfpósti (sneil meil) heim til mín.
Ég hringdi sjálfur til að reyna að særa lykilorðið út úr starfsmanninum, en án árangurs. Ég spurði hann meira að segja hvort ég gæti ekki fengið það uppgefið á Selfossi, hjá þeim aðila sem seldi mér og setti upp beininn. Árangurslaust - þeir eru bara endursöluaðilar og hafa ekki þessar upplýsingar. #"&%$(/=)"#!

Þar með lauk síðasta símtalinu við 8007000.

Nú voru góð ráð dýr. Kvisthyltingar eru þess eðlis, að þegar þeir vilja eitthvað þá sjá þeir ekki fyrir sér að bíða eftir því lengur en þörf er á, sérstaklega ef það tengist tölvumálum (þetta gildir ekki síur um fD en aðra).
Ég ákvað að hringja í TRS á Selfossi, af rælni.
Þar svaraði fyrrum eðal Laugarásbúi, sem átti heima í Varmagerði.
Af rælni bar ég upp erindið. Hún kvaðst myndu hringja aftur í mig innan skamms, sem hún gerði, og upplýsti mig þar með um lykilorðið.

Það var gert sem gera þurfti og allt small í lag.

ALLT SPURNING UM TRAUST.
Skelfing væri það gott samfélag, sem byggðist á því að við getum treyst því að það sé ekki verið að misnota okkur eða svindla á okkur. Þarna leysti traust vandamál á 3 mínútum, sem hafði kostað 5 tíma baráttu.

Starfsmaður samkeppnisfyrirtækisins notaði ekki sinn fegursta orðaforða til að lýsa þjónustunni í 8007000.

28 júní, 2009

H R I N G R O K

Ef þetta orð væri til í íslenskri orðabók, væri því gerð skil með eftirfarandi hætti:

hringrok, -s, - h 1. það að eitthvað rýkur eða fýkur í hringi. 2. stormur eða stórviðri sem fer í hringi. 3. sjór, ýfður af roki sem fer í hringi og fýkur því smám saman í hringi af þeim sökum. 4. vindsveipir sem myndast sólbaðsmegin húsa eða í kjölfar farartækja á ferð. 5. dansleikur, þar sem dansandi fólkið sveiflast hratt í hringi undir dynjandi tónlist.

"Það er bölvað hringrok þarna úti", varð fD að orði þegar hún kom inn eftir sólbaðstilraun í gær. Með þessari athugasemd varð til þetta líka fína orð, sem síðan reynist vel nothæft um ýmislegt annað. Það var t.d. þannig í gærkvöld (og reyndar fram á nótt) vorum við viðstödd hörku hringrok með Bleki og byttum í Úthlíð. Núna áðan nálgaðist ég uG, sem skellti sér í austurveg. Þá varð mér að orði: "Það var ekki einu sinni hægt að greina hringrok á þeim hraða sem bílalestin til höfuðborgarinnar silaðist".
Loks liggur það fyrir að Kvisthyltingar hafa lagt drög að því að mynda hringrok á leið til Keflavíkur í síðari hluta næsta mánaðar, hvaðan myndað verður hringstólparok í átt til Norðurlanda í beinu framhaldi.

Eins og sjá má af framansögðu, er um að ræða nýyrði sem er sérlega þjált og sveigjanlegt og til margskonar tjáningar nytsamlegt.

Sumarið líður, sól er í heiði
senn eru júnílok.
Allt er í blóma, yfir þó breiði,
einstaka hring(a)rok.



25 júní, 2009

Háspennugróður

Eftir vandlega íhugun hef ég ákveðið að fjalla ekki beint um uppeldismál að sinni. ég læt hér nægja að tæpa lítillega á þeim óbeint og notast þá við samlíkingu við gróður (ég heyrði í gær einhverja ágæta ég-er-svo-góð konu tala um hvað það væri ljótt að bera saman uppeldi á börnum og hundum).
Við skelltum okkur í það að fá okkur ASK á þessu vori. Hann er um það bil tveggja ára og mun vera af fyrstu ræktun af fræi sem hefur náð að þroskast á þessu landi. Það var ákveðinn staður fyrir gripinn og hann fékk gótt fóður, en þarf síðan að spjara sig sjálfur. Það er vissulega spennandi að fylgjast með hvað úr honum verður. Það er spurning hvort ég á að setja eitthvað skjól um hann í haust, eða hvort hann verður bara að standa sig. Hann fer afar vel af stað, þegar kominn 15 cm vöxtur.


Þetta er nærmynd af Askinum.

Gróðurinn notum við oftast til að gera umhverfið fallegra og því varð til það sem hér má sjá: PERLUKVISTUR meðfram stétt. Hann á að þola norðangarrann' vel og því nokkrar væntingar til hans gerðar.



SÍRENAN blómstrar innan tíðar, en einstaklega góður vöxtur hennar tengist vanda með frárennsli frá rotþró sem áður hefur verið fjallað um hér. Á misjöfnu þrífast ..... best.


Á þessu vori urðum við okkur einnig úti um GULLREGN og settum það á sólríkan, skjólsælan stað. Þessi ágæta planta virðist vera eitthvað aumingjaleg og ég velti fyrir mér hvort ég eigi að fá vottorð fyrir hana - ekki verður af því. Hún verður að taka á lífinu eins og það birtist henni, en ég er til í að sjá til þess að umhverfið verði henni ekki allt of óþolandi.


STÓRKVISTUR varð einnig fyrir valinu á þessu vori. Honum er ætlað að standa á opnu svæði og mun geta orðið um 3ja metra hár. Eins og aðrar eðalplöntur hefur hann fengið góðan lífrænan áburð og virðist ekki væsa um hann. Það er helst að ég hafi áhyggjur af birkikvistræflunum sem standa sitt hvorum megin við hann. Þeir verða bara að bjarga sér.



Það bendir margt til að þessi fargra planta heiti KOPARREYNIR. Hún er búin að vera samvistum við okkur í nokkur ár, vex hægt og virkar frekar rengluleg. Hún er samt býsna seig og gefur ekkert eftir þótt hún sveiflist í vindinum. Atlæti hennar hefur verið harla lítið - kannsi er það þessvegna sem hún er smám saman að spjara sig til varanlegs glæsileika.



Alla eiga þessar plöntur það sameiginlegt að þurfa að takast á við allskyns áföll sem þær verða fyrir í íslenskri veðráttu. Það er ekki mulið undir þær. Ég held því fram að þær styrkist af mótlætinu og verði því kröftugri og betri garðprýði, sem uppvaxtarárin reyndu meira á þær.



Þumal set ég á loft fyrir agareglum Hjallastefnunnar.

23 júní, 2009

Komst ekki í skólann sinn - æ, æ.

Metnaður er góður. Það er mikilvægt fyrir ungt fólk að stefna að einhverju markmiði, því ef maður veit hvert maður ætlar, þá leggur maður nægilega mikið á sig til að komast þangað. Ef maður, hinsvegar veit ekkert hvað maður vill, er hættan sú að maður sjái ekki tilgang í því að standa sig vel.

Hvað um það.

Fréttin um móðurina sem á dótturina sem komst ekki í draumaskólann sinn, eftir að hafa líklega stefnt þangað frá frumbernsku (væntanlega með vænum skammti af einhverskonar hvatningu frá foreldrunum), kemur mér harla lítið á óvart, ef tekið er mið af öðru því sem þessi þjóð hefur haft í forgrunni undanfarin ár.

Ég held að það verði ekki vel þolanlegt hlutskipti að vera í sporum grunnskólakennaranna í 10. bekk á næstu árum. Þeir munu verða fyrir gífurlegri pressu um að gefa nemendum háar einkunnir, nú þegar búið er að leggja samræmd próf af.
Mér segir svo hugur um, að þess sé ekki langt að bíða, að tekin verði upp inntökupróf í framhaldsskóla landsins - ekkert mark verði takandi á vitnisburði úr grunnskóla.

Það má auðvitað segja, að það sé eftirsóknarvert hlutskipti skóla, að geta vísað frá umsóknum nemenda sem eru með lægri einkunnir en 8.5 upp úr grunnskóla, en það er líka hættulegt.
Að mínu mati væri eðlilegt, þegar framhaldsskólar eru metnir, að mæla virðisaukann sem verður til. Þá er skoðað hvernig nemendur koma inn og síðan hvernig þeir fara út og munurinn segir síðan til um gæði skólans.

Nei, stúlkan sótti ekki um á Laugarvatni. :)


22 júní, 2009

Sumarfrí - sokkið í það sem geymt var

Flestir kannast væntanlega við þá tilfinningu að við séum, í sjálfu sér, afskaplega merkileg, ekki bara í augum okkar sjálfra, heldur einnig einhvers hóps sem eyðir lífi sínu meira og minna í kringum okkur. Það er kannski af þessum sökum sem við hneigjumst til að henda ekki ýmsu því sem smám saman verður, að því er virðist, að óyfirstíganlegum haug af drasli. Þetta er drasl þangað til maður tekur sig til og fer að skoða nánar. Þá koma perlurnar með ótvírætt sögulegt gildi fram í dagsljósið ein af annarri. Löngu liðnir tímar spretta upp fyrir augliti manns við það að uppgötva lítið bréfsnifsi, ómerkilega svart/hvíta mynd, eða einhvern smáhlut sem einu sinni hafði hlutverk.

Það er þannig að fD telur að sá staður í þessu húsi, sem hafði hlutverk sem skrifstofa, muni sóma sér vel sem vinnustofa. Það var því eins og við manninn mælt, að ég skellti mér í að henda þaðan út því sem henda má, að mínu mati. Það vill svo til að einmitt í þessu herbergi hefur saga Kvisthyltinga safnast saman í töluverðum mæli. Það má nærri geta, að þarna var margt að finna sem sagan mun ekkert vilja hafa með að gera, en einnig ýmislegt sem telja verður einstakt, í það minnsta að svo miklu leyti sem ég, þetta sandkorn á eilifðarströndinni, tel að muni gefa mynd að því sem liðið er.Þarna var að finna einkunnablöð allt frá barnaskóla, stúdentakort frá HÍ, allskyns verkefni sem ég vann þegar ég stundaði nám við Akademisk Brevskole í innanhússarkitektúr (lauk ekki vegna þess að ég fór að vinna á Laugarvatni), miklar greinargerðir og bréfaskriftir sem ég stóð í vegna baráttu við byggingafulltrúann Martein Björnsson, sem neitaði að samþykkja teikningar af húsinu og svona má lengi telja.
Þarna var einnig að finna erindi sem ég flutti 1987 í tilefni af því að 100 ár voru frá fæðingu þeirra. Það byggist væntanlega á áhuga í umhverfinu hvort ég nenni að lemja þá speki inn í tölvu.

Þá fann ég myndaröð mikla af sjálfum mér, en annað hvert ár fæ ég, starfs míns vegna að njóta þess að setjast fyrir framan ljósmyndara.

Hvað sem því líður, þá eru komnir nokkrir kassar sem bíða flutnings í ruslagám og þrír litlir kassar með óendanlega mögnuðum verðmætum. Allt er þetta hið best mál og það styttist í að fD hefji vinnu í nýrri og glæsilegri vinnustofu.

17 júní, 2009

Kvisthyltingar eru rauðir - ekki 2007



"Nú gat ég farið að njóta þess að slaka á um stund, en það var nú ekki reyndin......................."

Með þessum orðum lauk ég skrifum fyrir nokkrum dögum og það voru orð að sönnu.
Eins og þeim sem litið hafa hér við áður hefur það að öllu jöfnu einkennt þær framkvæmdir sem eiga sér stað é þessum bæ, að undirbúningur þeirra tekur langan tíma, en þegar þeim er loksins ýtt úr vör er ekki að spyrja að leikslokum. Fyrir nokkru lauk, með yfirgengilegum hraða, endurnýjun frárennslislagnar, sem hafði þá verið í huglægum undirbúningi um árabil.
Það sama má segja um þá framkvæmd, sem tók við í beinu framhaldi.

Ég hafði svo sem gert ráð fyrir að þetta þyrfti að eiga sér stað einhverntíma á þessu sumri - átti reyndar að gerast í fyrra, eða hitteðfyrra - en eitthvað kom yfir mig sem varð til þess að ég tók upp
símann og hringdi í Jón á Svínavatni (ég tengi hann fyrstan manna við fyrirbærið rauðamöl, eða bruna).
Já hann gat bjargað brunanum.
"Viltu fá þetta í kvöld?" (þetta var daginn eftir að frárennslislagnarframkvæmdum var lokið og enn fyrir hendi allmikil þreyta eftir Berlínarferð).
Ég hugsaði hratt. Hvernig í ósköpunum ætti ég að fara að því að ná einhverri slökun með því að fá yfir mig fleiri hlöss af bruna beint ofan í frárennslisátökin.
"Nei, blessaður. Það er ekki eins og mér liggi lífið á. Það er alveg nóg að fá þetta eftir helgi - það væri fínt ef ég gæti fengið þetta seinnipartinn á mánudag eða þriðjudag"
Það var mér léttir, að Jón tók þeirri hugmynd bara vel - sagðist koma seinnipart mánudags eða þriðjudags
.
Mánudagurinn kom. Eftir því sem á hann leið, komst ég æ meir að þeirri niðurstöðu, að ég væri enn ekki fyllilega búinn að ná mér. Óskin um að þriðjudagurinn yrði valinu varð æ sterkari.
Óskin sú rættist ekki.
Jón hringdi.
"Ég verð hjá þér eftir rúman klukkutíma. Er aðkoman ekki þröng hjá þér?"
Hvað var nú? Þurfti ég nú líka að fara að príla upp í stiga til að klippa greinar.
"Ég held ekki, en ég skal skoða það".
"Þó að það sé hægt að keyra þarna fólksbíla þá getur verið að greinarnar rispi svona bíla".
"Já, ég kíki á það".
Þar með lá það fyrir.
Ég brunaði heim, náði mér í tröppur og greinaklippur og eyddi drjúgum tíma í að tryggja að bíll Jóns rispaðist ekki.
Svo birtist hann og skellti einu hlassi á hlaðið.



Ykkur til upplýsingar þá hafði ég ekki gert ráð fyrir að dreifa úr brunanum með hjólbörum, ekki síst var sú hugmynd fjarri lag vegna þess að fD hafði þá þegar afgreitt hjólbörur heimilisins sem ónýtar þar sem dekkið er vindlaust.
Ég hafði verið svo forsjáll að hafa samband við tiltölulega nýbakaðan traktorseiganda (Hveratúnsbóndann) með ámoksturstækjum (traktorinn) og stórri skóflu. Þó svo hann teldi sig ekki afburða snilling við framkvæmd af þessu tagi féllst hann á að skoða málið. Það var síðan hann sem birtist skömmu eftir að hlassið hafði lent og hófst handa við að dreifa úr því. Auðvitað kallaði þetta allt saman á umtalsverða fínvinnu með handverkfærum - nákvæmlega það sem ég hafði verið að reyna að fresta - þannig að fjandvinirnir, skóflan mín og ég hófumst handa við fínstillingu.
Það var eins með Hveratúnsbóndann og Spóastaða-bóndann fyrr, að hann vildi bara klára þetta um kvöldið, þrátt fyrir tilboð mitt um annað - hann yrði upptekinn við annað næstu daga.



Þessu lauk eftir tvö hlöss frá Jóni á Svínavatni til viðbótar og vaxandi færni Hveratúnsbóndans við að fá tilfinningu fyrir stöðu skóflunnar.

Þá var ekkert eftir annað en endanleg fínstilling, sem hefur staðið yfir undanfarna tvo daga og þá með umtalsverðri aðkomu fD, ekki síst þar sem Jón hafði ekki átt í fórum sínum harpaðan bruna, sem gerði alla fínstillingu miklu erfiðari, þar sem grjóthnullunga þurfti að fjarlægja.
Eftir stendur góður bingur af brunasteinum - vonandi til skrauts fremur en hitt.

Skyldi nú vinnast tími til að ná langþráðri slökun?

Dagur hástemmdra ræðuhalda


Það þarf líka að halda ræður.
Það þarf að reyna að hjálpa týndri þjóð til að finna sig aftur.
Það þarf að búa til falleg orð og raða þeim svo saman með smekklegum hætti.
Það þarf að hvetja þjóðina til að gefast ekki upp.
Það þarf að efla með þjóðinni baráttuanda.
Það þarf að hvetja þjóðina til sáttfýsi.
Það þarf að rifja upp gömul og góð gildi.
Það þarf að lesa og syngja baráttusöngva þjóðskáldanna.
Það þarf að fjalla um fegurð landsins.
Það þarf að minna á fuglana og blómin.
Það þarf að sannfæra þjóðina um að sólin birtist innan skamms.
Það þarf að fara með málsháttinn sem segir að öll él stytti upp um síðir.
Það þarf.

Það þarf líka að hugsa öðruvísi.
Það þarf líka að vera reiður.
Það þarf líka að leita réttlætis.
Það þarf líka mótmæla.
Það þarf líka að vera raunsær.
Það þarf líka að takast á við raunveruleikann.
Það þarf líka að koma lögum yfir vitleysinga.
Það þarf líka að.......................................já.

Megi þjóðin þora að verja
það sem hennar fjöregg er.
Ofurstóra eiða að sverja
aldrei missa það frá sér.

Njótið dagsins, gott fólk.

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...