24 júní, 2010

Ósamræmd sumargleði

Það er komið undir lok júnímánaðar og allt í einu stend ég frammi fyrir því að vera kominn í sumarleyfi. Það er ekki laust við að öfund geri vart við sig í garð þeirra kollega minna sem áttu þess kost að yfirgefa vinnustaðinn eins og kýr á vori fyrir mánuði síðan, en það er væntanlega til lítils að vera að velta sér upp úr því. Undanfarnir dagar hafa verið einkennileg blanda af ánægju með mikla aðsókn og depurð vegna þess að við þurftum að vísa talsverðum fjölda umsókna frá. Þessu hafa síðan fylgt símtöl áhyggjufullra foreldra: "En er ekki einhver möguleiki á að gera undantekningu?"
Það þýðir heldur ekkert að vera að velta sér upp úr því. Hver sagði svo sem að maður eigi rétt á að fá allt sem maður vill? Hver sagði að lífið væri dans á rósum?

Eitt það versta við inntökuferlið er ef til vill óvissan um hve mikið er að marka þær tölur sem fylgja umsækjendum frá grunnskólum. Er nemandi með 6,5 frá þessum skóla kannski bara betri í stærðfræði en nemandin frá hinum, sem er með 9, vegna þess að kennarinn í þeim fyrrnefnda gerir meiri kröfur en kennarinn í þeim síðarnefnda?

Samræmt próf voru lögð af, af ýmsum ástæðum. Ein þeirra var sú að þau sköpuðu álag fyrir nemendur. Álag og áhyggjur er eitthvað sem börnin okkar eiga ekki að þurfa verða fyrir. Þau skulu vernduð fyrir öllu illu hvað sem tautar og raular.  Önnur ástæða var sú, að síðasti bekkur grunnskólans fór eingöngu í undirbúning fyrir þessi vondu próf. Það var náttúrulega val skólanna, með hagsmuni nemenda ða leiðarljósi. Er það bara ekki orðið svo nú, að með hag nemenda að leiðarljósi, gefa skólanir þeim háar einkunnir til að auka líkur þeirra á að komast inn í "góða" bóknámsframhaldsskóla til þess að þau geti orðið stúdentar?

Mér finnst vitleysan í þessum málum vera að aukast og vil fá samræmd próf aftur. Það er hreint ekkert að því að 15 ára fólk þurfi að taka einhverja ábyrgð á sjálfum sér. Samræmd próf væri vel hægt að hafa þannig að ekki sé eitthvert tiltekið námsefni að baki. Hversvegna ætti þetta að vera eitthvað meira mál hér en í öðrum löndum þar sem samræmd próf eru lögð fyrir nemendur. Það liggur við að ég gangi svo langt að halda því fram að við séum að ala upp kynslóðir sem halda að það muni alla tíð verða þannig að einhver komi þeim til hjálpar þegar eitthvað bjátar á.  Ég geri það hinsvegar ekki þar sem ekki er ólíklegt, lesendur góðir, að einhver ykkar muni líta á það sem ólíðandi sleggjudóma.

Þar með held ég að ég loki þeim kafla sem liðinn vetur hefur verið og snúi mér að því að vinda ofan af mér í rólegheitum. Þetta byrjar allt aftur í byrjun ágúst.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...