Þegar frásögninni lauk síðast, var staðan sú að ferðafélagarnir sex voru komnir um borð í RER B lest á lestarstöðinni Port-Royal (merkt A á meðfylgjandi korti) sem átti að flytja þá á Charles de Gaulle flugvöllinn, en þaðan skyldi haldið með flugi langt norður á bóginn til landsins kalda og bláa kl 12:15 að staðartíma. Þetta þýddi að innritun átti að hefjast kl. 10:15. Þegar hér var komið var kl. rúmlega 9:00, þannig að það var góður tími til stefnu, lestarferðin átti ekki að taka nema 25-30 mínútur og gönguferðin frá lestinni út í Terminal 3 kannski 15 mínútur í viðbót. Allt var þetta nákvæmlega skipulagt, enda hópurinn þannig samsettur að óvissa var ekki valkostur.
Nú mátti lestin fara af stað; bruna með okkur síðasta spölinn. Hún gerði það samt ekki og við reiknuðum með því, bæði með orðum, svipbrigðum og látbragði, að þarna væru um að ræða tímajöfnun. Vissulega heyrðist glymjandi rödd í hátalara, sem ég, þó ég hafi nú vald á grunnatriðum í frönsku, skildi auðvitað hreint ekki. Það var eitthvert óvenjulegt yfirbragð yfir farþegunum í sneisafullum lestarvagninum og þar kom eftir talsverðan tíma, að lestarfararstjóri okkar innti hóp nokkuð órólegra Svía eftir því hvað væri um að vera og fékk þær upplýsingar að um væri að ræða seinkun vegna bilunar einhversstaðar og að það lægi ekki fyrir hvar sú bilun væri, hvers eðlis eða hvenær viðgerð yrði lokið. Það gætti orðið stutt í það, nú eða langt.
Áfram leið tíminn án þess lestin héldi af stað og svo fór að Svíarnir tóku þá ákvörðun að yfirgefa hana með farangur sinn. Nokkrir fleiri gerðu það sama, en það bættust jafnmargir við, svo það virtist nú engin ástæða til að örvænta. Nokkrum mínútum eftir að Svíarnir hurfu á braut, heyrðist flautuhljóð og skömmu síðar lokuðust dyrnar á lestarvagninum og beint í kjölfarið á því lagði lestin af stað frá Port-Royal (A). Ekki neita ég því að léttirinn var talsverður, og ég neita því ekki heldur að mér varð hugsað til Svíabjánanna sem höfðu ekki þolinmæði til að bíða með okkur hinum. Ég taldi víst að nú væru þeir að rembast við að ná sér í leigubíl einhversstaðar meðan við brunuðum fyrirhafnarlaust á áfangastað (E) .
Ekki get ég nú kinnroðalaust fullyrt að ég hafi verið þess fullviss að allt væri komið í lag þegar þarna var komið, ekki síst vegna þess að lestin virtist fara óvenju hægt yfir. Maður hefði nú haldið að nú lægi á að koma farþegunum fljótt og örugglega á áfangastað, en svo virtist ekki vera.
Innan nokkurra mínútna hægði lestin á sér og stöðvaðist loks á Luxembourg stöðinni (B), en sú er í rúmlega eins kilómetra fjarlægð frá Port-Royal. Dyrnar opnuðust, fólk fór út og fólk kom inn, en svo gerðist ekkert utan það, að röddin hélt áfram að glymja í hátölurunum og fólkið hélt áfram að horfa hvert á annað og spyrja hvert annað, ef það skildi hvert annað, á annað borð.
Við þær aðstæður sem þarna voru komnar upp var farin að renna, í það minnsta ein gríma á sexmenningana, en enginn var tilbúinn að kveða upp úr með hvað rétt væri að taka til bragðs, enda tímaþröngin ekki orðinn tilfinnanleg ennþá. Röddin talaði og á ljósaskilti fyrir utan lestina sá ég nú að stóð RER B (nafnið á lestinni) RETARD, en það kom og fór. (retard á frönsku merkir ekki að einhver sé seinþroska, heldur að um sé að ræða töf, sem á ensku myndi vera delay). Fólkinu í lestinni fækkaði heldur meira en því fjölgaði og nú voru þeir sem rólegastir voru í okkar hópi búnir að ná sér í sæti, en hinir stóðu og störðu með óræðu augnaráði á umhverfið. Það var þó ekki erfitt að ímynda sér hvaða hugsanir það voru sem helst sóttu á huga þeirra.
Eftir 15 mínútna kyrrstöðu á B kom flautið loks og í kjölfarið lokuðust dyrnar og lestin fór á hreyfingu. Næsta stöð var St. Michel Notre Dame (C), en hún er nánast undir Signu, rétt hjá Vorrar frúar kirkjunni og þangað þokaðist lestin nú. Þessar lestar eru ógnar langar, líklega í það minnsta 70-100 metrar, og oftast sneisafullar af fólki.
Svo sem við var að búast nam lestin okkar staðar á C, en þar er eitthvert fjölsóttasta ferðamannasvæði Parísar. Þar rétt hjá er áðurnefnd kirkja kroppinbaksins Quasimodo, Louvre safnið og Pompidou safnið og listamiðstöðin, svo eitthvað sé nefnt. Dyrnar opnuðust, röddin glumdi og á skilti á vegg fyrir utan tilkynnti um RETARD. Nú fóru talsvert miklu fleiri farþegar út en komu inn. Við þessar aðstæður og þar sem það var að byrja að þrengjast um tíma virtist það vera að verða ljóst að það væri orðin þörf á aðgerðum af einhverju tagi. Ég spurði mann sem sat á móti mér, og sem greinilega skildi það sem röddin hafði yfir, aftur og aftur, hvort hann talaði ensku, sem hann kvaðst gera. Hann sagði að röddin réðlegði farþegum að fara úr lestinni og taka aðra lest (metró) sem myndi fara með farþega út á Gare du Nord (D). Viðmælandi minn sagði að röddin segði að bilunin fælist í einhverjum vanda við að stilla rauð ljós einhversstaðar og það væri einhverskonar umferðateppa lesta í neðanjarðargöngum. Það lá ekki fyrir hvenær úr þessu greiddist, en það væru meiri líkur á að komast á áfangastað með því að koma sér á lestarstöðina sem merkt er D á kortinu.
Það var svo einhverju síðar (mínútur voru að byrja að skipta máli, en óvissan um hvað bragðs skyldi taka yfirtók huga ferðalanganna og mínútutalningin lét því í minni pokann) að sú afdrifaríka ákvörðun var tekin að yfirgefa lestina með allan farangurinn og freista þess að finna lest sem færi með okkur á Gare du Nord (D). Að þessari ákvörðun tekinni, beindust sjónar ákveðið á lestafararstjóra hópsins, sem hafði pakkað lestakortinu sínu niður með öðrum farangri. Nú var ekki um annað að ræða en lesa skilti á veggjum. Og það var haldið af stað.
Leiðin lá dýpra niður í jörðina í rúllustigum, svo upp aftur, svo niður aftur. Þar á milli voru gangar. Sexmenningarnir voru duglegir að telja, því ef einhver yrði viðskila vissi enginn hvernig það gæti endað. Fólksmergðin þéttist og allir virtust á sömu leið, niður í jörðina, upp úr henni og niður í hana aftur, enn neðar. Fremstur fór lestarfararstjórinn, sem eðlilega beindi allri sinni athygli að skiltum sem vísað gætu veginn. Hinir fylgdu á eftir og þurftu ekki að einbeita sér að neinu nema að missa ekki sjónar af leiðtoganum. Ekki leið á ofboðslega löngu áður en komið var í gang sem á var beygja og þarna rann mannmergðin eins og neðanjarðarfljót í gegnum enn eitt hliðið. Ég hafði það meginmarkmið að fylgjast með lestastjórnum og gætti þess að missa aldrei sjónar á honum. Ég hafði hinsvegar enga stjórn á því hver hratt ég færi, eða í hvað átt. Ég var hluti af fljóti sem liðaðst einhversstaðar undir stórfljótinu Signu. Á þessum tímapunkti vissi ég ekki hvar aðrir ferðafélagar en leiðtoginn voru staddir, treysti því að þeir fylgdu okkur fast eftir. Loks komum við að áðurnefndu hliði, en þar var hægt að fara í gegn án þess að stinga miða í rauf, þó svo það væri einnig valkostur. Fyrir innan hliðið var síðan sæmilega stór salur og þar beið leiðtoginn nú eftir að við hin kæmum í gegnum hliðið. Ég kom og tveir aðrir, en þá vantaði tvær systur. Fólksstraumurinn rann í gegnum hliðið, en engar systur, það leið og beið.
Höfðu þær tekið ranga beygju einhversstaðar?
Höfðu þær orðið viðskila hvor við aðara?
Höfðu þær fyllst örvæntingu og hreinlega örmagnast í einhverju skoti?
Höfðu þær kannski fundið lestina sem við leituðum að?
Þessum spurningum og fleirum verður svarað í næstu færslu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli