Eins og svo oft varð fD fyrri til að veita athygli óeðlilegum þáttum í umhverfinu. Sem fyrr gat ég ekki svarað spurningunni umsvifalaust - beið um stund til að átta mig betur á því sem var að gerast, sem reyndist vera nokkuð sögulegt. Meira um það síðar.
Fyrir nánast nákvæmlega ári síðan gerðist það, gegn spádómum, að ég lét verða af því að fá Jón á Svínavatni til að koma með nokkur hlöss af rauðamöl til að bæta aðkomuna að stórbýlinu. Þetta sá ég ástæðu til að fjalla sérstaklega og eftirminnilega um á þessum vef. Þarna var mjög vandað til verka og fjölmörgum klukkustundum eytt í að jafna brunann sem best um heimkeyrsluna og hlaðið.
Kvistkyltingar voru bara nokkuð ángðir með þetta þarfaverk og það hefur ekki látið á sjá að ráð nema í tvennu tilliti: þegar hB kom til skjalanna í tilefni af því að mikil stífla í frárennsliskerfi óðalsins setti allt á annan endann. Umfjöllun er hér í fjórum köflum og þegar hB kemur heim úr vinnu sinni og gefur óþarflega inn þegar ekið er upp heimkeyrsluna, með þeim afleiðingum að lítilsháttar þvottabretti hefur myndast.
Samandregið er það fullyrt hér, að aldrei frá því þessi heimkeyrsla var lögð fyrir um það bil 30 árum, hefum nokkur annar en sá sem Kvisthyltingar hafa beinlínis ráðið, á eigin kostnað, til þess að viðhalda heimkeyrslunni, komið að umönnun hennar að nokkru leyti.
"Hvað er þessi bíll að gera í innkeyrslunni?" var spurningin sem varpað var fram í upphafi og skapaði inngang að því sem á eftir fór, á þessum degi. ´
Þessi bíll færðist hikandi upp heimkeyrsluna, og brátt kom í ljós, að þarna var á ferð stærðar vörubíll með pallinn reistan. Hikið var væntanlega vegna þess, að á ferð sinni upp eftir rakst hann óþyrmilega í aspirnar miklu og braut greinar sem teygðu sig heldur langt út yfir veginn. Ferð þessa bíls lauk hér uppi á hlaði og þá kom í ljós, að hann var að sturta ofaníburði, brúngráleitum, ofan á vandlega sléttaðan brunann sem fyrir var.
Orðin sem sögð voru við þær aðstæður sem hér voru uppi, voru fá. Ætli viðbrögðin hafi ekki bara verið þau, að áhorfendum var orða vant. Það fyrsta sem mér datt í hug var, að bílstjórinn hefði fengið rangar upplýsingar og væri að sturta í vitlausa heimreið. Síðan kom spurningin um hvort hér gæti verið um að ræða aðgerð sem átti að eiga sér stað fyrir 29.maí. Svörin voru engin. Brátt birtist gulur veghefill sem heflaði sturtaðan ofaníburðinn vandlega.
Það vildi svo til að hG átti þarna leið um og gat veitt svör. Hann hafði nefnilega spurt bílstjórann þegar það sama gerðist hjá honum.
Þetta var Vegagerðin að skila af sér.
Það er auðvitað tilefni mikilla vangaveltna, hverju hún var að skila af sér, en á þessu stigi hefur sú umræða lítið upp á sig.
Hér stóðu Kvisthyltingar frammi fyrir samviskuspurningu: Áttu þeir að fagna þessari fagmannlegu aðgerð eða verða viti sínu fjær af bræði yfir átroðslu sem þeir höfðu ímugust á og sem setti litasamsetninguna milli heimreiðar og hlaðs alveg úr skorðum?
Þeir hafa ekki komist að niðurstöðu enn, en í því samfélagi sem við lifum, erum við afskaplega viljug til að vantreysta og tína til það sem betur mætti fara. Er kannski betra að fagna því, að eitthvað er loksins gert, eftir 30 ár?
Svarið fær yfirvegun.