24 apríl, 2010

Engilingar

Það þurfti talsvert sterk bein til að standa af sér þá orrahríð sem garðyrkjan varð fyrir á þeim tíma þegar gengi krónunnar var lágt og innflutt  grænmeti, blóm og krydd, frá fjarlægum löndum fyllti hillur verslana. Auðvitað kom það síðan í ljós, hve mikilvægt það er fyrir þjóðina að vera sjálfri sér næg um þetta sem annað. 

Það hefur talist til ákveðinnar sérvisku lengi vel að stunda lífræna ræktun hér á landi, alveg fram á síðustu ár, en nú er þessi tegund ræktunar talin sem enn ein viðbótin við framboðið innan hins svokallaða græna geira.

Það er langur tími liðinn frá því einu grænmetistegundirnar sem voru ræktaðar í íslenskum gróðurhúsum voru gúrkur og tómatar. Á síðustu áratugum hafa íslenskir garðyrkjubændur stöðugt verið að þreifa fyrir sér með nýjar tegundir til ræktunar.














Nýir handhafar hvatningarverðlauna garðyrkjunnar hafa verið þátttakendur og frumherjar í þróuninni sem hefur gert íslenska garðyrkju að einni af mikilvægustu atvinnugreinunum.

Ingólfur og Sigrún er sérvitringar að mörgu leyti - óforbetranlegir, að margra mati, en ef svoleiðis fólk væri ekki til staðar væri þetta allt fremur lágkúrulegt hjá okkur.

Enn ein rósin í hnappagat okkar Laugarásbúa.

Ingólfur hefur látið hafa það eftir sér að þau eigi þetta nú ekki skilið, en hvað veit hann um það?

Hamingjuóskir til Engilinga.

23 apríl, 2010

Eyðilegging jákvæðrar fréttar

Mér þykir svo sem ekkert sérstaklega uppbyggilegt eða ánægjulegt, hvorki fyrir mig né aðra, að vera að dunda mér við að benda á það sem betur má fara í umhverfi mínu. Ég hugga mig þó við það, að ég er ekki einn um að vera í þessu hlutverki.

Í dag birtist frétt um það á einum vefmiðlinum, að rannsókn doktorsnema í Háskóla Íslands hefði víða vakið mikla athygli, en hér er um að ræða leið til að bæta líkur á að ráða niðurlögum erfiðs krabbameins. Ekkert nema gott um þetta að segja. 
Ég þurfti hinsvegar, áður en ég las fréttina, að ergja mig á fyrirsögninni, sem var og er svona:

Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins




Skoðum þetta nánar með því að búa til svipaða setningu og nota í stað orðsins MEÐHÖNDLUN, annað nafnorð, sem er ekki eins í neinu falli, og þar dettur mér í hug orðið HESTUR.

Hver eftirfarandi setninga væri þá á réttu máli?:

Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hestur skólastjórans. (nf,)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hest skólastjórans.  (þf.)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hesti skólastjórans. (þgf.)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hests skólastjórans.  (ef.)

Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (nf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (þf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (þgf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlunar krabbameins. (ef.)

Það má einnig hugsa sér aðrar setningar þar sem orðið VEGNA kemur við sögu:

Hún kom bara vegna ég.
Hún kom bara vegna mig.
Hún kom bara vegna mér.
Hún kom bara vegna mín.

Ég læt lesendur um að finna út hvað er rétt í þessu máli, en hér finnst mér um að ræða eitt leiðinlegasta fyrirbærið í 'þróun' tungunnar á síðustu árum. 

22 apríl, 2010

Lítilsháttar sumarljóð - ef svo má segja

Í ströngum skilningi verður ekki annað sagt en þessi morgunn fyrsta sumardags sé fremur kaldranalegur. Þunnar leifar af síðasta snjónum bera vott um það sem var. Birtan frá lampanum gula, sem ferðast um loftin og vorsöngvar á Rás 1, tjá það sem framundan er.

Ef síðustu mánuðir hafa verið vetrarmánuðir, þá var þar bara um að ræða vetur hugans, vetur óumræðilegrar, en vanmáttugrar reiði sem nær ekki að sefast. 
Vetur náttúrunnar hefur verið mildur og kurteis, eins og til að komast hjá því að gera illt verra.

Norðlægir heimskautavindar strjúka um vanga og fjallahringurinn er af lit eimyrjunnar í suðaustri, sem neyðir okkur til þess, í það minnsta, að velta því fyrir okkur hvort við mennirnir séum þess umkomnir að hreykja okkur með þeim hætti sem verið hefur.


Það er talað um fulltrúa fyrir hagsmuni á þjóðþinginu og í skilningsleysi velti ég því fyrir mér hvernig saman geti farið, þegar að kjörborðinu kemur, hagsmunir fulltrúa viðskiptalífsins og hagsmunir fólks sem vart á til hnífs og skeiðar. 
Skilningsleysi mitt er samofið vorkomunni og ég verð að gera ráð fyrir því, að með hlýjum vindum, fuglasöng og gróðursæld sumarsins, nái ég að greiða úr þverstæðum sem hafa leitt þjóðina mína að ystu þolmörkum, kannski vegna þess að fólk hafði ekki í huga hver er fulltrúi hvers.

Allt er  einhvernveginn samofið. Hvað er hvað, og hvur er hvurs, heldur áfram að vefjast fyrir okkur, aumum mönnum, sem erum eins og skógarþröstur á vori, sem þenur brjóst og sperrir stél, í þeirri fullvissu að hann sé eitthvað merkilegur - eitthvað merkilegri en náttúran að öðru leyti.
------------------------
Gleðilegt sumar, lesendur góðir og þakkir fyrir samfylgdina í vetur.

17 apríl, 2010

Til viðbótar við milljónir

Ekki get ég látið mitt eftir liggja þegar um er að ræða að mynda gos í Eyjafjallajökli.
Hér eru nokkur dæmi af gosmekki í kvöldsól. Hér eru síðan fleiri og stærri. Myndirnar eru teknar milli Iðu og Helgastaða og frá Laugarási.






Björgunaraðgerð



Gos í Eyjafjallajökli um hádegisbil í dag - séð frá Laugarási

Hvernig gæti ég hafa ímyndað mér að það ætti fyrir mér að liggja, að bjarga tveim Norðmönnum í vanda, á þessum sólríka laugardegi? Það varð hinsvegar raunin, þó svo endanleg ninðurstaða þessarar aðgerðar liggi ekki endanlega fyrir enn.

Það kom símtal frá Kvisthyltingnum danska, sem nú er staddur á ráðstefnu í þeirri merku borg Nottingham, þar sem Hrói höttur gerði garðinn frægan. Í dag hyllir undir ráðstefnulok og hugað er að heimferð. Þá kemur babb í bátinn, eins og flestum hlýtur að vera ljóst.

Þetta símtal fól í sér að fela mér að leita uppi mögulegar ferðaleiðir frá Englandi yfir á meginland Evrópu. Þar var nefnd til sögu hafnarborgin Harwich á austurströndinni. Þaðan eru ferjusiglingar til ýmissa borga. Ég hóf leit að fari og komst brátt að því, að þar er fátt um fína drætti. Næsta ferja sem ekki er fullbókuð fer til Esbjerg á föstudaginn kemur, 26. apríl. Ég leitaði því eftir fari til einhvers staðar sem kallast Hook of Holland, en þangað er rúmlega 6 tíma sigling. Fyrsta ferð þangað, þar sem enn var laust, reyndist vera að morgni þriðjudags næstkomandi.

Þetta tjáði ég Kvisthyltingnum símleiðis. Hann ákvað að taka þetta far þar sem ekkart annað var í kortunum. Að því sögðu fór hann þess á leit við mig að ég bókaði einnig tvo samráðstefnugesti hans í umrædda ferð. Þetta voru þeir Vegard Ölstörn og Bo Haugen, örugglega miklir öndvegismenn, norskir.

Ég komst í gegnum bókunarferlið og nú eru þeir félagarnir þrír bókaðir í ferju Stena Line frá Harwich til Hook of Holland, n.k. þriðjudag kl. 9:00 að morgni. Hvernig þier ætla sér síðan að komast til Norðurlandanna þaðan er eitthvað sem ekki liggur enn ljóst fyrir, en samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum frá Fyrrelunden eru og verða allar almenningssamgöngur í Evrópu fullbókaðar eins lengi og séð verður.


Nú bíð ég spenntur eftir fregnum af því, hvort bókun mín reynist verða sú björgun sem endanlega leiðir til þess að tveir Norðmenn og einn Kvisthyltingur komast til síns heima áður en langt um líður.

13 apríl, 2010

Þögn

Þögnin ræður ríkjum hjá tilteknum hópi manna hér fésbókinni í kjölfar þess sem ekki þarf að nefna, væntanlega. Þessi þögn æpir á mann og vekur óþægilegar spurningar um hvort nú sé verið að bíða eftir línunni.
Millileikur þessa hóps hefur verið sá, að grípa hálmstrá: krafa sett fram um að lítill ráðherra, sem fékk ekki að vera með þessum alvöru og eigi að segja af sér þingmennsku, um annan skrípó ráðherra, sem ekkert er að marka, sem var allsber meðan bankarnir voru að falla og góðu kallarnir voru á vaktinni.

Hvernig eigum við að taka á þessu?
Það getur ekki verið satt að þetta hafi verið svona!
Víst voru það bara útrásarvíkingarnir sem ollu þessu.
Víst er Steinhanna búin(n) að klúðra landstjórninni 'bigtæm'.
Víst hefur gamli góði flokkurinn minn einu réttu svörin til að bjarga okkur úr þessari stöðu.
Hver ætlar að segja mér hvaða skoðun ég á að hafa núna?
Kommon, einhver, plííís?

Það er þessi þögn sem veldur því, meðal annars, að það má efast um að við munum geta náð einhverri sæmilega skynsamlegri niðurstöðu með þetta þjóðfélag okkar. Meðan ekki örlar á viðurkenningu á því að ákveðin stefna í þjóðmálum hafi orðið til þess að svo fór sem fór, hvorki meðal forystumanna né áhangenda, verður fáu breytt, því miður.

Ég hef túlkað þessa þögn sem bið eftir einhverju. Hvað gerist meðan á þessari þögn stendur, ræður úrslitum um það hvernig gengur. Ef ekki er verið að bíða eftir línunni sem fylgja skal, þá er alltaf hægt að vona, að þögnin þýði að verið sé að hugsa sinn gang. Ef svo er, þá er von,

Ég vona að það sé von.

Ég biðst velvirðingar á slettum. Þær voru mér nokkuð þungbærar.

08 apríl, 2010

Er kannski vitlaust gefið?

Ég hagnaðist ekkert á þessu láni frá bankanum sem ég á reyndar stærstan hlut í. Þetta lán var greitt inn á reikning hlutafélags sem er reyndar í minni eigu, til þess að greiða skuld við hlutafélag sem líka er í minni eigu. Það félag skuldaði reyndar öðru hlutafélagi sem ég á reyndar stóran hlut í, en það félag skuldaði bankanum, sem ég á reyndar einhvern hlut í. Þegar allt kemur til alls þá hefur þetta allt ekkert með mig að gera, hér er um að ræða viðskipti milli frjálsra félaga og allar þessar gerðir voru fullkomlega löglegar. Ég skulda engum neitt. Ég fæ aðeins greiddan arð af vel reknum hlutafélögum.

Það er einhvernveginn svona, eða ekki svona, sem snillingarnir eru búnir að tæma heilt bankakerfi og setja heila þjóð á hausinn.
Maður skyldi ætla að hin óhemju vönduðu (að því er virðist) hlutafélagalög hafi svörin við öllum þeim flækjum sem lagt hefur verið út í, en það er varla svo.
Þessari fyrstu grein hlutafélagalaga verður að breyta þannig að eigendur verði persónulega fjárhagslega ábyrgir fyrir gerðum félagsins, svo og eiginkonur/eiginmenn þeirra og önnur nánasta fjölskylda.
----------------
Það voru veitt lán til valinna manna og kvenna gegn veðum í hlutabréfum sem voru keypt fyrir lánin. Það voru ekki einstaklingar sem voru skráðir fyrir lánunum, heldur einkahlutafélög sem þeir/þær stofnuðu fyrir 500 þúsund kall. Einstaklingurinn sat ekki eftir með skuldina þegar allt fór á versta veg (hann tapaði bara 500 þúsund kallinum), heldur bara félagið, þar sem engar eignir var að finna þegar til átti að taka.

Þó ekki nenni ég að setja mig inn í allar þessar hlutafélagalagagreinar þá tel ég að þessum lögum verði að breyta þannig að ekki verði mögulegt að framkvæma svo brjálaðar fléttur sem raun ber vitni.

Ég vildi ekki leggja það á lesendur að birta meira úr hlutafélagalögum, en það sem hér fylgir. Þeir sem hafa verulegan áhuga á að kynna sér ósköpin geta fari hingað eða hingað.

Hlutafélagalög upp á heilar 163 greinar

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. 2.mgr. Hlutafélag merkir í lögum þessum félag þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins.


Einkahlutafélagalög upp á litlar 136 greinar.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Einkahlutafélag merkir félag samkvæmt lögum þessum þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins.


Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...