19 júní, 2010

Grafin kýr og tvíreykt ær

Ekki trúi ég öðru en fólk hafi hváð lítillega við að líta fyrirsögnina, en auðvitað á hún sína skýringu. Ef ekkert er samhengið hljómar þetta nú ekki sérlega vel, en er hreint ekki svo galið í raun.

Æðstu Kvisthyltingunum var boðið til kvöldverðar á Hótel Eddu á Laugarvatni í gærkvöldi. Tilefnið var það sem sjá má bak við þennan hlekk.

Hér var á ferðinni heilmikil upplifun, sem hófst með gönguferð niður að vatni þar sem grafið var upp hverabrauð sem var búið að bakast í heitum sandinum í einn sólarhring. Egg voru síðan sett til suðu í sandinum meðan brauðið var græjað; 10 egg, en aðeins 9 fundust síðan þegar til átti að taka. Þegar allt var síðan klárt fengum við að gæða okkur á heitu hverabrauðinu með smjöri, silungi og eggi. Þessu var síðan rennt niður með kampavíni úr stútbrotnum flöskum (hér var á ferðinni sérstök aðferð sem felst í því, að stúturinn er brotinn af með einhvers konar hníf, og sem ég ætla ekki að reyna að lýsa).

Næst var gengið til kvöldverðar.

Forrétturinn var að mestu fenginn frá kjötvinnslunni á Böðmóðsstöðum: hrossabjúgu, grafið kýrkjöt og tvíreykt ærkjöt. Mér til undrunar bragðaðist þetta bara vel, mjúkt undir tönn og hóflega mikið.

Milliréttur var síðan að uppistöðu til kryddeldaður silungur á beði úr íslensku byggi. Silungurinn hafði verið roðflettur og roðið þurrkað sér og var því stökkt eins og snakk (í fyrsta sinn sem ég borða roð).
Þetta var líka ágætis réttur.

Aðalréttur var síðan lambalæri, sem var hægeldað og því nánast alveg rautt án þess þó að bragðast þannig og afskaplega meyrt, ásamt því sem ég vil nú kalla kartöflumús, en mun heita eitthvað annað á matseðlamáli.

Eftirrétturinn fól í sér sérlega bragðgóðan hundasúruís, einhverja útgáfu af hjónabandssælu og afbrigði af Ab-mjólk með músli - að mig minnir. Allt var þetta hreint ágætt.

Undir borðum léku tveir starfsmenn hótelsins á píanó, og hótelstjórinn, Siggi Rabbi, skemmti gestum með harmonikkuleik.

Þetta var ágætasta matarupplifun.

1 ummæli:

  1. Maturinn hreinn munaður
    mestan partinn unaður
    íslenskur, og allt um kring
    var undur gaman - dinga ling
    - á nikku

    Hirðkveðill yrkir um íslensku veisluna sem fD og hP sátu -og röltu- að Laugarvatni.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...