16 nóvember, 2013

RETARD - vel dulin örvænting (4)

Fyrstu þrjá hluta þessarar frásagnar er að finna hér.

Þar var komið sögu síðast, að við sexmenningarnir stóðum frammi fyrir því að taka einhvers konar ákvörðun og hún gat skipt sköpum um það hvort lent yrði á Íslandi á þessu mánudagssíðdegi. Þarna lá það fyrir að ef RER B lestar kæmu ekki  með tveggja mínútna millibili, nánast umsvifalaust, myndum við fjögur sem hugðumst hefja okkur til flugs kl 12:15 ekki fá þá ósk okkar uppfyllta. Þau tvö sem stefndu á vængjum málmfuglsins til höfuðborgar herraþjóðarinnar fyrrverandi áttu ekki flug fyrr en löngu síðar um daginn, svo þau þurftu ekki að svitna jafn mikið. Þau fengu þó að kenna á því síðar, eins og ég mun greina frá í nokkrum orðum síðar.
Mannhafið í iðrum Parísar reyndist stærri biti en sú Þorvaldsdætranna sem er komin á sjötugsaldur gat kyngt og því kvað hún, skýrt og skilmerkilegu upp úr með eftirfarandi:
"Við tökum leigubíl!" 
Efi okkar hinna var orðinn  það mikill á þessum tímapunkti, að þessi afdráttarlausa yfirlýsing reyndist dropinn sem fyllti mælinn eða stráið sem hryggbraut kameldýrið. Það brást enginn við yfirlýsingunni með orðum, augnaráð ferðafélaganna sagði allt sem segja þurfti. Teningnum var kastað: það yrði tekinn leigubíll. Á þeirri niðurstöðu voru þó tveir hængar:
1. Af þeim þúsundum manna sem þarna voru staddir í neðanjarðarhvelfingum mátti reikna með að, að minnsta kosti 5% tækju svipaða ákvörðun á svipuðum tíma.
2. Við höfðum verið vöruð við að taka leigubíl í París þar sem þar væri að finna tvenns konar leigubíla, sem útilokað var að greina í sundur:
   a. leigubíla sem voru opinberlega viðurkenndir.
   b. leigubíla sem voru ekki opinberlaga viðurkenndir og gátu átt það til að fara krókaleiðir með túrista til að krækja sér í meira pening -  og sem fólu í sér ýmsar aðrar hættur sem sakleysingjar geta lent í á ókunnum slóðum.
Hvað sem þessu leið hafði ákvörðun verið tekin og ferðin upp á yfirborðið hófst, upp hvern rúllustigann á fætur öðrum (guði sé lof fyrir rúllustiga, ekki síst vegna farangursins sem var síst til þess fallinn að létta þessa reynslu).
"Upp upp mín sál og allt mitt geð,
upp minn skrokkur og taska með".
Eftir því sem ofar dró, þar sem við létum leiðast áfram af skiltum með áletruninni SORTIE, sem við þekkjum betur sem EXIT, fjölgaði skiltum sem greindu frá því að við værum á leiðinni á stað þar sem væri að finna leigubíla - TAXI. Það er ekki ástæða til að eyða fleiri orðum að uppstigninguna og þar kom að við vorum komin á jarðahæð, sem sjá mátti af því, að þar voru gluggar og fyrir utan fólk og bílar. Þangað var nú stefnt.

Fyrir utan Gare du Nord lestarstöðina þurfti að átta sig á aðstæðum, eftir að hafa dvalið langdvölum neðanjarðar. Þarna kom í ljós gata og eftir henni óku bílar. Fyrstu viðbrögð mín voru að ég tldi mig geta reiknað með, að miðað við það að það er hægri umferð í Frakklandi, myndu leigubílarnir vera til taks þeim megin götunnar sem var nær stöðinni, þannig að ekki þyrfti að fara yfir götuna til að ná þeim.  Eftir því sem umhverfið skýrðist þá kom í ljós að gatan var einstefnugata og þeir leigubílar sem þarna fóru hjá tóku upp farþega hinumegin götunnar.
Eins og áður hefur verið minnst á þá lenti fD í hremmingum þar sem hún var á ákveðnum tímapunkti síðust til að fara í gegnum hlið með lestarmiðanum sínum. Þá stóð hún eftir ein á ókunnri strönd og menn geta rétt ímyndað sér hvers konar hugarangur það hafði í för með sér. Reynslan af hliðinu varð síðar til þess að hún var næstum farin ein af stað með lest sem við áttum ekki að taka.
Nú vorum við komin þar sem leigubílar beinlínis sáust taka farþega upp í. Þetta sá fD einnig og það var eins og við manninn mælt, hún tók forystuna og skeiðaði yfir götuna. Þar beið hópur manna í skipulegri röð, upp undir 100 manns, eftir því að komast í leigubíl. Leigubílarnir áttu hinsvegar ekkert sérlega oft leið þarna hjá, svo það virtist ljóst, að biðin gæti orðið löng. Þarna kom fD í fararbroddi að röðinni framanverðri í þann mund er leigubíll nam staðar og bílstjórinn, á áttræðisaldri, steig út, gekk rakleiðis að tösku fD og skellti henni í skottið.
Ég ætla ekki að reyna að lýsa svipnum á fólkinu sem þarna beið stillt og prútt í röðinni. Ég sá rétt í svip svipi undrunar, hneykslunar og fyrirlitningar sem skullu á bakin á fD þar sem hún stóð töskulaus við leigubílinn. Við hin komum í humátt á eftir, en bílstjórinn hafði ekkert gert ráð fyrir að fleiri en fD væru á ferð. Ég gaf mig hinsvegar fram með stóru ferðatöskuna, sem fór einnig í skottið. Þangað fór einnig taska fS. Þar með lokaði bílstjórinn skottinu og opnaði afturdyrnar fyrir dömunum, eins og sannur sjentilmaður. Ég fór hinsvegar götumegin að bílnum og opnaði framdyrnar. Sætið var sneisafullt af einhverjum pappírum og dóti frá bíleigandanum, enda var hann fljótur að beina því til mín að fara aftur í. Viðbrögð mín við því voru að benda honum á að við, sem með honum ætluðum, værum fjögur, en ekki þrjú. Þar með vék ánægja bílstjórans með að fá svona góðan túr. Hann snaraði sér inn í bílinn og tók í snarhasti samn staflann af pappírum og dóti úr framsætinu og skellti í einn haug á gólfið fyrir framan bílstjórasætið. Ein ferðataskan hafði ekki farið í skottið, enda bílstjórinn nú með hugann við annað en gera farþegunum gott.
Öll þessi aðgerð var talsvert streituvaldandi, þar ssem það var afskaplega mikilvægt að við kæmumst að stað áður en einhver þeirra sem stóð með reiði og hneykslunarsvip í biðröðinni léti verða af því að mótmæla, með einhverjum aðgerðum, frekjunni og óskammfeilninni sem þarna hafði birst þeim í uppítöku fD og okkar hinna. Okkur lá því á að komast af stað og fD, fS og hR skelltu sér inn í aftursætið með töskuna, sem ekki hafði farið í farangursgeymsluna í fanginu. Ég settist í framsætið, sem bílstjórinn hafði, af lítilli elskusemi, fjarlægt persónulegar eigur sínar úr.
Það var ekið af stað eftir götum Parísar, og léttirinn var meiri en orð fá lýst, en samt var einn efi eftir: var þetta viðurkenndur bíll eða gullgrafarabíll? Ég get svo sem ekki fullyrt neitt um það, en ferðin á flugvöllinn, sem tók um 40 mínútur var slysalaus og bílstjórinn sinnti sinni vinnu eins og hægt var að ætlast til. Við renndum upp að Terminal 3 um klukkustund fyrir áætlað flugtak og léttirinn var svo mikill og þakklætið í garð leigubílstjórans að hafa, í einhverjum skilningi, bjargað okkur úr fyrirsjáanlegum hremmingum, að við bættum 5 evrum við uppgefið fargjald. Eftir að úr bílnum var komið tók við þetta sem fólk gerir á flugvöllum og síðan flug í NNV þar sem við lentum næstum hálftíma á undan áætlun.
Við fréttum það síðar að RER B lestin hafi farið að ganga á ný í þann mund sem VÁvélin okkar lyfti hjólum af flugbrutinni á CDG. Ákvörðunin um leigubílaferðina öðlaðist þar með sess meðal góðra ákvarðana.

Af þeim tveim sem eftir voru, og sem stóðu ein eftir til að fást við ógnandi biðröðina og sem varla tókst að kasta kveðju á í leigubílshasarnum, er það að segja að þeirra beið æsilegur dagur, fullur af hættum þar sem þau, meðal annars, lentu nánast í slagsmálum þegar þau ætluðu að freista þess þess að komast í strætisvagn, og seinna í margvíslegri tvísýnu í tengslum við flug sitt til Kastrup flugvallar. Það er ekki mitt að greina frá öllu því sem þar bærðist í brjósti, en ég er meira en tilbúinn að flytja þá frásögn þeirra inn á þetta svæði og leyfi mér reyndar að beina þeim eindregnu tilmælum til þeirra fA og hA að setja saman góðan pistil og senda mér.

----------------------------------------

Í minningu Pöllu
Hún hefði viljað taka þátt í þessari Parísarferð.
Hver veit nema svo hafi verið? 

10 nóvember, 2013

RETARD - vel dulin örvænting (3)

Hér birtist nú þriðji hluti þeirrar frásagnar sem hafin var hér og síðan haldið áfram hér.
Ég stóð í sal, eða öllu heldur á einhverskonar gangamótum, líklega á þriðju hæð neðanjarðar, undir ánni Signu í París. Það stóð yfir leit að lest sem myndi flytja okkur sexmenningana frá lestarstöðinni sem merkt er C á meðfylgjandi korti á lestarstöðina D (Gare du Nord). Ferðinni var heitið á Charles de Gaulle flugvöllinn.

Þegar þarna var komið sögu hafði það gerst sem ótti okkar ferðafélaganna hafði beinst að í öllum lestarferðum helgarinnar: tveir ferðafélaganna, systur á sextugsaldri, höfðu orðið viðskila við hópinn í mannþrönginni sem liðaðist um þessar neðanjarðarhvelfingar. Önnur var fD og ég sá fyrir mér líðan hennar þegar hún uppgötvaði að enginn þekktur, grásprengdur kollur var í nánd. Ég ímyndaði mér ástand hennar með svipuðum hætti og það var þegar seinni jarðskjálftinn reið yfir Suðurland árið 2000, en ég mun ekki greina frá hvernig það var þá, hér, þessu sinni. Þarna áttu systurnar tvær væntanlega ekki annan kost en fylgja straumnum áfram, án þess að hafa nokkra stjórn á nokkrum hlut (sem var nánast ómöguleg aðstaða). Þarna gátu þær hafa ímyndað sér að manngrúinn myndi beygja inn í mismunandi rangala og velt fyrir sér hvað þá væri til bragðs að taka. Við hin stóðum  á gangamótum og skyggndumst áhyggjufull yfir mannhafið sem streymdi út úr göngunum í gegnum hlið með miðana sína og framhjá hliðunum án þess að þurfa að nota miðana. Það leið og beið. Klukkan tifaði. Hvað myndum við geta tekið til bragðs ef þær kæmu ekki þarna í gegn? Hvorug var með nothæfan síma, hvorug var sérstaklega tilbúin til að tjá sig mikið á frönsku, hvorug myndi auðveldlega fara að gefa það upp  við nokkurn mann að þær væru villtar. Straumurinn hélt áfram gegnum hliðið; fólk af öllum kynþáttum stærðum og gerðum, ....... en ekki systurnar.

Auðvitað komu þær í gegn að lokum - ég var bara að æfa mig í spennusagnagerð.

Með því þær sáu ástkæra eiginmenn sína standa þarna og bíða eftir þeim, örugga höfn, hefði maður, í ljósi þeirra hremminga sem þær höfðu lent í, ímyndað sér að fögnuðurinn hefði verið mikill; hefði brotist fram í brosi sem myndi ná til alls andlitsins, hefði kannski birst í því að þær hefðu þakkað almættinu fyrir að vera hólpnar og jafnvel hjúfrað sig upp að öruggri höfn sinni, í þakklæti fyrir giftusamlegan endi þessa glæfralega ferðalags um undirdjúpin.  Það sem maður hefði getað ímyndað sér, gerðist ekki, og ég verð líklega að fara varlega í að lýsa því í smáatriðum sem gerðist við endurfundina, en það snérist í stórum dráttum um það, að staðan sem þarna hafði komið upp skrifaðist á reikning þeirra sem tókst að halda hópinn, og þá sérstaklega lestaferðastjórann. Það væri með góðum vilja hægt að skilja þessi viðbrögð ef maður léti það eftir sér að ímynda sér upplifum þeirra systra af þeirri reynslu sem þær urðu fyrir. Það urðu engin handalögmál, enda ekki þörf á; orðin og látbragðið dugðu til að leysa út örvæntinguna. Ég ráðlegg næsta hóp sem fer í svona gönguferð neðanjarðar, að útbúa leiðtogann með priki með íslenska fánanum.

Það þurfti að halda áfram. Tíminn leið og lestin varð að finnast. Göngunni var haldið áfram, skilti skoðuð, gangar gengnir, rúllustigar staðnir upp og niður. Að endingu kom hópurinn á líklegan brautarpall þar sem óvenju fáir voru fyrir. Það var auðséð á stjóranum að hann var ekki alveg viss um að þetta væri rétti staðurinn. Fljótlega renndi tveggja hæða neðanjarðarlest að stöðinni, stöðvaðist og dyrnar opnuðust. Til þess að tryggja að sagan um aðskilnaðinn við hópinn endurtæki sig ekki, dreif fD sig upp í lestina um leið og hún spurði; "Eigum við ekki að fara upp í þessa?" Þá kom flautið sem gefur til kynna að dyrnar séu að fara að lokast, fD fyrir innan og hópurinn að öðru leyti fyrir utan. Í þann sama mund gaf stjórinn það til kynna með ákveðnum hætti að ekki væri þetta rétta lestin og fD slapp naumlega út áður en dyrnar lokuðust og tveggja hæða ferlíkið hvarf inn í göngin framundan; eitthvert út í niðdimma óvissuna.  Það getur hver maður ímyndað sér hvað hefði gerst ef lestin hefði farið af stað með fD, eina ferðafélaganna, innanborðs. Ég held að jarðskjálftinn árið 2000 hefði bliknað í þeim samanburði.
Þá lá það fyrir að enn þurfti að leita að lest sem myndi að öllum líkindum flytja okkur til D (Gare du Nord). Enn hófst gangan og var með sama hætti og áður, nema nú var hópurinn þéttur, nánast hékk þar hver í öðrum. Þar kom, að lestin fannst og tíminn leið. Þessi reyndist full af fólki og það var talið upp að sex.
Skömmu síðar var rennt inn í Gare du Nord, en eins og hver maður getur séð á kortinu þá mætast þar margar lestar og þá eins og auðvelt er að ímynda sér, á mörgum hæðum neðanjarðar. Það sem þarna lá fyrir var að finna aftur RER B - sem er eina lestin sem gengur út á áður nefndan flugvöll. Það var í sjálfu sér ekki flókið og fólksstraumurinn lá allur í þá átt. Það er auðveldlega hægt að ímynda sér að þegar lestar sem á örfárra mínútna fresti, eiga að flytja mikinn mannfjölda milli tveggja staða, stöðvast í langan tíma. Fólkið sem ætlaði með þeim gufar ekki bara upp. Það fær leiðbeiningar í hátalarakerfum og afskaplega stór hluti fylgir þessum leiðbeiningum og með þeim augljósu afleiðingum að úr verður mikið mannhaf. Það var þannig þarna einnig.  Þegar sexmenningarnir, við, renndum niður stútfullan rúllustigann sem bar okkur að brautarpallinum þar sem ætlunin var að taka RER B út á flugvöll, blasti við slíkt mannhaf að það virtist ljóst að 10 RER B lestar myndu varla duga til að grynnka á fjöldanum og tíminn leið, og á skiltum stóð RER B RETARD.   Ef við ætluðum að ná í flugið sem færi kl 12:15 var þarna kominn tími stórra ákvarðana.

Niðurlag frásagnarinnar mun greina frá æsilegum lokaþætti ferðarinnar út á CDG - flugvöllinn. (Fyrir þá sem ekki vita (fA) er CDG skammstöfun á Charles de Gaulle.

09 nóvember, 2013

RETARD - vel dulin örvænting (2)

Þegar frásögninni lauk síðast, var staðan sú að ferðafélagarnir sex voru komnir um borð í RER B lest á lestarstöðinni Port-Royal (merkt A á meðfylgjandi korti) sem átti að flytja þá á Charles de Gaulle flugvöllinn, en þaðan skyldi haldið með flugi langt norður á bóginn til landsins kalda og bláa kl 12:15 að staðartíma. Þetta þýddi að innritun átti að hefjast kl. 10:15. Þegar hér var komið var kl. rúmlega 9:00, þannig að það var góður tími til stefnu, lestarferðin átti ekki að taka nema 25-30 mínútur og gönguferðin frá lestinni út í Terminal 3 kannski 15 mínútur í viðbót. Allt var þetta nákvæmlega skipulagt, enda hópurinn þannig samsettur að óvissa var ekki valkostur.

Nú mátti lestin fara af stað; bruna með okkur síðasta spölinn. Hún gerði það samt ekki og við reiknuðum með því, bæði með orðum, svipbrigðum og látbragði, að þarna væru um að ræða tímajöfnun. Vissulega heyrðist glymjandi rödd í hátalara, sem ég, þó ég hafi nú vald á grunnatriðum í frönsku, skildi auðvitað hreint ekki. Það var eitthvert óvenjulegt yfirbragð yfir farþegunum í sneisafullum lestarvagninum og þar kom eftir talsverðan tíma, að lestarfararstjóri okkar innti hóp nokkuð órólegra Svía eftir því hvað væri um að vera og fékk þær upplýsingar að um væri að ræða seinkun vegna bilunar einhversstaðar og að það lægi ekki fyrir hvar sú bilun væri, hvers eðlis eða hvenær viðgerð yrði lokið. Það gætti orðið stutt í það, nú eða langt. 
Áfram leið tíminn án þess lestin héldi af stað og svo fór að Svíarnir tóku þá ákvörðun að yfirgefa hana með farangur sinn. Nokkrir fleiri gerðu það sama, en það bættust jafnmargir við, svo það virtist nú engin ástæða til að örvænta. Nokkrum mínútum eftir að Svíarnir hurfu á braut, heyrðist flautuhljóð og skömmu síðar lokuðust dyrnar á lestarvagninum og beint í kjölfarið á því lagði lestin af stað frá Port-Royal (A). Ekki neita ég því að léttirinn var talsverður, og ég neita því ekki heldur að mér varð hugsað til Svíabjánanna sem höfðu ekki þolinmæði til að bíða með okkur hinum. Ég taldi víst að nú væru þeir að rembast við að ná sér í leigubíl einhversstaðar meðan við brunuðum fyrirhafnarlaust á áfangastað (E) .
Ekki get ég nú kinnroðalaust fullyrt að ég hafi verið þess fullviss að allt væri komið í lag þegar þarna var komið, ekki síst vegna þess að lestin virtist fara óvenju hægt yfir. Maður hefði nú haldið að nú lægi á að koma farþegunum fljótt og örugglega á áfangastað, en svo virtist ekki vera.
Innan nokkurra mínútna hægði lestin á sér og stöðvaðist loks á Luxembourg stöðinni (B), en sú er í rúmlega eins kilómetra fjarlægð frá Port-Royal. Dyrnar opnuðust, fólk fór út og fólk kom inn, en svo gerðist ekkert utan það, að röddin hélt áfram að glymja í hátölurunum og fólkið hélt áfram að horfa hvert á annað og spyrja hvert annað, ef það skildi hvert annað, á annað borð. 
Við þær aðstæður sem þarna voru komnar upp var farin að renna, í það minnsta ein gríma á sexmenningana, en enginn var tilbúinn að kveða upp úr með hvað rétt væri að taka til bragðs, enda tímaþröngin ekki orðinn tilfinnanleg ennþá. Röddin talaði og á ljósaskilti fyrir utan lestina sá ég nú að stóð RER B (nafnið á lestinni) RETARD, en það kom og fór. (retard á frönsku merkir ekki að einhver sé seinþroska, heldur að um sé að ræða töf, sem á ensku myndi vera delay).  Fólkinu í lestinni fækkaði heldur meira en því fjölgaði og nú voru þeir sem rólegastir voru í okkar hópi búnir að ná sér í sæti, en hinir stóðu og störðu með óræðu augnaráði á umhverfið. Það var þó ekki erfitt að ímynda sér hvaða hugsanir það voru sem helst sóttu á huga þeirra.
Eftir 15 mínútna  kyrrstöðu á B kom flautið loks og í kjölfarið lokuðust dyrnar og lestin fór á hreyfingu. Næsta stöð var  St. Michel Notre Dame (C), en hún er nánast undir Signu, rétt hjá Vorrar frúar kirkjunni og þangað þokaðist lestin nú. Þessar lestar eru ógnar langar, líklega í það minnsta 70-100 metrar, og oftast sneisafullar af fólki. 

Svo sem við var að búast nam lestin okkar staðar á C, en þar er eitthvert fjölsóttasta ferðamannasvæði Parísar. Þar rétt hjá er áðurnefnd kirkja kroppinbaksins Quasimodo, Louvre safnið og Pompidou safnið og listamiðstöðin, svo eitthvað sé nefnt.  Dyrnar opnuðust, röddin glumdi og á skilti á vegg fyrir utan tilkynnti um RETARD. Nú fóru talsvert miklu fleiri farþegar út en komu inn. Við þessar aðstæður og þar sem það var að byrja að þrengjast um tíma virtist það vera að verða ljóst að það væri orðin þörf á aðgerðum af einhverju tagi. Ég spurði mann sem sat á móti mér, og sem greinilega skildi það sem röddin hafði yfir, aftur og aftur, hvort hann talaði ensku, sem hann kvaðst gera. Hann sagði að röddin réðlegði farþegum að fara úr lestinni og taka aðra lest (metró) sem myndi fara með farþega út á Gare du Nord (D). Viðmælandi minn sagði að röddin segði að bilunin fælist í einhverjum vanda við að stilla rauð ljós einhversstaðar og það væri einhverskonar umferðateppa lesta í neðanjarðargöngum. Það lá ekki fyrir hvenær úr þessu greiddist, en það væru meiri líkur á að komast á áfangastað með því að koma sér á lestarstöðina sem merkt er D á kortinu.

Það var svo einhverju síðar (mínútur voru að byrja að skipta máli, en óvissan um hvað bragðs skyldi taka yfirtók huga ferðalanganna og mínútutalningin lét því í minni pokann) að sú afdrifaríka ákvörðun var tekin að yfirgefa lestina með allan farangurinn og freista þess að finna lest sem færi með okkur á Gare du Nord (D). Að þessari ákvörðun tekinni, beindust sjónar ákveðið á lestafararstjóra hópsins, sem hafði pakkað lestakortinu sínu niður með öðrum farangri. Nú var ekki um annað að ræða en lesa skilti á veggjum. Og það var haldið af stað. 

Leiðin lá dýpra niður í jörðina í rúllustigum, svo upp aftur, svo niður aftur. Þar á milli voru gangar. Sexmenningarnir voru duglegir að telja, því ef einhver yrði viðskila vissi enginn hvernig það gæti endað. Fólksmergðin þéttist og allir virtust á sömu leið, niður í jörðina, upp úr henni og niður í hana aftur, enn neðar. Fremstur fór lestarfararstjórinn, sem eðlilega beindi allri sinni athygli að skiltum sem vísað gætu veginn. Hinir fylgdu á eftir og þurftu ekki að einbeita sér að neinu nema að missa ekki sjónar af leiðtoganum. Ekki leið á ofboðslega löngu áður en komið var í gang sem á var beygja og þarna rann mannmergðin eins og neðanjarðarfljót í gegnum enn eitt hliðið. Ég hafði það meginmarkmið að fylgjast með lestastjórnum og gætti þess að missa aldrei sjónar á honum. Ég hafði hinsvegar enga stjórn á því hver hratt ég færi, eða í hvað átt. Ég var hluti af fljóti sem liðaðst einhversstaðar undir stórfljótinu Signu. Á þessum tímapunkti vissi ég ekki hvar aðrir ferðafélagar en leiðtoginn voru staddir, treysti því að þeir fylgdu  okkur fast eftir. Loks komum við að áðurnefndu hliði, en þar var hægt að fara í gegn án þess að stinga miða í rauf, þó svo það væri einnig valkostur. Fyrir innan hliðið var síðan sæmilega stór salur og þar beið leiðtoginn nú eftir að við hin kæmum í gegnum hliðið. Ég kom og tveir aðrir, en þá vantaði tvær systur. Fólksstraumurinn rann í gegnum hliðið, en engar systur, það leið og beið. 
Höfðu þær tekið ranga beygju einhversstaðar?
Höfðu þær orðið viðskila hvor við aðara? 
Höfðu þær fyllst örvæntingu og hreinlega örmagnast í einhverju skoti? 
Höfðu þær kannski fundið lestina sem við leituðum að?
Þessum spurningum og fleirum verður svarað í næstu færslu.

04 nóvember, 2013

RETARD - vel dulin örvænting (1)

Það var mánudagmorgunn í París. Íbúðin okkar ferðafélaganna á Boulevard Montparnasse nr. 167 taldist vera orðin í viðunandi ástandi og allt okkar hafurtask komið í töskurnar. Það var komið að heimferð eftir afskaplega góða, en stutta og erfiða helgarferð. Framundan var að rölta 50 metrana út á lestarstöðina Port-Royal (merkt A), taka þar RER B lestina, sem síðan átti að flytja okkur út á Charles de Gaulle flugvöllinn (merkt E). Við vorum tímanlega í því, mætt á lestarstöðina kl. 8:45 til að við yrðum örugglega komin út á flugvöll þegar innritun skyldi hefjast kl. 10:15. Í þeim sex manna hópi sem þarna var um að ræða, var fólk sem á erfitt með að þola mikla óvissu, eins og margoft sýndi sig í skoðunarferðum helgarinnar, samanber það að algengasta spurningin var: "Hvað er svo planið?", jafnvel þegar það var ekkert plan. Þá var í hópnum aðeins einn sem bar skynbragð á það hvernig svona lestakerfi virka, og hafði ávallt við höndina bók með kortinu sem er hér til vinstri. Honum tókst ávallt, utan einu sinni að sjá til þess að hópurinn fyndi réttu lestina, en í þetta eina skipti var honum vorkunn, þar sem sú ferð var farin eftir langan og erfiðan dag, auk lítilsháttar smökkunar á rauðu Bordaux.  Á þessum morgni hafði hann pakkað kortabókinni niður með öðrum farangri, enda ekki um að ræða nema eina, einfalda lestarferð frá A (Port-Royal) til E (Charles de Gaulle) (bláa línan á kortinu).

Allt klárt, hópurinn kominn með miðana sína, sem voru keyptir í sjálfsalanum á Port-Royal. Þá var bara að renna miðunum í gegnum raufina á hliðinu inn í stöðina og bíða eftir lestinni. fD átti ekki í góðu sambandi við þessi hlið í ferðinni, sem orsakaðist af því, að eitt hliðið, snemma í ferðinni, hleypti henni ekki í gegn, en þá vildi svo illa til að hún var síðust til að beita miðanum og allir ferðafélagarnir komnir heilu og höldnu i gegn. Það má ímynda sér þá skelfingu að vera ein eftir á einhverri lestarstöð djúpt í iðrum Parísar. Auðvitað komst hún í gegn með hjálp góðra manna, en eftir þetta gerði hún ávallt þá skýlausu kröfu að vera meðal þeirra fyrstu úr hópnum til að fara í gegnum svona hlið, en ávallt bar allt fas hennar með sér nístandi kvíðann áður en miðinn fór í raufina og síðan ódulinn léttinn þegar hliðið hleypti henni í gegn.

Jæja, þá ætti allur bakgrunnur þess sem framundan var að vera klár. Hópurinn var klár, miðarnir keyptir, hver með sína tösku, fólkið farið að rifja upp gönguferðina sem beið, frá lestarstöðinni á flugvellinum út í Terminal 3 - það átti ekkert að geta klikka, enda hefði ástandið í hópnum verið talsvert þungbúið, ef einhverjir endar væru óhnýttir.

Miðunum var rennt í raufarnar á hliðunum í Port-Royal, og fD var meðal þeira fyrstu í gegn. Allir kátir. Fljótlega sáum við hvar lestin stóð við pallinn og því tókum við til fótanna til að missa ekki af henni. Opnar lestardyrnar buðu okkur velkomin og þear inn var komi var talið upp að sex. Allt pottþétt.

Ekki ætla ég að hafa orð á þeirri atburðarás sem fór gang í kjölfarið, fyrr en í næsta þætti þessarar frásagnar.

stey tjúnd.

03 nóvember, 2013

Gamall heimur og nýr (2)

Það er nú að verða langt síðan fyrri hluti þessarar umfjöllunar um gönguferð í höfuðborginni var settur hér inn og það liggur við að það sé farið að fenna yfir fínustu smáatriðin í þeirri ferð. En það er nú svo að ef maður segir A þá verður að koma B á eftir og því held ég áfram þar sem frá var horfið.
Við fD vorum komin í Álfheima í gönguferðinni og okkur fannst, að nokkrum hluta til, að þar værum við komin heim. Það má segja að þar höfum við hafið sjálfstætt líf okkar saman í blokkaríbúð í Álfheimum 36, 4. hæð til vinstri í upphafi árs1977. Þá höfðum við búið eitt ár inni á tengdaforeldrum mínum í Kópavogi og hjá vinkonu okkar henni Guðrúnu á Silfurteigi 2.

Það sem merkt er með gulu
eru taldir vera gluggarnir
á umræddri íbúð áð Álfheimum 36.
Íbúðin í Álfheimunum var í eigu þeirra Sigrúnar og Bergsteins, foreldra Ara, mágs míns og þar fengum við að vera í einhvern tíma áður en sú íbúð var seld. Skömmu eftir að við fluttum þarna inn fæddist frumburðurinn. Hann var nú ekki rólegasta barn sem foreldrar gætu eignast og vegna þess hve lítið hann eyddi tímanum í svefn þroskaðist hann hratt, líflegur og skemmtilegur. Það má segja að tíminn í Álfheimum 36 hafi verið ákveðin eldskírn fyrir okkur sem fullorðna, ábyrga, sjálfstæða einstaklinga, eða svo verður maður líta á þá reynslu.
Svo fluttum við úr þessu hverfi, en sökum þess hve við bjuggum á mörgum stöðum í þau 4 ár sem við gistum höfuðborgarsvæðið, virðist fara á milli mála hve lengi var búið á hverjum stað, og jafnvel í hvaða röð staðirnir voru. Það stefnir í að þetta þurfi að rannsaka betur.  Á þessum tíma telst mér til að við höfum búið á 5 stöðum. Ég er sannfærður um að ekki hafi farið svo vegna þess að við værum neitt sérstaklega slæmir leigjendur.

Hvað um það, Álfheimarnir vöktu upp minningar þarna á gönguferðinni sem svo hélt áfram á þessum fagra haustdegi. Næsti áfangastaður var Glæsibær, þar sem reyndist vera hið ágætasta kaffihús og staður til að setjast niður og safna kröftum fyrir næsta legg göngunnar.
Að innbyrtu kaffi og einhverju brauðmeti, lá leiðin í Skeifuna. Þar sem fyrir lá að við þyrftum að eyða talsverðum tíma, hugðumst við líta í verslanir í leiðinni, og ég sá fljótlega eina, sem hefur allskyns raftæki á boðstólnum. fD sá aðra sem vill selja annað, s.s. fatnað og glingur af ýmsu tagi, og auðvitað fórum við þangað - hverjum hefði svo sem dottið annað í hug? Í framhaldi af þessari var síðan farið í aðrar svipaðar og sem seldu ekki raftæki.
Þá var komið að því að feta nýja slóð. Það gekk ótrúlega vel að finna göngubrúna yfir Miklubraut og það var bara nokkuð sérstök tilfinning að ganga yfir hana. Í beinu framhaldi af því lá leið um það hverfi borgarinnar þar sem götunöfnin enda á gerði eða garður og síðan um götur sem enda á leiti. Á þessari leið bar það helst til tíðinda að á sá fyrsta sinni hvar Grensásdeild er til húsa og það fannst mér heilmikil uppgötvun. Leggurinn endaði í Kringlunni. Um þann áningarstað segi ég ekkert, utan það að þar álpaðist ég til að kaupa útsölubækur sem ég þurfti síðan að rogast með það sem eftir lifði gönguferðarinnar. Í stað þess að setjast að snæðingi í glamrinu í Kringlunni var stefnan sett á veitingastað sem selur kjúklinga á Grensásvegi. Til að komast þangað þurftum við að ganga aftur yfir Miklubraut á göngubrú og þar með endurupplifðum við slíkt ævintýri.
Ekkert sérstakt bar til tíðinda á þessari leið, utan tvennt: við sáum heim í Álftamýri 42 þar sem við áttum viðdvöl á höfuðborgarárunum og við létum verða af því að líta hinn sérstaka heim sem Góði hirðirinn í Fellsmúla er. Ég gæti auðveldlega týnt mér í þeirri veröld sem þar blasti við, en nú var að styttast í að Qashqai væri tilbúinn, svo áfram var haldið, með tóman maga eftir mikla brennslu.
Eftir seðjandi kjúklingamáltíð á þannig veitingastað, röltum við síðasta spölinn upp Ármúlann, þar sem rauða drottningin beið, svo skínandi fín að það lá við að sólgleraugu væru við hæfi.

Segir nú ekki meira af 10 km göngu um höfuðborgarsvæðið.
Þakkir séu já.is og Google streetview fyrir myndir - svo ekki sé nú minnst á sjálfan mig.

15 október, 2013

Gamall heimur og nýr (1)

Add caption
"Jú, ætli ég láti mig ekki hafa það", sagði fD þegar ég spurði hana hvort hún ætlaði að koma með mér í bæinn, eldsnemma á mánudagsmorgni. Tilefni ferðarinnar var ómótstæðilegt tilboð (ég á erfitt meða að standast ekki ómótstæðilegt tilboð) í að framkvæma ákveðna aðgerð á Qashqai, sem átti að taka 8 klukkustundir (ég mun ekki greina frá því í hverju þessi aðgerð fólst fyrr en fyrir liggur að hún hafi heppnast og sé til þess fallin að vera til eftirbreytni). Ég tók tilboðinu áður en ég komst að því hvað það hefði í för með sér. Til að gera langan aðdraganda stuttan þá héldum við til höfuðborgarinnar eldsnemma á mánudagsmorgni og segir ekki af ferðum okkar fyrr en Qashqai var afhentur á aðgerðarstað. Ég reyndi að fá upplýsingar um, í hverju aðgerðin fælist, nákvæmlega, og hvað hún hefði í för með sér. Svörin voru þess eðlis að ég var ekki miklu nær, þar sem viðkomandi starfsmaður freistaði þess að leiða mig inn í heim sem ég ber lítið skynbragð á. Nóg skildi ég samt til að ég ákvað að hætta ekki við allt saman og við svo búið stóðum við fD á götunni, bíllaus í heilan dag.
Veðrið lofaði góðu, logn og heiðskírt, hiti rétt yfir frostmarki. Það má segja að leiðin hafi legið niður á við til að byrja með, eftir að tókst að ná ásættanlegri niðurstöðu um hvert halda skyldi. Létt á fæti gengum við niður Vegmúla og þegar við komum að Suðurlandsbraut stóð valið á milli þess að fara til vinstri, hægri, nú eða beint yfir. Til að halda fleiri möguleikum opnum var haldið til hægri í átt að Glæsibæ.
"Er Hagkaup ekki opið allan sólarhringninn?" velti fD fyrir sér þegar Glæsibær nálgaðist. Ég, sem fyrr opinn fyrir öllum möguleikum, kvaðst telja svo vera.
"Væri gott að komast inn þangað til hlýnar aðeins."
Á mótum Suðurlandsbrautar og Grensásvegar varð að velja milli heilsuræktarinnar sem fælist í því að ganga um Laugardalinn, og Hagkaupshlýjunnar. Það fyrra varð ofan á, eftir lítilsháttar japl.  Yfir Suðurlandsbrautina á gangbraut með ljósum og svo beygt til vinstri í sömu átt og við höfðum komið úr. Þarna hefði mátt spara 1.6 km göngu með því að fara beint yfir þegar komið var úr Vegmúlanum. Þetta átti að vera heisluræktardagur og því ekki nefnt. Það eru nú meiri flottheitin hjá þessum Reykvíkingum. Þarna gengum við eftir 3ja metra breiðum, malbikuðum gangstíg og við hliðina á honum var síðan jafnbreiður, tveggja akreina, malbikaður hljólreiðastígur. Þetta jaðrar við sóun, ef tekið er mið af gangskábrautinni í Laugarási.
Þegar við vorum komin út undir Laugardalshöll: "Ég nenni nú ekki af fara út fyrir hana" og í ljósi þessarar yfirlýsingar var haldið til hægri, niður í dalinn, nú eftir ómalbikuðum, óakreinaskiptum stíg. Þarna fóru að koma í hugann sögur af líkamsárásum í Laugardalnum. Þarna gat leynst allskyns óþjóðalýður í þéttum trjágróðrinum. Ekki laust við að hert væri á göngunni (jákvætt þar sem þarna var um að ræða heilsurækt). Þarna lá bein leið niður á einhverskonar torg þar sem var inngangurinn í margumræddan grasagarð í Laugardal og þarna var líka Café Flóra (ekki opnað fyrr en 11 (hefði nú verið gott að setjast inn og fá sér kaffisopa til að ná hita í kroppinn). Ég kom, held ég einusinn í grasagarðinn fyrir áratugum síðan. Þar vorum við nú tvö ein, ef frá eru taldar undrandi endur á pollum, sem reyndu að leyna undrun sinni með því að snyrta neðanverða vængi eða stinga höfðum undir vatnsyfirborðið. Þarna inni var bekkur þar sem manni var boðið að setjast og hlusta á skáld. Þarna sá ég engin skáld, ekki einusinni hátalara eða takka til á ýta á. Þar gat hinsvegar að líta nokkurskonar strikamerki (QR-merki (quick response code)). Með því að nota veiðeigandi APP í android símanum mínum hefði ég getað nálgast ljóðaflutninginn, en það gerði ég ekki. (Ég vænti þess að hér staldri lesandinn við og dáist að nútímamennsku minni).
Við gengum áfram inn í grasagarðinn þar sem hver einasta planta er kyrfilega merkt, en þar sem haustið var búið að setja mark sitt á gróðurinn lét ég vera að kynna mér nöfn á gulnuðum laufblöðum eða beygðum spírum.
Þegar við vorum kominn innst í garðinn rak ég augun í gufu sem steig til lofts í nokkurri fjarlægð. Nánari skoðun leiddi í ljós að þarna voru þvottalaugarnar margfrægu, sem ég hafði aldrei séð áður berum augum. Auðvitað gengum við þangað, enn var nægur tíminn (vel rúmir 7 klukkutímar). Jú, jú þetta var svo sem allt í lagi. Öryggið var svo mikið að mús hefði ekki getað framið sjálfsmorð í lauginni. Það grillti í laugarvatnið í gegnum þéttriðið net sem yfir lá.
Eftir heimsóknina í Þvottalaugarnar lá leiðin aftur til baka, nú aðra leið, nær Laugarásnum. Stígurinn sem var valinn liggur meðfram Sunnuvegi.
Eftir því sem nær dró Heimunum hækkaði í hljóðum frá Reykjavíkuræskunni sem sækir sér menntun í Langholtsskóla. Það fór ekki á milli mála að það voru frímínútur og skrækirnir sem vorku framkallaðir með brostum eða brastandi barnaröddum fylltu loftið og höfðu ekkert sérlega róandi áhrif. Við Langholtsskóla sveiði stígurinn til hægri og þar blöstu þær við í mikilfengleik sínum, Álfheimablokkirnar.
Hvað með þær? - Bíður þar til næst.

11 október, 2013

Skynsemi lítillætisins


"The only true wisdom is in knowing you know nothing"
Hin sanna viska felst í því að vita að maður veit ekki neitt. Sókrates (499-370 f.Kr.)
"Le coeur a ses raisons que la raison ne connait pas"
Hjartað á sér rök sem rökhugsun okkar þekkir ekki. Pascal (1623-1662)


Það er mörg spekin sem við leitum í til að sannfæra sjálf okkur og aðra um að þær ákvarðanir sem við tökum byggist á skynsemi. Að sjálfsögðu er ekkert við því að segja, en við getum varla ætlast til þess að aðrir deili skilyrðislaust þeim skynsamlegu ákvörðunum sem við tökum, eða þeim skynsamlegu skoðunum sem við höfum.
Fyrirbærið skynsemi er afstætt hugtak sem byggir á þeirri reynslu og upplýsingum sem einstaklingurinn býr yfir. Ákvörðun eins, sem hann telur vera skynsamlega, virðist öðrum vera harla óskynsamleg.

Smella til að lesa
Tilefni þessa pistils er umræða sem kemur upp aftur og aftur um mikilvægi þess að bólusetja ungabörn. Þar skiptist fólk í hópa sem báðir telja sig vera skynsama. Skynsemi þeirra byggir á þeim upplýsingum sem þeir hafa, lífsskoðunum, trú, eða einhverjum rökum sem þeir búa sér til með einhverjum hætti - hvað veit ég?
Skynsemin segir mörgum að við eigum að taka mark á þeim læknisfræðilegu rökum sem þar til bærir sérfræðingar bera á borð fyrir okkur, eða sögulegum staðreyndum um mikilvægi eða gagnsemi þessara bólusetninga.
Skynsemin segir öðrum að við eigum að taka mark á þeim læknisfræðilegu rökum sem þar til bærir sérfræðingar bera á borð fyrir okkur, eða sögulegum staðreyndum um þann skaða sem þessar bólusetningar geta haft í för með sér.
Hver á svo að meta hvor hópurinn er skynsamur?
Auðvitað get ég gert það og fer létt með það. Ég býst hinsvegar við því að margir telji það mat mitt ekki skynsamlegt.
Ef ég ákvarða sem svo, að annar hópurinn byggi skoðun sína á hindurvitnum, eða þá að hinn á oftrú á vestræn læknavísindi, sem séu í besta falli ekki í takti við náttúruna, hvað er ég þá nema hrokafullur gagnvart öðrum hópnum? Er ég í stöðu til að leggja mat á hvað er skynsamlegt í þessum efnum? Jú, vissulega, ef ég hef að baki mér allar staðreyndar upplýsingar sem geta varpað ljósi á málið. En auðvitað hef ég þær ekki. 

Orðabókarútskýringar:
Skynsamur: Greindur, vel gefinn
Skynsemi: Gáfur, vit, hyggja greind, þekking.
Skynsemisstefna: Sú skoðun að leggja beri sérstaka áherslu á skynsemi í stað tilfinninga og hvata.
Samkvæmt þessu skortir þann greind sem er óskynsamur og hann er einnig illa gefinn. Með því að telja ákvarðanir annarra eða skoðanir óskynsamlegar, erum við að leggja dóm á greind hans eða gáfur. 

Sannarlega bera tilfinningar og hvatir okkar skynsemina oft ofurliði, en þýðir það þá að okkur skorti greind eða að við séum illa gefin? 

Hér eru nokkrar spurningar sem má telja að snúist um skynsemi:
Er skynsamlegt að:
- kjósa Framsóknarflokkinn?
- selja Kínverjum land?
- ganga í ESB?
- lesa svona blogg?
- trúa á líf eftir dauðann?
- kaupa Skoda?
- eignast barn?
- prófa fíkniefni?
- kaupa 50" flatskjá?

Svona má lengi spyrja. Við öllum þessum spurningum eru jákvæð og neikvæð svör, sem viðkomandi telja að byggist á skynsemi, en þegar grannt er skoðað byggjast þau ef til vill frekar á tilfinningum eða hvötum. 
Þá má spyrja: Eru tilfinningar okkar og hvatir merki við greindarskort?

Niðurstaðan er:
Hættum að ofnota orðið SKYNSEMI, sýnum frekar skynsemi.



Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...