10 nóvember, 2013

RETARD - vel dulin örvænting (3)

Hér birtist nú þriðji hluti þeirrar frásagnar sem hafin var hér og síðan haldið áfram hér.
Ég stóð í sal, eða öllu heldur á einhverskonar gangamótum, líklega á þriðju hæð neðanjarðar, undir ánni Signu í París. Það stóð yfir leit að lest sem myndi flytja okkur sexmenningana frá lestarstöðinni sem merkt er C á meðfylgjandi korti á lestarstöðina D (Gare du Nord). Ferðinni var heitið á Charles de Gaulle flugvöllinn.

Þegar þarna var komið sögu hafði það gerst sem ótti okkar ferðafélaganna hafði beinst að í öllum lestarferðum helgarinnar: tveir ferðafélaganna, systur á sextugsaldri, höfðu orðið viðskila við hópinn í mannþrönginni sem liðaðist um þessar neðanjarðarhvelfingar. Önnur var fD og ég sá fyrir mér líðan hennar þegar hún uppgötvaði að enginn þekktur, grásprengdur kollur var í nánd. Ég ímyndaði mér ástand hennar með svipuðum hætti og það var þegar seinni jarðskjálftinn reið yfir Suðurland árið 2000, en ég mun ekki greina frá hvernig það var þá, hér, þessu sinni. Þarna áttu systurnar tvær væntanlega ekki annan kost en fylgja straumnum áfram, án þess að hafa nokkra stjórn á nokkrum hlut (sem var nánast ómöguleg aðstaða). Þarna gátu þær hafa ímyndað sér að manngrúinn myndi beygja inn í mismunandi rangala og velt fyrir sér hvað þá væri til bragðs að taka. Við hin stóðum  á gangamótum og skyggndumst áhyggjufull yfir mannhafið sem streymdi út úr göngunum í gegnum hlið með miðana sína og framhjá hliðunum án þess að þurfa að nota miðana. Það leið og beið. Klukkan tifaði. Hvað myndum við geta tekið til bragðs ef þær kæmu ekki þarna í gegn? Hvorug var með nothæfan síma, hvorug var sérstaklega tilbúin til að tjá sig mikið á frönsku, hvorug myndi auðveldlega fara að gefa það upp  við nokkurn mann að þær væru villtar. Straumurinn hélt áfram gegnum hliðið; fólk af öllum kynþáttum stærðum og gerðum, ....... en ekki systurnar.

Auðvitað komu þær í gegn að lokum - ég var bara að æfa mig í spennusagnagerð.

Með því þær sáu ástkæra eiginmenn sína standa þarna og bíða eftir þeim, örugga höfn, hefði maður, í ljósi þeirra hremminga sem þær höfðu lent í, ímyndað sér að fögnuðurinn hefði verið mikill; hefði brotist fram í brosi sem myndi ná til alls andlitsins, hefði kannski birst í því að þær hefðu þakkað almættinu fyrir að vera hólpnar og jafnvel hjúfrað sig upp að öruggri höfn sinni, í þakklæti fyrir giftusamlegan endi þessa glæfralega ferðalags um undirdjúpin.  Það sem maður hefði getað ímyndað sér, gerðist ekki, og ég verð líklega að fara varlega í að lýsa því í smáatriðum sem gerðist við endurfundina, en það snérist í stórum dráttum um það, að staðan sem þarna hafði komið upp skrifaðist á reikning þeirra sem tókst að halda hópinn, og þá sérstaklega lestaferðastjórann. Það væri með góðum vilja hægt að skilja þessi viðbrögð ef maður léti það eftir sér að ímynda sér upplifum þeirra systra af þeirri reynslu sem þær urðu fyrir. Það urðu engin handalögmál, enda ekki þörf á; orðin og látbragðið dugðu til að leysa út örvæntinguna. Ég ráðlegg næsta hóp sem fer í svona gönguferð neðanjarðar, að útbúa leiðtogann með priki með íslenska fánanum.

Það þurfti að halda áfram. Tíminn leið og lestin varð að finnast. Göngunni var haldið áfram, skilti skoðuð, gangar gengnir, rúllustigar staðnir upp og niður. Að endingu kom hópurinn á líklegan brautarpall þar sem óvenju fáir voru fyrir. Það var auðséð á stjóranum að hann var ekki alveg viss um að þetta væri rétti staðurinn. Fljótlega renndi tveggja hæða neðanjarðarlest að stöðinni, stöðvaðist og dyrnar opnuðust. Til þess að tryggja að sagan um aðskilnaðinn við hópinn endurtæki sig ekki, dreif fD sig upp í lestina um leið og hún spurði; "Eigum við ekki að fara upp í þessa?" Þá kom flautið sem gefur til kynna að dyrnar séu að fara að lokast, fD fyrir innan og hópurinn að öðru leyti fyrir utan. Í þann sama mund gaf stjórinn það til kynna með ákveðnum hætti að ekki væri þetta rétta lestin og fD slapp naumlega út áður en dyrnar lokuðust og tveggja hæða ferlíkið hvarf inn í göngin framundan; eitthvert út í niðdimma óvissuna.  Það getur hver maður ímyndað sér hvað hefði gerst ef lestin hefði farið af stað með fD, eina ferðafélaganna, innanborðs. Ég held að jarðskjálftinn árið 2000 hefði bliknað í þeim samanburði.
Þá lá það fyrir að enn þurfti að leita að lest sem myndi að öllum líkindum flytja okkur til D (Gare du Nord). Enn hófst gangan og var með sama hætti og áður, nema nú var hópurinn þéttur, nánast hékk þar hver í öðrum. Þar kom, að lestin fannst og tíminn leið. Þessi reyndist full af fólki og það var talið upp að sex.
Skömmu síðar var rennt inn í Gare du Nord, en eins og hver maður getur séð á kortinu þá mætast þar margar lestar og þá eins og auðvelt er að ímynda sér, á mörgum hæðum neðanjarðar. Það sem þarna lá fyrir var að finna aftur RER B - sem er eina lestin sem gengur út á áður nefndan flugvöll. Það var í sjálfu sér ekki flókið og fólksstraumurinn lá allur í þá átt. Það er auðveldlega hægt að ímynda sér að þegar lestar sem á örfárra mínútna fresti, eiga að flytja mikinn mannfjölda milli tveggja staða, stöðvast í langan tíma. Fólkið sem ætlaði með þeim gufar ekki bara upp. Það fær leiðbeiningar í hátalarakerfum og afskaplega stór hluti fylgir þessum leiðbeiningum og með þeim augljósu afleiðingum að úr verður mikið mannhaf. Það var þannig þarna einnig.  Þegar sexmenningarnir, við, renndum niður stútfullan rúllustigann sem bar okkur að brautarpallinum þar sem ætlunin var að taka RER B út á flugvöll, blasti við slíkt mannhaf að það virtist ljóst að 10 RER B lestar myndu varla duga til að grynnka á fjöldanum og tíminn leið, og á skiltum stóð RER B RETARD.   Ef við ætluðum að ná í flugið sem færi kl 12:15 var þarna kominn tími stórra ákvarðana.

Niðurlag frásagnarinnar mun greina frá æsilegum lokaþætti ferðarinnar út á CDG - flugvöllinn. (Fyrir þá sem ekki vita (fA) er CDG skammstöfun á Charles de Gaulle.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...